13.04.1954
Sameinað þing: 49. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í D-deild Alþingistíðinda. (2965)

207. mál, kosningar til Alþingis og lög um sveitarstjórnarkosningar

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Á þskj. 360 fluttum við 4 þm. till. til þál. um skipun nefndar til þess að gera tillögur um takmörkun á heimild stjórnmálaflokka til þess að nota fé í sambandi við kosningar og kosningaundirbúning. Þessari till. var vísað til hv. allshn. Sþ., og lagði hún til, að till. yrði breytt. Brtt. hv. allshn. var þannig, með leyfi hæstv. forseta, að fyrri málsgr. till. skyldi orðast svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að skipa eftir tilnefningu þingflokkanna 5 manna nefnd til þess að endurskoða lög um kosningar til Alþingis og til þess að athuga og gera tillögur um kjördæmaskipunina.“

Gerði hv. form. allshn., hv. 1. þm. Eyf. (BSt), glögga grein fyrir skoðun nefndarinnar á málinu og rökum hennar fyrir því að breyta till. í þetta horf. En nefndin var á einu máli um að mæla með samþykkt till. svo breyttrar. Nú brá hins vegar svo við, þegar till. var til umræðu á síðasta fundi í Sþ., að umræðum var frestað, en í þess stað var nokkru síðar útbýtt till. til þál. um kosningu nefndar til að endurskoða lög um kosningar til Alþ. og lög um sveitarstjórnarkosningar. Munurinn á þessari þáltill. og till. allshn. er sá, að í síðari þáltill. er gert ráð fyrir kosningu 7 manna nefndar, en í till. allshn. er gert ráð fyrir því, að ríkisstj. skipi 5 manna nefnd eftir tilnefningu þingflokkanna. Að öðru leyti er ekki um efnismun á tillögunum að ræða.

Ég tel að mörgu leyti eðlilegra að hafa þann hátt á, sem hv. allshn. lagði til að hafður væri, þ. e. a. s., að nefndin væri skipuð 5 mönnum aðeins og að allir flokkar þingsins ættu fulltrúa í þeirri nefnd. Þess vegna hef ég leyft mér ásamt þeim sömu mönnum og fluttu upphaflegu þáltill. um takmörkun á heimild stjórnmálaflokka til þess að nota fé í sambandi við kosningar og kosningaundirbúning að flytja brtt. við þáltill. um það, að hún verði orðuð eins og hv. allshn. hafði lagt einróma til, og vonum við, að þessi brtt. við þáltill. hv. þm. N-Þ. o. fl. hljóti stuðning, fyrst sú hugmynd, sem þar liggur til grundvallar, átti einróma fylgi í hv. allshn.

Það er ástæðulaust að hafa nefndir fjölmennari en brýn þörf gerist, og það er eðlilegt, að allir flokkar þingsins geti látið skoðanir sínar í ljós í sambandi við þá endurskoðun, sem hér er lagt til að fari fram.

Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um málið til þess að verða ekki til þess að tefja þingstörf að nauðsynjalausu á síðasta starfsdegi þingsins.