13.04.1954
Sameinað þing: 49. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í D-deild Alþingistíðinda. (2972)

207. mál, kosningar til Alþingis og lög um sveitarstjórnarkosningar

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég held, að það megi endalaust deila um það, þegar till. eða frv. er breytt verulega, hvort það sé nýtt mál eða ekki. Það hefur víst tvisvar verið úrskurðað, eftir að breytingar hafa verið gerðar á máli, að þetta væri orðið nýtt mál, en meðferð þess máls eftir það hefur orðið að hreinni vitleysu. M. a. hefur slíkt mál, sem kallað var nýtt mál, verið tekið til umræðu í eitt skipti, án þess að nokkur væri flm. þess nýja máls. svo að ég held, að það fái ekki staðizt hjá hv. þm. Barð., að allshn. þingsins hafi með sinni till. gert till., sem fyrir lá, að nýju máli.

Hv. þm. heldur því fram, að meginatriðið í till. hafi verið endurskoðun á ákvæðum um mútur í kosningum. Það var nú ekki orðað svo í tillögunni, heldur misnotkun fjár. Misnotkun fjár í kosningum getur verið fleira en beinar mútur. En till. var líka um það að skipa mþn. til þess að athuga þann hátt kosningalaganna, sem um þetta fjallar. Það má því líta svo á, að till. um skipun n. hafi verið annað meginatriðið. Allshn. lízt, að það sé réttara að fara ekki nánar út í það, hvaða verkefni mþn. eigi að hafa, heldur eigi hún að endurskoða öll kosningalögin. Það er vitanlega sama málið. Sú nefnd gat auðvitað og átti alveg eins að taka þann kafla kosningalaganna til athugunar, sem fjallaði um óleyfilegan kosningaáróður, eins og önnur atriði kosningalaganna. Þess vegna var þetta vitanlega alveg sama málið, þó að till. allshn. hefði verið samþykkt við þá till., sem hún hafði til meðferðar. Ég fæ ekki betur séð en að þó að þessi till. sé tekin upp sem brtt. við þá till., sem hér liggur fyrir, þá sé það líka sama málið og enn fremur sama málið, því að þessi till., sem fyrir liggur, er ekki um annað en það að skipa mþn. eða kjósa mþn. til þess að endurskoða kosningalög til Alþ. og kosningalög bæjar- og sveitarstjórna. Þó að það komi fram brtt. um það, hvernig n. skuli vera saman sett, er það auðvitað fjarstæða að láta sér detta í hug, að það sé annað mál fyrir það, þó að brtt. allshn. væri nú samþ. sem brtt. við þá till.. sem fyrir liggur.

Till. sú, sem allshn. fjallaði um, og till. sú, sem hér liggur fyrir, eru í raun og veru um sama málið, þótt þær tvær till. séu ekki sama þingmál, en það er vitanlega að mínu viti alveg heimilt að bera upp hvaða brtt. sem er innan ramma þeirrar till., sem fyrir liggur.