13.04.1954
Sameinað þing: 51. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í D-deild Alþingistíðinda. (3023)

143. mál, laun karla og kvenna

Frsm. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Efni þessa máls er að skora á hæstv. ríkisstj. að beita sér fyrir því, að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um jöfn laun karla og kvenna verði staðfest að því er Ísland varðar, og jafnframt undirbúi ríkisstj. nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að samþykktin komist í framkvæmd.

Allshn. Sþ. hefur haft þessa till. til meðferðar og mælir einróma með því, efnislega, að hún verði samþ. Hún hefur gert orðalagsbreytingu nokkra á till. og telur réttara, að hún verði orðuð eins og n. hefur lagt til á þskj. 784.

Eins og hv. alþm. er kunnugt, þá hefur Ísland um nokkurt tímabil verið aðili að Alþjóðavinnumálastofnuninni, en á þingum þessarar stofnunar hefur jafnrétti karla og kvenna í launamálum verið rætt og gerðar um það ályktanir. Með samþykkt, sem gerð var á þingi stofnunarinnar árið 1951, var lagt til við aðildarríkin, að þau tryggðu það, að reglan um jöfn laun til karla og kvenna fyrir jafnverðmæt störf kæmi til framkvæmda hjá þeim og tæki til alls starfsfólks. Þessi samþykkt, sem gerð var árið 1951, er prentuð sem fskj. með þáltill. Löndin eða þjóðirnar, sem eru aðilar að Alþjóðavinnumálastofnuninni. hafa nokkur, frá því að samþykktin gekk í gildi, fullgilt hana hjá sér, en fleiri eru þó, sem eiga það eftir. Ekkert Norðurlandanna hefur t. d. enn þá fullgilt samþykktina, og hafa þau greint ástæður sínar til þess, að svo er, í skýrslu, sem þau hafa gefið Norðurlandaráðinu um það mál. Danir telja sig t. d. ekki geta fullgilt samþykktina vegna þess, að þar séu engin lög um þetta efni. Í skýrslu Norðmanna segir að þar hafi málið verið rætt í nefndum og á Stórþinginu, atvinnurekendur þar í landi hafi lagzt á móti fullgildingu samþykktarinnar, en verkalýðssambandið sé henni meðmælt. Á Stórþinginu hafi verið samþ. það álit félagsmálanefndar þingsins, að ríkisstj. skyldi taka til nákvæmrar athugunar, hversu koma megi grundvallaratriðum samþykktarinnar í framkvæmd. Svipað er að segja um Svía. Þeir hafa ekki heldur fullgilt samþykktina og frestað um það ákvörðun, a. m. k. ekki tekið ákvörðun, í hve ríkum mæli samþykktin skuli tekin til greina við ákvörðun launa starfsmanna ríkisins.

Hér á Íslandi hefur ríkisstj. á sínum tíma tjáð sig fylgjandi því, að gerð yrði alþjóðasamþykkt um sömu laun til karla og kvenna, þar sem hún væri fylgjandi þeirri grundvallarreglu í meginatriðum, enda er ekki gerður greinarmunur hér á landi á körlum og konum að því er snertir stöðu hjá hinu opinbera. Á öðrum sviðum mun nokkuð skorta á það, að reglunni um sömu laun sé framfylgt hér á landi, Samkvæmt þessu taldi allshn. rétt að breyta orðalagi till. á þann veg að fela ríkisstj. að undirbúa nauðsynlegar ráðstafanir, sem gera þyrfti, til þess að þessi samþykkt gæti tekið gildi hér á landi. Þessi undirbúningur getur hugsazt á tvennan veg. Hann getur hugsazt á þann hátt, að ríkisstj. beiti sér fyrir því, að upp verði teknir samningar milli Vinnuveitendasambands Íslands og allsherjarsamtaka vinnandi fólks í landinu um það, að þessir tveir aðilar komi sér saman um málið, og undirbúningurinn getur líka orðið á þann hátt ef svo vill verkast, að lagasetning um þetta efni verði undirbúin.

Um það, hvaða leið skyldi farin í þessu efni, hefur n. ekki látið neitt álit í ljós sérstaklega. En ég skal segja það sem mína skoðun, að ég teldi það æskilegast í þessu máli, ef samkomulag gæti um það tekizt á milli samtaka vinnuveitenda og t. d. Alþýðusambands Íslands og annarra sambanda vinnandi manna í landinu, frekar en að um kannske beina lagasetningu um efnið væri að ræða, þó að slíkt komi vitanlega fullkomlega til greina. Sem sagt, n. leggur til, að málið verði afgr. á þann hátt. að till. verði samþ. með þeirri breyt., að hún orðist eins og segir á þskj. 784, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að undirbúa nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um jöfn laun karla og kvenna fyrir jafnverðmæta vinnu geti orðið staðfest á Íslandi.“

Ég skal geta þess, að við fjórir Alþfl. menn í hv. Nd. höfum þar borið fram frv. til laga, sem fer í nokkuð svipaða átt og þessi till., þ. e. a. s., þar er þó ekki byggt á samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, heldur er þar gert ráð fyrir sérstöku og ákveðnu lagafrv. um málið, og ég tel, að með þessari samþykkt, ef gerð verður hér, séu því máli, sem í frv. felst, efnislega einnig gerð nokkur skil og því þokað verulega áleiðis eins og till. er orðuð og gerir ráð fyrir.