04.12.1953
Neðri deild: 33. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það þingmál, sem hér liggur fyrir, er frv. til l. um skipun innflutnings- og gjaldeyrismála, fjárfestingarmála o. fl. Í 15. gr. þess segir, að þau lög, sem nú gilda um þessi efni, það er l. nr. 70 frá 1947, um fjárhagsráð, innflutningsverzlun og verðlagseftirlit, skuli falla úr gildi, um leið og þetta nýja frv., ef það verður gert að lögum, kemur til framkvæmda.

Það er því rétt af þingmönnum að gera sér ljóst að hverju leyti ákvæði þessa frv. eru frábrugðin þeim lögum, sem nú gilda, þ.e. lögunum um fjárhagsráð. Ég vil nefna hér fyrst eftirlit með byggingum og öðrum slíkum framkvæmdum og takmarkanir í þeim efnum. Samkvæmt reglugerð um fjárhagsráð, sem út var gefin 1947 og enn gildir, eftir því sem ég bezt veit, er heimilt án fjárfestingarleyfis að gera mannvirki eða tæki, sem eigi kosta yfir 10 þús. kr., að byggja íbúðarhús til eigin afnota, þó ekki yfir 350 m3 að stærð, ef eigandi vinnur sjálfur með skylduliði sínu að byggingunni að mestu leyti, og að byggja verbúðir eða útihús á jörðum, sem eigi kosta yfir 50 þús. kr. í efni og vinnu. Í frv., sem hér liggur fyrir, segir, að frjálst skuli að byggja íbúðir allt að 520 m3 að stærð, einnig að byggja útihús á sveitabýlum og verbúðir og veiðarfærageymslur á útgerðarstöðum. Þá segir og, að aðrar framkvæmdir, er eigi kosta samtals yfir 40 þús. kr., skuli heimilar án fjárfestingarleyfa. Við samanburð sést, að samkvæmt frv. á að veita heimild til nokkru stærri framkvæmda án fjárfestingarleyfa en leyfilegar eru samkvæmt reglugerðinni, er nú gildir. En vafasamt má telja, að þörf sé nýrra laga til þess að gera slíka breytingu. Ég hygg og tel reyndar fullvíst, að eins hefði mátt breyta reglugerðinni um fjárhagsráð og ákveða á þann hátt þau stærðartakmörk framkvæmda, sem eru í 8. gr. þessa frv.

Það er vitanlega æskilegt, að menn hafi frelsi til að ráðast í byggingu húsa eða aðrar framkvæmdir, sem þeir telja sér nauðsynlegar eða til hagsbóta. En þó að slíkt frelsi sé lögleitt, eins og lagt er til í þessu frv. innan vissra takmarka, er langt frá því, að vandinn sé þar með leystur. Fleira þarf til slíkra hluta. Til þess að reisa hús þarf til dæmis land eða lóð undir það. Víðast hér á landi er það ekkert vandamál. En í höfuðborginni, Reykjavík, þar sem flestir vilja byggja, hefur verið miklum erfiðleikum bundið fyrir menn að fá byggingarlóðir. Til þess að byggja þarf líka peninga. Flestir þeir, sem þurfa að byggja hús, geta ekki komið því fram, nema þeir fái lánsfé að meira eða minna leyti til greiðslu á kostnaði, en þrátt fyrir allmikla fyrirgreiðslu ríkisstj. í því efni síðustu árin hefur vantað mjög mikið á, að eftirspurn lánsfjár vegna bygginga hafi verið fullnægt. Hætt er við, að svo verði einnig fyrst um sinn, þrátt fyrir vilja og viðleitni ríkisstj. til að greiða fyrir mönnum í því efni. Byggingarefni þarf líka að vera fáanlegt, svo að mögulegt sé að byggja. Enn þarf innflutnings- og gjaldeyrisleyfi fyrir helztu efnivörum til bygginga, og sá innflutningur er ekki gefinn frjáls með þessu frv. Að svo stöddu er ekkert hægt að fullyrða um það, hvort hægt verður að kaupa til landsins á næstu missirum allt það efni, sem þörf er fyrir til þeirra bygginga, sem mönnum er heimilt eða þeir fá leyfi til að reisa. Það fer auðvitað eftir gjaldeyrisástæðunum á hverjum tíma. Ef svo fer, að ekki verður hægt að flytja inn svo mikið af byggingarefnum, að eftirspurninni verði fullnægt, tel ég, að ekki megi láta afskiptalaust og tilviljun eina ráða, hverjir ná í byggingaretni og hverjir verða þar út undan. Ég vil í þessu sambandi t.d. nefna byggingu íbúðarhúsa. Þeim, sem byggja íbúðarhús, má skipta í tvo flokka: Í öðrum flokknum eru þeir, sem byggja hús aðeins til eigin nota, en í hinum flokknum þeir, sem byggja hús í því skyni að selja þau eða leigja öðrum og hafa af því fjárhagslegan hagnað. Sé skortur á byggingarefni, tel ég það skyldu ríkisstj. og vil ég leggja áherzlu á, að það sé skylda hennar að gera ráðstafanir til þess, að þeir, sem þurfa að byggja hús til eigin nota og hafa fé til þess, hafi forgangsrétt að byggingarefni til íbúðarhúsa, en hinir, sem eiga íbúðarhús fyrir sig og sitt skyldulið, en vilja byggja hús í gróðaskyni, séu látnir sitja á hakanum.

Búast má við því, að ýmsir erfiðleikar verði á vegi þeirra, sem vilja ráðast í húsabyggingar og aðrar slíkar framkvæmdir hér eftir eins og áður, og ekki verður um það sagt með nokkurri vissu, hvort þær framkvæmdir verða auðveldari eftirleiðis en þær eru nú, þó að þetta frv. verði gert að lögum. Enginn veit fyrir fram, hvernig tímar fara í hönd.

Ég vil þá með nokkrum orðum víkja að þáítum frv. um innflutnings- og gjaldeyrismál. Engar breytingar eru þar á þeim ákvæðum, sem nú gilda um þau mál að efni til. Samkvæmt 1. gr. frv. fer það eftir ákvörðunum ríkisstj. á hverjum tíma, hvaða vörur er heimilt að flytja til landsins og hvaða greiðslur í erlendum gjaldeyri má inna af höndum án innflutnings- og gjaldeyrisleyfa, en það er engin þörf nýrrar lagasetningar til þess að ákveða þetta. Á grundvelli fjárhagsráðslaganna, sem nú gilda, hafa verið gefnir út frílistar og reglur um innflutningsréttindi bátaútvegsmanna, sem stundum er nefnt bátalisti. Breytingar hafa verið gerðar á þessum vörulistum eftir því, sem viðskipta- og gjaldeyrisástæðurnar hafa gefið tilefni, og það væri líka hægt að gera hér eftir án þess, að nokkur lagabreyting ætti sér stað. Að vísu er það svo, að samkvæmt fjárhagsráðslögunum á fjárhagsráð að forminu til að gefa út auglýsingar um frílistann, en þó í samráði eða með samþykki ríkisstj., og vitanlega hefur ríkisstj. komið eða getað komið fram hverjum þeim breytingum á frílistanum, sem hún hefur talið fært og óskað að gera. Ákvæði frv. um gjaldeyrisverzlunina, einkarétt tveggja banka til þeirra viðskipta og önnur fyrirmæli þar um, eru nákvæmlega þau sömu að efni til og nú eru í lögunum um fjárhagsráð.

Við athugun á ákvæðum frv. um innflutningsog gjaldeyrismál kemur það greinilega í ljós, að frv., þó að lögum verði, markar engin þáttaskil í okkar viðskiptasögu, með því er ekkert skref stigið í áttina til meira verzlunarfrelsis. Það skiptir vitanlega engu máli, hvort reglugerð hæstv. ríkisstj. um innflutninginn, þar sem ákveðið er, hvaða vörutegundir séu á frílista, er sett samkv. lögunum um fjárhagsráð, sem nú gilda, eða samkv. þeim væntanlegu lögum, sem verið er að leggja drög að með þessu frv. Hvort tveggja, þ.e.a.s. núgildandi lög og þau væntanlegu, er jafnvel nothæfur grundvöllur til að byggja slíka reglugerð á.

Ég tel tvímælalaust æskilegast fyrir þjóðina, að hún búi við sem mest frelsi og helzt fullt frelsi á viðskiptasviðinu, en viss skilyrði þurfa að vera fyrir hendi til þess, að um ótakmarkað frjálsræði í þeim efnum geti verið að ræða. Það er rétt, sem áður hefur verið nefnt í ræðum um þetta mál, að aukin framleiðsla er hér undirstöðuatriði, en auk þess þarf, eins og líka hefur verið nefnt, jafnvægi í fjárhags- og peningamálum og greiðsluhallalausan ríkisbúskap. Án þeirrar stefnubreytingar í fjármálastjórn ríkisins, sem varð með komu nýrrar ríkisstj. 1950, hefði ekki verið mögulegt að slaka á verzlunarhöftunum, eins og gert hefur verið 2 síðustu árin. Hafi verið mörkuð einhver tímamót í þessum efnum, þá má nú segja, að þau hafi verið þá, en ekki nú. Ég veit ekki, og sennilega veit enginn það, hvort innan skamms verður slakað á verzlunar- og gjaldeyrishöftunum meira en búið er að gera, — gott að taka því, ef svo verður. Það fer eftir því, hvort viðskipta- og gjaldeyrisástæðurnar verða þannig, að hæstv. ríkisstj. sjái sér þetta fært, en það segir sig sjálft, að hvort við fáum aukið verzlunarfrelsi eða ekki, er alveg óháð því, hvort þetta frv. verður samþ. eða núgildandi lög látin gilda áfram.

Ég hef áður bent á, að þá rýmkun á svonefndum fjárfestingarhömlum, sem ráðgerð er í þessu frv., hefði sennilega og reyndar vafalaust eins mátt gera með breytingu á reglugerð, sem nú gildir og sett var samkv. lögunum um fjárhagsráð.

En hvaða efnisleg nýmæli hefur þá þetta frv. að geyma? Ég tel ekki umtalsvert, þótt stofnunin, sem á að fara með viðskiptamálin samkvæmt frv., eigi að heita innflutningsskrifstofa, en hin, sem nú er uppi, nefnist fjárhagsráð. Mér finnst að vísu nýja nafnið lágkúrulegra en hið eldra, en þó megi láta þetta afskiptalaust. En annað er ástæða til að nefna. í fjárhagsráðslögunum er ákveðið, að í fjárhagsráði skuli vera 5 menn, en arftaki þess, innflutningsskrifstofan, á ekki að hafa nema 2 stjórnendur. Til þess að koma fram þeirri fækkun stjórnenda þarf breytingu á lögum. Það er gott, ef unnt er að minnka mannahald og kostnað við rekstur þessarar stofnunar, en engu skal ég um það spá, hvort það tekst, þó að stjórnendum verði fækkað. Engar áætlanir liggja fyrir um kostnaðinn framvegis, enda stundum vart að treysta áætlunum, þótt til séu. Reynslan ein fær úr því skorið, hvort starfsmannahaldið í heild og kostnaðurinn við framkvæmd þessara mála minnkar eitthvað.

Samkvæmt lögunum um fjárhagsráð átti það að semja áætlanir um framkvæmdir og einnig áætlun um útflutning og innflutning hvers árs. En. eftir þessu frv. á Framkvæmdabankinn að semja áætlun um þjóðartekjurnar, myndun þeirra, skiptingu og notkun. Ekki er ólíklegt, að kostnaður við rekstur Framkvæmdabankans aukist nokkuð vegna þess verkefnis, sem honum er hér falið, og kemur það þá til frádráttar þeirri lækkun, sem verða kynni á kostnaði innflutningsskrifstofunnar.

Samkvæmt 8. gr. frv. á að fela byggingarnefndum í kaupstöðum og kauptúnum og oddvitum í sveitum eftirlit með nýjum framkvæmdum, sem fjárhagsráð hefur haft a.m.k. að nokkru leyti að undanförnu. Ekki er mér kunnugt, hvort til þess er ætlazt, að þeir aðilar annist þetta án þess að fá borgun fyrir eða hvort innflutningsskrifstofan þarf að greiða þeim einhverja þóknun fyrir eftirlitsstarfið.

Viðskipta- og gjaldeyrismálin eru þýðingarmikil, og það varðar miklu fyrir þjóðina, hvernig ástæður eru í þeim efnum á hverjum tíma. En frv., sem hér er verið að ræða, hefur fátt nýtt að flytja og er þannig langt frá því að vera stórt mál. Það er frekar eitt af þeim minni háttar hér á þingi. En úr því að hæstv. ríkisstj. óskar fremur að fá þetta frv. samþ. heldur en að byggja ráðstafanir sínar í viðskiptamálum á þeim lögum, er nú gilda, þá tel ég vel hægt að fallast á það. Og því er ég einn af þeim, sem hafa gefið út meirihlutaálit fjhn. og mælt þar með því, að frv. verði samþykkt.