13.04.1954
Sameinað þing: 49. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í D-deild Alþingistíðinda. (2973)

207. mál, kosningar til Alþingis og lög um sveitarstjórnarkosningar

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég vil taka algerlega undir þau ummæli hv. 1. þm. Eyf., að í brtt. hv. allshn. hafi það alls ekki falizt, að um nýtt mál væri að ræða. Till. hennar var um endurskoðun kosningalöggjafarinnar eins og upphaflega till. Sú endurskoðun, sem nefndin gerir ráð fyrir, var aðeins víðtækari en sú, sem gert var ráð fyrir í upphaflegu till.

Hv. þm. Barð. kom upp um það í ræðu sinni áðan, að honum hefði verið meinilla við þá till., sem við fjórir þm. fluttum á þskj. 360, fór um hana heldur óviðurkvæmilegum orðum og sagði, að hún fjallaði um mútur í kosningum. Ég skal ekki við þessar umr. og á síðustu klukkustundunum, sem þingið starfar. verða til þess að vekja hér upp illdeilur, en ekki finnst mér það samt sem áður gott fyrir hv. þm., að hann skuli koma jafngreinilega og hann gerði upp um það, að honum er í nöp við það, ef sett væru ákvæði í kosningalög, sem takmarka heimild manna og flokka til þess að nota fé í kosningum. Um ástæður til þess, að þessi hv. þm. tekur sér þetta svo sérstaklega nærri, skal ég ekki fjölyrða.

Ég vildi aðeins leggja á það áherzlu, að ég lít á þá till., sem borin hefur verið fram á þskj. 839, sem till. til þess að leysa mörg mál, sem fyrir þessu þingi hafa legið. Við þm. Alþfl. í hv. Nd. fluttum, svo sem kunnugt er, frv. um breytingu á kosningalögunum, þar sem gert er ráð fyrir heimild til kosningabandalaga. Þm. Þjóðvfl. hafa flutt frv. um breytingu á ýmsum atriðum kosningalaganna. Og á þskj. 360 er till. um það að skipa n. til þess að fjalla um vissan þátt kosningalaganna, þ. e. a. s. ákvæði, sem þegar eru í þeim og fjalla um misnotkun fjár í kosningum, og átti n. sérstaklega .að athuga, hvort ekki væri hægt að gera þau ákvæði víðtækari en þau eru núna til að tryggja betur en gert er, að ekki komi til misnotkunar í þessu sambandi. Ég lít þannig á, að till. á þskj. 839 frá hv. þm. N-Þ. o. fl. sé afgreiðsla á þessum málum öllum, og tel sjálfsagt, ef þessi till. verður samþ. og n. verður kosin, að hún athugi alveg sérstaklega þau frv. og þær hugmyndir, sem felast í þessum málum, sem þegar liggja fyrir hinu háa Alþ., og auk þess auðvitað öll önnur atriði í kosningalögunum, sem n. kann að þykja ástæða til þess að fjalla um.

Að öðru leyti skal ég ekki fjölyrða um málið, þótt tilefni hefði verið til þess, til þess að eyða ekki dýrmætum tíma þingsins á síðustu stundum þess.