13.04.1954
Sameinað þing: 51. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í D-deild Alþingistíðinda. (3007)

192. mál, alsherjarafvopnun

Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Þetta mál hefur nú gengið með talsvert miklum hraða hér, síðan farið var að ræða það í gærkvöld, og ég tek eftir því og tók þó ekki eftir því fyrr en ég var búinn að flytja mína framsöguræðu, að brtt. meiri hl. n. á þskj. 862 er ekki nákvæmlega eins og ætlazt var til að hún yrði. Ég hef gert ráðstafanir til þess að fá till. prentaða upp. Ég get að vísu skýrt frá því, hvað það var, sem þarf að bætast við og vantaði, ef það þykir nægja, en að öðrum kosti læt ég forseta ráða því, hvort hann vill fresta fundi, þangað til hin uppprentaða till. er komin. Ég skal lýsa því eftir ósk hæstv. forseta, að þar sem stendur: „enda er það öruggasta ráðið til þess að koma í veg fyrir notkun kjarnorkuvopna og vetnissprengjunnar“ átti að vera: „enda er það öruggasta ráðið til þess að koma í veg fyrir framleiðslu og notkun kjarnorkuvopna og vetnissprengjunnar“ — og á eftir þessu koma orðin: „í hernaði“, svo að endirinn á þessari gr. er þá þetta: „enda er það öruggasta leiðin til þess að koma í veg fyrir framleiðslu og notkun kjarnorkuvopna og vetnissprengjunnar í hernaði.“

Þetta með framleiðsluna er þýðingarmikið, og var leitt, að það skyldi falla niður. Það kom t. d. fram í ræðu hv. 4. þm. Reykv. (HG), að hann leggur talsverða áherzlu á, að það sé hætt við tilraunir með þetta vopn, og má af þessari skýringu minni sjá, að meiri hl. er ekki eins fjarri hans hugsun og hin prentaða till. gefur tilefni til að ætla, eins og hún nú er, enda mun hið uppprentaða skjal sýna það, þegar þar að kemur.

Nú bið ég hæstv. forseta að segja til, hvort hann óskar eftir, að beðið sé eftir hinu uppprentaða skjali, annars ætlaði ég að bæta fáeinum orðum við. [Frh.]