04.11.1953
Sameinað þing: 13. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í D-deild Alþingistíðinda. (3034)

71. mál, strandferðir og flóabátar

Flm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki tefja þessar umr. lengur. Ég vil aðeins taka það fram út af því, sem hv. þm. V-Húnv. sagði síðast, að hann hefur alveg misskilið till. Hér er ekki að tala um neitt einkaleyfi, hér er að tala um að fá samninga við Eimskipafélagið og samvinnufélögin um að taka að sér þessa flutninga. Það er ekki neitt um það sagt, hvort aðrir menn megi ekki flytja hér vörur á ströndina, svo að þetta er hreinn misskilningur hjá hv. þm. Hins vegar er það sýnilegt, að þeir aðilar, sem hafa flutninga til landsins, hafa, eins og margtekið hefur verið fram, langstærstu möguleikana til þess að gera þessa þjónustu það góða og það ódýra, að öðrum dytti ekki í hug að reyna að hafa af því lífsuppeldi að keppa við þá eins og þeir gera í dag, því að eins og ég tók fram í minni framsöguræðu, þá er það hópur manna, sem í dag lifir hreint og beint á því í skjóli okursfarmgjalda, sem nú eru í landinu fyrir flutning á ströndina, og hefur af því góðar tekjur að sigla á ströndina ár eftir ár, eins og hv. þm. er ljóst. Þetta mundi alveg hverfa, ef þjónustan væri veitt með lægri flutningsgjöldum, sem ég tel að sé hægt að veita hana, og á betri hátt en nú er gert, þegar búið væri að sameina það við þá aðila, sem flytja vöruna til landsins.