12.04.1954
Sameinað þing: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í D-deild Alþingistíðinda. (2947)

140. mál, landabréf í þágu atvinnuveganna

Frsm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur haft till. þessa til meðferðar á nokkrum fundum og auk þess sent till. til umsagnar til Hagstofu Íslands, Fiskifélags Íslands og til dr. Sigurðar Þórarinssonar.

Það varð að niðurstöðu í n. að leggja til, að till. yrði samþ. með allverulegri breytingu, þar sem lagt er til, að að vísu verði hafinn nokkur undirbúningur að slíkri landabréfagerð sem till. fer fram á, en þó verði lögð aðaláherzla á að afla nauðsynlegra upplýsinga varðandi fiskimið landsins í þeim tilgangi, að hafin verði gerð fiskikorta af fiskimiðunum.

Það er nú ekki þörf á að hafa langar umr. um þetta mál, en þó þykir mér rétt að minnast með örfáum orðum á þessa meginbreytingu, sem fjvn. leggur hér áherzlu á í sambandi við afgreiðslu þessarar till.

Það kom fram í upplýsingum, sem n. aflaði sér varðandi málið, að nú er svo komið, að sjókortagerðin öll er að færast inn í landið. En jafnhliða því, að hin almenna sjókortagerð færist inn í landið, hefur þeim mönnum, sem að því verki standa, orðið ljóst, að það er mikil nauðsyn á því, að Íslendingar taki í sínar hendur einnig að gera svo nefnd fiskikort, en það eru kort, sem veita mjög mikilvægar upplýsingar um fiskimiðin, sýna bæði botnlag fiskigrunnanna, veita upplýsingar um strauma og margt annað það, sem að gagni kemur fyrir fiskimenn, þegar þeir eru á hinum ýmsu fiskimiðum. Íslendingar hafa ekki átt kost á því fram að þessu að notfæra sér nein slík fiskikort, nema að því leyti til sem erlend kort hafa fengizt, en kort, sem erlendar fiskveiðiþjóðir hafa gert af íslenzkum fiskimiðum, eru allgóð í þessu efni, svo langt sem þau ná. En það er líka vitað, að Íslendingar eru alltaf að afla sér meiri og meiri upplýsinga um fiskimið sín og það eru að opnast ný veiðisvæði kringum landið, sem vantar tilfinnanlega upplýsingar um eða a. m. k. þannig upplýsingar, að þær liggi fyrir í kortum. Í þessu efni vildi ég t. d. benda á það, að af jafnvíðfrægum fiskimiðum og fiskimiðunum, sem togarafloti okkar hefur tekið meginhlutann af afla sínum á hin síðustu ár, hinum svo nefndu Halamiðum fyrir Vestfjörðum, eru raunverulega ekki til nein kort, sem sýna miðin eins og þau raunverulega eru. Þær mælingar, sem af þessum miðum eru til í kortum, eru meira og minna rangar að upplýsingum reyndra fiskimanna. Vitanlega liggur fyrir að kortleggja þessi svæði upp á nýtt og á réttan hátt og veita fiskimönnum okkar margvíslegar aðrar upplýsingar varðandi þessar fiskislóðir. Þá er það einnig mjög athyglisvert atriði í þessu efni, að næstum allar þær fiskislóðir, þar sem togarar okkar hafa á undanförnum árum veitt karfa, eru fyrir utan hið mælda svæði okkar. Þar eru ekki til nein venjuleg kort af, og allra sízt er af þeim svæðum að finna neitt það, sem heitir fiskikort. Þetta eru tiltölulega nýfundin veiðisvæði, sem tiltölulega fáir Íslendingar þekkja, en vitanlega væri feiknarlega þýðingarmikið að fá haldgóðar upplýsingar um, og slíkar upplýsingar gætu komið þeim mönnum að stórkostlega miklu gagni, sem á þessar fiskislóðir þurfa að sækja á næstunni, og sparað óteljandi mikil útgjöld fyrir fiskiskipin.

Nefndinni þótti full ástæða til þess, þegar nú er gert ráð fyrir að hefja nokkurn undirbúning að því að gera hin svonefndu hagrænu landabréf í þágu atvinnuveganna, að þá yrði þó fyrsti áfanginn í því sá að snúa sér að gerð þessara fiskikorta, sem óumdeilanlega eru einn þýðingarmesti vettvangurinn í þessu efni fyrir okkar þjóð, og það ætti að standa nær okkur en margt annað að gera sjálfir kort af okkar dýrmætu fiskimiðum, en þurfa ekki að sækja upplýsingar um íslenzk fiskimið til erlendra þjóða.

Af þessum ástæðum hefur fjvn. Lagt til, að till. verði samþ. með þeirri breytingu, sem er að finna á þskj. 675 og felur það í sér, að ríkissjóði verði heimilað að verja 30 þús. kr. til þess að afla nauðsynlegustu upplýsinga um fiskimiðin umhverfis landið og til þess síðan að hefja undirbúning að gerð fiskikorta. Það er áreiðanlegt, að fyrir þessu er mikill áhugi meðal allra þeirra, sem til þekkja, og ég hygg, að það væri vel af stað farið í sambandi við gerð hinna hagrænu landabréfa að stíga þetta skref sem fyrsta skref í þessu máli. Fjvn. leggur sem sagt til, að till. verði samþ. með þeirri breytingu, sem er að finna á þskj. 675.