12.04.1954
Sameinað þing: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í D-deild Alþingistíðinda. (2934)

100. mál, milliþinganefnd í heilbrigðismálum

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég skal ekki fjölyrða um þessa till. umfram það, sem ég hef þegar rætt hana á fyrra stigi.

Hv. flm. talaði nú mikið sjálfur um það, að hann hefði lítið vit og þekkingu á þessum málum, og fannst mér, að till. sjálf, hvernig hún var til komin, gæti borið nokkurn vott um það. Hins vegar flutti hann hér mjög langa og skelegga ræðu, sem sýndi, að hann kemur víða við í heilbrigðismálunum, og lagði nú megináherzluna á manneldismálin og virtist þar sitja inni með mikinn fróðleik, og sennilega hefði nú verið í samræmi við þessa ræðu eðlilegra frá upphafi, að þessi till. hefði takmarkazt við manneldismálin og verið um skipun mþn. í þeim málum. En látum það gott heita. Ég skal ekki orðlengja, úr því sem komið er, um þetta, en vildi aðeins, að eitt atriði stæði ekki aðfinnslulaust.

Hv. þm. Str. var að tala um, að læknarnir sjálfir væru á móti heilsuvernd og fræðslu fyrir almenning. Hann vildi leiða þessar niðurstöður sínar eða álit m. a. af ummælum, sem fram kæmu í umsögn heilbrigðismálastjórnarinnar frá dr. Sigurði Sigurðssyni. Það verð ég að segja, að mér finnst vera í fyllsta máta ósmekklegt að viðhafa slík ummæli í sambandi við þann ágætismann, sem einmitt hefur fórnað svo miklum tíma og kröftum í heilsuverndina hér á landi, að einstakt má telja. Ég býst nú við því, að hv. flm. hafi ekki með þessum orðum verið að sveigja sérstaklega að dr. Sigurði Sigurðssyni, en ég vildi þó, að það kæmi fram hér, að það væru tekin af öll tvímæli í því, að slíkt væri alls ekki maklegt, enda svaraði hv. þm. Ísaf. einnig fyrir læknana almennt í þessum efnum, svo að það er þar litlu við að bæta.

En varðandi sérstaklega dr. Sigurð Sigurðsson, sem gegndi störfum landlæknis og skrifaði álitsgerð um þetta mál, þá er allra sízt maklegt að væna hann um það að vera á móti eða lítið fyrir það að efla heilsuverndina og fræðslu almennings, því að ég held, að öllum öðrum ólöstuðum, að enginn a. m. k. núlifandi Íslendingur eigi merkari starfsferil á því sviði að baki sér en dr. Sigurður Sigurðsson.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta. Ég hef flutt brtt. á þskj. 729 um það, að ráðherra skipi formann nefndarinnar. Sú till. þarf ekki frekari skýringa við. En mér finnst það eðlilegra, og það tengir n. í eðlilegra samband við heilbrigðismálastjórnina, að sjálfur heilbrigðismálaráðherra skipi formann slíkrar nefndar.