04.12.1953
Neðri deild: 33. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í B-deild Alþingistíðinda. (294)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Jón Pálmason:

Herra forseti. Þegar lögin um fjárhagsráð voru til meðferðar hér í þessari hv. d., á þinginu 1947, flutti ég margar ræður til að andmæla þeim og flutti brtt., sem voru ekki samþ. Ég sýndi fram á, að öll þau gylliloforð um allsherjar hagsbætur þjóðinni til handa, er framkvæmd þessarar löggjafar mundi hafa í för með sér, væru skrum eitt, sem aldrei yrði í samræmi við veruleikann. Þvert á móti mundi illt eitt af þessari löggjöf leiða, elns og alltaf áður hefði orðið af verzlunarhöftum og öðrum böndum á framtaki einstaklinganna, að allur áætlunarbúskapur mundi fara út um þúfur og verða fjötur um fót, en ekkert bjargræði og hvergi til happa. Nú hafa þessi lög gilt í nærri sjö ár, og helztu formælendur þeirra eru fyrir löngu hættir að hrósa þeirri dýrð og dásemd, sem þau hafi haft í för með sér. Þjóðin hefur líka fengið á því að kenna, hvað það er, sem þessi mestu haftalög, sem sett hafa verið á Alþ., eru og hver áhrif þau hafa haft á viðskipti og framkvæmdir í landinu. Hygg ég það eigi ofmælt, að engin lög séu eða hafi verið jafnóvinsæl meðal almennings. En framkvæmd þeirra hefur kostað 3–4 millj. kr. á ári hverju, og hefur sú upphæð verið lögð á þann varning, sem fólkið þarf að kaupa, og þær framkvæmdir, sem gerðar hafa verið, í viðbót við alla aðra tolla og skatta. Er eitt dæmi þess, hvernig sá kostnaður leggst á, að eitt stærsta nytjafyrirtæki, sem hér hefur verið stofnað til, Sogsvirkjunin nýja, hefur þurft að greiða heila millj. kr. í þessa hít. Í allri þeirri gremju, sem soðið hefur í landsfólkinu út af þessari löggjöf, hefur það tíðkazt meira en góðu hófi gegnir að færa þungar sakir á hendur þeirra manna, sem fyrir framkvæmdinni hafa staðið. Má að vísu segja, að enginn þeirra hefði þurft að taka að sér svo óvinsælt starf, en að öðru leyti held ég, að miklu fremur megi þakka mörgum þessum mönnum fyrir að hafa ekki framkvæmt þessi þrautvitlausu lög á miklu verri hátt en þeir hafa gert. Ég segi þetta vegna þess, að ef lögin hefðu verið framkvæmd eftir því, sem orðanna hljóðan er í greinum þeirra, þá væri margt á annan veg og hálfu verra en er í okkar landi. Öll óþægindin, tafirnar, kostnaðurinn og reiði almennings, sem þessi lög hafa haft í för með sér, á að mínu áliti aðallega rót að rekja til laganna sjálfra, en minna til þeirra manna, sem með þau hafa farið. Skipulagið er fráleitt og gat aldrei tekizt nema illa. Því fer að vísu fjarri, að ég sé ánægður yfir því, að sú megna ótrú, sem ég fékk á þessum lögum í byrjun, skuli hafa komið svo átakanlega fram. Þvert á móti hefði ég glaðzt yfir því, almennings vegna, ef betur hefði tekizt.

Það frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 175, er til þess ætlað, að margar þær breytingar, sem verða skuli á viðskiptamálum okkar lands, verði til bóta. Þetta frv. hefur einn höfuðkost í hinni síðustu grein, og hann er sá, að lögin um fjárhagsráð skuli úr gildi felld. Hefur það það í för með sér, ef samþ. verður, að mikið af skruminu og mestu vitleysunum verður ekki lengur í lögum. Í 8. gr. þessa frv. eru og talsverðar endurbætur frá því, sem er og verið hefur, með stórum auknu frelsi til athafna. En í þessu frv. eru líka ýmis atriði, sem mér líkar ekki, svo sem það, að enn eigi haftastofnun að halda áfram. Það var því næst mínu skapi að flytja brtt. um þau atriði til þess að marka stefnu mína í samræmi við fyrri afstöðu og óbreytta sannfæringu. En ég hef nú horfið frá þessu, af því að ég hef fengið vissu um, að ekki er nein von til að fá samþ. verulegar breytingar til bóta með afnámi á þeim kostnaði og höftum, sem sýnilega á að halda áfram. Ég viðurkenni líka þann eðlilega sannleika, að ekki er mikil von til að fá því til vegar komið, að þýðingarmesta lífæð okkar fjármála, verzlunin, fái að renna frjálsa farvegi, meðan höfuðformælendur haftastefnunnar hér á landi hafa svo sterk völd sem þeir hafa nú. Þess vegna verðum við, sem teljum frjálsa verzlun frumatriði heilbrigðra fjármála, að sætta okkur við þau ógeðfelldu úrræði, að af tvennu illu beri þó að taka skárri kostinn. Sá hinn verri er í þessu falli það að láta fjárhagsráðslögin með öllum sínum göllum gilda enn um skeið.

Um þetta frv. vil ég að öðru leyti segja það, að miklu skiptir, hvernig það er framkvæmt, m.a. hvernig sú reglugerð verður, sem gert er ráð fyrir í 1. gr., og hvernig hún verður framkvæmd. Ekki sízt skiptir það miklu, að það verði vitrir menn og heiðarlegir, sem til þess verða valdir að stjórna þeim leyfum og bönnum, sem ætlazt er til að haldi áfram. Ég veit, að hæstv. viðskmrh. hefur góðan vilja á að gera sitt bezta í þessu efni, og í trausti þess, að honum geti tekizt að halda þannig á þessum málum, að almenningur í landinu geti sæmilega við unað, vil ég með tilliti til þess, sem ég hef hér sagt, og þrátt fyrir allt fylgja þessu frv. án mikilla breytinga. Þess vegna hef ég skrifað undir nál. meiri hl. hv. fjhn.