07.04.1954
Sameinað þing: 45. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í D-deild Alþingistíðinda. (2925)

100. mál, milliþinganefnd í heilbrigðismálum

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég sé nú satt að segja enga ástæðu til þess að svara skætingi út af flutningi þessarar till., eins og hún væri eitthvert undravert plagg, svo sem hv. 5. þm. Reykv. hefur haldið fram, og því er jafnframt af honum lýst yfir, að það hljóti að búa eitthvað undir þessu, einhver voðalega annarleg sjónarmið, m. a. bent á það, að þetta sé vantraust á fyrrv. heilbrmrh., sem hafi tilheyrt Framsfl., og með því valdi, sem hann hafði í höndum, hefði verið hægt að gera þetta á undanförnum árum.

Það ætti nú a. m. k. að vera fyrir hv. 5. þm. Reykv. trygging fyrir því, að ég er ekki með þessari till. að beina skeytum að neinum flokki eða neinum manni, að hann telur sig einmitt geta haldið því fram, að ef skeytinu væri beint gegn einhverjum, þá væri það, að ég væri að beina því gegn sjálfum mér. Tilgangur till. er sá, hvað sem allri fortíð í þessum málum líður, að athuga, hvort ekki sé ýmislegt í þessum málum, sem þarf að taka til endurbóta og leiðréttinga.

Ég skal játa það, að mín þekking á þessum málum er ákaflega lítil, og það kemur sjálfsagt fram í þessum umr. eða því, sem ég segi hér, en ég get satt að segja ekki séð, að við þurfum í þessu máli að vera sérstaklega hræddir við það hér á Alþ. að skipa nefnd í mál, sem nú er talið — einmitt seinustu árin — eitt allra stærsta mál meðal allra þjóða. Við erum alltaf að skipa nefndir, en þó hálfhræddir við að skipa nefndir. En er það nú til of mikils mælzt, þegar það kemur nú fram, eins og ég mun benda á í þessum umræðum, að það sé búið að gera mistök, það sé búið að ákveða ýmsa hluti, sem kannske hefði ekki átt að ákveða, þó að við stöldrum við núna frá vordögunum til 1. okt., eins og hæstv. heilbrmrh. hefur gert brtt. um, að skipuð verði n. þriggja manna og að hún starfi í sumar til 1. okt., — er það nú til of mikils mælzt, að þingið vilji tilnefna þrjá menn til þess að láta gefa sér skýrslu 1. okt. um það, hvernig þessi mál standi á Íslandi? Og ég spyr hv. alþm., með allri virðingu fyrir sérfræðingum, sem ég hef áreiðanlega engu minni en nokkur af þeim, sem hér eru í þessum sal, hvort það komi oft fyrir, að sérfræðingarnir, í þessu tilfelli læknar, haldi því fram, að rannsaka þurfi ástandið í þeirra eigin sérgrein. Ég hygg, að það séu fá dæmi til þess, að sérfræðingar hafi svarað þannig. En ég hygg, að hitt sé jafnvíst, og það er mjög útbreidd skoðun meðal stjórnenda í fjöldamörgum löndum veraldar, að með sérfræðingum þurfi menn, sem ekki eru sérfræðingar, til þess að líta yfir málin. Sú skoðun er að verða það útbreidd, að hún er að verða næsta almenn. Ég sé, að doktorinn þarna úti í horninu brosir að því, — því er ekki sveigt að læknum sérstaklega, það er talað til allra sérfræðinga.

Það var í þessu sambandi minnzt á það, að ég hafi slegið fram staðhæfingum um það, að hér hafi verið byggt með öðrum hætti heldur en vera ætti, og um það hafi ég látið falla stór orð í grg. Orðin eru nú ekki stór, en þau eru sönn, og ég hygg, að við þurfum nú ekki að fara lengra heldur en að líta á staðreyndir, hverjum sem það er að kenna, þar eiga allir líkt eða óskipt mál. Ef við tökum t. d. húsmæðraskólana, þarf ekki að orðlengja um þá; við vitum allir, í hvaða vandræði þar er komið. Það má líka nefna héraðsskólana. Það eru byggðir héraðsskólar, en síðan eru stofnaðir smáskólar víðs vegar um landið í minnstu þorpum, t. d. hér uppi á Álafossi með 6 nemendum í öðrum bekknum og 5 í hinum, og annað svipað því, og skipulagsleysið er komið út í það, að nemendurnir eru komnir úr héraðsskólunum í þessa smáskóla, og héraðsskólarnir standa sumir algerlega eða næstum algerlega tómir. Þannig eru gerðar ráðstafanir með fræðslulöggjöfinni, sem koma þvert ofan í það, sem búið er að gera áður. Það eru engir smápeningar, sem eru komnir í þetta tvennt, og ég hygg, að ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um það til þess, að því sé fundinn staður, sem sagt er í grg., þó að ekki sé nefnt fleira.

Það, sem ég álít að í fyrsta lagi þurfi að athuga, er það, hvort við eigum að halda áfram að byggja upp sjúkrahús aðallega í samræmi við það, hvort einhvers staðar kemur upp á landinu duglegur skurðlæknir nú eða þá. Það er vitað mál t. d., að sjúkrahúsið á Ísafirði stóð með geysilega miklum blóma í sambandi við ágætan skurðlækni, núverandi landlækni. Það er jafnvitað mál, að núna eru a. m. k. — svo að ekki sé meira sagt — fullkomin vandræði og fullkomlega ósýnt, hvort Ísfirðingar fái mann að sjúkrahúsinu, sem þeir geta fellt sig við. Að minnsta kosti hef ég það eftir einum þekktasta lækni hér í bænum, að bæjarstjórinn hefur verið að leita á náðir læknastéttarinnar hér til þess að reyna að leita að manni til þess að taka sjúkrahúsið, en ekki fengið enn. Það getur vel verið — ég ætla ekkert að fullyrða um það — að sjúkrahúsið á Blönduósi sé sett niður á réttum stað; það er órannsakað mál. En reynslan er þessi annars staðar, og það er að sækja í sama horfið hér, að „centrum“ eða kjarni hvers sjúkrahúss er að verða svo margbrotinn, með svo margháttuðum tækjum, með svo margháttuðum sérfræðingum, að hann er aðalkostnaðurinn í sjúkrahúsinu, hitt eru almennar byggingar. Og reynslan er að verða sú eins og kemur núna fram á Ísafirði, að þeir læknar, sem eru búnir að fá fullkomna menntun, fást ekki í þessi sjúkrahús. Þeir segja: Við verðum aftur úr, ef við förum í þessi sjúkrahús. — Og ég hef það jafnframt eftir læknum, að það sé furða, hvað sé hægt að gera á þessum sjúkrahúsum og hvað er gert þar. Ég er ekki að fullyrða það, að samfærsla sé leiðin, því að ég er langt frá því að vera hæfur til þess að slá fram slíkum fullyrðingum og því síður að rökstyðja það. En að það þurfi a. m. k. athugun, það þori ég að fullyrða. Hvort á að leggja meiri áherzlu á það að fá t. d. tvo fullkomna kjarna, betri samgöngur og auðveldar samgöngur milli þeirra og minni sjúkrahúsanna, sem annast minni aðgerðir, eða á að velja þá leið, sem núna virðist vera valin, að reyna að byggja upp stór sjúkrahús víða, og svo stöndum við frammi fyrir þeim vandræðum, að ekkert af þessum sjúkrahúsum sé það fullkomið sem það þarf að vera til þess að geta fullnægt kröfum nútímans? Því er að vísu haldið fram, að þetta sé þegar ákveðið. Það sé búið að ákveða, hvernig sjúkrahúsunum eigi að vera fyrir komið, en jafnframt viðurkennt, enda vita það allir, að margt sé enn í þessum greinum heilbrigðismálanna ógert, sem ætti þá að mega athuga.

Það er dálítið einkennilegt, að menn láta í ljós undrun sína yfir flutningi tillögunnar. Því svara ég ekki. Ég ætla ekki að fara út í neinn skæting út af þessari till., hún er ekki flutt til þess að standa í neinum skætingi hér á Alþ. Hún er flutt í þeim tilgangi að reyna að fá endurbót á máli, sem ég álít að þurfi að endurbæta, athugun á því máli, sem ég álít að þurfi að athuga. Hún er ekki flutt í öðrum tilgangi, og ég veit, að hv. þm. vita, að svo er. En það er dálítið einkennilegt, þegar það kemur fram hér á Alþ., að það sé búið að gera yfirsjónir í þessum málum. Það má ómögulega rannsaka ástandið, hvað við eigum að gera fyrir framtíðina, og það er vegna þess, að það sé búið að gera hitt og það sé búið að staðsetja þetta, en jafnframt eru yfirsjónirnar viðurkenndar. Ég er þessu algerlega ósammála. Ýmislegt, meira að segja margt, er ógert viðkomandi staðsetningu og fyrirkomulagi sjúkrahúsa. Þetta þarf að athuga. En það er og ýmislegt, sem við þurfum að læra og höfum gott af að læra í þessu landi viðkomandi almennri heilbrigði. Það er t. d. ákaflega leitt, að við skyldum þurfa erlendan her inn í landið til þess að læra að búa okkur til skjólfötin, sem við höfum alltaf getað búið okkur í, a. m. k. seinustu ár. Og ég er alls ekki viss um það, hvort það verður nokkurn tíma reiknað í fjármunum, hvað það þýðir, að við höfum lært að klæða okkur við það að sjá erlendan her á Íslandi, sem kunni að búa sig. Þetta er staðreynd.

Stefnan, sem kemur fram í bréfi heilbrigðisstjórnarinnar, er þessi, með leyfi forseta: „Mikillar varúðar verður ætíð að gæta um alþýðleg skrif og ræðuhöld fyrir almenning um heilbrigðismál.“ Og svo er sagt: „Fjölgun lækna þeirra og hjúkrunarkvenna, er að virkri heilsuvernd vinna í landinu, mun bezt gagna til þess að breiða út meðal almennings þá þekkingu um heilbrigðismál, sem honum er notadrýgst.“

Hér er ég algerlega þveröfugrar skoðunar. Ég held, að þessi skoðun á heilbrigðismálum sé alls ekki ríkjandi í nálægum löndum. Það er alls ekki skoðun í nálægum löndum, að það sé varasamt að tala um það við almenning, hvernig hann eigi að lifa og hvers hann eigi að neyta o. s. frv. Það er alls ekki skoðun meðal nálægra þjóða, heldur alveg þvert á móti. Og það er alls ekki skoðun hjá þjóðum, sem lengst eru komnar í þessum málum, að þessi fræðsla komi fyrst og fremst gegnum hjúkrunarkonur, að það séu hjúkrunarkonur, sem breiða út þekkingu á þessum málum, og fjölgun lækna. Niðurstaðan annars staðar er sú, eftir því sem ég bezt veit, að það séu ekki sízt húsmæðurnar í hverju landi, sem eigi að sjá fyrir þessari þekkingu. Það er vitað mál, að það starfa núna á Norðurlöndum slíkar fræðslustofnanir, og í sambandi við þær er haldið uppi slíkri fræðslu í sambandi við húsmæðrafræðsluna.

Við höfum núna hér á landi sýnishorn af því, hvernig þetta er, þar sem læknarnir vilja ekki taka afstöðu um almenna fræðslu. Ef þið gangið hérna upp á Óðinstorgið, þá getið þið séð nokkuð oft biðraðir, sem enn þá eru til í Reykjavík, og þessar biðraðir eru utan um búð, sem selur vörur fyrir Náttúrulækningafélagið á Íslandi. Nú hef ég enga þekkingu til þess, að ég hér reyni að halda því fram, að þær kenningar, sem Náttúrulækningafélagið og þess forsvarsmenn halda að þjóðinni, séu ekki réttar. En hér eru þetta þær einu kenningar um mataræði, sem fólkið heyrir — eða svo til. Annars staðar er starfað þannig, að það er reynt að kenna fólkinu, hverjar eru þær staðreyndir, sem læknavísindin hafa komizt að viðvíkjandi lifnaðarháttum, fæðu og öðru þess háttar.

Ég skal nefna dæmi í þessu sambandi. Mér er sagt, að hér sé nú gefið út að vísu tímarit af einum lækni, tímarit, sem ég hef því miður ekki séð, en er sjálfsagt gott á sínu sviði, en sá læknir, sem mestan áhuga hafði fyrir þessum málum, sá læknir, sem hafði þá skoðun, sem er útbreidd hér í nálægum löndum um vinnubrögðin á þessu sviði, sá læknir, sem sýndi það í verki, að hann vildi vinna fyrir þetta mál, sá læknir, sem skrifaði í þá átt, sem ég er að tala um hér að eigi að vinna, var dr. Gunnlaugur Claessen. Hann skar sig úr læknastétt, og hann var á móti skoðunum læknastéttarinnar almennt í þessum málum. Hann gaf hér út tímaritið „Heilbrigt líf“, og það er vitað mál, að það skar upp úr um margt og gaf merkilega fræðslu um margt. Það er jafnvitað mál, að það er skoðun a. m. k. kannske þeirra æðstu manna í læknastétt, sem eru í heilbrigðisstjórninni, að þessi leið sé algerlega röng, það eigi yfirleitt ekkert að prédika fyrir almenningi, það eigi ekkert að segja honum um þetta mál, þetta komi af sjálfu sér. Og það er það einkennilega við það, að það er talið, að í læknastétt skeri það sig nokkuð úr, að þeir, sem hafa verið miklir skurðlæknar, hafa yfirleitt ekki mikla trú á þessari stefnu í læknamálum, sem dr. Gunnlaugur heitinn Claessen var einn af fyrstu brautryðjendum fyrir hér á landi. Þetta tímarit hans var smátt og smátt að sálgast og hefur ekki komið út núna í heilt ár, tímaritið Heilbrigt líf. Þannig er þessu háttað. Þessi tilraun, sem hefur verið gerð, er að deyja út. Þó að annar læknir hafi að einhverju leyti tekið upp merkið, þá er hann samt sem áður ekki manneldisfræðingur.

Það er t. d. eitt út af fyrir sig, þó að þetta sé kannske smátt og lítið dæmi, en menn hafa gott af að heyra, að Gunnlaugur Claessen beitti sér fyrir því, sagði okkur, að við hefðum ávexti í þessu landi, sem væru eins góðir og þeir ávextir, sem við flytjum inn, og líklega betri. Fyrir hans tilverknað og fyrir hans skrif fer nú fjöldi bifreiða með fjölda fólks hér upp um hálendið til þess að tína ber á hverju einasta ári, og þeim er safnað í þúsund tonna tali. Fyrir hans tilstilli var þetta mál rannsakað, og hann komst að þeirri niðurstöðu, að í berjunum væri gnægð e-vítamína. Þetta þykir kannske ekki stórt, en það hefði einhvern tíma þótt stórt, þegar var verið að tala um það opinberlega, að við værum svo soltnir af c-vítamínefnum, Íslendingar, að það væru líkur til þess, að helmingurinn af Íslendingum fengi skyrbjúg.

Það þykir kannske ekki stórt atriði að rannsaka það, eins og Norðmenn og Danir sérstaklega gera, hvort það eigi að leyfa að flytja inn kornmat, mjöl, sem er malað fyrir löngu og búið að tapa miklu af sumum beztu efnum.

Það er áreiðanlega fjöldamargt, sem við þurfum að athuga í þessum efnum, og vegna þess, að ég hef nú talað alllangt mál um þessi efni, þá vil ég nú ekki þreyta hv. Alþ. með lengra máli, en það er a. m. k. brennandi sannfæring mín, sem að vísu byggist ekki á mikilli þekkingu, að það sé full ástæða fyrir okkur að athuga þessi mál, athuga þetta, hvort tveggja, sem ég hef hér minnzt á, og það er engu minni ástæða til þess að rannsaka síðara atriðið heldur en hið fyrra, vegna þess að það er staðreynd, að í þessari grein heilbrigðismálanna er stefna okkar önnur en hún er meðal nálægra þjóða, sem eru komnar lengst í manneldismálum. Og það er staðreynd, að heilbrigðisstjórnin hér er mótfallin þessari fræðslu, sem haldið er uppi víða meðal nálægra þjóða, eins og kemur beinlínis fram hér í þessu bréfi. Sjálfsagt ber að gæta varúðar, en athugið, að af opinberri hálfu er enn þá ekkert gert til þess að halda uppi þessari fræðslu.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð mín fleiri. En ég ætla að staðhæfa það, að það hafa oft hér á Alþ. verið fluttar till., sem hefur verið ástæðuminna að flytja en þessa till. Og hvort sem hún verður felld eða samþ. þá er ég alveg sannfærður um það, að hér er þó bent á rannsókn á þeim leiðum, sem við þurfum að rannsaka, því að í þessum málum er mörgu ábótavant, sem þarf að leiðrétta, og það mun seinni tíminn leiða í ljós, hvort sem þessi till. verður samþ. eða ekki.