13.04.1954
Sameinað þing: 51. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í D-deild Alþingistíðinda. (3003)

192. mál, alsherjarafvopnun

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Meiri hl. hv. utanrmn. hefur gert grein fyrir afstöðu sinni til þessarar till. á þskj. 862.

Þegar haldinn var fundur í dag í utanrmn. til þess að ræða till. á þskj. 620, lá fyrir einnig brtt. á þskj. 719, en ég sé nú, að eftir afgreiðslu málsins í utanrmn. hafa bætzt við tvö þskj. í þessu máli, þar sem er brtt. hv. 1. landsk. þm. á þskj. 863 og brtt. hv. 1. flm. þáltill., hv. 2. þm. Reykv., á þskj. 866. Eins og nál. meiri hl. utanrmn. ber með sér, varð ekki samkomulag í n., og þá stóðu málin þannig, að þeir tveir hv. nm., sem nú hafa síðan flutt brtt. á sérstökum þskj., töldu sig ekki geta fallizt á þá afgreiðslu málsins, sem meiri hl. lagði til í n. Ég skal ekki fullyrða, hvort brtt. á þskj. 863 er alveg samhljóða brtt. á þskj. 719, af því að ég hef alveg nýlega séð hana, en í n. var helzt að heyra á þeim hv. þm., sem þessa brtt. flytur, hv. 1. landsk. þm., að hann mundi halla sér að brtt., sem komin var á þskj. 719. Og í raun og veru skildi ég orð hv. 2. þm. Reykv. einnig á þá leið„ að hann mundi, ef ekki yrði samþ. aðaltill., verða sammála hv. 1. landsk. að svo komnu máli.

Það er stórt deilumál, sem hér er fært inn á Alþingi Íslendinga, þar sem gert er ráð fyrir, að Alþingi geri ályktun í þessu að kalla má allra viðkvæmasta deilumáli á alþjóðlegum vettvangi sem stendur. Það getur vel verið, að á það sé misjafnlega litið frá ýmsum hliðum, hvort Alþingi eigi yfir höfuð að gera ályktun um slík mál og þá í hvaða átt sú ályktun skuli helzt stefna. Við vitum það, að við höfum þá sérstöðu að vera vopnlaus þjóð og viljum vera það áframhaldandi, og liggur því næst þessari þjóð að styðja þá hugsjón, sem uppi hefur lengi verið og er ekki hvað minnst nú á dögum, allsherjarafvopnun, styðja þá hugsjón, að þjóðirnar hætti að berast á banaspjótum, hvort heldur þau spjót eru smíðuð úr stáli, úr eiturgasi eða atómorku. Ef svo lánlega gæti til tekizt fyrir þjóðunum, að með samningum og samþykktum kæmi bræðralagshugsjón í stað hernaðaranda og afvopnun í stað þess að finna upp ný og ný vopn, þá væri það hið heillaríkasta fyrir mannkynið. Ef sú afvopnun væri raunhæf og undir alþjóðlegu eftirliti, mundi það fara langt til þess að girða fyrir allar þær ógnir, sem nú stafa af þessum geigvænlegu vopnum, sem nútímatækni og vísindaleg þekking hafa lagt upp í hendur manna. Meiri hl. hallast því frekar á þá sveif, að Alþ. styðji þessa meginhugsjón allra friðelskandi manna og allra friðelskandi þjóða um allsherjarafvopnun, og þá um leið er sú hugsjón borin uppi, að bæði kjarnorkuvopn og önnur vopn hætti að ógna mannkyninu.

Við teljum, að þetta sé raunhæfasta leiðin. Sú till., sem borin var fram í upphafi, beinir broddum sínum einungis að einni þjóð veraldar í þessu efni og einu vopni, og brtt. gerir svipað, nema hún snýr máli sínu til þriggja ríkja heimsins, en allsherjarafvopnunin gripur yfir þetta allt saman, ef hún gæti komizt á, og nær til allra þjóða og allra vopna og allra ógna, sem af vopnaburði stafa. Það er þess vegna, að við teljum, að þetta sé raunhæfasta leiðin til þess að bægja frá heiminum hinum geigvænlegu vítisvopnum nútímans, hverju nafni sem þau nefnast, þar með auðvitað talin kjarnorkuvopn og vetnissprengjur, og að slík allsherjarafvopnun sé undir alþjóðlegu raunhæfu eftirliti. Líklegustu og öflugustu alþjóðasamtökin til þess að taka málið þessum tökum teljum við hinar Sameinuðu þjóðir, og við viljum leggja til, að Alþingi Íslendinga feli ríkisstj. að beina áskorun sinni einmitt til hinna Sameinuðu þjóða um, að þær beiti sér af alefli fyrir því að koma á allsherjarafvopnun. Með því teljum við að mest öryggi verði fengið fyrir þeim hættum, sem mannkyninu og framtíð mannkynsins stafi af þeim vopnum, sem beitt er í ófriði og mundi verða beitt framvegis, ef um ófrið væri að ræða.

Ég sé nú, að hv. 1. flm. þáltill., hv. 2. þm. Reykv., hefur með sinni nýjustu till. gert ráð fyrir því, að Alþingi telji, að fyrsta skrefið til allsherjarafvopnunar sé, að tafarlaust sé hætt öllum tilraunum með vetnissprengjur. Ég tel, að það sé ákaflega hæpin fullyrðing að marka þannig fyrsta sporið í allsherjarafvopnuninni, vegna þess að til grundvallar því, að hið fyrsta raunhæfa spor verði stigið í þessum efnum, er að mínum dómi frekar sannfæring hinna vitrustu meðal þjóðanna um það, að með nútímatækninni sé veröldin komin svo nálægt þeirri heljarþröm, ef um ófrið yrði að ræða, að einsýnt sé, að allir þeir, sem vilja vel í heiminum, hverrar þjóðar eða kynflokks sem þeir eru, verði að leggjast á þá höfuðsveif í þessum málum, að allsherjarafvopnunin komist í kring. Og hver er kominn til þess að segja um það, hvort kjarnorku- eða vetnissprengjan, sem svo er kölluð, verði lengi það nýjasta nýtt í málinu? Þessi hugtök eru tiltölulega ný og mjög stutt síðan vetnissprengjan yfir höfuð heyrðist nefnd. Hver getur ábyrgzt, að ekki sé á næstu grösum einhver ný tegund vítisvéla eða slíkra vopna, þannig að þótt kjarnorkuvopnin yrðu bönnuð, þá mætti við því búast, að eitthvað annað skyti upp höfðinu? Fyrir því getur enginn séð, eins og enn er komið, neinn enda. Þess vegna, eins og ég hef lýst, að við lítum þannig á í meiri hl. utanrmn., að allsherjarafvopnunin sé leiðin. sem verði að fara og muni reynast heppilegust, og að afskipti Sameinuðu þjóðanna af þessum málum muni reynast sterkust og notadrýgst, höfum við lagt til, að þessi þáltill.samþ. svo breytt sem segir í brtt. á þskj. 862.

Ég ætla, að það sé ekki þörf fyrir mig að hafa hér um fleiri orð. Ég veit það, að ágreiningur var í n. um afgreiðslu málsins. Sá ágreiningur heldur sennilega áfram hér í þingsalnum. En við vildum í n. stuðla að því fyrir okkar leyti, að þetta mál fengi þinglega afgreiðslu og fengi afgreiðslu á þann hátt, sem Alþingi Íslendinga sæmir.