04.11.1953
Sameinað þing: 13. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í D-deild Alþingistíðinda. (3031)

71. mál, strandferðir og flóabátar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Vafalaust er þessi till. sem hér er til umr., fram borin vegna þess, að halli er frá ári til árs á Skipaútgerð ríkisins. En það er þó ekkert nýtt atriði fyrir mönnum. Þessi þjónusta mun hafa verið rekin með halla lengstum og fáir í raun og veru gert sér vonir um það, að hægt væri að reka þá þjónustu sem fjárplógsstarfsemi, eða yfirleitt, að það væri æskilegt, að það væri gert. Það hefur víst verið lítill ágreiningur um það milli stjórnmálaflokka að haga farmgjöldum fyrir vörur með Skipaútgerð ríkisins á þann veg, að ekki væri greitt hærra gjald fyrir þá vöru, sem flutt er til Austfjarða, Vestfjarða og Norðurlandshafna, heldur en fyrir þær vörur, sem fluttar eru hér á nágrannahafnir við Rvík. Þetta er vitanlega mikilsverð þjónusta fyrir fólkið, sem býr í hinum fjarlægari héruðum og landshlutum, og mér er ekki kunnugt um, að neinn stjórnmálaflokkur hafi lagt til, að önnur „prinsip“ væru tekin upp í þessu efni. En það væri vitanlega hægt að hverfa frá þessu og ætla fólkinu í hinum fjarlægu landshlutum að bera þyngri byrðar í sambandi við þær vörur, sem ríkisskipin flytja frá fólkinu og til þess, og þar með skapa allt annan grundvöll fyrir þessa útgerð til þess að bera sig og kannske bera sig vel. En þeir, sem ekki vilja, að breytt sé þessu grundvallaratriði, mega ekki alveg falla í stafi, þeir verða að reyna að halda vatni, þó að þetta leiði til þess. að það verði ekki gróðavænleg útgerð, sem annast þessa þjónustu, sem tekur vægt gjald fyrir vegna aðstæðna fólksins, sem hún er að þjóna. Það eru á fjárl. þessa árs ætlaðar 6½ millj. kr. til Skipaútgerðar ríkisins, og fylgir því aths. frá fjmrh. um, að þörf sé þar jafnvel á hærri upphæð. Ef tekin er með sú upphæð, sem forstjórinn taldi nauðsynlega til fjárfestingar í viðbót, þá hafa verið nefndar í því sambandi 10 millj. kr. á næsta árs fjárl.

En það er önnur starfsemi, sem fer fram í einstaklingsrekstri, en er sama eðlis og þjónusta Skipaútgerðar ríkisins, og það er útgerð flóabátanna, miklu umfangsminni rekstur að vísu, en sama eðlis, og halli á þeim rekstri er nú áætlaður á næsta árs fjárlögum 1 millj. 250 þús. Þeir einstaklingar, sem reka þá báta, virðast ekki kunna á því lagið að hafa þessa starfsemi þannig, að hún standi undir sér hvað þá heldur að hún geti skilað arði.

Ég skal alls ekki fordæma þá hugsun, sem kemur fram í þessari þáltill., þá, að æskilegt væri, að þessi starfsemi væri undir einni stjórn og í höndum eins og sama aðila, sem annast hinn gróðavænlega þátt flutningamálanna fyrir þjóðina, þ. e. a. s. þann þáttinn að flytja vörur frá landinu og til þess. Það er vitanlega gróðavænleg starfsemi. Ég held, að það væri ákaflega eðlilegt, að þetta væri allt saman á hendi eins og sama aðila. En eins og drepið var á hér í umr. áðan, þá kom það fram í till., sem flutt var um þetta efni á síðasta þingi. Nú er aftur horfið frá því og lagt til, að starfsemi Skipaútgerðar ríkisins verði skipt á tvo aðila, Það virðist mér stefna í öfuga átt og ekki líklegt til að vera til bóta, en það er nú einhvers konar útjöfnunarstefna, sem í því felst og á að falla í það almenna pólitíska hallamælingakerfi, sem nú er hyrningarsteinninn undir samvinnu stjórnarflokkanna, og þess vegna er þetta nú náttúrlega ekki heldur út í hött. Það á sem sé að skipta þessari starfsemi niður á Eimskipafélag Íslands og Samband ísl. samvinnufélaga. Það á að afhenda skip Skipaútgerðar ríkisins Eimskipafélaginu og skipaútgerð Sambands ísl. samvinnufélaga samkv. samningum, sem líklegt er talið að kynnu að takast um þessa afhendingu. um leið og samið yrði um strandferðirnar sjálfar.

Ég minntist á það, þegar fjárl. voru til 1. umr., að mér fyndist skipun þessara mála vera nálega eins vitlaus og hún gæti verið, að ætla einstöku hlutafélagi með einstaklingsrekstri, sem nýtur skattfríðinda, að annast þjónustuna, sem hægt er að græða á, vöruflutningana að landinu og frá því, en ætla síðan ríkinu að annast þann hluta vörudreifingarþjónustunnar fyrir þjóðina, sem engar líkur eru til að geti staðið undir sér. Ég lét í ljós þá skoðun, og vil túlka hana enn með örfáum orðum, að ég teldi afar eðlilegt, að þessi þjónusta öll væri á hendi eins og sama aðila, að sá aðili, sem nýtur gróðans af þeim þætti þjónustunnar, sem hann annast, sæi einnig fyrir þeirri þjónustu, sem ekki getur staðið undir sér.

Nú mundi einhver láta sér detta í hug, að þá væri ég inni á sömu hugsun og hv. flm. þessarar till., að þetta bæri að afhenda Eimskipafélagi Íslands, en það er þvert á móti. Ég tel, að það gæti engu síður komið til álita og það beri að athuga, hvort ekki væri rétt, að ríkið, sem hefur þessa nauðsynjaþjónustu fyrir þegnana í hinum afskekktari byggðum landsins, tæki einnig að sér hinn gróðavænlega hluta flutningaþjónustunnar frá landinu og til þess og hefði síðan einhvern hluta af gróðanum frá þeirri starfsemi til þess að standa undir hallanum af strandsiglingunum. Og mér er nær að halda, að það væri nú rétta lausnin á því máli að losna við hallann á fjárl. í sambandi við strandferðirnar, að ríkið tæki einnig að sér hina gróðavænlegu aðflutninga til landsins og á afurðum þjóðarinnar til markaðslandanna og verði síðan nokkrum hluta af þeim gróða til þess að standa undir hallanum við strandsiglingarnar. Mér finnst eiginlega einkennilegt, að maður, sem virðist hafa hugsað dálítið um þessi mál eins og hv. flm. þessarar till., skuli alls ekki hafa dottið ofan á þessa lausn, því að hún virðist eiginlega blasa miklu eðlilegar við, sem sé, að það væri athugað, hvort ekki ætti að leggja Eimskipafélag Íslands og rekstur þess undir ríkið í stað þess að láta það njóta skattfrelsis og raka saman gróða á arðvænlegri þjónustu, en láta hins vegar ríkið sitja uppi með hallarekstur, sem einstaklingar vilja vafalaust ekki fúslega taka að sér, nema með því að það væri samið um styrki þeim til handa til þess að annast þjónustuna, enda hefur örlað á þeirri hugsun hjá hv. flm., að það þyrfti að gera ráð fyrir því, ef samningar tækjust, að samið yrði m. a. um styrki til handa Eimskipafélaginu og Sambandi ísl. samvinnufélaga til þess að taka þessa þjónustu að sér.

Ég held sem sé um þessa till., sem talar um það, að það eigi að koma þessum málum undir eina stjórn og í hendur einum aðila, að flm. hafi tekið þetta frá öfugum enda og ættu að hugleiða, hvort ekki ætti að snúa þessu alveg við og ætla ríkinu að taka að sér fyrst og fremst hlutverk Eimskipafélagsins og nota ágóðamöguleikana af þeirri starfsemi til þess að standa undir fyrirsjáanlegum halla af hinni þjónustunni, sem Skipaútgerð ríkisins hefur annazt til þessa. Það er a. m. k. álit Alþfl., að þá værum við öllu nær því að finna þessu máli rétta lausn en með þeirri till., sem hér liggur fyrir.