07.04.1954
Sameinað þing: 45. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í D-deild Alþingistíðinda. (2931)

100. mál, milliþinganefnd í heilbrigðismálum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hér er lagt til, að kosin verði mþn. í heilbrigðismálum, og var fjvn. öll sammála um að mæla með samþykkt þessarar till. Það er ekkert undarlegt við það, þó að skoðanir séu skiptar um, hvort árangur muni verða af nefndarskipun eða ekki, og kemur okkur það ekkert ókunnuglega fyrir, fjvn.-mönnum, þó að menn séu misjafnlega trúaðir á árangur slíks nefndarstarfs, en hitt er hægt að rökræða, hvort það verkefni sé fyrir hendi, sem nefndinni er ætlað að vinna. Nú er verkefnið hér fram sett í tveim liðum till. og nefndinni þar ætlað að gera í fyrsta lagi till. um fjölda og stærð og staðsetningu sjúkrahúsa og hjúkrunarheimila og í öðru lagi að gera tillögur um almennar ráðstafanir til eflingar heilsuvernd og heilbrigði með þjóðinni.

Sumir halda því fram, að fyrri liðurinn í till. gefi ekkert verkefni fyrir þessa hugsuðu nefnd. Þó hefur verið sýnt fram á það, að ekki sé búið að ákveða stærð og staðsetningu þeirra sjúkrahúsa, sem fyrirsjáanlega sé þörf fyrir í náinni framtíð, og m. a. má fyllilega um það deila, hvort þörf sé á að byggja það sjúkrahús, sem rætt hefur verið um að byggja á Sauðárkróki, eftir að hið stóra sjúkrahús Akureyrarkaupstaðar er komið upp og hið stóra sjúkrahús á Blönduósi hinum megin Skagafjarðarbyggða einnig komið það langt á veg, að ekki verður snúið aftur með það. Það er sem sé óráðið og mjög óvíst, hvort það er rétt að bæta þarna þriðja allstóru sjúkrahúsi við á þessu svæði norðanlands. Frsm. fjvn. benti á, að enn þá væru óteknar ákvarðanir um, hvort rétt væri að reisa héraðssjúkrahús fyrir Austurland og héraðssjúkrahús fyrir Suðurlandsundirlendi. Það er því langt frá, að það sé búið að taka endanlegar ákvarðanir um það, sem n. er ætlað samkvæmt fyrri tölul. till. að athuga og gera till. um.

Hitt vita svo allir, að það verður aldrei ráðið í eitt skipti fyrir öll, hvaða sjúkrahús skuli byggð í landinu, fremur en því verður ráðið í eitt skipti fyrir öll, hvaða skóla skuli byggja í landinu. Um það geta verið skiptar skoðanir, og er fyllilega ástæða til, að sérfræðileg athugun fari fram á slíku, áður en í framkvæmdirnar er ráðizt.

En menn hafa ekki minnzt á síðari tölul. í umr. verulega. Það er vitað, að það er ekki farið að framkvæma heilsuverndarkafla tryggingarlaganna enn þá að neinu ráði, og það er því fyllilega tímabært, að það sé vel athugað, með hvaða hætti skuli gera ráðstafanir til eflingar heilsuvernd og heilbrigði almennt með þjóðinni.

Hæstv. heilbrmrh. hefur tekið þátt í þessum umr., og skilst mér, að hann geri ráð fyrir, að till. verði samþ. með tveimur breyt., sem hann telur vera til bóta. Önnur er um það, að nefndin hafi lokið svo snemma störfum, að niðurstöður hennar geti legið fyrir, þegar hann tilnefni mann ásamt landlækni til þess að endurskoða heilbrigðismálalöggjöfina í heild. Í öðru lagi verði nefndin ekki fimm manna nefnd, heldur þriggja manna nefnd. Fyrir liggja meðmæli frá fjvn. um það, að þessar brtt. hæstv. heilbrmrh. verði teknar til greina.

Það er þó fleira, sem er óráðið enn þá í heilbrigðismálunum og hægt er vissulega að deila um, hvort réttilega sé búið að ráða fram úr. Það lágu tvö frv. fyrir þessu þingi um rekstur sjúkrahúsa, annað frá heilbrigðismálastjórninni um það, að rekstur sjúkrahúsa utan Reykjavíkur skyldi styrktur með 5 kr. styrk úr ríkissjóði á legudag í þeim smæstu, miðlungsstór sjúkrahús með 10 kr. styrk úr ríkissjóði á legudag og stærstu sjúkrahús utan Reykjavíkur, þ. e. eitt einasta sjúkrahús, Akureyrarsjúkrahúsið nýja, með 20 kr. styrk úr ríkissjóði á legudag. Ég verð að segja, að það er mjög svo vafasamt, að þarna sé fundin hin eina sanna og rétta leið til þess að tryggja góðan rekstur fullkominna heilbrigðisstofnana í landinu. Og það er vissulega hægt að deila um það, hvort ekki sé réttmætari hin hugsunin, sem einnig hefur verið borin fram í frv.-formi á þessu þingi, að Landsspítali Íslands sé starfræktur — aðalspítalinn í Reykjavík og síðan útbú frá honum sitt í hverjum landsfjórðungi, Vestfirðingafjórðungi, Norðlendingafjórðungi, Austfirðingafjórðungi og Sunnlendingafjórðungi. Til hvers á að hafa þessi útbú frá landsspítalanum? Til þess að tryggja a. m. k. eitt fullkomið sjúkrahús í hverjum landsfjórðungi, þar sem sé öruggt, að færasti sérfræðingur í skurðaðgerðum sé í hverju þeirra og hin fullkomnustu lækningatæki. Það er mín sannfæring, að heilbrigðismálunum á Íslandi sé ekki á sómasamlegan hátt borgið, nema því aðeins að ríkið tryggi, að hægt sé að launa einn hæfan sérfræðing að einu vel útbúnu sjúkrahúsi í hverjum landsfjórðungi. Ég tel, að jafnframt því, sem hugsuð nefnd ætti að athuga um staðsetningu og stærð sjúkrahúsa, ætti hún fyllilega að hugleiða það, hvort ekki sé nauðsynlegt að tryggja rekstur fullkomins sjúkrahúss, eins a. m. k., í hverjum landsfjórðungi. Það eru að vísu til þeir, sem telja, að í heilbrigðismálum og menntamálum og yfirleitt í öllum málum eigi bara að búa vel að hlutunum í Reykjavík og svo eigi landsbyggðin að fá alla sína þjónustu hér. En ég er alveg á öndverðri skoðun, og það þýðir a. m. k. ekkert að vera að hjala um jafnvægi í byggð landsins, ef menn ætla að halda hinni fyrrnefndu stefnunni fram í menntamálum, heilbrigðismálum, samgöngumálum og yfirleitt öllum þeim málum, sem skipta mestu fyrir líf og líðan fólksins úti um byggðir landsins. Ég tel það ekki nema óframbærilegt kák í heilbrigðismálum að ætla landsbyggðinni að reka sjúkrahús sums staðar með 5 kr. styrk á legudag, en á öðrum stöðum með 20 kr. styrk á legudag, og hróplegt ranglæti í því. En það, að landsspítalinn skiptist í deildir og sjái um, að eitt sjúkrahús í landsfjórðungi sé búið hinum fullkomnustu tækjum og hafi fullkomna sérfræðinga til starfa og að þessir aðalmenn fjórðungssjúkrahúsanna væru á sömu launum og yfirlæknar við landsspítalann að öðru leyti, — það eitt tel ég vera leiðina til þess að tryggja fullkomna heilbrigðisþjónustu fyrir fólkið úti um landið. Það er ekkert vafamál, að fullkomið sjúkrahús er svo dýr stofnun í rekstri, að jafnvel stærstu kaupstaðirnir utan Reykjavíkur rísa ekki undir rekstri slíkra húsa. Það er reynslan búin að sýna og sanna. Viðhald húsanna verður þess vegna vanrækt, viðhald lækningatækja verður vanrækt, og þegar svo er komið, þá er ekki unnt að fá hæfustu sérfræðinga til þess að starfa við þessi sjúkrahús. Það er ástæðan til þess, sem hv. flm. till., hv. þm. Str., vék hér að, erfiðleikanna á því að fá sérfræðinga að sjúkrahúsum eins og t. d. sjúkrahúsi Ísafjarðar nú. Auk þess er efnahag bæjarfélaganna þannig komið, að þau hafa ekki efni á að bjóða sjúkrahúslækni, sem er starfsmaður bæjanna, slík laun, að það samsvari þeim tekjum, sem sérfræðingar geta haft hér í Reykjavík. Verður það eitt með öðru til þess að útiloka, að hinir hæfustu menn fáist að jafnvel hinum stærstu sjúkrahúsum kaupstaðanna.

Ég verð því að segja, að þeir menn hafa rangt fyrir sér, sem telja, að ekki sé ástæða til að feia þriggja manna nefnd — skulum við segja — að gera tillögur um skipun heilbrigðismálanna í nánustu framtíð, og einkanlega þegar ætlazt væri þá til, að niðurstaða þeirrar n. gæti að einhverju leytí orðið grundvöllur fyrir þeirri endurskoðun, sem hæstv. heilbrmrh. hefur hér boðað.

Verkefnin eru vissulega ærin, og hitt fer svo eftir atvikum, eftir því, hvernig menn veljast til og hvernig þeir vinna, hver árangurinn verður, og það getur enginn okkar sagt um það neitt fyrir fram, hvort hann verður mikill eða lítill. En ég tel ástæðu til nefndarskipunar og nefndarstarfs í þessu þýðingarmikla máli.