12.04.1954
Sameinað þing: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í D-deild Alþingistíðinda. (2938)

100. mál, milliþinganefnd í heilbrigðismálum

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð í tilefni af því, sem hv. 8. landsk. sagði hér áðan, að ef þessi till. mín á þskj. 722 yrði samþ., þar sem svo er kveðið á, að n. eigi að ljúka störfum fyrir 1. okt. 1954, þá væri sá tími allt of naumur. Ég er á allt annarri skoðun. Nefndin hefur þó alltaf rúma fimm mánuði eða fimm og hálfan mánuð til þess að vinna þessi störf, og ég er sannfærður um, að sá tími er nógu langur, ef n. á annað borð vill hraða störfum. Ég hef líka þá reynslu í störfum yfirleitt, að eftir því sem verkinu er meira hraðað, því betri árangur er yfirleitt af starfinu. Þær nefndir, sem eru kosnar af Alþingi eða skipaðar á annan hátt milli þinga og hafa ótakmarkaðan tíma til starfa, vinna yfirleitt störfin á lengri tíma en nauðsynlegt er og hafa ekki þann hraða í vinnubrögðunum, sem er nauðsynlegur. Það hefur líka komið fram hér hjá mörgum ræðumönnum, að það sé ýmislegt í heilbrigðismálum þjóðarinnar, sem sé nauðsynlegt að rannsaka og endurbæta. Er þá ekki nauðsynlegt, að till. til úrbóta komi sem allra fyrst?

Ég benti á það hér síðast, þegar þetta mál var til umr., að það lægi fyrir að endurskoða frv. það, sem nú liggur fyrir hv. Ed. til læknaskipunarlaga, fyrir haustþingið, vegna þess að það er meiningin að leggja það frv. endurskoðað og endurbætt fyrir Alþ., til þess að það verði lögfest. Ég benti á, að ef n. verður kosin til þess að gera till. til úrbóta í heilbrigðismálunum, um staðsetningu sjúkrahúsa og annað, sem ábótavant er í heilbrigðismálunum, þá vinni n. í samráði við þá menn, sem taka læknaskipunarfrv. til endurskoðunar. Það fer þess vegna vel á því, að tími sá, sem mþn. er ætlaður til starfa, sé bundinn við 1. október eða þann tíma, sem haustþingið kemur saman. Fimm og hálfur mánuður fyrir n. til starfa er áreiðanlega nógu langur tími. N. getur safnað að sér skýrslum og gögnum á þessum tíma og unnið úr þeim, og það eru betri vinnubrögð, að það sé hæfilegur hraði, heldur en að n. ætli sér langan og ótakmarkaðan tíma, segjum 1–2 ár eða lengur, eins og stundum vill vera, þegar mþn. starfa og hafa ótakmarkaðan tíma fyrir sér.

Ég vil aðeins láta þetta koma fram, og ég veit, að margir hv. alþm. eru sömu skoðunar og ég í þessum efnum.