12.04.1954
Sameinað þing: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í D-deild Alþingistíðinda. (2937)

100. mál, milliþinganefnd í heilbrigðismálum

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Ég verð að játa það, að ræður hv. þm. Str. um þessa till. svo og grg. hans fyrir till. hafa ekki enn þá sannfært mig um nauðsyn þess, að þessi till. verði samþykkt.

Till. byggist í fyrsta lagi á því, að í sjúkrahúsmálum, sérstaklega í staðsetningu og byggingu sjúkrahúsa á undanförnum árum hér á landi, hafi verið gerðar mjög miklar skyssur, mjög mikil mistök, eins og hv. þm. Str. hefur orðað það. Nú er það svo, að þau mistök, sem þarna er um að ræða, ættu þá að vera hv. núverandi stjórnarflokkum að kenna. Sæti það sízt á mér að taka upp hanzkann fyrir hv. stjórnarflokka í þessum efnum, ef þeir hefðu framið þar stórvægileg mistök. Þó er það nú svo, að þegar ég heyri andstæðinga mína borna sökum, sem mér finnst hvorki réttlátar né sanngjarnar, þá get ég ekki að því gert, að ég get ekki þegjandi á það hlustað, heldur þykir mér rétt að koma þeim þar til nokkurrar aðstoðar, sem fyrir röngum ásökunum verða. Og í þessu máli verð ég að segja það, að ég tel þær ásakanir um mistök í þessum efnum, sem hér hafa fram komið, vægast sagt harla einkennilegar. Það er að vísu rétt, að við höfum byggt stórt og hugsað stórt í sjúkrahúsmálum. En er það, ef að er gætt, rétt að hugsa stórt og byggja stórt í þeim efnum? Eru það mistök, þó að eitt sjúkrahús eða nokkur sjúkrahús séu byggð einni hæð eða nokkrum tugum rúmmetra of stór miðað við daginn í dag? Ég álít, að slíkt séu engin mistök, heldur þvert á móti. Ég álít, að það hefðu verið mistök í þessum efnum, ef við hefðum hugsað of smátt og byggt of smátt. Og ég spyr þá menn, sem hér hafa fjargviðrazt um það, eins og t. d. hv. 2. þm. N-M., að sjúkrahús á Blönduósi, sjúkrahús á Akureyri o. s. frv. „hafi ekki verið byggð við hæfi,“ eins og hann orðaði það, — ég spyr þessa menn: Hvernig verður eftir 40–50 ár, þegar íslenzka þjóðin, ef ekkert sérstakt ólán hendir hana, verður orðin 300 þús. manns a. m. k.? Verða þessi sjúkrahús þá of stór? Verða þeir, sem stóðu að byggingu þessara sjúkrahúsa, þá sakaðir um, að þeim hafi orðið á mistök fyrir of stórar byggingar o. s. frv.? Ég held ekki. Ég held þess vegna, að sá grundvöllur sé rangur, sem þessi till. byggist á. Og þegar svo er, þá get ég ekki fallizt á það, að það sé nein ástæða til að samþ. þessa till. Enn síður get ég fallizt á það, að það sé rétt að samþ. brtt. þá, sem hæstv. heilbrmrh. hefur borið hér fram, sérstaklega ef síðari hluti þáltill. er hafður í huga. Samkv. brtt. hæstv. ráðh. á n., sem um ræðir, að ljúka störfum fyrir 1. okt. 1954, en hins vegar er það sýnilega ógerlegt, ef menn athuga verkefni n. eins og það er ákveðið í síðari lið till. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Að gera tillögur um almennar ráðstafanir til eflingar heilsuvernd og heilbrigði með þjóðinni.“ Það er sýnilegt, að n. á þess engan kost að gera þessu máli nokkur skil fyrir 1. okt. 1954. Til þess er þetta verkefni allt of víðtækt. Ef brtt. hæstv. ráðh. yrði því til þess, að hin till. yrði samþykkt, álit ég, að þetta mál sé hvorki fugl né fiskur og til lítils sóma fyrir Alþingi að samþykkja það þannig. Ég vil því taka það fram, að ég mun fylgja till., sem hv. 4. þm. Reykv. hefur borið hér fram um að vísa þessu máli til ríkisstj., af því að ég sé í sjálfu sér ekkert athugavert við það, en hefði þó talið eðlilegast, að þessi till. ásamt brtt. yrði felld.