10.04.1954
Sameinað þing: 47. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í D-deild Alþingistíðinda. (2954)

206. mál, togaraútgerðin

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég hafði, herra forseti, allríka ástæðu til þess að flytja hér nokkra ræðu í tilefni af ummælum þeirra tveggja hv. þm., sem talað hafa. Ég ætla þó að stilla mig um það, vegna þess að ég veit, að ef þetta mál á að ná fram að ganga, þá sker það ekki úr, hvað þeir segja hér eða hvort menn færa hér fram lengri eða skemmri rök. Það, sem sker úr, er, að þingtíminn leyfi, að við fáum þessa nefnd skipaða.

Ræða hv. 4. þm. Reykv. (HG) sýndi, að hann hefur fremur lítið kynnt sér þau gögn, sem fyrir hafa legið í málinu. Það er ekki fyrr en í þessari viku, að ríkisstj. fær skýrslur um afkomu meira en eins togara. Og í þessari viku fékk hún skýrslu um afkomu þrettán skipa og þó ófullkomna mjög.

Það, sem mér finnst einkenna þessar umr., er, að menn fjargviðrast yfir því, að ríkisstj. skuli ekki nú þegar bera fram úrræði og vita allt um þetta mál, sem til þess þarf að bera þessi skynsömu úrræði fram.

Hv. 11. landsk. sagði, að nefndin gæti ekki skilað áliti fyrr en í haust. Af hverju þá? Er þetta rannsóknarefni svo viðurhlutamikið, að það verði ekki brotið til mergjar á skemmri tíma? En ef það er rétt, hver má þá ætlast til þess af Alþ. eða jafnvel hinni alvitru ríkisstj., að þessir aðilar geti krufið það til mergjar nú á þessu þingi? Ég leyfi mér að leiða athygli að því, að ég er ekki alveg viss um, hvort útgerðarmenn sjálfir hafa gert sér fulla grein fyrir, hvaða vandi er á höndum. Að minnsta kosti veit ég eitt, og það er, að þeim hefur ekki komið saman um nein úrræði í þessum efnum. Þeir útgerðarmenn, sem komu á fund ríkisstj., töluðu um bátagjaldeyri og einhver svipuð fríðindi eins og bátaflotinn nýtur. Hv. 11. landsk., sem hefur nú undirritað bréf til ríkisstj. fyrir hönd útgerðarmannanna ásamt tveim öðrum mönnum, ber hér fram á Alþ. allt aðra till., og það er ekki nema von, að ríkisstj. þurfi einhvern tíma til að átta sig á, hverjar af þessum till., sem útgerðarmennirnir eru að rífast um innbyrðis, séu skynsamlegar.

Útúrsnúningar hv. 4. þm. Reykv. eru tæplega svaraverðir. Hann spyr, hverjum nefndin eigi að benda á úrræði, rétt eins og það væri álitamál, hvort þingnefnd skilaði áliti til ríkisstj. eða t. d. kölska.

Ég verð svo, herra forseti, að stilla mig um að gera þær athugasemdir, sem þessar ræður hafa gefið tilefni til, vegna þess, hve áliðið er nú fundartíma, og ég veit, að hæstv. forseti hefur gert það til að reyna að þoka málinu áleiðis að halda nú fund lengur en venja er og nokkuð komið fram á matartíma.

En ég vil segja það um ræðu hv. 11. landsk. að lokum, að hann talaði hér aðallega eins og hann væri að tala í þeirri nefnd, sem ég get vel hugsað mér að hans flokkur mundi kjósa hann í, með mikinn fróðleik þeim til handa, sem hann veit að þurfa á honum að halda. En einmitt hans ræða sannar bezt, að það þarf á margvíslegum fróðleik að halda, áður en menn geta tekið ákvarðanir í þessum efnum.

Ég lýk svo, herra forseti, mínum ummælum með því að segja, að þetta er orðið dálítið spaugilegt, þegar hér stendur umboðsmaður Sósfl. og umboðsmaður Alþfl. og ráðast grimmúðlega á sjútvmrh. fyrir það, að hann hafi engan áhuga í þessum efnum, vitandi þó það, að enginn alþm. á sína afkomu jafnt undir því, að ekki sé látið afskiptalaust, hvort þessi mikilvægi atvinnuvegur landsmanna hrynur í rúst eða ekki. Ég tel mig auk þess eiga nokkurn þátt í því, að nýsköpunarflotinn var keyptur til Íslands, og hvernig í ósköpunum getur mönnum dottið í hug, að mér sé alveg sama, hvort þessi atvinnurekstur leggst í rúst almennt talað? En menn verða að skilja, að það er ekki auðið fyrir okkur að ganga lengra inn á götur bátagjaldeyrisfríðinda heldur en búið er að gera. Menn verða einnig að skilja, að ef þessi burðarás í atvinnulífi þjóðarinnar bregzt, ef á að fara að gera sérstakar ráðstafanir honum til framdráttar með fríðindum á kostnað annarra landsmanna, þá verða áður að liggja fyrir skýrslur byggðar á rannsókn og ekki reistar bara á ummælum útgerðarmanna sjálfra og dómi sjútvmrh., sem á allt sitt undir, að útgerðin gangi sæmilega. Þetta er alveg eðlilegt sjónarmið og alveg eðlileg framkoma af minni hendi, en ég vil ekki, að nokkur maður væni mig um það, að ég beri kaldan hug til þessa atvinnurekstrar, enda trúi ég því ekki, að nokkrum manni detti það í hug.

Ég leyfi mér, herra forseti, að mælast til, að till. þessi verði afgreidd án nefndar.