13.04.1954
Sameinað þing: 51. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í D-deild Alþingistíðinda. (3005)

192. mál, alsherjarafvopnun

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það hafa nú skeð þau undur, að hv. utanrmn. hefur afgr. tillögu og það meira að segja fljótt. Á fundi, sem ég mætti á í utanrmn. í dag, klofnaði n., og eins og þegar hefur verið skýrt frá, mynda stjórnarflokkarnir þar meiri hluta, en við erum þar báðir í minni hluta, hv. 1. landsk. og ég. Ég hef enn þá ekki gefið út nál., en býst við, að það komi frá mér, áður en lýkur, en það gerir nú ekkert til, það þarf ekki að tefja þessar umr.

Eins og þegar hefur verið skýrt frá, þá hafa fulltrúar stjórnarflokkanna í utanrmn. lagt til, að till., sem ég hef flutt ásamt fleiri hv. þm., yrði breytt eins og segir á þskj. 862, þannig að till. yrði þá áskorun til Sameinuðu þjóðanna um að beita sér fyrir allsherjarafvopnun og eins og þar segir svo áfram. Ég skal vissulega undirstrika það fallega, sem kom fram í ræðu hv. frsm. meiri hl. n., hv. þm. Vestm. (JJós). Það væri náttúrlega ákaflega fallegt og gott, ef mannkynið gæti nú komið sér saman um að hætta að stríða, ef menn gætu nú komið sér saman um allt í einu að leggja niður vopn, sem menn hafa tíðkað síðustu árþúsundirnar hér á jarðríki. Vissulega væri þetta ákaflega æskilegt, og það væri náttúrlega ákaflega erfitt að vera að hafa mikið á móti því, að samþ. væri till. í þá átt. svo framarlega sem maður hefði einhverja von um, að það væri lausn á því vandamáli, sem við erum að glíma við núna.

Við skulum alveg gera okkur ljóst, hvert vandamálið er, sem við erum að glíma við. Það hefur allt í einu skapazt sú hætta, að mannkynið geti þurrkað sjálft sig út, að með vetnissprengjunni og með áframhaldandi — þróun þeirra vítisvéla verði mögulegt fyrir mannkynið að þurrka sjálft sig út, eyðileggja alveg tilveru þessarar sérstöku dýrategundar, sem svona hátt hefur náð, eyðileggja jafnvel allt líf á jörðinni, jafnvel sprengja sjálfa jörðina undan sér, breyta jafnvel jörðinni í sól. Það er alveg óútreiknanlegt, hvað það er, sem getur hlotizt af því, ef mannkyninu og þeim mönnum, sem því stjórna, á að haldast uppi að halda áfram að beita þessum aðferðum, vetnissprengjum og öðru slíku, kjarnorkusprengjum á einu eða öðru stigi, jafnvel líka nýjum stigum, eins og hv. þm. Vestm. var að minnast á. Það er óútreiknanlegt, hvað af því kann að hljótast, ef það á að viðgangast hjá mannkyninu og reiknast með í eðlilegum hernaði. Það er þessi hætta, sem við erum að glíma við. Það er þessi hætta, sem ógnar allri tilveru okkar mannanna hér á þessari jörð.

Hins vegar hvað snertir stríð, sem er mjög sorglegt og slæmt fyrirbrigði, þá er það samt svo, að í allmargar árþúsundir, næstum meðan við höfum sögur af, hafa mennirnir barizt. Þeir hafa barizt með sverðum, og þeir hafa jafnvel barizt með skæðari vopnum. Þeir hafa barizt, en það hefur aldrei verið sú hætta í sambandi við það, þegar menn börðust með sverðum og spjótum og öðru slíku, að menn gereyddu mannkyninu, að menn þurrkuðu mannkynið út af jörðunni. Þrátt fyrir það, þótt mennirnir hafi öldum saman háð styrjaldir, barizt með sverðum og spjótum og skæðari vopnum, þá hefur aldrei — til allrar hamingju — verið hætta á því, að þeir dræpu allt mannkyn, sem til var á jörðunni. Því segi ég það: Það væri vissulega æskilegt, að mennirnir gætu hætt að berjast, að það væri hægt að afvopna allan heiminn.

En finnst mönnum það sérstaklega líklegt sem raunhæf aðgerð og raunhæf till. frá þjóðþingi eins og Alþ. Íslendinga að leggja það til í dag, að við skulum tengja spurninguna um að hindra notkun vetnissprengjunnar við það, að við hættum að berjast með sverðum og spjótum eða öðrum slíkum vopnum? Er það skynsamlegt? Er það raunhæft?

Það er ekki vegna þess, að ég sé á móti því, að menn hættu að berjast með sverðum og spjótum eða öðrum slíkum vopnum, að ég gagnrýni þessa till., heldur vegna þess, að hún gengur fram hjá þeirri geigvænlegu hættu, sem yfir okkur vofir. Það hafa vofað yfir okkur fleiri hættur en vetnissprengjan í sambandi við styrjaldir. Það hefur vofað yfir okkur sú hætta, að bakteríuhernaður yrði tekinn upp, að bakteríum, sem væru ræktaðar alveg sérstaklega í tilraunastöðvum stórveldanna, væri beitt til þess að gereyðileggja lífið á svo og svo stórum svæðum jarðarinnar. Flest ríki veraldarinnar hafa hins vegar til allrar hamingju komið sér saman um það, þó að vísu ekki Bandaríkin, að banna notkun bakteríu í styrjöldum, og það hefur aldrei verið gert, ekki af neinu ríki. Það er líka í slíkum tilraunastöðvum búið að finna upp eitur, sem gæti drepið alla íbúa einnar stórborgar á örskömmum tíma, en menn hafa yfirleitt komið sér saman um, að slík vopn ætti ekki að nota. Þessar hættur hafa verið til, og mennirnir hafa einbeitt sér að því að reyna að hindra, að þessi vopn væru notuð. Þess vegna er gert samkomulagið um bann við notkun bakteríu í hernaði. Menn hafa líka komið sér saman um að hafa ákveðnar reglur í ófriði um að reyna að bjarga særðum mönnum og leyfa Rauða krossinum og öðrum hjúkrunarsveitum ákveðið starf til þess að reyna að lina skelfingar ófriðar, og það hefur verið spor í rétta átt, jafnvel þótt það hefði vissulega verið betra, þegar till. komu fram um Rauða kross og aðrar hjúkrunarsveitir, að menn bara hættu alveg að berjast. M. ö. o.: Þær till., sem fram hafa komið hjá mannkyninu um að reyna að lina skelfingar styrjaldanna, reyna þó að gera þær ekki eins ægilegar og þær eru, reyna þó að bjarga þeim mönnum, sem særðir eru, þegar verið er að berjast, reyna þó að koma í veg fyrir, að bakteríur séu notaðar, reyna í þessu tilfelli að koma í veg fyrir, að kjarnorkuvopn séu notuð. Þetta eru allt saman stórvægilegar, raunhæfar till., sem geta dregið úr þeirri skelfingu, sem styrjöld er. Þess vegna er ekki raunhæft að flytja þá till., sem meiri hl. í utanrmn. hér flytur.

Ég vil bara skjóta því að fulltrúum stjórnarflokkanna í hv. utanrmn., hvernig þeim mundi finnast það, þegar hagsmunastreita á sér stað, — við skulum segja verkamenn og atvinnurekendur eru að deila eða jafnvel að bændur og kaupstaðarbúar væru máske að deila um verð eða eitthvað annað slíkt, að menn rækju sig á það í veröldinni, að það væru andstæðir hagsmunir, og menn væru að reyna að miðla þarna málum og finna út það, sem rétt væri, og afstýra miklum vandræðum í sambandi við slík átök, — hvernig mundi þeim litast á, ef það væri bara allt í einu sagt: Ja, góðir menn, elskið bara hverjir aðra, framkvæmið það í reyndinni, og gefið hvor öðrum allt með hinum, og verið svo ekki að togast á um hagsmuni? Það væri einhver svipuð aðferð, álíka raunhæf til lausnar daglega á þeim vandamálum, sem við erum að stríða við, eins og sú, sem meiri hl. utanrmn. hérna leggur til, að þegar mannkynið stendur frammi fyrir þeirri hættu, sem af kjarnorkuvopnunum stafar, þá skuli menn bara koma sér saman um að hætta alveg hreint að berjast í veröldinni.

Svona laust má ekki taka á þessu máli. Það verður að taka raunhæfar á þessum málum heldur en þarna er gert. Þess vegna vil ég leyfa mér að benda á, í hvaða samhengi þessar till., sem hér koma fram um að vísa svo að segja burt öllum tilraunum um bann við notkun kjarnorkuvopna með því að taka upp málið sem allsherjarafvopnun, standa við þá utanríkispólitík, sem Bandaríkin nú hafa tekið upp. Bandaríkin hafa sem sé, og það í byrjun þessa árs, gerbreytt um stefnu í öllum sínum hernaðarmálum og þar með raunverulega að miklu leyti í sínum utanríkismálum. Þau hafa tekið upp þá stórhættulegu stefnu að einbeita öllum sínum styrjaldarrekstri að því að berjast með kjarnorkuvopnum. Þau hafa gert þá ráðstöfun, sem tilkynnt var af utanrrh. Bandaríkjanna núverandi, Dulles, 12. jan. þ. á., að Bandaríkin lýstu því yfir, að þau gerbreyttu nú um hernaðarstefnu og byggðu héðan af allt á því að geta svarað árásum með gagnárásum kjarnorkuvopna. M. ö. o.: Það er meira að segja af hálfu Bandaríkjanna dregið úr framlagi til hers, á sama tíma sem margfaldað er framlag til kjarnorkuvopna og það sérstaklega til vetnissprengna. Því er lýst yfir, að byrji styrjöld, þá muni fyrst og fremst kjarnorkuvopnunum verða beitt, m. ö. o., verði styrjöld, þá muni Bandaríkin beita kjarnorkuvopnum, og það mun vafalaust þýða, að þeim verði beitt á báða bóga. Það er þessi gerbreyting á öllum styrjaldarrekstri, sem lýst var yfir 12. jan. af Dulles utanrrh. Bandaríkjanna, sem hefur gerbreytt viðhorfunum í veröldinni og skapað hættuna á því, að mannkyninu eða stórum hluta þess og a. m. k. menningunni á jörðinni yrði eytt, svo framarlega sem til nýrrar heimsstyrjaldar kæmi. Og það er þess vegna sem okkur verður að skiljast, að það verður að leggja aðaláherzluna á að hindra, að þessi ægilegu vopn verði notuð í styrjöld.

Það er verið að berjast í heiminum núna sem stendur. Það er verið að reyna að koma í veg fyrir, að gripið verði til annarra eins vopna og vetnissprengjunnar í þeim styrjöldum, sem nú standa. Alþingi hefur sjálft hér og einstakir þingmenn látið í ljós sínar skoðanir á frelsisbaráttu þeirra þjóða, sem eru að berjast fyrir sinu frelsi, allt frá Marokkó og austur til Indó-Kína. Við vitum, að þessar þjóðir eru alltaf öðru hverju að berjast fyrir því að velta af sér nýlenduokinu. En við vonumst til þess, að þó að stríð séu háð á þessum stöðum, þá verði ekki farið að beita kjarnorkuvopnum í þeim styrjöldum.

Hvernig svöruðu nú aðrar þjóðir veraldar og ábyrgir ráðamenn Bandaríkjanna, þegar Dulles utanrrh. Bandaríkjanna gaf þessa yfirlýsingu 12. jan. og gerbreytti þannig þeirra hernaðarpólitík? Utanrrh. Kanada, — og Kanada er líka meðlimur í Atlantshafsbandalaginu, — Lester Pearson, lýsti því yfir, að þessar yfirlýsingar utanrrh. Bandaríkjanna væru alls ekki gefnar í neinu samráði við stjórn Kanada. Í enska þinginu kom það greinilega fram, ekki sízt hjá fyrrverandi hermálaráðherra, Hore Belisha, hvernig Bretarnir vilja alls ekki vera samábyrgir um þessar yfirlýsingar Bandaríkjanna. Og hjá þeim mönnum, sem eru dálítið ábyrgari í sinni utanríkispólitík í Bandaríkjunum sjálfum heldur en núverandi stjórn republikananna, kom þetta nákvæmlega sama fram. Sá maður, sem hv. stjórnarflokkar hér á Alþingi hafa þó á undanförnum árum stundum gert nokkuð með, Acheson, fyrrverandi utanrrh. Bandaríkjanna, réðst mjög harðvítuglega á þessa pólitík Dulles og ríkisstj. Bandaríkjanna í New York Times 28. marz, þar sem hann segir m. a.:

„Bandamenn Ameríku mundu réttilega líta svo á, að tilveru þeirra væri að nauðsynjalausu stefnt í voða á ófyrirleitinn hátt. Það er ekki hægt að vænta þess að þeir mundu samþ. slíka stefnu bandalagsins. Það væri heldur ekki hægt að gera ráð fyrir því, að þeir vildu samþ., að við notuðum herstöðvar í löndum þeirra. Í stuttu máli: Það er erfitt að ganga rækilegar í berhögg við þær meginreglur, sem heppileg stefna Atlantshafsbandalagsins hlyti að byggjast á.“

Þetta var yfirlýsing frá Acheson, fyrrverandi utanrrh. Bandaríkjanna, og Demokrataflokkurinn bandaríski hefur yfirleitt tekið þá afstöðu að gagnrýna harðvítuglega þessa stefnu, sem í ársbyrjun var tekin upp.

Þetta eru þeir hlutir, sem við þurfum að gera okkur ljósa. Þetta eru þau raunhæfu vandamál, sem við stöndum frammi fyrir. Núverandi ríkisstjórn Bandaríkjanna með Dulle utanrrh. í broddi fylkingar hefur markað nýja utanríkispólitík, nýja hernaðarpólitík, sem stofnar tilveru mannkynsins í hættu, með því að lýsa því yfir, að Bandaríkin muni leggja höfuðáherzluna á smíði kjarnorkuvopna og beita kjarnorkuvopnum í styrjöld. Og Eisenhower forseti hefur sjálfur lýst því yfir, að hann mundi taka það á sína ábyrgð að beita þessum kjarnorkuvopnum. Það er þessi hætta, sem við stöndum frammi fyrir, og það er að afstýra þessari hættu, sem við verðum fyrst og fremst að einbeita okkur að með þeim litlu áhrifum, sem við getum haft hér í Alþingi Íslendinga. Þess vegna álít ég ekki rétt að glepja okkur að neinu leyti, jafnvel þótt að öðru leyti væru fallega orðaðar till., en hindruðu þennan tilgang.

Um upphaflega till. okkar sósíalista á þskj. 620 var minnzt á hér áðan, að henni væri að nokkru leyti beint gegn Bandaríkjunum eða það væri broddur í henni til Bandaríkjanna, Hann er nú að vísu ekki neitt mjög harðvítugur, hann er mjög kurteis, en hann var eðlilegur og raunhæfur, vegna þess að Bandaríkin eru eina ríkið, sem hefur beitt kjarnorkuvopnum í styrjöld, og eru það ríki, sem lýsir því yfir nú, að þau ætli sér að beita vopnunum í styrjöld, og eru auðsjáanlega núna að byrja með að hóta að beita kjarnorkuvopnum í Asíustyrjöld. Þess vegna var það ekkert óeðlilegt, þó að þessi litli broddur væri í okkar till. Hins vegar, eins og ég lýsti yfir við byrjun mína á umr. um þetta mál í gærkvöld, þá gat ég ákaflega vel hugsað mér að samþ. þá till. frá hv. 4. og 8. þm. Reykv., sem þá var fram komin, og nú hefur hv. 1. landsk. tekið þá till. upp og flytur hana sem brtt. við till. meiri hl. utanrmn. á þskj. 863, og ég vil lýsa því yfir, að ég mun að sjálfsögðu greiða þeirri brtt. atkvæði. Hins vegar lízt mér svo á, að sú ágæta till., ef stjórnarflokkarnir standa saman um sinn meiri hl. í utanrmn., muni að öllum líkindum verða felld, því miður. Þá væri mjög góð og mjög virðuleg till. fyrir Alþingi að samþ. Þess vegna hef ég leyft mér að flytja brtt. á þskj. 866 um, að það bætist aftan við till. meiri hl., þessa till., sem fer fram á allsherjarafvopnun, svo hljóðandi setning, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi telur, að fyrsta skrefið til allsherjarafvopnunar sé, að tafarlaust sé hætt öllum tilraunum með vetnissprengjur og að notkun þeirra og annarra kjarnorkuvopna sé bönnuð.“

M. ö. o.: Ég lít svo á, að ef meiri hl. Alþingis Íslendinga vill endilega fara þá leið að afgr. þetta mál, sem hérna liggur fyrir, með einni allsherjarósk um allsherjarafvopnun, þá verði þó Alþingi Íslendinga að gera sér það ljóst, að vandamál, sem mannkynið er búið að glíma við í margar þúsundir ára, þ. e. það vandamál, að menn skuli beita vopnum, verður að öllum líkindum ekki leyst á þann hátt, að menn stökkvi þaðan, sem við stöndum í dag með ógn vetnissprengjunnar yfir höfðum okkar, og komi ekki niður fyrr en á enda leiðarinnar, þar sem allir menn hafa lagt niður öll vopn. Ég held, að við verðum að gera okkur ljóst, að leiðina til allsherjarafvopnunar mannanna á jörðinni verðum við að feta skref fyrir skref, og því stærri og betri skref sem við getum stigið, því betra. Ég held, að fyrsta skrefið, sem við þurfum að stíga, sé að koma í veg fyrir, að kjarnorkuvopn verði notuð, — það sé fyrsta skrefið, sem við verðum að stíga, — og ef okkur tekst nú að hjálpa til að hafa þau áhrif, að það skref verði stigið, þá gæti ég trúað, að hægt væri að feta áfram á þeirri braut að reyna að fá fram allsherjarafvopnun hjá mannkyninu. Þess vegna álít ég, ef hv. þm. er alvara með að vilja stuðla að því að firra mannkynið þeirri hættu, sem kjarnorkuvopnin hafa skapað, þá beri þeim í öllu falli, ef þeir geta ekki samþ. þá ágætu till., sem flutt er á þskj. 863, að samþ. þessa viðbótartill. mína.