12.04.1954
Sameinað þing: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í D-deild Alþingistíðinda. (2936)

100. mál, milliþinganefnd í heilbrigðismálum

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að tala hér langt mál. Það er vitanlega alger misskilningur, enda leiðrétti hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) það að vissu leyti sjálfur, að ég hafi verið að sveigja að þeim manni, sem hann minntist á, Sigurði Sigurðssyni, það er svo fjarri því, mín orð urðu alls ekki skilin þannig, og ég sveigði alls ekki að læknum heldur yfirleitt. Ég sagði, að ég hefði eins mikla trú á sérfræðingum og þar á meðal læknum eins og flestir aðrir, sem álita, að þeir væru ekki einhlítir, og sveigði ekki á nokkurn hátt að læknum í þessu sambandi. Sagt var, að hér sé til manneldisráð og að ég hafi talað mikið um mataræði og manneldi, það er alveg rétt, ég gerði það. Það er líka ein stór grein heilsuverndarinnar og kannske ein af þeim allra stærstu. Um það er rétt að segja það, að það veitir áreiðanlega ekki af því, eins og kom nú hér fram hjá hv. 4. þm. Reykv. (HG), að athuga um vinnubrögð ráðsins. Merkileg vinna, sem þar hafði verið upp tekin, hefur fallið niður, en slíkt mun vera sjaldgæft að átt hafi sér stað hjá nokkru þjóðfélagi, sem vill fylgjast með í þeim málum. Annars sjá menn greinilega af reynslunni, hvað það þýðir að gera ráðstafanir þannig, að hugsað sé um heilsuvernd, og sá ágæti læknir, sem hér er í d., minntist einmitt á það og kom með rækilegar sannanir — og rækilegri en ég hefði gert — fyrir mínu máli, með því að minnast á sullaveikina. Hvar væri komið þar, ef ekki hefði verið reynt að taka þannig á málum eins og gert er ráð fyrir að verði reynt að taka á málum um almenna heilbrigði í þessari till., sem hér liggur fyrir, og hvað væri líka t. d. með holdsveikina, og hvað væri með berklaveikina, þar sem Sigurður Sigurðsson hefur unnið stórvirki? Yfirleitt er ágreiningur um það meðal lækna hér í þessu landi og annars staðar, hvað mikið sé hægt að gera til að fyrirbyggja sjúkdóma, og um það eru mjög skiptar skoðanir, eins og ég minntist á í minni frumræðu. Ég álít, að það sé yfirleitt of lítið gert að því á ýmsum sviðum, þau dæmi, sem læknirinn nefndi hér, sanna hvað hægt er að komast með því að taka rétt á málunum og byrgja brunninn, áður en barnið dettur ofan í.

Ég get fallizt á fyrir mitt leyti þær till., sem liggja hér fyrir frá heilbrmrh., og enn fremur hef ég ekkert við að athuga brtt. á þskj. 729, því að þessi till. er, eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, flutt til þess, að af henni, ef svo mætti til takast, yrði nokkurt gagn. En það geri ég vitanlega ekki að nokkru ágreiningsmáli, hver skipar formann nefndarinnar.