13.04.1954
Sameinað þing: 49. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í D-deild Alþingistíðinda. (2968)

207. mál, kosningar til Alþingis og lög um sveitarstjórnarkosningar

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Ég var satt að segja dálítið hissa á því, þegar ég sá dagskrána fyrir þennan fund, að till. sú, sem var hér á dagskrá í gær, till. á þskj. 360, skyldi ekki vera á dagskránni, en nýlega fram lögð þáltill. um mjög skylt efni var hins vegar komin hér á dagskrána. Hv. 1. landsk. hefur rakið nokkuð forsögu þeirrar till., sem liggur fyrir á þskj. 360, og skal ég ekki endurtaka það, aðeins minna á, að sú till. fjallar, eins og hún er úr garði gerð frá hálfu allshn., í meginatriðum um sama efni og hin nýja þáltill., sem hér er til umræðu. Það er því mishermt hjá hv. þm. A-Húnv., að hér sé verið að blanda saman algerlega óskyldum málum. Það virðist a. m. k. auðsætt, að hin nýja þáltill. er borin fram fyrst og fremst í þeim tilgangi að gera óþarfa till. á þskj. 360 eða réttara sagt brtt. allshn. við þá till., og eina ástæðan, sem virðist liggja til þess, að þarna er komin fram ný till. um svo að segja sama efnið, þ. e. a. s. endurskoðun á lögum um kosningar til Alþingis, virðist vera sú, að það eigi að útiloka með hinni nýju till., að allir þingflokkarnir fái fulltrúa í þeirri nefnd, sem á að kjósa til þess að endurskoða kosningalögin. Það er a. m. k. ekki hægt að sjá, að tilgangurinn sé neinn annar.

En í sambandi við þetta vil ég minna á það, að þetta er gagnstætt þeirri venju, sem hefur a. m. k. stundum verið látin gilda um hliðstæð mál, þegar átt hefur að endurskoða til að mynda stjórnarskrána. Ég veit ekki betur en að síðasta stjórnarskrárnefnd hafi verið þannig skipuð, að það hafi verið í hana tilnefndir 2 menn frá hverjum þingflokkanna. (Gripið fram í: Að minnsta kosti einu sinni.) Já, ef til vill ekki síðasta nefndin, — ég þori ekki að fullyrða það. — en það hefur verið gert, að þingflokkarnir hafa fengið að velja jafnmarga fulltrúa í slíka nefnd án tillits til stærðar þeirra, og rökstuðningurinn fyrir þeim hætti er að sjálfsögðu sá, að í slíkri nefnd, sem á að rannsaka mál og undirbúa tillögur, sé eðlilegt og gott fyrir allra hluta sakir, að sem flest sjónarmið komi fram. að sem flestir aðilar hafi aðstöðu til að leggja það til málanna, sem þeir hafa fram að færa.

Eins og hv. 1. landsk. lýsti hér áðan, höfum við hinir sömu þm. sem bárum fram till. þá, sem er á þskj. 360, leyft okkur að bera fram sem brtt. við þá till., sem hér liggur fyrir, alveg óbreytta brtt. hv. allshn., sem prentuð er á þskj. 503.

Ég vil vænta þess, að hv. alþm. líti á þetta mál af fullri sanngirni og geti sætzt á þá afgreiðslu, að sú till. verði samþ. og þar með tryggt, að allir þingflokkar hafi aðstöðu til þess að koma að sínum skoðunum og sjónarmiðum í sambandi við þá endurskoðun á kosningalöggjöfinni, sem hér er fyrirhuguð.