07.04.1954
Sameinað þing: 45. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í D-deild Alþingistíðinda. (2923)

100. mál, milliþinganefnd í heilbrigðismálum

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að það væri æskilegt, að umsögn landlæknis lægi hér fyrir prentuð á þskj., til þess að hv. alþm. sæju, hvað hann hefur lagt til málanna í sambandi við þessa till., og það gæti vitanlega orðið fyrir næsta fund. Ég er í miklum vafa um það, þótt skipuð væri mþn. í heilbrigðismálum til þess að gera till. til úrbóta um það, sem aflaga fer, að það geti orðið að miklu gagni. Ég get tekið undir það með flm. þessarar till., að það hafa verið stigin mörg víxlspor hér áður í sambandi við heilbrigðismálin, staðsetningu sjúkrahúsa og annarra stofnana. Það hafa áreiðanlega verið stigin þar mörg víxlspor. En það vill nú þannig til, að staðsetning sjúkrahúsanna hefur nú þegar verið ákveðin, og liggur ekki fyrir að byggja nýtt sjúkrahús alveg að nýju, mér vitanlega, nema á Suðurlandsundirlendinu. Og það verður vitanlega gert, hvort sem skipuð verður mþn. í heilbrigðismálum eða ekki, svo augljóst sem það hlýtur að vera, að í þeirri byggð skuli vera a. m. k. eitt sjúkrahús. Sýslurnar fyrir austan hafa komið sér saman um að byggja eitt myndarlegt sjúkrahús fyrir þetta svæði. Á öðrum stöðum á landinu er aðeins um endurbyggingu að ræða. Ég býst við því, að þar sem sjúkrahús hefur áður verið, þá verði miklum annmörkum bundið að rífa það niður og byggja ekkert annað í staðinn. Ég býst við, að það verði ekki vel liðið. Hins vegar hlýtur þróunin að verða sú í sjúkrahúsmálunum, að sjúkrahúsin víða um land verði, eins og þau hafa verið, frekar lítil, en hér í Reykjavík og á Akureyri verði sjúkrahús með hinum fullkomnustu tækjum og sérfræðingum eftir því, sem völ er á. Og eftir því, sem samgöngurnar hafa batnað, því minni nauðsyn er á því að hafa stór og fullkomin sjúkrahús í hverjum landsfjórðungi eða í hverjum kaupstað eða kauptúni. Sem sagt, ég geri lítið úr því, þótt kosin verði nefnd, að þá komi hún að miklu gagni.

En ég vil hins vegar segja það, að ef hv. Alþ. telur ástæðu til þess að kjósa mþn. í heilbrigðismálum, þá vildi ég heldur leggja til, að nefndin yrði skipuð aðeins þremur mönnum, og er ég sannfærður um, að hún starfar ekki verr en fimm manna nefnd, og leyfi ég mér að flytja brtt. um það. Ég vil einnig leyfa mér að leggja til, að við till. bætist, að nefndin ljúki störfum fyrir 1. okt. 1954. Hef ég þá sérstaklega í huga það, að ég hef ákveðið, að frv. það til læknaskipunarlaga, sem nú liggur fyrir Ed., verði endurskoðað og athugað gaumgæfilega fyrir haustið og það verði þá lagt fyrir Alþingi til lögfestingar, og væri þá eðlilegt, ef mþn. í heilbrigðismálum væri starfandi, að hún hefði samstarf og samráð við þann mann, sem tekur að sér að endurskoða þetta frv. ásamt landlækni. Þess vegna væri heppilegt, ef til þess kemur, að nefnd yrði kosin í þessu skyni, að hún hefði lokið störfum fyrir 1. okt. Ég hef vægast sagt takmarkaða trú á því, að mikið kæmi að gagni frá þeirri nefnd, en sé það hins vegar meining Alþ., að það sé til bóta, þá er betra, að nefndin sé skipuð þremur mönnum heldur en fimm, og hún vinnur betur, ef hún hefur tiltölulega stuttan starfstíma og verður þá að leggja sig fram við störfin og láta þau ekki dragast úr hömlu.