04.12.1953
Neðri deild: 33. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (296)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Ég hef flutt hér nokkrar brtt. við þetta frv., sem frammi liggur, ýmist einn eða með hv. 11. landsk. þm., og áður en ég geri grein fyrir þeim, vil ég aðeins fagna því, að fram hefur komið hér í ræðum beggja hv. þm. Húnv., að þeir sjái ekki, að þetta frv. sé nein frelsisskrá íslenzkra verzlunarhátta, eins og sumir af hæstv. ráðherrum, einkum forsrh. og reyndar líka hæstv. viðskmrh., hafa viljað vera láta.

Ég lýsti því hér við 1. umr. málsins, að ég hafði ekki komið auga á það, að í frv. væru nein þau ákvæði, sem líkleg væru til þess að auka frelsi manna að nokkrum mun til framkvæmda eða verzlunar á þessu landi, að undanskilinni 1. málsgr. 8. gr. frv., þar sem segir, að frjálst skuli vera að byggja íbúðarhús, þar sem hver íbúð ásamt tilheyrandi geymslu, þvottahúsi og þess háttar sé allt að 520 m3. Ég vil í þessu sambandi geta þess, að ég álít enn þá, að þarna sé um að ræða framför, og fagna þessu atriði. — Í sambandi við ummæli hv. 8. landsk. þm., þar sem hann taldi sig þurfa að leiðrétta ummæli stjórnarandstæðinga, og þá væntanlega mín líka, um, að hér væri nokkurt frelsi í fólgið eða nokkur framför, þá vil ég taka fram, að ég tel ekki, að það sé nein ástæða til þess að leiðrétta það, sem ég hef áður sagt um þetta mál. Ég hef ábyggilega nóg að skamma hæstv. ríkisstj. fyrir, þótt ég viðurkenni það, sem miðar í áttina hjá henni, Þetta eru framfarir.

Eins og hv. þm. V-Húnv. tók hér fram áðan, þá voru í gildi og eru í gildi reglur um, að íbúðarhús er ekki frjálst að byggja stærri en 350 m3, eins og er, jafnvel þó að einhverjar undanþágur hafi verið gefnar um kjallara, eins og hv. 8. landsk. þm. vildi vera láta, en mér er ekki kunnugt um að séu veruleg brögð að, þá er það þó a.m.k. nokkur réttindabót, að menn fá þó að ráða því, hvort þeir byggja ofan jarðar eða neðan.

Hins vegar skal ég taka fram, að ég álít það einn höfuðgalla á þessu frv., að það tekur eingöngu til innflutningsverzlunarinnar, en ekki til útflutningsverzlunarinnar, og þess vegna hef ég leyft mér að bera fram á þskj. 241 brtt. um það, að útflutningurinn skuli fá hliðstætt frelsi því, sem talað er um að innflutningurinn eigi að fá hér í 1. gr. frv., þ.e.a.s., að útflutningur á íslenzkum framleiðsluvörum skuli vera frjáls innan þeirra takmarka, sem ríkisstj. setur með reglugerð hverju sinni til tryggingar því, að milliríkjasamningar um afurðasölu verði haldnir, og einnig að ríkisstj. geti gefið út ákvæði um lágmarksverð á íslenzkum afurðum til þess að fyrirbyggja, að um samkeppni verði að ræða í því að bjóða niður afurðaverð Íslendinga á erlendum markaði.

Hæstv. viðskmrh. taldi hér í ræðu sinni áðan, að útflutningi Íslendinga væri nú hagað í samræmi við óskir framleiðendanna og þar af leiðandi væri ekki þörf á að breyta neinu um þær reglur, sem nú gilda í þeim efnum. Þessu vil ég fyrir mitt leyti mótmæla. Það er að vísu alveg rétt, að útflutningnum er hagað í samræmi við vilja og álit ráðamannanna í Sambandi ísl. fiskframleiðenda og öðrum álíka samböndum, en ráðamennirnir í þessum samböndum eru einmitt sérstakir vildarvinir hæstv. ríkisstj., og þó að það sé þeirra álit, að útflutningi Íslendinga sé hagað upp á beztan máta, eins og er, þá er það ekki álít hinna almennu framleiðenda í landinu. Að því er snertir sjávarafurðir, þá vil ég minna hæstv. viðskmrh. á það, að samkvæmt þeirri almennu hlutaskiptingu, sem í landinu gildir um sjávarafla, a.m.k. á vélskipum, þá eru íslenzku sjómennirnir eigendur og í samræmi við það framleiðendur að þriðjungi af fiskaflanum. Þeir hafa hins vegar ekki nokkur minnstu réttindi í þeim samtökum, sem annast útflutning íslenzkra sjávarafurða með einkaleyfi ríkisstj., eins og málum er háttað. En setjum nú svo, að ráðherrann hefði sagt alveg satt, þegar hann sagði það, að útflutningnum væri hagað í samræmi við óskir framleiðenda, eins og nú er háttað málum, þá sé ég nú ekki, að það gæti neinu spillt, þó að till. mín á þskj. 241 við 1. gr. þessa frv. yrði samþ. Þar er aðeins sagt, að útflutningurinn skuli vera frjáls. Ef hann er í samræmi við það, sem framleiðendurnir, smáir og stórir, óska eftir, þá verður auðvitað engin breyting á þessu. En sé það hins vegar rangt, sem ráðherrann segir, — og ég leyfi mér eindregið að halda því fram, — þá má vænta nokkurra breytinga á útflutningnum, og ef hæstv. ríkisstj. meinar eitthvað með því tali sínu um frelsi, sem hún hefur viðhaft hér í sambandi við flutning þessa frv., þá held ég, að hún gæti einmitt þjónað þeirri frelsishugsjón sinni með því að samþ. þá brtt., sem ég hef hér lagt fram.

Þá skal ég geta þess, að við 8. gr. frv. hef ég gert brtt., sem fer í þá átt, að þrjár síðustu málsgr. 8. gr. falli niður, en það eru málsgr., sem kveða svo á, að byggingarnefndir í kaupstöðum og kauptúnum og oddvitar í sveitum skuli taka upp eftirlit fyrir stjórnarvöldin og fylgjast með því, hverjar byggingarframkvæmdir séu á þeirra umráðasvæði. Ég tel, að þetta sé ekki í samræmi við það, sem eðlilegast væri. ríkisvaldið heldur sjálft uppi dómgæzlu, lögregluþjónustu og opinberu eftirliti í hvívetna, sem samkvæmt því frv., sem hér liggur frammi til fjárl., er reiknað með að muni kosta á næsta ári 281/2 millj. kr., þ.e.a.s. nálægt því 200 kr. á hvert einasta mannsbarn í landinu. Með þessu kerfi álít ég að ríkisstj., eigi að geta haft eftirlít með þessu. Sveitarstjórnir og bæjarstjórnir eru kosnar fyrst og fremst til þess að vera fulltrúar fólksins í viðkomandi byggðarlögum, ekki sízt gegn ríkisvaldinu, og vaka yfir hag fólksins. Ríkið hefur ekki fyrr, svo að ég viti, litið á bæjarstjórnir og byggingarnefndir né oddvita í sveitum sem lögreglumenn, og þess vegna er alveg rangt að leggja eftirlitið á herðar þessara aðila. Þess vegna hef ég lagt til í mínum brtt., að þessi hluti 8. gr. verði felldur niður, og ég verð þá jafnframt að mælast til þess við hæstv. forseta, þegar gr. kemur til atkv., að hún verði borin upp í tvennu lagi. Ég fyrir mitt leyti get með mikilli ánægju greitt 1. málsgr. hennar atkv., en er mjög andvígur þrem þeim síðustu.

Ég hef einnig lagt til, að 9. gr. þessa frv. verði felld niður. Það er greinin, sem felur Framkvæmdabanka Íslands að hafa eftirlit með fjárfestingunni. Ég hef áður lýst því yfir, að það er mín skoðun, að Framkvæmdabanki Íslands sé fyrst og fremst amerísk stofnun, sem komið er á fót fyrir erlend tilmæli, og það eigi ekkert skylt við íslenzk málefni að fela þeirri stofnun eftirlit með því máli, sem hér um ræðir.

Þá hef ég að lokum á þskj. 241 lagt til, að gjald það, sem talað er um í 12. gr. frv., verði einungis 1/2% í staðinn fyrir, að þar er það ákveðið 1%. Þetta er gjald, sem á að innheimta af innflutnings- og gjaldeyrisleyfum. Í lögunum um fjárhagsráð er gjald þetta ákveðið 1/2 %, og það miðar a.m.k. ekki í frelsisátt að hækka það. Mér er kunnugt um, að með lögunum um söluskatt er gert ráð fyrir því, að þetta gjald sé tvöfaldað, þannig að í reyndinni er það 1%, eins og nú standa sakir. En í þessu sambandi vil ég benda á það, að lögin um söluskattinn, sem tvöfalda þetta gjald, eru aðeins tímabundin til árs í senn, og með því að samþ. þessa frvgr. eins og hún liggur hér fyrir, mundi því vera slegið föstu, að gjaldið ætti varanlega að hækka þannig, að það tvöfaldist. Þess vegna legg ég til, að gjaldið verði eins og í fjárhagsráðslögunum ekki ákveðið hærra en 1/2%.

Ég vil geta þess einnig, að ég ásamt hv. 11. landsk. þm. flyt hér brtt. við 8. gr. til þess að auka þau ákvæði, sem heimila byggingarframkvæmdir án sérstakra leyfa. Sú brtt. okkar er á þskj. 186 og fer í þá átt, að auk þeirra ákvæða, sem talin eru í 8. gr., verði einnig frjálst að byggja fiskgeymsluhús og fiskverkunarhús og aðrar nauðsynlegar byggingar í sambandi við sjávarútveginn án sérstakra leyfa. Ég geri ráð fyrir því, að hæstv. ríkisstj. hafi ekkert við þessa brtt. að athuga, og geti fallizt á samþykkt hennar. Í frvgr. er nú reyndar talað um, að veiðarfærageymslur og verbúðir skuli vera undanþegnar því að þurfa sérstaks leyfis, en það eru einmitt ekki fyrst og fremst þess háttar hús, sem sjávarútveginn vanhagar mest um núna, heldur fiskgeymsluhús, ekki sízt í sambandi við hina nýtilkomnu skreiðarverkun, sem virðist ryðja sér óðfluga til rúms. Fyrir skreiðina eru sáralítil og á sumum stöðum alls engin geymsluhús til, og liggur þess vegna beint fyrir, að þau hús verður að byggja á næstunni. Ég tel því í alla staði eðlilegt, að þessu verði bætt við gr., sem hér er lagt til á þskj. 186.