07.04.1954
Sameinað þing: 45. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í D-deild Alþingistíðinda. (2930)

100. mál, milliþinganefnd í heilbrigðismálum

Kjartan J. Jóhannsson:

Herra forseti. Ég stend hér ekki upp til þess að tala mikið um þessa nefndarskipun, heldur aðallega til þess að leiðrétta nokkurn misskilning, sem mér fannst gæta í ræðu þeirri, sem hv. flm., þm. Str. (HermJ), flutti hér áðan.

Það hefur verið móðins nú undanfarin ár að tala mikið um heilsuvernd. Kemur þar í ljós, að menn virðast halda, að þetta sé einhver ný bóla, jafnvel að heilsuvernd sé alveg nýuppfundin. Hv. flm. sagði t. d. í þessu sambandi, að nú á seinustu árum væri mikið um þetta rætt meðal allra þjóða. En það er miklu lengur búið að ræða um heilsuvernd en nú allra síðustu ár, og jafnvel hér hjá oss í fásinninu á Íslandi er þetta engin ný bóla. Þetta er miklu eldra. Það er þegar um aldamótin — og þó raunar miklu fyrr, ef aftur í aldir er farið sem hér er hafin mjög merkileg barátta einmitt í heilsuvernd. Á ég þar við baráttuna við holdsveikina. Það var ákaflega merkilegt mál.

Það var hér mikið um holdsveiki og líðan og öll aðbúð þessara sjúklinga var ákaflega slæm. Það var fyrir forgöngu lækna, bæði íslenzkra og danskra, sem hafizt var handa um útrýmingu holdsveikinnar. Og það var danskur læknir, dr. Petrus Beyer, sem átti sinn mikla þátt í því og hófst handa um fjársöfnun til stofnunar holdsveikisspítalans í Laugarnesi, sem gefinn var Íslendingum af dönskum Oddfellowum, að ég hygg. Við vorum svo heppnir, að til starfa við þennan spítala sem fyrsti læknir hans og raunar yfirlæknir hans lengstan tímann, sem hann starfaði, valdist ágætur íslenzkur læknir, sem flestum framar ber að þakka það, hve við erum langt komnir með að útrýma holdsveikinni algerlega af Íslandi. Það er ekki, að því er fróðir menn telja, nema tímaspursmál, þangað til við erum algerlega búnir að útrýma holdsveikinni hér á landi. Og á því sviði stöndum við framarlega, Íslendingar, því að það er allt annað en það sé verið að útrýma holdsveikinni yfirleitt í heiminum.

Alveg sama má segja um sullaveikina. Þar voru íslenzkir læknar líka vakandi og þar hefur áunnizt geysilega mikið verk, eins og kom fram núna nýlega í skýrslu, sem prófessorinn í meinafræði hér víð háskólann flutti n.n þetta mál. Ég man nú ekki nákvæmlega, hvað langt er síðan hann byrjaði á rannsóknum dauðameina hér á landi, en það er alllangt síðan, og í stuttu máli, þá held ég hann hafi skýrt frá því í þessari skýrslu sinni, að það mætti heita, að meginþorri þeirra líka, sem hann rannsakaði fyrstu ár sín hér, hefði tekið í sig sullaveiki einhvern tíma á ævinni. Og fyrir svona 30 árum líklega, það er ekki lengra síðan, var skurðaðgerð við sullaveiki einhver algengasta skurðaðgerð, sem hér á landi var framkvæmd þá. En nú er það svo, að jafnvel í allra stærstu sjúkrahúsunum hér á landi þykir það hreinn viðburður, ef sullur finnst í sjúklingi. Og skurðaðgerðir við sullaveiki eru mjög fátíðar orðnar. En annars var það svo fyrir ekki allmörgum árum, að þá var það fyrsta sem maður var spurður að erlendis, um sullaveikina á Íslandi og aðgerðir við henni, þegar maður kom á sjúkrahús erlendis. Þá var þetta hér á Norðurlöndunum a. m. k. orðið fátítt, enda þau lönd, eða a. m. k. Danmörk, ekki sauðfjárræktarlönd, og sullaveikin er, eins og við vitum, aðallega algeng í sauðfjárræktarlöndunum. En bæði í Bretlandi og í Danmörku var eitt af því fyrsta, sem um var spurt, hvernig gengi með sullaveikina á Íslandi. En fyrir baráttu íslenzkra lækna hefur svona vel orðið ágengt í því efni.

Á líkan hátt er þessu farið með berklaveikina, og það er ekki alveg nýtilkomið. Þó að það sé ekki mjög langt síðan embætti berklayfirlæknis var stofnað, þá er það, að ég hygg, skömmu eftir aldamótin, sem heilsuhælisfélagið var stofnað fyrir forgöngu Sigurðar Magnússonar og Guðmundar Björnsonar landlæknis, að ég hygg. A. m. k. komu þeir mjög við sögu þessa félags og stofnun fyrsta heilsuhælisins hér á landi, Vífilsstaðahælisins, sem var fyrsta skrefið. Það var það, sem mest kallaði að á þeim tíma, að sjá sjúklingunum, sem þá voru mjög margir, fyrir hælisvist til að auka batahorfur þeirra, og um leið var í því nokkur heilsuvernd, að þeim var bjargað frá heimilum sinum, þar sem af þeim stafaði smithætta. Síðan hefur þessu starfi verið haldið áfram, teknar upp hér berkla varnir, sem standast samanburð við það bezta, sem þekkist nú á tímum í heiminum á því sviði. Það bendir a. m. k. til þess, að svo sé, að núverandi yfirmaður berklavarnanna hér hjá okkur, dr. Sigurður Sigurðsson berklayfirlæknir, fékk einmitt á sínum tíma nú fyrir allskömmu tilmæli frá Sameinuðu þjóðunum um að starfa á þeirra vegum að berklavörnum. Það er ábyggilega vegna þess, að þetta starf í berklavörnunum hér á landi hefur vakið athygli langt út fyrir landssteinana, enda er það svo, að á sumum sjúkrahúsum, þar sem ég þekki til, þá stafaði um helmingur legudaganna frá berklasjúklingum, sem þar dvöldust. Og það voru sjúkrahús, sem voru ekki í rauninni berklahæli. En nú má heita, að berklasjúklingarnir séu alveg horfnir af þessum sjúkrahúsum öllum nema berklahælunum, nema rétt í svip, ef þessir sjúklingar þurfa einhverra aðgerða við eða því um líks, sem ekki er hægt að framkvæma á hælunum sjálfum.

Þá minntist hv. flm. nokkuð á eitt sérstakt sjúkrahús, sjúkrahús Ísafjarðar, sem hefði staðið með miklum blóma, skömmu eftir að það var reist, vegna þess að þá hefði starfað þar ágætur skurðlæknir. Ég ætla nú ekkert að draga úr því með þennan ágæta skurðlækni, það hafa fleiri ágætir læknar starfað við það sjúkrahús. En það sem hann drap á í sambandi við það sjúkrahús, er á nokkrum misskilningi byggt. Aðsókn að þessu sjúkrahúsi hefur minnkað allverulega frá því sem hún var mest, en það var nú ekki þegar þessi ágæti skurðlæknir, sem flm. nefndi, veitti því forstöðu, heldur nokkru síðar. En það er nú samt ekki í sambandi við það og kastar engri rýrð á þann lækni, heldur var það og er með þetta sjúkrahús eins og mörg önnur, að aðsóknin er komin undir fjölda þeirra manna, sem þangað eiga sókn, hvað þeir eru margir, og einnig samgöngumálum og samgönguháttum. Það er alkunna, að á starfssviði þessa sjúkrahúss hafa lagzt niður heilir hreppar. Og að öðru leyti hafa samgöngurnar breytzt þannig, að aðrir heilir hreppar, sem að vísu eru ekki alveg komnir í eyði enn þá að minnsta kosti, eiga nú betri sókn á annan veg. Á ég þar einmitt við hreppa, sem hv. flm. eru vel kunnir, norður á Ströndum. Strandamenn sóttu yfirleitt mjög mikið á sjúkrahús Ísafjarðar, en nú er það a. m. k. að sumarlagi orðið miklu hægara fyrir þá að sækja suður á bóginn eða til sjúkrahúsa á Norðurlandi. Þar að auki orsakast fækkun sjúklinga á þessu sjúkrahúsi af þessu, sem ég drap á áðan, að berklasjúklingarnir eru algerlega horfnir, en þeir lögðu til helminginn af legudagafjöldanum og tóku upp hálft sjúkrahúsið lengst af.

Þá virtist mér einnig gæta nokkurs misskilnings í ræðu hv. flm., þegar hann talaði um fræðslu um heilbrigðismál. Það er náttúrlega miklu víðtækara fræðsla um heilbrigðismál heldur en bara um manneldi, sem hann virtist eiginlega telja að væri það sama. Hann tók það upp með sérstakri vanþóknun, að landlæknir hefði getið um í sinu bréfi, að það væri varúðar að gæta í fræðslu um heilbrigðismál. Og flm. virtist halda fram, að læknarnir teldu, að það ætti að varast að fræða almenning um hollustuhætti. Það er hin mesta firra. En hitt er rétt, að það ber að gæta varúðar, og á ég þá sérstaklega við það, að nauðsynlegt er, þegar erindi eru flutt um heilbrigðismál, t. d. í útvarpið, að þau séu svo góð, þau séu svo skýr og greinileg, að ekki sé hætta á misskilningi, og alveg sérstaklega, að ekki sé hætta á, að af þeim leiði óþarfa sjúkdómahræðslu. Þetta er atriði, sem við læknar a. m. k. verðum iðulega varir við, þegar erindi eru flutt í útvarpið, ef þeir, sem þau hafa flutt, hvort sem það eru læknar eða aðrir, tala ekki nógu skýrt og greinilega. Það er dálítið erfitt stundum fyrir lækna að tala fyrir allan almenning, læknanámið er langt og víðtækt og nokkuð sérgreint. Það er alltaf dálítið erfitt fyrir slíka menn að gera sér fulla grein fyrir því, að sumt af því, sem þeim finnst alveg sjálfsagt og liggja í augum uppi, sé ekki jafnsjálfsagt fyrir allan almenning. Það er sérstaklega þetta, sem fyrir læknunum vakir, þegar þeir eru að tala um, að það beri að gæta varúðar, þegar opinber fræðsla fer fram um heilbrigðismál, en alls ekki hitt, að við höfum trú á því, að það sé skaðlegt að fræða almenning um hollustuhætti. Það er síður en svo, að það sé, enda hafa margir ágætir íslenzkir læknar gert mikið að því bæði fyrr og síðar, hér áður fyrr t. d. Guðmundur Björnson landlæknir og Guðmundur Hannesson prófessor. Sæmundur Bjarnhéðinsson prófessor skrifaði allmikið á sínum tíma um heilbrigðismál, og þá muna allir eftir dr. Gunnlaugi Claessen, sem lengst af sínum starfstíma hér á landi var sískrifandi um heilbrigðismál og hollustuhætti. Hann var nú svo sérstakur áhugamaður um þetta mál, eins og kom fram í ræðu hv. flm. hér áðan, að hann var aðalhvatamaður og um langt skeið ritstjóri tímaritsins Heilbrigt líf, sem þá átti sitt blómaskeið. Enn fremur má telja lækna, sem nú vinna að þessum málum. Þá er þar til að nefna t. d. prófessor Niels Dungal, sem heldur úti riti um heilbrigðismál. Dr. Sigurður Sigurðsson hefur líka allmikið skrifað um heilbrigðismál fyrir almenning.

Ég held, að ég hafi nú leiðrétt það helzta, sem mér fannst þörf á í ræðu hv. flm. Að öðru leyti hefur verið svo mikið um þetta mál rætt í deildinni, að ég ætla ekki að hafa þetta lengra.