04.11.1953
Sameinað þing: 13. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í D-deild Alþingistíðinda. (3033)

71. mál, strandferðir og flóabátar

Skúli Guðmundsson:

Ég held ég sjái nú ekki ástæðu til að taka neitt aftur um það, sem ég sagði um hornið í síðunni, líklega hefði ég nú átt að byrja á því að færa hv. þm. Barð. þakklæti fyrir að veita mér tilsögn í háttvísi og þinglegheitum. — Hann segir, að það þurfi enginn að halda að það muni milljónum í kostnaði, þó að sérstök útgerðarstjórn sé sett yfir nokkurn hluta ríkisskipanna, þ. e. a. s. varðskipin. Við erum nú miklir menn orðnir hér, en stundum hefur nú verið talað hér um minna en milljónir, það væru athugandi einhverjir liðir, er næmu ekki milljónum. Hann segir, að þetta muni ekki nema, nema sáralitlum upphæðum, sá aukakostnaður, sem af þessu hlýzt. Ég var ekki með neina spádóma um það, hvað það yrði. Það leiða ríkisreikningarnir í ljós á sínum tíma.

Hv. þm. var að tala um gróða Eimskipafélagsins og sagði, að S. Í. S. mundi þá eins græða á flutningunum, ef það tæki jafnhá flutningsgjöld, sem hann sagðist gera ráð fyrir. Ég hef nú ekki neinn samanburð hér á flutningsgjöldum hjá þessum tveim fyrirtækjum, þó að mér sé hins vegar kunnugt, að í einstökum tilfellum hefur skipaútgerð Sambandsins lækkað farmgjöld, en ég hef bent á það áður, að það fyrirtæki borgar mikla skatta, og það fer þannig í ríkissjóðinn nokkuð af því, sem það hagnast á þessum flutningum; hins vegar ekki hjá Eimskipafélaginu. Ég vil enn benda á það, að samkv. þeim reglum, sem gilda um samvinnufélög, þá skilar Sambandið aftur til samvinnufélaganna, sem í því eru, og þau aftur til sinna félagsmanna, þegar um hagnað á viðskiptum er að ræða.

Þá segir hv. þm. Barð., að ef hnigið yrði að því ráði að láta Eimskipafélag Íslands taka að sér strandferðirnar, þá yrði tekinn kúfur af gróða þess. En mér hefur skilizt á till. hans nú og frv. frá í fyrra. að hann vildi afhenda Eimskipafélaginu miklar eignir og jafnvel borga því árlegan styrk til þess að halda uppi strandferðunum, svo að það þyrfti ekki að taka kúfinn af gróða sínum til þess að rísa undir halla af þeim flutningum.

Hann sagði, að ég hefði verið með rangan samanburð um útkomuna hjá Skipaútgerðinni árið sem leið, en þetta var misskilningur hjá hv. þm. Ég nefndi ekki í minni ræðu áðan fjárlagaáætlunina, hver hún hefði verið, hvað gjöldin hefðu farið mikið fram úr áætlun. Ég aðeins nefndi þær tölur, sem eru á ríkisreikningnum, og benti á, að túlkun hans á málinu gæti valdið misskilningi, þar sem hann talaði um 10 millj. án þess að skýra frá því í sinni ræðu og í grg. með till., að töluverður hluti af þessu er flóabátastyrkirnir.

Hann segir, að ég hafi verið með aðfinnslur út af flutningi málsins. Það var ekki, síður en svo. Ég var ekkert að finna að því, þó að flm. flytji þetta nú í þáltill. formi, en í frumvarpsformi í fyrra.

Hann heldur því enn fram, að það sé engum vandkvæðum bundið að semja um slík mál fyrir fram fyrir 25 ár. Ég vil nú aðeins benda á það, að fyrir 25 árum t. d. var það að heita mátti óþekkt fyrirbæri í okkar þjóðfélagi, að menn ferðuðust milli Norður- og Suðurlands í bifreiðum. Það munu hafa farið fáeinar fólksbifreiðar yfir Holtavörðuheiði sumarið 1928 með nokkra farþega. Engum kom til hugar á því ári að reyna að flytja vörur yfir þann fjallveg eða yfirleitt landveg milli þessara landsfjórðunga. Við vitum, hver geysibreyting er á þessu orðin síðan, bæði að því er snertir flutning á fólki og vörum. Við vitum það líka, hvað miklar framfarir hafa orðið að því er flugsamgöngur snertir hér á landi á tiltölulega fáum árum. Og ég viðurkenni, að ég tel mig ekki það mikinn spámann, að ég treysti mér til að segja fyrir um það, hvernig okkar flutningamálum verði haganlegast fyrir komið eða verði aðallega fyrir komið eftir 20–25 ár. En víst gætu menn látið sér koma í hug, að á þeim yrðu allmiklar breytingar á því tímabili frá því, sem nú er.

Svo var hv. þm. Barð. að minnast á till., sem komið hefði fram um sérleyfi til strandferða í mþn., sem fjallaði um þau mál fyrir nokkrum árum. Og hann sagði og hafði um það mjög sterk orð, að margir menn í landinu mundu risa upp til mótmæla, ef ætti að veita einum aðila einkaleyfi til að flytja vörur á vissar hafnir. Mér skildist, að hann væri þá að tala um einhvern orðróm, sem hefði komið um að láta Skipaútgerð ríkisins hafa slíkt einkaleyfi. En hvað er það, sem hv. þm. er hér að flytja á þinginu nú og í fyrra? Hann er að fara fram á það, að það verði veitt einkaleyfi til strandferða. Í fyrra átti það að vera einn aðili. Nú talar hann um tvo og þeir eigi að skipta landinu á milli sín. Sem sagt, það er einkaleyfi. Hann segir þó í sömu ræðunni sem hann er að mæla með þessu fyrirkomulagi, að margir menn muni rísa upp til að mótmæla, ef einum aðila verði veitt slíkt einkaleyfi. Ja, ég veit ekki, hvort hann kallar það skort á háttvísi eða þinglegheitum, en ég bara get ekki skilið málflutninginn.