04.11.1953
Sameinað þing: 13. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í D-deild Alþingistíðinda. (3035)

71. mál, strandferðir og flóabátar

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Í raun og veru var að ófyrirsynju blandað inn í þetta mál rekstri strandgæzluskipa ríkisins og því haldið fram, að sú ráðstöfun, sem gerð var, að láta þá gæzlu koma undir sérstaka stjórn, hefði bent á sérstakan hug sjálfstæðismanna til þess að auka útgjöld úr ríkissjóði. Eins og hv. þm. Barð. (GíslJ) hefur tekið fram, þá eru strandferðir og strandgæzla svo gersamlega ólíkar í eðli, að engin von var til þess, að það gæti tekizt vel að láta þetta vera undir einni og sömu stjórn, enda hygg ég, að flestir verði að játa, að hverju sem fram mátti halda, meðan Pálmi heitinn Loftsson hafði yfirstjórnina með höndum, þá geti engum manni komið til hugar, að það hefði verið verjandi að fela núverandi forstöðumanni strandferðaskipanna löggæzluna við strendur landsins í hendur. Og sannleikurinn er einnig sá, að það að sjá strandferðunum borgið er vitanlega svo erfitt verk, að ekki veitir af, að þeir, sem það taka að sér, geti sinnt því einu og gefið sig að því. Sá gífurlegi halli, sem hér er talað um og er nú einhvers staðar nærri 10 milljónum króna, er öruggt vitni þess, að ekki veitir af því, að forustumenn þess fyrirtækis eigi þess kost að sinna því, en þurfi ekki að hafa svo gerólíkt verkefni með höndum eins og yfirstjórn löggæzlunnar á hafinu. Og þegar ég sagði, að ég hefði engan mann heyrt halda því fram, að núverandi forstöðumaður strandferðaskipanna væri hæfur til þess að hafa yfirstjórn strandgæzlunnar, þá segi ég ekkert til gagnrýni því, að hann var skipaður forstjóri í því starfi, sem hann nú gegnir. Ég hvorki mæli því bót né áfellist það. Hitt fullyrði ég, að það hefði verið fráleitt að setja hann yfir hitt starfið. Ég hygg líka, að það sé hægt að sýna fram á það með fullum rökum, að sú ráðstöfun að setja sérstaka yfirstjórn þessara mála hafi ekki orðið til aukins kostnaðar, hafi ekki orðið til þess, að verr hafi gengið fjárhagslega í þessum efnum en áður. Nú er það að vísu svo, að strandgæzlan hefur mjög aukist síðustu ár, Þór hefur komið inn í nýr, og eins hefur verið tekin upp meiri gæzla úr flugvélum en áður. Auk þess er á það að líta, að það hefur orðið mikill kostnaður vegna þess, að vélar Þórs eru ekki í því ástandi, sem æskilegt væri, svo að vægilega sé til orða tekið, og er það mál út af fyrir sig. Það er einnig vitanlegt, að skipin hafa þarfnazt mjög gagngerðra breytinga og viðhalds á þessu tímabili, en engu að síður eru þær tölur eftirtektarverðar, sem ég hef með höndum og hygg að séu réttar, að þar sem á árinu 1951, sem mun vera síðasta árið, sem þetta var undir sameiginlegri stjórn, fór reksturinn við gæzluna rúmum 1700 þús. kr. fram úr áætlun, — og það er töluverð upphæð þó, nær 2 millj. kr., — þá munar eftir því yfirliti, sem nú liggur fyrir, fyrir árið 1952, ekki nema 30 þús. kr. hvað farið er fram úr áætlun. Þetta er samkvæmt þeim tölum, sem mér eru gefnar upp, og það kynni að benda til þess, að ekki hafi veitt af því, að sérstök yfirstjórn væri sett á þessi mál, og væri óskandi, að jafnvel tækist varðandi strandferðirnar, að það tækist að halda settum áætlunum eins og hér hefur tekizt.