04.12.1953
Neðri deild: 33. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 239 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Maður verður að segja, að það sé nú eiginlega hreinasta kraftaverk, að hæstv. ríkisstj. skuli hafa fengið þetta frv. út úr fjhn., því að ég fæ nú ekki betur séð, þegar meiri hl. fjhn. er búinn að láta sína skoðun í ljós hér, en að raunverulega hafi nú meiri hl. verið á móti frv., þótt um mismunandi afstöðu hafi verið að ræða.

Hv. þm. A-Húnv. (JPálm) hélt hér mjög skarpa ræðu gegn öllum þessum höftum og var auðsjáanlega á móti þeim höftum, sem enn þá eru eftir skilin í þessu frv., og fann aðeins eitt einasta atriði nýtilegt í öllu frv., og það var, að það ætti þó að leggja fjárhagsráð niður og afnema l. um fjárhagsráð. Svo kom hins vegar sjálfur hv. formaður fjhn., hv. þm. V-Húnv. (SkG), og þar var nú öllu beint að því að sýna fram á, að vel hefði nú mátt halda því gamla, það gamla fjárhagsráð væri raunverulega alveg eins gott og þetta nýja, sem nú ætti að fara að skapa, og ég fór eiginlega að undrast, hvort hv. þm. V-Húnv. væri nú öllu lengur í stjórnarliðinu, þegar hann var að gefa ríkisstj. aðrar eins áminningar og hann var að gefa. Hæstv. ríkisstj. hefur sem sé lýst því yfir, og ég efast ekki um, að hæstv. viðskmrh. hafi þar talað fyrir hönd ríkisstj. allrar, eins og vera ber, — að stjórnarflokkarnir, Sjálfstfl. og Framsfl., álíti þetta frv. vera efnd á sínum miklu loforðum um verzlunarfrelsi o.s.frv., og í ræðu, sem hæstv. viðskmrh. hélt, þar sem hann vafalaust talaði í nafni ríkisstj., og birt var undir stórum fyrirsögnum í Morgunblaðinu 25. nóv., segir hann: „Frv. það, sem hér er til umr., markar tímamót í viðskipta- og atvinnulífinu. Frv. boðar frelsi“ o.s.frv., o.s.frv. Og svo kemur formaður fjhn., sá maður, sem hæstv. ríkisstj. hefur komið sér saman um, vafalaust eftir allmikla samninga, að skuli vera oddamaðurinn í þýðingarmestu n., sem með fjárhagsmálin hefur að gera í þessari hv. d., og lýsir yfir: Þetta frv. boðar engin þáttaskil. — Það er eins og hann hafi valið orðin alveg sérstaklega með tilliti til þess, sem hæstv. viðskmrh. hafði sagt áður. Hæstv. viðskmrh. og forsrh. sjálfrar ríkisstj. lögðu áherzlu á, að það marki tímamót — og það ekki nein smáræðis tímamót, en formaður fjhn. leggur áherzlu á: Það eru engin þáttaskil. — Hverjum eigum við nú, almennir þm., að fara að trúa? Hvað er nú skoðun stjórnarinnar og stjórnarflokkanna og stjórnarstefnunnar? Markar þetta þáttaskil, markar þetta tímamót, eða markar þetta engin þáttaskil og markar þetta engin tímamót? Eru þeir fáu af almennum stjórnarstuðningsmönnum hér á Alþ., og þá jafnvel úr þeirra röð, sem fremst standa af þeim, eins og formaður fjhn., að tala tóman þvætting, eða er hæstv. ríkisstj. að tala tóman þvætting? Ég verð nú að segja, að þrátt fyrir góð handjárn, þá er auðséð, að það er alls ekki hættulaust orðið fyrir hæstv. ríkisstj. að hleypa sínum stjórnarstuðningsmönnum hér á þinginu í pontuna. Þeir fara bókstaflega að tala á móti stjórninni, áður en þeir vita máske sjálfir af og áður en hæstv. ríkisstj. veit af sjálf, svo að ég fer þá betur að skilja, af hverju ríkisstj. hefur yfirleitt verið ein um að verja sig, að svo miklu leyti sem hún yfirleitt hefur varið sín hér í þinginu, en aldrei hefur nokkur maður staðið upp til þess að standa með hennar stefnu af venjulegum stjórnarstuðningsmönnum. Ja, ég verð að segja: Hvernig færi eiginlega í hervarnarmálunum, þegar við höfum verið að ræða þau hérna í þessari d. og hæstv. ríkisstj. og allir stjórnarstuðningsmenn hafa verið í algeru bindindi um að tala, — hvernig færi eiginlega, ef stjórnarstuðningsþingmennirnir færu nú að tala, þegar þeir tala svona um mál, þar sem ríkisstj. leggur mest upp úr að hún sé að efna sín stóru loforð, sem hún gaf um það leyti, sem hún var mynduð?

Ég ræð það eiginlega helzt af ræðum hv. meiri hl. í fjhn., að andi meiri hl. hafi að sönnu verið reiðubúinn til baráttu gegn frv., en holdið hafi verið veikt, ríkisstjórnarítökin hafi verið nokkuð sterk, þannig að það sé með eins konar samvizkunnar mótmælum, sem þeir þm. A-Húnv. og V-Húnv. hafa nú léð lið sitt til þess að koma þessu frv. ríkisstj. aftur úr nefndinni. Og ég verð að segja, að það er ekki nema von. Það er ekki nema von, að þetta hafi gengið böksulega, enda varð fljótt vart við það strax við 1. umr., að allur sá mikli vindur, sem þá var í hæstv. ríkisstj. og varð jafnvel til þess, að hæstv. forsrh. fór hér — aldrei þessu vant — að tala, fór furðu fljótt úr. Og mér virðist nú, að við þessar umr. ætli að verða karp um það innan stjórnarflokkanna, hvort það sé yfirleitt til nokkurs gagns að vera að skipta svona um. hafa þessi fataskipti, eða hvort það hefði þá ekki verið miklu heiðarlegra að leggja þetta alveg hreint niður. En þetta var nú ekki raunverulega neitt annað en það, sem ég bjóst við, og er ekki nema eðlilegt, eins og frv. er úr garði gert.

Svo að ég snúi mér hins vegar að því, sem er nú aðalatriðið í sambandi við þessi mál, þá vildi ég í fyrsta lagi segja viðvíkjandi því, sem hæstv. ríkisstj. talar mest um að fyrir henni vaki, verzlunarfrelsinu, og því, sem hér hefur verið minnzt á að þurfi að vera undirstaða þess, sem sé nægur gjaldeyrir, þá er rétt fyrir okkur að muna, hvað er undirstaðan að því að fá nægan gjaldeyri. Undirstaðan að því er öflun nýrra atvinnutækja, fyrst og fremst atvinnutækja, sem framleiða vörur til útflutnings, eða þá jafnvel atvinnutækja, sem spara innflutning. Það, sem er það alvarlega og háskalega í sambandi við þetta frv., eins og ég benti á við 1. umr., er, að það vantar alla fyrirhyggju í það, alla hugsun um heildarhagsmunina í því að undirbyggja það, sem raunverulega bæði tryggir lífsafkomu þjóðarinnar, og það, sem tryggir þá gjaldeyrisöflun, sem verður að vera sú eðlilega undirstaða undir verzlunarfrelsi, þ.e. skipulögð aukning á atvinnutækjunum. Þetta var það, sem var höfuðundirstaðan, þegar nýsköpunarstjórnin var mynduð, og það, sem fyrst og fremst var unnið að, og á því er lifað enn þá. Meira að segja allt það snakk, sem Framsfl, er með öðru hverju, öll hans yfirboð öðru hverju í sambandi við landbúnað, rafmagnsvélar eða annað slíkt, byggist á því, að það eru til togarar, vélbátar, hraðfrystihús í landinu, sem framleiða miklu meira en áður var framleitt. En vegna þess að Framsfl. hefur á síðustu sjö árum haft mjög mikil afskipti og áhrif á íslenzkt stjórnmálalíf, þá sækir í sömu áttina og var, meðan sá flokkur réð hér mestu á tímanum 1930–40, að það er ekki hugsað um að undirhyggja atvinnulif landsins, það er ekki hugsað um, að þjóðin geti staðið á eigin fótum. Það er ekki hugsað um, að landsmenn hafi togara, vélbáta og annað, sem þeir þurfa til þess að afla gjaldeyris. Og Framsfl. kemst aldrei nokkurn tíma út úr þeirri stefnu að skera niður og skera niður við almenning, og það er ekki von, að hann komist út úr þeirri stefnu, á meðan hann aldrei skilur, hver grundvöllurinn er fyrir því að geta flutt inn til landsins og fyrir því að geta haldið uppi mannsæmandi lífi bæði til sjávar og sveita. Það er líka greinilegt á öllu, að það sækir í þá áttina að gera ríkisapparatið þyngra og þyngra, dýrara og dýrara; en að vanrækja að sama skapi að láta fólkið, sem vinnur, fá öflugri og betri atvinnutæki til þess að vinna með. Síðan 1948, að kaupin voru þá gerð á tíu togurum, hefur ekki verið keyptur einn einasti togari til landsins, og það eru komin fimm ár síðan. Hver togari kostar að vísu kannske nú 8, 9–10 milljónir, en hann aflar fyrir 10 millj. kr. á ári minnst, jafnvel að frádregnum þeim gjaldeyri, sem hann þarf til síns rekstrar.

Sósfl. í þessari hv. d. hefur lagt fram frv. um kaup á nýjum togurum. Og satt að segja ættu þeir, sem vilja ræða í alvöru um verzlunarfrelsi og möguleika Íslendinga til þess að flytja inn, að geta meiri gaum að slíkum frv. eins og þeim, sem hér var nýlega afgr. í d. til nefndar og hv. 9. landsk. þá mælti fyrir.

Þegar fjárhagsráðslögin voru sett 1947, var haldið í 1. og 2. gr. nokkru af þeim ákvæðum, sem þóttu óhjákvæmileg vegna nýsköpunarstefnunnar og hennar vinsælda þá. Þessi ákvæði voru gerð að pappírsákvæðum með stjórnarpólitíkinni á síðustu sex árum. Það, sem nú er gert með þessu frv., er að afnema þessi pappírsákvæði líka; og þar með er raunverulega verið að gera hreint borð. Það er verið að afnema síðasta orðið, sem var í lögum um skipun innflutningsmála á Íslandi, viðvíkjandi því að hafa eitthvert vit í verzlunarmálunum, sem sé, — að jafnóðum sem menn væru að ráðstafa því, hvernig ætti að eyða peningunum, sem til væru, fyrir innflutning, væri eitthvað hugsað um að afla peninganna, sem þarf að eyða. Það síðasta af viti, sem sett var inn í íslenzkt atvinnulíf á nýsköpunarárunum, er þurrkað burt, eftir að búið var að traðka á því í praksís síðustu sex árin. Þess vegna vantar allt í þetta frv., sem snertir öflun framleiðslutækja. Þess vegna er líka að miklu leyti byggt á sandi, þegar verið er að tala um, að hve miklu leyti verzlunin gæti orðið frjáls, því að þetta tvennt verður að fylgjast að. Og þegar það er vanrækt, þegar þessu er sleppt, þegar sleppt er að taka ákvörðun um að skipuleggja útvegunina á atvinnutækjunum, þá er um leið líka verið að grafa undan því, að það verði raunverulega mögulegt að koma á verzlunarfrelsi. Ég mun ekki hér fara að minna frekar á það, sem gerðist á þeim tíma, þegar fjárhagsráðslögin lágu fyrir 1947. Þá lagði ég fram ákaflega ýtarlegar till. um öflun atvinnutækjanna, sem allar voru þá drepnar, og ég. hirði ekki um að vera að rifja það upp nú. En þetta vil ég hins vegar taka fram bara vegna þess, að þetta verður allt eins og holgrafið að tala um verzlunarfrelsi, á meðan undirbygginguna vantar, öflun atvinnutækjanna, aukninguna á framleiðslu gjaldeyrisins og þar með möguleikann fyrir fólkið í landinu til þess að kaupa frjálst inn það, sem það þarf að fá sér.

Svo er hitt atriðið, sem ég minntist nokkuð á við 1. umr. þessa máls og ætla mér ekki að endurtaka. Það er viðvíkjandi þeirri einokun, sem felst í þessu frv. Ég lýsti því þá, að þetta frv. væri að mínu áliti einokunarfrv. ríkisstj., krafa hennar um rétt til þess að mega úthluta á milli þeirra, sem hún hefur velþóknun á, þeirri vöru, sem flutt er inn til landsins. Ég hef oft áður sýnt fram á það, hvernig ríkustu heildsalarnir í Reykjavik, S.Í.S. og Kveldúlfur, myndi eitt þrístirni, myndi bandalag sín á milli sem voldugustu fésýsluaðilarnir í Sjálfstfl. og Framsfl. og skipti þessum hlutum á milli sin. Það er svo greinilegt, að það þarf ekki að lýsa því, hvernig samkomulagið er um að halda einokuninni í útflutningnum gegn því að skipta einokuninni í innflutningnum á milli Sambandsins og ríkustu heildsalanna. Og í samræmi við það eru líka þær ákvarðanir hér að hafa tvo menn, sinn frá hvorri klíku, til þess að sjá um, að ekki hallist á, þegar farið verður að deila bráðinni, þegar farið verður að skipta á milli sín arðinum af innflutningnum, gróðanum á fólkinu.

Hér hefur nokkuð komið til umræðu um útflutningsverzlunina í sambandi við þessi mál, og ég sé mér til mikillar ánægju, að Alþfl. setur hér inn í sínar brtt. tillögur um, að útflutningsverzlunin verði gefin frjáls. Það er mjög mikil framför hjá þeim flokki. Ég hef um nokkur ár undanfarið, um þrjú ár, flutt sérstakt frv., sem fór fram á að afnema þau lög, sem hv. 1. landsk. nú leggur til að afnema, lögin frá 12. febr. 1940, um sölu og útflutning á vörum. Alþfl. hefur aldrei fengizt í fjhn. til þess að standa með því frv. minn. Ég hef alltaf orðið að afgreiða það frv. einn út úr fjhn., og af því að hæstv. forseti hefur verið það röggsamur og réttlátur í þeim efnum, þá hefur það frv. komið hér til atkvgr. hvað eftir annað, þó að meiri hl. í fjhn., fulltrúar Sjálfstfl., Framsfl. og Alþfl., hafi aldrei treyst sér til þess að geta út álit um málið. Og þetta frv. hefur verið fellt hér venjulega gegn atkv. okkar sósíalista einna saman. Ég vil því lýsa ánægju minni yfir því, að nú leggur hv. 1. landsk. til, að þessi lög um einokun á útflutningnum séu felld úr gildi. Og ég vona, að þetta boði dálítið betri skilning hjá Alþfl. á því, hvernig ríkisvaldinu er beitt. Þeir, sem muna langt, muna það kannske, að 1932, þegar Samband ísl. fiskframleiðenda var í fyrsta skipti löggilt sem útflytjandi, þá var það gert af Ólafi Thors, núverandi hæstv. forsrh., sem þá var dómsmrh. og atvmrh. fyrir Magnús Guðmundsson um stutt skeið, og Alþýðublaðið sagði þá, að þetta væri lofsvert spor í þjóðnýtingarátt. Þá var verið að gefa Kveldúlfi, Alliance og fiskhringunum á Íslandi einokunaraðstöðu til útflutnings á saltfiskinum. Mér þykir þess vegna mjög vænt um, að Alþfl. skuli í þessum efnum vera að breyta um skoðun.

Það er sem sé alveg nauðsynlegt, og ekki sízt fyrir verkalýðsflokkana, að gera það upp við sig, að þegar ríkisvaldinu er beitt af auðmannastéttinni til þess að gefa einstökum auðhringum einkavald eða einokunarvald yfir almenningi, þá er það ríkisvald fjandsamlegt alþýðunni og það ber að berjast á móti því, og þá er það framför að geta knúið fram, að slíkri einokun einstakra auðmanna sé aflétt, jafnvei þó að við taki verzlunarfrelsi í þeirri venjulegu kapítalistísku merkingu þess orðs, sem oft þýðir meiri eða minni glundroða í verzluninni. Meira að segja það gæti verið framför frá því, að einstakir auðhringar eða auðmannaklíkur fái einokun. Hitt er svo aftur allt annað mál, eins og ég líka kom inn á við 1. umr., sú barátta, sem verkalýðurinn heyr fyrir því að knýja fram þjóðnýtingu, knýja það fram, að ríkið hafi t.d. oft sjálft með að gera innflutning eða útflutning á hinn og þessu og reki það þá með almenningshag fyrir augum.

Hæstv. viðskmrh. svaraði þessum till. í umr. í dag með því, að hann sagði, að útflytjendur vildu hafa það fyrirkomulag, sem nú væri, og spurði, hvort þingmenn vildu fara að taka fram fyrir hendur útflytjendanna í þessu efni, og kvaðst vilja koma á lýðræði í útflutningsverzluninni. Lýðræði og jafnrétti í útflutningsverzluninni, — það mundi þýða, að þeir sem vilja mynda samtök, þeir mynda samtök, þeir sem vilja treysta á sitt einstaklingsframtak, þeir treysta á sitt einstaklingsframtak, þeir sem vilja skipuleggja sig í samvinnufélög, þeir skipuleggja sig í samvinnufélögum. Fólkið ræður sjálft, á hvern hátt það skipuleggur þetta, en það mundi þýða, að ríkið gripi ekki þannig fram fyrir hendur almennings, að það ákvæði í krafti laganna frá 1940, að einn sérstakur aðili skuli hafa einn saman leyfi til þess að flytja út vörur. Og ég vil benda hæstv. viðskmrh. á, að það er ekki nema von, að þingmenn fari að verða nokkuð uggandi um, hvernig þessir hlutir eru reknir, þegar hæstiréttur nýlega vísar máli heim til undirréttar og gefur þar m.a. upplýsingar um, hvernig farið sé að viðvíkjandi útflutningi á vörum, þar sem það m.a. kemur í ljós, að þessir einokunaraðilar, sem svona útflutning hafa með höndum, gera ráðstafanir til þess að bæta upp töp, sem hinir og þessir aðilar kunna að verða fyrir í sambandi við fragtir eða verzlunarráðstafanir eða annað slíkt, svo að skiptir tugum þúsunda króna, á kostnað sjómanna og útgerðarmanna. M.ö.o.: Þessi verzlun er rekin þannig núna, að þeir menn, sem eiga meginið af fiskinum, hafa enga aðstöðu til þess að vita, hvað þarna er að gerast. Og þarna er komin slík spilling og slík vandræði, að það er ekki nóg með, að það sé kvartað af hálfu fjöldans af útgerðarmönnum í þessum efnum, heldur eru meira að segja þeir menn, sem hafa verið trúnaðarmenn fyrir þessi samtök, þegar þeir hafa viljað standa á verði fyrir þá, sem þeim hafa veitt trúnað, beittir ofsóknum af hálfu valdhafanna í þessum hringum, þannig að út af því hlotnast stórkostlegur málarekstur, sem opinberar hreina spillingu í þessum efnum. Nei, það er sem stendur þannig í útflutningnum, að það er ríkið, sem skapar þar einokun. Það er ríkið, sem tekur sér einokun í hendur með lögunum frá 12. febr. 1940 og notar þá einokunaraðstöðu til þess að gefa einstökum mönnum einokunarvald í sambandi við útflutninginn. Það er enginn að hafa á móti því, að útflytjendur hafi samtök. Það er mjög skynsamlegt af þeim, og það er sjálfsagt að ýta undir það. En ríkið á ekki að stuðla að því, að samtökin séu misnotuð eða að samtökin séu bundin og ofurseld einstökum valdaaðilum í þessum efnum. Og ég vil bara segja hæstv. viðskmrh. það, að hann ætti að athuga, hvernig stjórnin er skipuð í sumum af þessum samtökum, og jafnvel mundi hann þá reka sig á, að útgerðarmenn eru ekki einu sinni í meiri hluta í stj. slíkra samtaka, svo að ég ekki tali um það, að sjómenn eiga þar yfirleitt enga fulltrúa. Ég vil þess vegna taka undir það, sem hæstv. viðskmrh. minntist á, að það er rétt að innleiða lýðræði í útflutningsverzlun, skapa frelsi í útflutningsverzluninni og afnema þá einokun, sem núna á sér stað þar. En slíkt lýðræði þýðir jafnrétti allra þeirra, sem eiga fiskinn, til að flytja hann út á þann hátt, sem þeim finnst eðlilegast, hvort heldur það er í samtökum eða að selja einstökum aðilum hann eða annað slíkt. Aftur á móti, eins og ég hef alltaf sett fram í þeim frumvörpum, sem ég hef flutt um þetta mál hér, og eins og ég sé, að hv. 1. landsk. líka kemur inn á, er sjálfsagt að heimila ríkisstj. að setja lágmarksverð í sambandi við þennan útflutning til þess að koma í veg fyrir alla óeðlilega samkeppni, þ.e. undirboð, sem gætu verið skaðsamleg fyrir þjóðina. Þess vegna væri það ákaflega æskilegt, að sú hæstv. ríkisstj., sem nú talar mikið um frelsi, gæti haft sig upp í að samþ. þær tili., sem hér eru nú bornar fram um að rýmka a.m.k. nokkuð um bæði í útflutningnum og innflutningnum.

Þá kem ég að spursmáli, sem hér hefur dálítið verið rætt líka, um það, að hve miklu leyti byggingarfrelsið hér sé raunverulegt. Eins og ég tók fram við 1. umr. málsins, þá er það það eina, sem miðar þarna fram á við, að það er þó frelsi til þess að byggja íbúðarhús. Það er rétt að taka það fram, að þrátt fyrir þetta, sem tókst að rýmka um tíma viðvíkjandi smáibúðunum svo kölluðu, þá var það framkvæmt á þann frámunalega vitlausa hátt af hálfu hæstv. ríkisstj., að það var reynt að binda frelsið til þess að byggja smáar íbúðir við það að byggja íbúðarhús, sem í væri ein litil íbúð. Það var þannig reynt að kúska menn til þess að gera þetta á þann ópraktískasta hátt, sem hugsanlegt var. Hins vegar hefur þeim mönnum, sem hefðu viljað byggja t.d. margar íbúðir saman, byggja skynsamlega í heilum blokkum, verið neitað um það, þannig að það er ekki rétt, sem ég held að hv. 8. landsk. hafi haldið hérna fram, að það hafi ekki verið neinar neitanir frá hálfu fjárhagsráðs eða slíkt. Það þarf ekki nema að minna á tvo aðila hér í Reykjavík, firma, sem ég held að heiti Benedikt og Gissur, sem fór hér fram á að byggja allmikla blokk af slíkum smáíbúðum, og fjárhagsráð og ríkisstj. skáru þetta niður. Það var ekki nema nokkuð af því, sem var leyft, þannig að það er auðséð, að það er enn þá hann í þessum efnum, og það bann yrði þó afnumið með þessum lögum. Það er sá eini ljósi blettur, sem í þessum lögum er, að það mætti byggja af viti smáar íbúðir í staðinn fyrir að byggja af vitleysu smáar íbúðir.

Hitt aftur á móti hefur ekkert lagazt í meðförum hv. fjhn., sem ég benti á sem tvo höfuðgallana í sambandi við þetta, — í fyrsta lagi með byggingarefnið. Það er sem sé ekki nokkur ráðstöfun, sem hér er gerð viðvíkjandi því að tryggja frjálsan innflutning á byggingarefninu, tryggja það, að þegar á að fara að flytja byggingarefnið inn, þá sé það ekki gert að einokunaratriði fyrir nokkur firmu. Ég hef áður beint þeirri fsp. til hæstv. viðskmrh., og ég vil gera það enn: Er það rétt, að það séu ekki nema þrjú eða fjögur firmu, sem fá allan innflutninginn t.d. á sementi frá Ráðstjórnarríkjunum nú? Er það rétt? Og ef það á að vera fyrirmyndin um innflutningsfrelsi á næstunni, að það verði þrjú, fjögur firmu í landinu, sem fá einokunaraðstöðu með allt byggingarefni, þá fer að fara nokkuð lítið fyrir frelsinu. Enn fremur muna menn máske eftir, í sambandi við till., sem ég held meira að segja að nokkrir þm. Sjálfstfl. hafi flutt hér á þinginu 7950–51, um að gefa frjálsan innflutning byggingarefnis, að fjárhagsráð greip þá í taumana og gaf sína frægu yfirlýsingu viðvíkjandi forráðamönnum mótvirðissjóðs, að það væri ekki fært að leyfa frjálsan innflutning á byggingarefni. Þrátt fyrir samþykkt 8. gr., sem er eina jákvæða greinin í þessum lögum, fyrri hluta hennar, mundi þetta sem sé haldast, að ríkisstj. getur ráðið byggingarefnisinnflutningnum, látið gæðinga sína einoka hann og framkvæmt það eftirlit, sem Ameríkanarnir hafa heimtað af ríkisstjórnunum undanfarið til að koma í veg fyrir, að Íslendingar byggi af fullum krafti yfir sjálfa sig, til þess að geta kúskað Íslendinga til þess að vinna fyrir sig suður á Keflavíkurflugveili, til þess að byggja þar yfir ameríska liðsforingja og allt þeirra dót. Ég held þess vegna, að hæstv. viðskmrh. ætti að gefa okkur upplýsingar um, hvernig þetta verður viðvíkjandi innflutningi byggingarefnis.

Hitt aðalatriðið, sem verður áreiðanlega það þýðingarmesta í þessu, er lánsspursmálið. Á að framkvæma í gegnum lánsbannið, sem nú er, hindrunina á byggingum á Íslandi? Það væri nú ákaflega æskilegt, fyrst bæði hæstv. núv. og fyrrv. viðskmrh. eru hér inni í salnum, að það bréf, sem fyrrv. viðskmrh., núv. 3. þm. Reykv., skrifaði Landsbankanum um að hafa hömlur á lánsfjárstarfsemi til íbúðarhúsabygginga, væri birt hér í þinginu. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að vita, að það séu ráðherrar Sjálfstfl., sem banna bönkunum í Reykjavík að lána Reykvíkingum til að byggja, og hafi þeir ekki bannað það, þá skora ég nú á hv. 3. þm. Reykv. eða hæstv. viðskmrh. nú að leggja fram í þinginu þau fyrirmæli, sem ráðherrar Sjálfstfl. hafa gefið Landsbankanum viðvíkjandi því, hvernig haga skuli lánum til íbúðarhúsabygginga í Reykjavík og annars staðar. Það er sem sé fróðlegt fyrir menn að vita nú. (Gripið fram í.) Hefur það aldrei verið skrifað? Ætli það hafi nú ekki verið skrifað um, að það ætti að hafa hömlur á lánum til íbúðarhúsabygginga á þeim tíma, sem lán til íbúðarhúsabygginga voru svo lítil, að það var ekki einu sinni lánað sæmilega út úr veðdeildinni, hvað þá annað? Ætli það hafi ekki verið skrifað? Hinu býst ég við, að það hafi ekki verið nefnt, að Sjálfstfl. hefði sérstakan áhuga á því og Landsbankanum væri hér með tjáð það, að Reykvíkingum væri ekki lánað, þannig að þeir gætu byggt. Ég veit, að Sjálfstfl. hefur hingað til látið Framsfl. vera einan um að gera till. um að banna íbúðarhúsabyggingar í Reykjavík, eins og Tíminn gerði 1938. Og ég veit, að sérstaklega nú sem stendur mundi Sjálfstfl. ekki sérstaklega kæra sig um, að það kæmi fram svart á hvítu, en hins vegar mætti nú kannske lesa eitthvað út úr bréfinu, ef það væri birt, a.m.k. að nú kæmi niður á Reykvíkingum það sama, sem ætlazt væri til að kæmi niður á öðrum Íslendingum, þannig að ef hæstv. fyrrv. eða núv. ráðh. vilja ekki, að þetta sé lagt út á verri veg, sem ég náttúrlega hef enga sérstaka tilhneigingu til, þá held ég, að þeir ættu nú að birta bréfið. Ég man nefnilega eftir því, að skömmu eftir að hæstv. þáverandi viðskmrh. lét þessi orð falla, sem ég hef oft vitnað í síðan, lét hann segja í blaðinu Vísi, að hann hefði aldrei nokkurn tíma skrifað Landsbankanum neitt. (Gripið fram í.) Jæja, kannske bannað eða reynt að draga úr lánveitingum til íbúðarhúsabygginga. Hv. 3. þm. Reykv. talaði tvisvar um þetta mál í þinginu. Hann hafði sitt orðið í hvort skipti um það, hvað hann hefði sagt í bréfinu, svo að það er ekkert nema það að heyra orðalag bréfsins, sem getur nú virkilega gefið okkur eitthvert haldreipi í þessum efnum, þannig að við berum ekki neitt upp á hv. 3. þm. Reykv., sem hann hefur ekki sagt. Nóg er nú sagt um hann samt. Þess vegna er spursmálið um lánveitingarnar til íbúðarhúsabygginga og um að afnumin séu þau bönn, sem ráðherrar Sjálfstfl. fram að þessu hafa lagt á, að eðlileg lánsfjárstarfsemi sé höfð með höndum hér, það allra þýðingarmesta í sambandi við byggingarfrelsið. — Það að gefa byggingu frjálsa á pappírnum, en hafa síðan einokun á byggingarefni og banna mönnum svo þar að auki að fá lán til íbúðarhúsabygginga, það er sannarlega að gera þessa 8. gr., það eina jákvæða í frv., að hreinasta skrípaleik.

Ég hef lagt fram hér á þinginu og það liggur hjá hv. heilbr.- og félmn. þessarar d. allmikið frv. um húsnæðismálin, þar sem farið er einmitt fram á og gerðar gagngerðar till. viðvíkjandi þessum lánsfjármálum. Ég hef áður lýst eftir því frv. hér og óskað þess af hæstv. forseta, að ef ekki yrði komið fram innan viku álit frá hv. heilbr.- og félmn., þ.e. næsta þriðjudag, þá yrði málið tekið hér á dagskrá. Og ég verð að segja það, að einmitt þau orð, sem hv. frsm. fjhn. hafði hér um áðan, hv. 5. þm. Reykv., gefa mér tilefni til þess að ítreka þetta mjög. Hann deildi þar mjög skarplega og réttilega á hæstv. ríkisstj. og hennar pólitík í þessum efnum. Hann talaði um svarta markaðinn í sambandi við peningalánin til íbúðarhúsabygginga, og það er alveg rétt, og hann sagði þar satt frá, enda þekkir hann vel til, þar sem hann er bankastjóri, að sá svarti markaður, sem á sér stað og stafar af því lánsfjárbanni, sem ráðherrar Sjálfstfl. virðast hafa lagt á bankana, er markaður, sem er eins mikil þörf á að útrýma og þeim svarta markaði á vörum, sem núv. ríkisstj. er alltaf að stæra sig af að hafa útrýmt hér áður. Ég vil vekja athygli þessarar hæstv. ríkisstj. á því, að það er hún, sem hefur komið þessum svarta markaði á, það er hennar lánsfjárpólitík, sem hefur komið þessum svarta markaði í peningamálum á, og hann er ægilegri nú en hann hefur verið nokkurn tíma áður. Og ef það er ekki meiningin með þessu frv. að skipuleggja þennan svarta markað og viðhalda honum, þá þarf að koma hér fram, að hæstv. ríkisstj. ætli sér að knýja fram breytingar í lánsfjármálunum, hún ætli að afturkalla þau bréf, sem ráðherrar Sjálfstfl. hafa skrifað Landsbankanum, og ætli að mælast til þess og skipuleggja það, að nú verði farið að láta lán í allstórum stíl. Ég tala nú ekki um, ef hún vildi ganga svo langt að samþ. það frv., sem ég hér hef flutt. En ég skal þó hins vegar geta um, að þær lánveitingar, sem ég legg til í því frv. til húsbygginga, munu vart ganga miklu lengra en þær till., sem einmitt hv. 5. þm. Reykv. og aðrir þm. Sjálfstfl. fluttu hér fyrir kosningar um breytingar bæði viðvíkjandi veðdeild Landsbankans og lánum til hennar. En munurinn var bara sá, að þá voru þessi frv. flutt fyrir kosningar. Síðan var talað um frelsið, sem ætti að komast á viðvíkjandi húsbyggingunum. Nú bólar ekki á neinu frv. viðvíkjandi lánum til íbúðarhúsabygginga. Og þó að við reynum að toga hér með töngum og ögra hæstv. fyrrv. og núv. viðskmrh. á allan hátt til að birta pólitík Sjálfstfl. í lánsfjármálunum, þá hefur okkur enn þá ekki tekizt að fá neitt fram, þó að ég hafi nú að vísu betri von, því að hv. 3. þm. Reykv. er þó ofur lítið byrjaður að tala úr sínu sæti um þessi mál, svo að hann fær nú kannske málið um þau, þegar hann kemur hér í ræðustólinn á eftir.

Þá eru viðvíkjandi Framkvæmdabankanum aðeins örfá orð. Ég hef áður sagt mitt álit á þeirri gr., sem um hann fjallar, 9. gr. Það er aðeins ein spurning, sem ég vildi leggja fyrir hæstv. viðskmrh. Þegar lögin um Framkvæmdabanka voru samþ. í fyrra, var því lýst yfir af hálfu hæstv. ríkisstj., að bankastjóri Framkvæmdabankans mundi að öllum líkindum hafa aðsetur í herbergi í Landsbankanum, en í öllu falli mundi starfsfólk Landsbankans annast afgreiðslu allra mála fyrir Framkvæmdabankann. Ég held ég muni þetta áreiðanlega ekki skakkt. Ég held, að ég muni það rétt, að það hafi verið eitt af því, sem haldið var fram, að það yrði enginn aukakostnaður annar en laun bankastjórans, sem hvort sem er var á öðrum launum sem ráðunautur ríkisstj., tilsendur af Ameríkönum. Ég held, að ég muni það áreiðanlega rétt, að þessu hafi verið lýst yfir, að Landsbankinn mundi annast alla afgreiðslu á málum Framkvæmdabankans. Nú vil ég leyfa mér að spyrja: Hvernig er þetta í Er Framkvæmdabankinn núna sjálfur með afgreiðsluna á sínum málum, og hefur hann sjálfur sína skrifstofu? Ég kem fram með þessa spurningu vegna þess m.a., að hér hefur komið fram till. um, að Hagstofa Íslands taki þetta að sér, sem að mörgu leyti væri eðlilegt. En ég gæti trúað, að það, sem Hagstofa Íslands hefði máske á móti því að taka þetta að sér, væri það, að ef Hagstofa Íslands ætti að taka þetta að sér, þá mundi vera sparað mannahaldið og það mundi vera erfitt að fá tvo eða þrjá starfsmenn í viðbót og betra húsnæði. Aftur á móti ef hagstofa Ameríkana, Framkvæmdabankinn, á að taka þetta að sér, ef eftirlitsstöð Ameríkana, sú efnahagslega njósnarstöð Ameríkana á Íslandi, á að taka þetta að sér, þá verður ekki sparað fé. Ég býst nefnilega við, að það sé ekki lengur svo, að það eigi að spara svo mikið í sambandi við Framkvæmdabankann, að það sé starfsfólk Landsbankans, sem afgreiði fyrir hann. Ég býst við, að hann muni koma upp sínu starfsliði sjálfur, og það yrði kannske ekki sagt neitt við því, þó að Framkvæmdabankinn færi að bæta við starfsfólki, á sama tíma sem Hagstofu Íslands væri neitað um það. Það er a.m.k. gott að fá að vita, hvernig þetta er. Ég tala ekki um, hvað það væri viðfelldnara fyrir okkur, að það væri Hagstofa Íslands, sem sæi um þessa hluti, heldur en þessi Framkvæmdabanki, sem áður hefur sýnt sig í því, eða bankastjórinn, sem honum stjórnar, að gera það sérstaklega að sínu viðfangsefni að njósna um víxla, sem eru keyptir í ríkisbönkunum, til þess að vita, hvort ekki kynnu að leynast meðal þeirra víxlar til húsbygginga, út frá því að reyna að koma í veg fyrir, að það séu veitt lán af íslenzku bönkunum til byggingar á íbúðarhúsum. En þetta væri gott að fá upplýsingar um, hvernig er núna með sparnaðinn í sambandi við framkvæmdina á Framkvæmdabankanum.

Þá er viðvíkjandi því, sem hv. 5. þm. Reykv. minntist á. Hann spurði, af hverju stjórnarandstaðan væri orðið með verzlunarfrelsi, sú stjórnarandstaða, sem annars er mjög mikið með ríkisrekstri og sérstaklega með þjóðnýtingu. Ég svaraði því að nokkru leyti áðan. Það, sem hér er um að ræða að koma á, er einokun nokkurra auðfyrirtækja á verzluninni, hagnýting ríkisvaldsins til þess að veita einstökum aðilum einokun. Þetta er samsvarandi út af fyrir sig eins og þegar verið var að selja verzlunina á leigu hér í gamla daga. Raunverulega er það svo, að Sjálfstfl. og Framsfl. eru að selja máttarstoðum Sjálfstfl. og Framsfl., ríkustu heildsölunum og S.Í.S., verzlunina á leigu. Þetta kemur kannske hvergi greinilegar fram en í sambandi við olíuinnflutninginn, sementsinnflutninginn og annað slíkt. Það er verið að selja þetta á leigu, og hringrásin er, eins og ég rakti hér við 1. umr., ákaflega greinileg. Þessi fésýslufyrirtæki, sem fá svona verzlunina á leigu, gera síðan út Sjálfstfl. og Framsfl., og það borgar sig áreiðanlega mjög vel fyrir þessi verzlunarfyrirtæki, að Sjálfstfl. og Framsfl. hafi síðan ríkisvaldið og láti með ríkisvaldinu þessi verzlunarfyrirtæki fá verzlunina á leigu, skipti á milli þeirra: Svona skuluð þið nú skipta olíunni á milli ykkar. Svona skuluð þið nú skipta sementinu á milli ykkar. Svona skuluð þið skipta öllu því á milli ykkar, sem ríkið annars kaupir inn. Og jafnvel því, sem ríkið ekki kaupir inn, skuluð þið skipta á milli ykkar, með því að þið hafið þarna tvo menn í þessari innflutningsskrifstofu, og þeir skipta þá á milli ykkar, en ef þeir koma sér ekki saman um, hvernig eigi að skipta á milli ykkar, þá fer það til ríkisstj. og hún skiptir þá á milli ykkar. — Ég held, að það ætti að vera skiljanlegt fyrir hv. 5. þm. Reykv., að stjórnarandstaðan væri á móti svona verzlunarfrelsi., hún væri með allt öðru verzlunarfrelsi, hún væri með því verzlunarfrelsi, að almenningur í landinn hefði rétt til að flytja inn vörur og mennirnir, sem framleiða fisk í landinu, hafi rétt til að flytja út fisk og fá betra verð fyrir hann en einokunarherrarnir fá núna. Það er ekkert undarlegt, þó að stjórnarandstaðan berjist á móti þessari einokun og sé með verzlunarfrelsi almennings, jafnvel þótt hún sé á þeirri skoðun, að fyrir almenning mundi það vera skynsamlegast, ef hann sjálfur hefði ríkisvaldið í höndunum, að skipuleggja innflutninginn í þágu alþjóðar og með hagsmuni alþjóðar fyrir augum, en ekki hagsmuni einstakra auðfyrirtækja.

Ég hef að þessu sinni ekki flutt mikið af brtt. við þetta frv., en ég ætla að leyfa mér aðeins að flytja tvær litlar brtt. Ég hef lýst minni afstöðu til frv. svo greinilega, að þetta er ekki vegna þess, að ég sé almennt með því. En það er tvennt, sem mér finnst vera nokkurn veginn prófsteinn á, hvað meint sé með þessu frv. og hvaða framkvæmd hæstv. ríkisstj. hugsar sér á þessu frv. Mínar brtt. eru báðar við 1. gr. Sú fyrri er við 1. málsgr., þar sem ríkisstj. er heimilað að gefa út reglugerð um vörurnar, sem fluttar eru inn. Ég hef áður bent á, hvernig ríkisstj. hefur, án þess að hafa heimild fyrir því í lögum, hagnýtt sér aðstöðuna og sitt vald til að láta gefa út reglugerð um bátagjaldeyrinn. Mín brtt. við 1. málsgr. hljóðar á þessa leið:

„Þó má aldrei með útgáfu reglugerða gera ráðstafanir til hækkunar á verði innfluttra vara eða aðrar ráðstafanir, sem raunverulega jafngilda breyttri gengisskráningu.“

Ég vonast til þess, að hv. þm. skilji alveg, hvað ég meina með þessu. Ég meina með þessu það, að þó að ríkisstj. hafi vald til þess að gefa út reglugerðir til skýringar á þessum lögum, þá sé það greinilega tekið fram, að hún hafi ekki vald til þess með slíkri reglugerð að leggja sérstakt hækkunargjald sjálfri sér til handa eða einstökum aðilum til handa á vörurnar, sem séu fluttar inn til landsins, m.ö.o., að hún hafi ekki rétt til þess að leggja á sérstaka tolla eða annað slíkt, hvaða nafn sem þeim væri gefið, á innflutningsvörurnar til landsins, hún hafi þar með ekki heldur rétt til þess að láta leggja á gjaldeyrinn, sem aflað væri, þegar hann væri seldur, þannig að á þann hátt kæmi fram hækkun á vörunum, sem fluttar væru inn. M.ö.o.: Það væri ekki heimilt með samþykkt slíkrar till. að leggja á bátagjaldeyrinn, nema með sérstökum lögum frá Alþ., sem er líka það eina sjálfsagða og rétta í þessu. Ég get bókstaflega ekki skilið, af hverju hæstv. ríkisstj. heldur svona fast við þetta, — hún hefur meiri hluta til þess að koma ákvæðum eins og þeim, sem felast í bátagjaldeyrisreglugerðinni, í gegn sem lögum, — af hverju hún heldur við það að eyðileggja bókstaflega öll lög og reglugerðir í landinu með því að viðhalda þeim óskapnaði. Ég hef áður vakið athygli á því, að eftir að 11., 12. og 13. gr. í fjárhagsráðslögunum eru numdar úr gildi, þá mundi með þeirri afar frjálslegu túlkun, sem verið hefur á reglugerðaútgáfu, ríkisstjórnin vafalaust eftir þessum lögum geta gefið út reglugerðir eins og bátagjaldeyrinn, og það þýðir þá um leið, að hún getur gefið út reglugerðir, sem leyfa að selja allan gjaldeyri, sem framleiddur er á Íslandi, með 100% álagi, því að hún hlýtur að hafa alveg sama vald til þess. Ef hún hefur vald til þess að leyfa, að lagt sé 25% eða 60% á bátagjaldeyrinn, þá hefur hún eins rétt til þess að láta leggja 100% á bátagjaldeyrinn. Hafi hún rétt til þess að láta leggja 100% á bátagjaldeyrinn, þá hefur hún rétt til þess að láta leggja 100% á togaragjaldeyrinn eða smjörgjaldeyrinn eða hvað sem er. Þá hefur hún rétt til þess að lækka gengi alveg eins og hún vill. Þess vegna álít ég, að þessi litla brtt. mín skeri úr um það, hvaða vald hæstv. ríkisstj. ætlar að taka sér í þessu efni.

Hin brtt. er við 2. málsgr. 1. gr., þar sem sagt er, að ríkisstj. hafi heimild til að setja skilyrði um innflutning og gjaldeyrissölu. Þar legg ég til að bætt sé aftan við:

„Allir skulu hafa jafnan rétt til innflutnings. Ríkisstj. getur ekki með skilyrðum sínum veitt einstökum aðilum, einum eða fleiri, einkarétt til innflutnings ákveðinna vörutegunda.“

M.ö.o.: Hæstv. ríkisstj. segist vilja verzlunarfrelsi, en innan þeirra takmarka, að hún með reglugerðum geti sett ákvæði vegna viðskiptasamninga og annað slíkt. Segjum nú, að það sé nauðsynlegt fyrir ríkisstj. Vill hún þá meina, að hún með þeim skilyrðum hafi vald til þess — við skulum segja — að gefa Olíufélaginu einkarétt á því að flytja inn alla olíu til Íslands, útiloka t.d. öll önnur olíufélög og alla aðra aðila? Vill hún álita, að hún hafi rétt til þess að gefa S.Í.S. einkarétt á því að flytja inn sement, neita öllum öðrum aðilum, eða að gefa t.d. Völundi einkarétt á því að flytja inn timbur? Vill hún túlka málið þannig, að hún hafi rétt til þess að gefa hvaða aðila sem er einkarétt til að flytja inn ákveðnar vörutegundir, m.ö.o., að ríkisstj. hafi sama vald og Danakonungur á sínum tíma til að leigja hvaða hörmangarafélagi sem vera skal íslenzku þjóðina til arðnýtingar? Það, sem ég legg þarna til, er aðeins, að Íslendingar hafi jafnan rétt til innflutnings, þ.e. raunverulega jafnan teoretískan rétt til að mega flytja inn vörur. Við vitum, hvað þeir standa misjafnt að vígi með að geta keypt þessa vöru, með að geta fragtað hana, með að geta keppt með hana, með að geta geymt hana og annað slíkt og hvers konar einokunarskilyrði til dæmis olíuhringunum, byggingarvöruverzlunum og öðrum slíkum er skapað með þeim geymsluhúsum, sem þær eiga, og öðru slíku. Þetta fer sem sé aðeins fram á það, hvort Íslendingar hafi jafnan rétt til þess vöruinnflutnings, sem ríkisstj. leyfir að sé til landsins. Svo framarlega sem þessi till. mín er felld, þá þýðir það, að ríkisstjórnin skoðar sig hafa rétt til þess að veita einstökum firmum einkarétt til innflutnings á ákveðnum vörutegundum, og þá er nú farið að verða anzi fjarri verzlunarfrelsinu, ef það litla verzlunarfrelsi, sem ríkisstj. með sinni reglugerð ætlar að leyfa að sé til um ákveðnar vörutegundir, á ekki einu sinni að ganga jafnt yfir alla. Þá er það ekki lengur orðið frelsi. Þá er það einkavald ríkisstj. til þess að gefa þeim einokun, sem hún hefur velþóknun á.

Ég vildi mjög gjarnan, að hæstv. ríkisstj. léti uppi álit sitt um þessar litlu till. mínar eða hvernig hún hugsaði sér að breyta í þessum efnum. Mér mundi alveg nægja yfirlýsing hennar, ef það væri hennar meining að gefa öllum jafnan rétt til innflutnings, gefa ekki neinum aðilum einkaréttindi. — Ég vona sem sé, að hæstv. ríkisstj. leysi nú nokkuð úr þeim spurningum, sem ég hef komið hér fram með, þannig að það megi vera nokkru skýrara fyrir þingheimi, hvaða framkvæmd hún hugsar sér í þessum efnum.