12.04.1954
Sameinað þing: 48. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í D-deild Alþingistíðinda. (2996)

192. mál, alsherjarafvopnun

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég tók það fram, að það væri misnotkun á valdi forseta að skjóta því undir úrskurð Alþ. að hindra frekari umræður um málið, þegar auðséð er, að það er annars vegar minni hlutinn, stjórnarandstaðan, sem í hlut á, hins vegar stjórnarliðið. Það er hægt að stöðva umræður um hvert einasta mál í þinginu með því að viðhafa þær aðferðir. Forseti er skoðaður sem fulltrúi jafnt stjórnarandstöðunnar sem ríkisstj., og honum ber sem forseta að sjá jafnt um rétt stjórnarandstöðunnar til þess að ræða mál eins og meiri hl., og það veit hæstv. forseti. Hitt skal ég viðurkenna, að hæstv. forseti getur séð um það, að umr. um þetta mál haldi áfram. Hann getur lofað því hér að slíta ekki Sþ. fyrr en atkvgr. hefur farið fram um þetta mál. Hann er í þeirri sérstöku aðstöðu nú fyrir utan allt annað, að hann er einn handhafi forsetavalds og getur ráðið því, — meira að segja sá, sem situr þar í forsæti. Ef hæstv. forseti lýsir því hér yfir, að þetta mál muni fá sína eðlilegu afgreiðslu, þannig að endanleg atkvgr. muni fara fram um það, áður en þingi ljúki, þá er náttúrlega engin ástæða fyrir mig til þess að vera með fleiri mótmæli hér í kvöld.