12.04.1954
Sameinað þing: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í D-deild Alþingistíðinda. (2939)

100. mál, milliþinganefnd í heilbrigðismálum

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef nú hlýtt nokkuð á umr. um þetta mál, en þá því miður ekki allar, og ég vil nú segja það, að það hefur komið mér dálítið á óvart, að deilur skuli hafa getað orðið hér á þingi um till. sem þessa. Það er nú svo, að þau eru mörg málin, sem hið háa Alþ. hefur samþykkt að láta athuga á milli þinga og fá til þess menn að framkvæma slíkar athuganir, og ég ætla, að sum af þeim málum, sem Alþ. þannig gerir sérstakar ráðstafanir til athugunar á milli þinga, séu ekki stærri en það mál, sem hér liggur fyrir. Ég vil líka segja það, að ég er fyrir mitt leyti hlynntur því, að þessi till. verði samþykkt, og geri líka ráð fyrir, að svo verði, þar sem hv. fjvn., sem málinu var vísað til, hefur, að ég ætla, einróma lagt til, að það verði gert.

Ég held, að menn þurfi ekki að óttast það, að okkar ágæta læknastétt hafi nokkuð við það að athuga, að slík n. sé sett á laggirnar sem þessi. Ég get a. m. k. ekki ímyndað mér, að svo sé. Það er miklu fremur viðurkenning af hálfu Alþ. á mikilvægi þessara mála, mikilvægi starfs læknastéttarinnar, sem kemur fram í þessari till., heldur en að tillögunni sé gegn henni stefnt, enda væri slíkt ekki réttmætt, því að við eigum áreiðanlega hér á Íslandi, miðað við okkar þjóðarstærð og aðrar ástæður, vel menntaða læknastétt og vel hæfa til síns starfs.

Ég skal nú ekki fara langt út í það að ræða efni þessarar till. Fyrri liður till. ætlar n. að gera till. um fjölda, stærð og staðsetningu sjúkrahúsa og hjúkrunarheimila í landinu. Síðari liðurinn ætlar henni að gera till. um almennar ráðstafanir til eflingar heilsuvernd og heilbrigði með þjóðinni. Það er að sjálfsögðu margt, sem nú þarf athugunar í sambandi við framkvæmdir í sjúkrahúsmálum. Samgöngur hafa breytzt mjög til batnaðar í seinni tíð. Þekking lækna og annarra á því, sem hægt er að gera fyrir vanheila menn og hver meðferð þeim hentar bezt, hefur líka aukizt. Hér þarf áreiðanlega ýmsar tegundir af dvalarstöðum fyrir vanheilt fólk. Oftast er talað um spítala. En margir eru þeir, sem ekki þurfa þess beinlínis með að vera á þeim stofnunum, sem venjulega eru kallaðar spítalar, þar sem eru sérfræðingar og fullkomnustu tæki til lækninga, heldur þurfa þeir þess oft og tíðum fyrst og fremst með að vera þar, sem þeir geta notið aðhlynningar, sem ekki er hægt að veita á heimilum. Ég hef heyrt lækna segja það, sem hafa áhuga á þessum hlutum, að þeir teldu, að það, sem vantaði e. t. v. fyrst og fremst eða hefði vantað hér á landi, væri einmitt slíkir dvalarstaðir, ekki beinlínis spítalar, heldur slíkir dvalarstaðir eða hæli, þar sem vanheilt fólk geti notið þeirrar aðhlynningar, sem það þarfnast. Með þessu er auðvitað ekki sagt, að ekki vanti líka eitthvað af sjúkrahúsum, enda eru nú sem betur fer hafnar eða ráðnar allmiklar framkvæmdir í þeim málum og þegar allmikið framkvæmt síðustu árin.

Birtar hafa verið samanburðartölur um fjölda sjúkrarúma t. d. hér og í nágrannalöndunum, og sá samanburður virðist sýna, að sjúkrarúmafjöldi hér sé ekki langt neðan við það, sem algengt er t. d. á öðrum Norðurlöndum. En mér hefur verið tjáð, að munurinn á ástandi hér og þar í þessum efnum sé e. t. v. mest í því fólginn, að nágrannaþjóðirnar eigi meira af dvalarheimilum, hjúkrunarheimilum, en verið hafa hér á landi, sem verður þá til þess, að ýmsir af þeim, sem hér þurfa að liggja á sjúkrahúsum, fá sína hjúkrun á hjúkrunarheimilunum og taka ekki upp rúm á spítölunum, eins og þeir verða að gera hér, á meðan ekki er nóg af öðrum stofnunum, sem geta veitt hjálpina.

Þessa hluti og ýmsa aðra er áreiðanlega full ástæða til þess að athuga í n. sem þessari. Ég skal ekki ræða mikið um 2. lið till. Þar er fjallað um svo yfirgripsmikið mál og svo fræðilegt, að ég tel naumast á mínu færi að leggja þar orð í belg nú. En ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram frá hv. 8. landsk. (BergS), sem reyndar lýsti sig andvígan till., að með sérstöku tilliti til þessa máls sé ekki rétt að takmarka starfstíma n. svo sem gert er í annarri brtt. hæstv. heilbrmrh. Vildi ég nú skjóta því til hans, hvort hann gæti ekki fallizt á að taka þann hluta brtt. sinnar aftur. Ég held, að það sé alveg ómögulegt fyrir svona n. að skila nokkru viðhlítandi áliti, a. m. k. um 2. liðinn, eftir nokkra mánuði. Það held ég að sé alveg útilokað að sé hægt, því að þetta er það yfirgripsmikið mál, sem að sjálfsögðu þarf m. a. að afla upplýsinga um frá öðrum löndum.

Ég vil benda á það í sambandi við það, sem hæstv. ráðh. sagði um fyrirhugaðar till. um læknaskipun, sem hann hygðist leggja fyrir þingið í haust, að mér sýnist, að það þyrfti nú ekki að reka sig á hans fyrirætlanir í því efni, þó að starfstími n. væri ekki takmarkaður svona, því að sjálfsögðu gæti hann, ef hann vill, að n. fjalli eitthvað um það mál út af fyrir sig, leitað álits hennar um það, þó að hún starfaði lengur. Þess vegna þarf ekki af þeim ástæðum að takmarka svo mjög starfstímann sem gert væri með þessari till. Það var nú eiginlega mitt aðalerindi hér upp í ræðustólinn, að ég vildi beina þessu til hæstv. ráðh., hvort hann mundi ekki geta fallizt á að taka þennan hluta brtt. sinnar aftur. Mér skilst, að það þurfi ekki að fara í bága við fyrirætlanir hans um að leggja fyrir næsta þing frv. um læknaskipun.