12.04.1954
Sameinað þing: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í D-deild Alþingistíðinda. (2992)

192. mál, alsherjarafvopnun

Forseti (JörB):

Það eru margir, sem komnir eru á mælendaskrá. (EOl: Það er nóg nóttin.) Að vísu, en ósýnt er nú, hvort umr. geti lokið samt. (EOl: Það er sjálfsagt að reyna það.) Ég veit nú ekki. nema hyggilegra væri að fresta umr. til næsta dags (EOl: Ég vil mótmæla því. ) — úr því að svona margir eru á mælendaskrá. (EOl: Er ekki réttast að halda áfram í nótt með þetta?) Till. kemur til umr. Hv. þm. getur treyst því, að hún kemur á dagskrá og til umr. (EOl: Ja, en það er bara takmarkaður tími á morgun, því að það eru mörg fleiri mál, og það er nú síðasta nóttin, sem við höfum til að vinna.) En ef dagurinn verður notaður vel, þá getur það orðið drjúgur tími. (EOl: Það eru fleiri mál á morgun á ferðinni, sem verður talað nokkuð mikið í. Ég vil eindregið óska eftir, að það sé haldið áfram með umr. nú. Það hafa ekki verið það margir fundir í Sþ. upp á síðkastið. Og ég vil bara benda á það, forseti, að ef stjórnarliðið ætlar að hafa þann hátt á að tefja mál hér, eftir að stjórnarandstaðan hefur gert stjórninni mögulegt að koma í gegn málum hérna með því að talá ekki í þeim, þá verður farið að endurskoða þá aðferð. Ég vil benda ríkisstj. á, að hún kemur ekki málum í gegn hér á Alþingi, eins og hún lætur sitt stjórnarlið sækja þingfundina. Þá skal verða gerbreytt um aðferðir hér í þinginu, ef hún ætlar að hafa svoleiðis við.) Ég verð að benda hv. 2. þm. Reykv. á, að enn er ekki ástæða til þess að vera svona órór eins og hann er. Þetta er ekki svo komið, að ekki sé unnt að ræða málið, þó að það gerist ekki nú í nótt. (EOl: Ég vil krefjast þess, að forseti haldi áfram umr. í nótt.) Ja, það er sjáanlegt, að ef umr. heldur áfram, þá verður það langt fram á nótt og kannske lýkst ekki, og þá er ekkert við það unnið, og stundum er það nú með afgreiðslu mála ekki óhyggilegt að fara hóflega í sakirnar, meðan ekki er útilokað, að möguleiki sé á því að fá mál afgr. á þinglegan hátt, eins og vakir nú fyrir hv. þm.

Það er rétt, þar sem svona er ástatt um þetta og komið er nú fram á nótt og fyrirsjáanlegt, að ósýnt er, að umr. verði lokið, þar sem nú þegar eru komnir sex menn á mælendaskrá, að Alþ. sjálft ákvarði, hvort umr. skuli haldið áfram nú í nótt eða ekki, og ber ég það þá undir hv. alþm.