13.04.1954
Sameinað þing: 49. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í D-deild Alþingistíðinda. (2958)

206. mál, togaraútgerðin

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram brtt. við þessa till. til þál. um athugun á hag togaraútgerðarinnar og raunar tvær, aðalbrtt. á þskj. 825, og er það nokkur umorðun á þáltill.

Þessi till. mín miðast við, að það þurfi ekki sérstaklega miklar rannsóknir á hag togaraútgerðarinnar til þess að komast að niðurstöðu um, að það sé verulegra umbóta þörf. Ég held, að staðreyndirnar, sem blasa við okkur nú, tali það skýru máli, að raunverulega sé ekki höfuðatriðið í sambandi við afgreiðslu á svona stórmáli núna rannsóknin ein, heldur hljóti hitt að vera höfuðatriðið, að benda á úrræðin og verða sammála um þau. Þær staðreyndir t. d., sem blasa við okkur nú um hag togaraútgerðarinnar, eru, að tveir af togurum Bæjarútgerðar Reykjavíkur eru nú þegar bundnir, þ. e. fjórði hlutinn af togurum bæjarútgerðarinnar, þeirrar stærstu, sem til er í landinu, er þegar bundinn hér í Reykjavík. Ég býst ekki við, að það sé nokkur hv. þm., sem álítur, að Bæjarútgerð Reykjavíkur fari að binda sína togara, nema því aðeins að það sé af einhverjum ástæðum gersamlega óhjákvæmilegt. Hins vegar býst ég við, að það þyrfti ekki að spyrja nema framkvæmdastjórana í bæjarútgerðinni að því, hvaða togarar það séu sem stendur, sem borga sig bezt hjá henni. Ég býst við, að hún mundi samstundis svara, að það eru þeir, sem væru bundnir. Reikningslega séð eru það áreiðanlega þeir, sem borga sig bezt. Það er sem sé ekki nokkur efi á því, að það er tap á togaraútgerðinni og það mikið tap og vaxandi tap.

Hins vegar blasir svo sú staðreynd við okkur, að sjómennirnir ganga í land og það fyrst og fremst vönustu sjómennirnir og reyndustu sjómennirnir og um leið dýrmætustu sjómennirnir, þannig að togararnir geta vart gengið, það er vart hægt að reka þá lengur, vegna þess að það vantar á þá sjómenn, íslenzka sjómenn. Og af hverju ganga sjómennirnir í land? Af því að launakjörin eru orðin gersamlega óviðunandi. Einmitt þegar togararnir eru reknir til þess að afla fisks til þess að vinna úr hér innanlands, þá eru launakjörin á þeim gersamlega óviðunandi, enda líka nú þegar samþ. af sjómannafélögunum að segja upp samningum, þannig að hafa það í hendi sér, í hvaða mánuði togararnir kynnu að verða stöðvaðir. M. ö. o.: Við stöndum frammi fyrir því, að annars vegar tapar togaraútgerðin, þannig að þeir, sem eiga togarana, treysta sér vart til að reka þá, og hins vegar eru sjómennirnir að ganga í land af togurunum vegna þess, að launakjörin á þeim eru gersamlega óviðunandi. Ég veit ekki, hvernig staðreyndirnar ættu að geta talað skýrara máli heldur en þessu um, hve gersamlega óviðunandi það ástand sé, sem nú er í málum togaraútgerðarinnar, og ég vil minna á það um leið, að það, að vélbátaútvegurinn gengur, stafar af því, að það er greiddur til hans styrkur frá almannafé, 80 millj. kr. á ári, og þessi styrkur hefur skapað þá hugmynd hjá sumum mönnum, að vélbátaútgerðin borgi sig eitthvað betur á Íslandi nú sem stendur heldur en togaraútgerðin, sem er náttúrlega algerlega rangt. Togaraútgerðin er rekin styrklaust, og jafnvel þótt tap á henni væri á árinu máske milli 20 og 30 millj., þá kostar hún almannafé miklu minna heldur en vélbátaútgerðin gerir núna.

Hins vegar er með þessu ástandi í þjóðfélaginu, sem núna er, verið að skapa hringlandi vitlausa afstöðu hjá fólkinu almennt til þess gildis, sem togaraútgerðin hefur fyrir okkur, gagnvart því gildi, sem vélbátaútvegurinn hefur, og er ég þó ekki að lasta hann. Það er farið að tala um það nú, að togararnir borgi sig ekki. Það er farið að tala um það nú, að það sé bezt að hætta togaraútgerð á Íslandi. Það koma jafnvel í blöðum tilskrif frá mönnum um það, að það sé bezt að fara að selja togarana úr landi. Það er rétt eins og þjóðinni sé ekki enn þá orðið það ljóst, að togaraútgerðin er sá burðarás, sem á hvílir atvinnulíf Íslendinga, öll afkoma Íslendinga, allur íslenzkur ríkisbúskapur og öll sú lífsafkoma, sem vinnandi stéttirnar og almenningur ekki síður en borgarastéttin eiga við að búa á Íslandi. Ég þarf ekki nema að minna á eina einustu tölu í sambandi við það, sem oft hefur verið nefnd hérna áður. Það er sú gífurlega afkastageta, sem við Íslendingar höfum við okkar veiðar, okkar sjómenn afkasta meiru á mann á veiðum heldur en nokkrir aðrir sjómenn veraldarinnar. Eins og hv. þm. vita, þá er meðaltalið, að á hvern íslenzkan sjómann séu veidd 70 tonn af fiski. Næsta land, sem kemur á eftir, — ég býst við, að það sé Noregur, — er með 10 tonn af fiski á sjómann. Við erum sjöfalt hærri og langhæsta land veraldarinnar. Hvað er það, sem gerir það, að við stöndum svona hátt í þessu, að okkar afkastageta er svona mikil? Við skulum taka t. d. bezta togarann í ár. Afkastageta sjómannsins á honum er 230 tonn af fiski. Einn einasti sjómaður framleiðir það, og það er þessi háa framleiðslugeta sjómannanna á togurunum, sem gerir það að verkum, hvað meðaltalið verður hátt fyrir íslenzkan útveg í heild. Togararnir eru langsamlega afkastamestu tæki, sem við eigum á sjó og landi, og með því að fá okkur duglegu sjómönnum þessi tæki til þess að nota við okkar góðu fiskimið, þá getum við skapað þá lífsafkomu, sem til er á Íslandi. Það er nauðsynlegt, að menn geri sér þetta ljóst, og það væri nauðsynlegt, að fólkið almennt væri uppfrætt betur um þetta, þegar aðrir eins hlutir koma fram og þeir, að togaraútgerðin borgi sig ekki fyrir þjóðina og það sé bezt að fara að selja togarana úr landi eða leggja þeim. — togaraútgerðin, sem borgar sig bezt fyrir þjóðina.

Þó að togaraútgerðin beri sig ekki fjárhagslega, þá ber hún allt okkar þjóðarbú uppi. Þetta er það, sem ég vildi undirstrika, og þess vegna geri ég það þarna að minni brtt., að þessi nefndarskipun sé miðuð við að aðstoða ríkisstj. við að leysa þessi vandamál, m. ö. o. ekki að setjast niður til þess að rannsaka og rannsaka og semja langa og stóra doðranta, sem þm. er úthlutað eftir nokkurn tíma og enginn þeirra síðan lítur í, heldur að aðstoðaríkisstj. við að finna nú þegar leiðir til þess að bjarga togaraútgerðinni og fara þær leiðir. Mér sýnist einmitt á till. hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstj., að meiningin hjá hæstv. ríkisstj. sé að reyna að skapa samstarf á milli allra flokka þingsins og ríkisstj. um þetta mál, og undir það vil ég taka, og við það miða ég líka þessa brtt., en bæti því aðeins við, að þessi n., sem kosin sé, eigi að vinna að því í samráði við ríkisstj. að gera tafarlausar ráðstafanir til þess að tryggja hallalausan rekstur togaraútgerðarinnar og að það fáist jafnan íslenzkir sjómenn til starfa á togaraflotanum. Síðan bendi ég á, eins og við höfum raunar áður gert og ég þarf ekki að ítreka sérstaklega. hvaða leiðir skuli fara, þ. e. lækkun á olíuverði, lækkun á bankavöxtum o. s. frv. Þessar leiðir liggja í augum uppi. Þær eru einu leiðirnar, sem hægt er að fara í þessu. Svo framarlega sem menn eru sammála hæstv. forsrh. um það, sem hann lýsti hér yfir fyrir nokkru, að það komi ekki til mála að fara að útbúa togaragjaldeyri og fella þannig gengið, þá eru þetta einu leiðirnar, sem hægt er að fara, að skera niður eitthvað af þeim gróða, sem einokunarvaldið í landinu hefur. Þetta einokunarvald er of þungt, það er of þungt á togurunum hjá togaraútgerðinni, og það er að drepa hana, og það er meira að segja bezt fyrir það sjálft, ef það á að lifa áfram að einhverju leyti, að togaraútgerðinni sé bjargað.

Ég held þess vegna, að það verði að láta bæði bankana og olíuhringana, vátryggingarfélögin og önnur slík finna, að það verður að skera niður þann kostnað, sem allir þessir aðilar yfirleitt heimta núna af útgerðinni.

Ég álít, að hættan, sem vofir yfir, sé sú, að nú þegar í maílok verði megininu af okkar togurum lagt. Það eru sum félög búin að segja upp yfirmönnunum á skipunum nú þegar. Undirmönnunum er hægt að segja upp, þ. e. hásetunum, með skömmum fyrirvara. Það er nú þegar búið að leggja tveimur af togurum Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Fátæku bæjartogaraútgerðirnar úti um land berjast í bökkum. Það var ekki meiningin, þegar þessir togarar voru keyptir og þeim var úthlutað til bæjarútgerðanna úti um land til þess að skapa stórútgerð á stöðum, þar sem hún hafði ekki verið áður, að þetta endaði með því, að þessar bæjarútgerðir yrðu brotnar niður fjárhagslega, togararnir teknir af þeim og kannske seldir til einhverra og einhverra einkaaðila, en það er það, sem stefnir að, svo framarlega sem svona er haldið áfram eins og nú er. Það vofir yfir þjóðinni, að togararnir stöðvist, jafnvel að sú alda fari að rísa, að það eigi að fara að selja togarana úr landi; enn fremur að bæjarútgerðirnar, þetta mjög ánægjulega fyrirbrigði, sem skapazt hefur, og ein eftirtektarverðasta sjálfsbjargarviðleitni smábæjanna úti um land, — að þessar bæjarútgerðir verði brotnar fjárhagslega á bak aftur. Það er þetta, sem vofir yfir, ef ekkert er nú að gert. Ég álít þess vegna, að hér þurfi að gripa í taumana. Það sé ekki nóg, eins og hæstv. ríkisstj. leggur til, að n. aðeins athugi hag togaraútgerðarinnar og ef hún sjái ástæðu til að lokinni rannsókn, þá bendi hún á úrræði. Það, sem n. þarf að gera, er að vinna með ríkisstj. að því, að úrræðin séu framkvæmd nú þegar.

Ég vil leyfa mér að vona, að hæstv. ríkisstj. og hv. þm. geti gengið inn á þessa aðalbrtt. mína. Hin brtt. á þskj. 535 er miklu smærri. Það er aðeins um, að 7 manna n. sé til vara. Það er að vísu ekki sérstaklega þýðingarmikið, getur þó verið þægilegt, en er að vísu líka hægt að framkvæma það máske án þess, að till.samþ. um það.

Ég vil svo leyfa mér að vona, að hv. þm. geti fallizt á þessa brtt., og með því mundi þó vera skilizt þannig við þetta mál nú á þinginu, að það væri bent á úrræði og ríkisstj. og fulltrúum Alþ. raunverulega falið vald til þess að framkvæma þau úrræði. Þá mundi þingið sem sé skiljast vel við þessi mál. Hitt aftur á móti, að setja málið aðeins í n., það vitum við því miður venjulega hvað þýðir.