12.04.1954
Sameinað þing: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í D-deild Alþingistíðinda. (2990)

192. mál, alsherjarafvopnun

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Þessi þáltill., sem við þm. Sósfl. flytjum, fjallar um vandamál, sem ekki aðeins snertir okkur Íslendinga, heldur og fleiri, jafnvel alla. Ég býst við, að flestum hv. þm. sé kunnugt, hvernig öllum þeim mönnum, sem á annað borð hugsa eitthvað um framtíðina á þessari jörð, brá við, þegar afleiðingarnar af næstsíðustu vetnissprengjutilraun Bandaríkjanna sáust. Ég býst við, að allir hv. alþm. hafi fylgzt með því hérna dag eftir dag, þegar fréttirnar voru að koma í útvarpinu um þær skelfingar, sem dundu yfir sjómennina á Japanshafi, yfir íbúana, sem urðu fyrir afleiðingunum af öskufallinu. Ég býst við, að við sem ein af mestu fiskveiðaþjóðum veraldarinnar höfum getað sett okkur nokkurn veginn í spor þeirra manna, sem ekki þorðu að leggja sér fisk til matar, vegna þess að þeir bjuggust við, að hann væri eitraður, sett okkur í spor þjóðar, sem sá fram á það, að hún yrði að hætta fiskveiðum vegna þessara tilrauna, sem gerðar hafa verið af framandi stórveldi, sem áður hafði þó með kjarnorkuvopnum drepið svo skipti hundruðum þúsunda manna hjá þessari sömu þjóð. Ég býst við ef einhverjir okkar hafa hugsað sem svo, að við værum svo langt burtu hérna á Íslandi, að það kæmi okkur lítið við, sem gerðist í Kyrrahafi, að þá hafi e. t. v. sú hugsun þó komið upp hjá sumum, þegar þeir heyrðu fréttirnar frá Kanada, frá Saskatchewan, frá héraði, þar sem allmargir Íslendingar búa, 10000 km burt frá því svæði, þar sem vetnissprenging fór fram, — þegar þeir heyrðu um, að geislavirk aska hefði fallið þar, að þá hafi mönnum skilizt, að það væri enginn óhultur, og hvað mundi þá, ef slíkar tilraunir væru gerðar í Atlantshafinu? Ég býst þess vegna við, að flestir hv. alþm. hafi gert sér ljóst, að með öðru eins fyrirbrigði og því. sem þarna gerðist við þessa vetnissprengjutilraun, er verið að kveðja alla menn, sem einhverja ábyrgðartilfinningu hafa gagnvart lífinu á jörðinni, til hugsunar og til starfa um það að láta ekki þessa hluti halda áfram.

Við tókum þetta mál fyrir í þingflokki Sósfl. 24. marz og gerðum þá ákvarðanir um að undirbúa að leggja fram þá till., sem hér er komin fram og nú er til umr. Við höfum nú fylgzt með því, að síðustu vikurnar hefur á hverju þingi veraldarinnar á fætur öðru þetta mál verið tekið til umr., í hverri heimsálfunni á fætur annarri. Við höfum fylgzt með því, hvernig allir þingflokkarnir í Japan, því landi, sem þarna á hvað mest um sárt að binda, hafa sameinazt í því skyni að mótmæla því, að fleiri tilraunir verði gerðar, og krefjast þess, að stórveldin í veröldinni komi sér saman um að hindra, að kjarnorkuvopn verði notuð. Við höfum fylgzt með því, hvernig forsætisráðherra Indlands, einn af þeim stjórnmálamönnum, sem nú eru mest metnir í veröldinni, hefur kvatt sér hljóðs til þess að skora á stórveldin að gera ekki fleiri tilraunir í þessa átt. Við höfum fylgzt með, hvernig þingflokkarnir í Ástralíu, þingflokkarnir í Danmörku, hvernig sænsku jafnaðarmennirnir og nú síðast enska þingið hafa tekið ákvarðanir, sem hníga í sömu átt.

Þetta er ekki undarlegt. Við höfum smám saman, mennirnir, verið á síðustu öldum að leysa úr læðingi öfl, sem hefðu getað, ef þau hefðu verið notuð, útrýmt allri fátækt, öllum sjúkdómum af jörðinni. Við höfum verið að leysa úr læðingi öfl, sem gátu gert mannkynið, ef það hefði vit á að hagnýta sér þau, gæfuríkt, að svo miklu leyti sem ytri skilyrði geta skapað gæfu. En við sjáum um leið, að með þessu mikla valdi, sem við mennirnir höfum fengið yfir leyndardómum lífsins, erum við líka færir um að eyðileggja þetta sama líf. Sömu tækin sem við getum notað til þess að gera lífið dásamlegt og dýrðlegt getum við líka notað til þess að þurrka það burt. Og við sjáum það nú og við heyrum talað um það af hálfu vísindamannanna í sambandi við síðustu sprengjurnar, sem farið er að hugsa um, eins og kóboltsprengjuna, að það sé ekki aðeins hægt fyrir okkur að þurrka út alla þá menningu, sem mannkynið hefur verið síðustu árþúsundirnar að byggja upp, heldur sé líka hugsanlegur möguleiki fyrir okkur að þurrka burt mannkynið sjálft, þannig að ef einhver dýr lifðu eftir á jörðinni, þá yrði sú sama milljóna ára þróun, sem gerzt hefur og skapað hefur okkur í þeirri mynd, sem við erum nú, að endurtaka sig aftur, ef jörðin þá yrði byggileg.

Þegar svona viðhorf blasa við fyrir okkur, þá er ekki að undra, þó að við sjáum ástæðu til þess að hreyfa slíkum málum — og það á þingi, sem á sér einhverja merkilegustu sögu, sem nokkurt þing í veröldinni á, þing, sem hefur sýnt sig fyrir upp undir þúsund árum að geta ráðið við vandamál, sem flestar eða allar aðrar þjóðir urðu að leysa með vopnum.

E. t. v. vilja menn nú hugsa sem svo, að þegar við mennirnir séum orðnir svo voldugir og getum gert svona mikið og grandað þar með okkur sjálfum, þá sé lítil von til þess, að við getum hindrað það, að svona vopn verði notuð.

Það er þó ekki ástæða til þess að kvíða í þeim efnum. Við mennirnir höfum þegar fundið upp og þekkt áratugum saman eiturtegundir, sem geta þurrkað út allan gróður, allt dýralíf og allt mannlíf á stórum svæðum í veröldinni. Við höfum getað þegar ræktað bakteríur, sem geta, ef þeim er beitt sem vopnum, haft sömu áhrif í því að eyðileggja allt lifandi. En við mennirnir höfum haft vit á því að gera samkomulag um það, jafnvel þótt við beittum öðrum tækjum til þess að drepa hverjir aðra, að nota ekki þessi vopn, og flestallar þjóðir heims, þó ekki Bandaríki Norður-Ameríku, hafa undirritað samkomulag um að beita ekki slíkum vopnum eins og bakteríuhernaðinum, og það hefur til allrar hamingju ekki komið fyrir, að þeim vopnum hafi verið beitt í stórum stíl. Við höfum sem sé dæmin um, að þegar önnur eins drápstæki og eitrið eða bakteríurnar hafa verið ræktaðar eða fundnar upp og mögulegt verið að nota það, þá höfum við mennirnir getað haft vit fyrir okkur sjálfum í því að koma okkur saman um að nota ekki svona hluti.

Þær kjarnorkusprengjur, sem nú hafa verið fundnar upp, og nú síðast vetnissprengjan eru drápstæki, sem eru stórvirkari en nokkur eiturvopn eða nokkur bakteríuvopn, og það gegnir að því leyti öðru máli um þær og þá fyrst og fremst vetnissprengjuna, að þessi vopn eru þegar ýmist notuð eða tilraunir gerðar með þeim. Bandaríki Norður-Ameríku hafa þegar notað atomvopnin í Hiroshima og Nagasaki, drepið á nokkrum mínútum fleiri manns en allir íbúar Íslands eru og ekki aðeins drepið fólk heldur líka þannig breytt eðli manna, að erfðalögmálin gilda ekki lengur, að þeir menn sem verða fyrir áhrifum af þessu, eru ekki lengur færir um að skapa samsvarandi menn, með þeim erfðum, sem mannkynið á. Sjálf rás lífsins, framrás þess er trufluð af þessum tækjum. Við höfum enn fremur nú yfirlýsingu frá forseta Bandaríkjanna um, að vopn eins og vetnissprengjan verði notuð, ef til styrjaldar kemur, og jafnvel hann upp á eigin spýtur mundi grípa til þess að láta nota slík vopn. Við höfum sem sé yfirlýsingar um og heyrum nú þessa dagana ögranir og óbeinar hótanir um, að svona vopn verði notuð. Það er talað um það í Asíu, þar sem þau hafa verið notuð áður. En við vitum, að það muni líka vofa yfir viðar, ef farið verður að nota þau þar. Það er þess vegna vitað mál, að annaðhvort verða mennirnir sem heild að geta skapað samkomulag sín á milli um að hindra notkun þessara ægilegu tækja eða þá að allt mannlífið er í hættu.

Við höfum að vísu þekkt stríð og bardaga lengi á þessari jörð, en það, sem er um að ræða í sambandi við notkun hernaðartækja eins og vetnissprengju, er ekki lengur neitt stríð eða neinir bardagar. Það eru slík múgmorð, að það nálgast morð á sjálfu mannkyninu. Við verðum að gera okkur ljóst, að þessi hætta vofir yfir, að þetta er ekki aðeins tal, og ég fyrir mitt leyti vil undirstrika það, að það, sem gerir þessa hættu svona mikla, er, að þessi vopn eru í höndum á yfirstétt, sem er að missa stjórn á sjálfri sér.

Georg Brandes sagði eitt sinn, að það væri ekkert villidýr eins brjálað og maður, sem er hræddur um peninga sína, og það er auðséð, að sú auðmannastétt, sem drottnar í Bandaríkjunum, er að brjálast á sama hátt og sú yfirstétt, sem drottnaði í Þýzkalandi fyrir skömmu. Og það þarf að grípa fram fyrir hendurnar á slíkri yfirstétt, og það þarf að gera það áður en hún leggur út í þá hluti, sem hún hefur áður sýnt sig reiðubúna til þess að leggja út í. Við munum eftir sögunum um þær yfirstéttir, sem sáu, að hverju stefndi með þær. Við könnumst við þá menn, sem þegar þeir sjá, að þeir eru að tapa í veröldinni, kjósa heldur að láta allt farast með sér heldur en að tapa. Og það er það, sem þeir auðmenn, sem drottna í Bandaríkjunum, virðast vera hræddir við. Þeir þora ekki að horfa fram á friðsamlega þróun í veröldinni, vilja geta beitt tortímingarvopni við þær þjóðir, sem nú eru, eins og við Íslendingar höfum verið að gera, að berjast fyrir sínu frelsi, og það er þessi hætta, sem við verðum að gera okkur ljósa.

Þess vegna er það, að ég álít, að við eigum að okkar leyti hér á Alþingi Íslendinga að láta í ljós þá skoðun, sem er að verða almenningsálit í veröldinni, að það verði að koma í veg fyrir, að fleiri vetnissprengjutilraunir verði gerðar, og að þau stórveldi, sem nú geta framleitt þessa sprengju, komi sér saman um að gera ekki fleiri tilraunir og setjast að samningaborðinu til þess að koma í veg fyrir, að kjarnorkuvopn verði nokkurn tíma notað í hernaði.

Ég álít, að við Íslendingar eigum að taka undir þessar kröfur, það sé í samræmi við alla erfð okkar þjóðar, í samræmi við það, að við erum svo að segja eina þjóð veraldarinnar, sem aldrei hefur átt í stríði við neina aðra þjóð.

Ég hef í ræðu minni sagt skýrt og skorinort, hvar ég álít að hættan liggi, og þessari till., eins og við leggjum hana fyrir, þm. Sósfl., er fyrst og fremst beint til ríkisstj. Bandaríkjanna, því að við vitum, að þaðan stafar hættan. Það er komin fram brtt. við þessa till. frá hv. 4. þm. Reykv. (HG) og hv. 8. þm. Reykv. (GilsG), og ég verð að segja það, að þó að ég að vísu kysi heldur till. eins og hún er orðuð frá okkur, þá get ég líka ákaflega vel sætt mig við till. eins og hún þá yrði orðuð, því að það næst með henni sami tilgangur. Aðalatriðið er, að við Íslendingar getum sameinazt um það að leggja okkar lóð á vogarskálina í þessu efni og að við, þrátt fyrir þann mikla skoðanamun, sem hjá okkur er, þrátt fyrir allar þær deilur, sem við venjulega tökum upp, þegar við minnumst á þessi mál, gætum sameinazt um að láta til okkar taka á alþjóðavettvangi í máli, þar sem við ættum fyllilega að geta staðið sameinaðir. Ég vildi þess vegna leyfa mér að vona, að hv. alþm., þó að ég þykist vita af reynslu, að ýmsir þeirra mundu frekar kinoka sér við að samþ. till. með því orðalagi, sem við höfum haft á henni, mundu þó geta samþ. hana með því orðalagi, sem hv. 4. og hv. 8. þm. Reykv. leggja til.

En höfuðatriðið er hitt, að við samþ. slíka till., að við hverfum ekki þannig frá þessu þingi, að það sé ekki gert. Ég vildi mega óska, að það væri hægt að hafa samkomulag um það, að við afgr. þessa till. án þess, að hún færi til n. Við vitum, að þótt t. d. utanrmn. eða einhver önnur slík n. tæki þessa till. til meðferðar, þá gætu varla orðið á því breyt. frá því, sem er, a. m. k. eins og lagt er til að hún sé orðuð á þskj. 719, ef menn á annað borð vildu eitthvað samþ. í þessum efnum, og það álit ég að væri ákaflega vel farið og raunverulega ekki annað sæmandi fyrir okkur.

Ég vil þess vegna leyfa mér að vona, að hér geti orðið samkomulag um, að Alþ. Íslendinga sem ein af þeim elztu stofnunum, a. m. k. hér í Evrópu, sem skapaðar hafa verið til þess að skipuleggja menningarlíf hjá einni þjóð, láti, þegar menningin og mannkynið er í meiri hættu á jörðinni heldur en það hefur verið nokkurn tíma hingað til, þá skoðun sína í ljós og standi Alþ. allt saman um það, að þeim stóru og voldugu í veröldinni beri að hætta við þennan ægilega leik, sem byrjað er á. Ég álít, að við sem fulltrúar smælingjanna í heiminum, við sem þeir smæstu, ættum að segja þetta það skýrt og skorinort, að aðrar þjóðir tækju tillit til þess, og ég efast ekki um, að einróma samþykkt frá Alþ. Íslendinga hefði mikla þýðingu í þá átt að knýja þetta fram.