04.12.1953
Neðri deild: 33. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Brtt. þá, sem hér hefur verið lýst, við 4. gr. frv., og ég hef leyft mér að flytja, má skoða nánast sem leiðréttingu. Það stendur, að skylt sé að afhenda Útvegsbanka Íslands og Landsbanka Íslands þann gjaldeyri, sem mönnum kann að áskotnast, en þetta á vitanlega að vera Útvegsbanka Íslands eða Landsbanka Íslands, því að það er ekki ætlazt til, að báðum bönkunum sé endilega afhentur gjaldeyrir.

Hv. 1. landsk. gerði enn að umtalsefni þá brtt. sína, að almenningi mætti vera frjálst að gera pöntun á vörum erlendis frá og kaupa vörur þannig í smásölu. Ég lýsti því í kvöld, að það gæti hætta af þessu stafað að því leyti, að sá gjaldeyrir, sem þjóðin hverju sinni hefur yfir að ráða, yrði ekki drýgður með þessu verzlunarfyrirkomulagi. Ég er eins kunnugur þessu eins og hv. 1. landsk., að þessir verðiistar, sem hingað eru sendir frá hinum ýmsu vöruhúsum, eru með smásöluverði. Sú röksemdafærsla hjá hv. 1. landsk., sem hann hér fór með áðan, að þessi verzlunarhús væru rekin svo sérstaklega ódýrt, þau hefðu fátt starfsfólk, þau hefðu lítið húsnæði og gætu þess vegna boðið vörur á lágu verði, fær vitanlega ekki staðizt, vegna þess að þessi vöruhús afgreiða til hv. 1. landsk. og mín og hvers annars aðeins einn frakka, ef við viljum panta hann, aðeins einn hlut. Það leiðir af sjálfu sér, að fyrirtæki, sem hefur þannig afgreiðslu, þarf fleira starfsfólk og meiri kostnað heldur en fyrirtæki, sem aðeins afgreiðir í stórum slöttum. Ég held, að hv. l. landsk. hljóti að hverfa frá villu sins vegar og viðurkenna, að það er nauðsynlegt fyrir þjóðina, að þær vörur, sem eru keyptar, séu keyptar á hagstæðu verði. Ef við ekki stuðlum að því, þá hljótum við alltaf að verða í gjaldeyrisþröng. Það er þess vegna höfuðnauðsyn, að vanir menn, duglegir menn og kunnugir menn geri innkaup á vörunum og leitist eftir því að fá vörurnar á sem lægstu verði, — það er þjóðfélagsleg nauðsyn, — en ekki að einstaklingar, Pétur og Páll, séu að kaupa í smásölu, á smásöluverði og láta þannig gjaldeyri út úr landinu til óþarfa.

Hv. 1. landsk. vill ekki viðurkenna það, að till. hans um að gera verzlunina frjálsa sé traustsyfirlýsing á núverandi ríkisstj. En þetta munu allir skilja svo, vegna þess að við erum sammála um, hvað þarf að ske, til þess að verzlunin geti orðið frjáls. Það þarf að gerast í atvinnumálum, peningamálum og fjármálum, að traustlega og vel sé á þessu haldið, svo að þessir þættir atvinnulífsins geti verið heilbrigðir að öllu leyti. Og sú ríkisstj., sem á að gera þessar ráðstafanir og ætlazt er til að geri þessar ráðstafanir, hlýtur að hafa traust hjá þeim, sem ætlast til slíks af henni. Hv. 1. landsk. hefði vitanlega ekki flutt þessa till., ef hann hefði ekki treyst ríkisstj. til þess að uppfylla skilyrðin.

Hv. ræðumaður sagði áðan, að það hafi litið áunnizt í þau 3 ár, sem liðin eru síðan boðskapurinn um frjálsa verzlun var boðaður hér í sölum þingsins. Það er rétt, að 1950, með þeirri stefnubreytingu, sem þá var gerð, með gengisbreytingunni og þeim boðskap og athöfnum, sem því fylgdi, skapaðist grundvöllur fyrir frjálsa verzlun að nokkru leyti og afnám ýmiss konar hafta, sem voru í algleymingi meðan Alþfl. hafði stjórnarforustuna í landinu. Og ég verð að segja það, að þótt ekki hafi enn tekizt að ná fullu frelsi í þessum málum, þá hefur miðað vel í áttina. Það eru 50–60% — eða 65% jafnvel af þeim vörum, sem fluttar eru til landsins, á frílista, þótt nokkuð af þessu vörumagni sé á hinum svo kallaða skilorðsbundna frílista, bátagjaldeyri. Og það er ákaflega mikill munur á, sé miðað við það, þegar allar vörur voru háðar leyfum og höftin voru hér í algleymingi og svarti markaðurinn þróaðist í skjóli haftanna.

Núverandi ríkisstj. hefur sömu stefnu í viðskiptamálum og sú fyrrverandi, að gefa verzlunina frjálsa, og mun fikra sig áfram á þeirri braut, eftir því sem gjaldeyrisástæðurnar leyfa. Þess vegna er 1. gr. frv. orðuð eins og hún er orðuð, að á þeim vörum, sem ríkisstj. ákveður hverju sinni með reglugerð, skuli vera frjáls innflutningur til landsins. Þessi reglugerð verður sniðin og henni verður breytt hverju sinni eftir því, hvernig gjaldeyrisástandið er. ríkisstj. þarf þess vegna ekki á till. hv. 1. landsk. að halda, vegna þess að 1. gr. frv., eins og hún er, skapar ríkisstj. möguleika til þess að gefa verzlunina alfrjálsa, hvenær sem hún telur sér það fært.

Hv. 1. landsk. gengur algerlega í villu um það, ef hann álítur, að hann hafi opnað augu ríkisstj. fyrir því, að ekki er nægjanlegur gjaldeyrir fyrir hendi í dag til þess að geta verzlunina að öllu leyti frjálsa. Ríkisstj. hefur gert sér þess fulla grein. Þess vegna gerir hún ráð fyrir takmörkunum á innflutningi á ýmsum vörum enn um sinn, en keppir fast og ákveðið að því marki að gera verzlunina frjálsa og byggja undirstöðuna á föstum grunni að frjálsri verzlun með því að gera peningamálin, fjármálin og efnahagsmálin í landinu þannig, að þessi grundvöllur fáist. Hér eru því engar skoðanir skiptar á milli mín og hv. ræðumanns, hvað þetta snertir, en með því að 1. gr. frv. er eins og hún er úr garði gerð, gefur hún ríkisstj. möguleika á því að gera verzlunina alfrjálsa, hvenær sem hún telur sér það fært, en hafa takmarkanir á innflutningi, ef það er nauðsynlegt.

Ég held, að það sé ekki fleira, sem ég þarf að gera athugasemdir við í sambandi við ræðu hv. 1. landsk. þm. Vil ég þá fara nokkrum orðum um það, sem hv. 8. landsk. sagði hér áðan. Hann byrja~i á því að tala um ræðu hv. þm. V-Húnv. og talaði um það, að hv. þm. V-Húnv. hafi í ræðu sinni verið á sama máli og hann, 8. landsk. þm. Þetta er alveg reginmisskilningur, vegna þess að hv. þm. V-Húnv. varði verulegum tíma ræðu sinnar í það að leiðrétta hv. 8. landsk., þar sem hv. 8. landsk. hafði farið með staðlausa stafi í sambandi við 8. gr. þessa frv. Hv. 8. landsk. þm. vildi staðhæfa, að samkvæmt 8. gr. frv. fælist engin rýmkun á fjárfestingunni frá því, sem gilt hefði, og vildi meina, að smáíbúðirnar væru eins stórar og gert væri ráð fyrir í 8. gr. frv., eða 520 m3, og að smáíbúðirnar hefðu verið að öllu leyti frjálsar. Hv. þm. V-Húnv. varði löngum tíma í að upplýsa, að hv. 8. landsk. fór hér með rangt mál, sem hann gerði, vegna þess að smáíbúðirnar eru aðeins 340 m3, — 340 sagði einn ráðsmaður mér núna kl. 7 í kvöld, þegar ég hringdi til hans, og skeikar þetta nokkuð miklu, miðað við 520 m3, sem er áreiðanlega fullkomin íbúð eins og ég hef áður upplýst, íbúð að flatarmáli 150 ferm., 7 herbergja íbúð, ásamt geymslu, þvottahúsi og öðru, sem þarf að fylgja fullkominni íbúð. Það er þess vegna rangt, þegar talað er um, að í þessu frv. felist engin rýmkun í fjárfestingu. Það má segja, að öll fjárfesting, sem snertir almenning, sé frjáls, bilskúrar líka. Það er einnig rangt, sem hv. 8. landsk. sagði hér í dag, að bilskúrar kostuðu meira en 40 þús. kr. Ég þekki dálítið inn á það, hvað kostar að byggja, og ég staðhæfi, að það má byggja ágætan bilskúr fyrir 20–25 þús. kr. Það má kannske halda þannig á málum í sambandi við byggingar, að einn bilskúr kosti yfir 40 þús. kr., en það er algerlega óþarfi að láta hann kosta svo mikið.

Hv. 8. landsk. var að tala um það, að við í stj. vildum sparka í starfsmenn fjárhagsráðs, ráðsmennina, sem hafi þó verið skjöldur og skjól ríkisstj. undanfarið. Ég kannast alls ekki við, að við höfum löngun til að sparka í þessa menn, og við viljum alls ekki gera það eða vanþakka þeim störfin. Ég hef aldrei sagt, að þessir menn í fjárhagsráði hafi unnið illa sín störf. En ég hef staðhæft, að þau störf, sem þeir hafa unnið þarna í sambandi við öll höftin, hafi verið óvinsæl og gert ágæta menn og vel starfhæfa óvinsæla vegna þeirra skilyrða og þess ramma, sem þeim var sniðið að starfa eftir. Og hvers vegna skyldum við vilja sparka í þessa menn? Þeir eru beztu kunningjar okkar og vinir. En þegar verið er að ræða um þessi mál, þá verður að geta um, hvernig þetta hefur reynzt, og það hefur verið tekið fram hér áður, að það er ómaklegt að skamma mennina fyrir það, þótt framkvæmdin hafi orðið óvinsæl, vegna þess að hún gat ekki verið annað, alveg sama hvaða menn þarna hefðu verið. Undir þeim skilyrðum, sem þeir áttu að starfa, var ekki hægt annað en að það yrði óvinsælt hjá öllum almenningi.

Hv. 8. landsk. fór með þá fullyrðingu hér fram áðan, að skriffinnskan mundi ekkert minnka í sambandi við fjárfestinguna, þó að þetta frv. yrði að lögum. Það er nú óþarfi að svara slíku, að skriffinnskan minnki ekkert, þegar ekki þarf að sækja um leyfi og ekki þarf að gefa út leyfi, hvorki fjárfestingarleyfi né skömmtunarleyfi á byggingaretni. Það er einnig óþarfi að svara þeirri fullyrðingu þessa manns, að menn sprari sér ekki fyrirhöfn og tíma, eftir að þessi breyting er á orðin. Hvað hafa menn eytt löngum tíma í að sækja skömmtunarseðla fyrir byggingarefni upp í fjárhagsráð, enda þótt þeir hafi eftir atvikum fengið þar góða afgreiðslu og eins góða og fljóta afgreiðslu og skilyrði voru til að veita? Eigi að síður kostaði þetta tíma og fyrirhöfn og skriffinnsku, sem allur almenningur í landinu verður glaður að vera laus við.

Hv. 8. landsk. þm. gerði 9. gr. enn að umtalsefni, sem eðlilegt er, af því að hann hefur séð ástæðu til þess að flytja brtt. við þá gr. og vill, að Hagstofa Íslands annist útreikninga á þjóðhagsreikningunum og leiti þeirra upplýsinga, sem til þess þarf, að það sé gert. Hann fór með fullyrðingar í sambandi við það eins og margt annað hér, sem ekki geta staðizt. Það hefur verið rætt við Hagstofa Íslands um þetta, og það er óhætt að segja, að hún hefur ekki óskað eftir að gera reikningana, hvort sem hún hefði nú gert það, ef henni hefði verið falið það. Það er áreiðanlega ekki álit hagstofustjórans, að hann kæmist af með að bæta við einum manni við starfslið sitt, ef hann tæki þetta að sér. Ég sagði ekki hér í dag, að málinu væri betur borgið hjá hagstofunni en Framkvæmdabankanum. Ég sagði þvert á móti, að málið gæti átt heima hjá hagstofunni, en af eðlilegum ástæðum væri því bezt borgið hjá Framkvæmdabankanum og heyrði undir þá stofnun, þar sem Framkvæmdabankinn væri eðlilegasta stofnunin til þess að annast þjóðhagsreikningana og fylgjast með fjárfestingunni í landinu. — Sú fullyrðing hv. 8. landsk. þm., að almenningur í þessu landi muni ekki treysta Framkvæmdabankanum, heldur aðeins hagstofunni, er vitanlega alveg út í bláinn, vegna þess að það er vitað, að bankastjóri Framkvæmdabankans a.m.k. og það fólk, sem hann mun til sín ráða, mun vitanlega verða ekki síður starfhæft fólk heldur en það, sem hagstofan hefur. Svona fullyrðingar út í bláinn hafa vitanlega ekkert gildi og alger óþarfi að eyða tíma í að hrekja þær.

Hv. 2. þm. Reykv. flutti hér óvenjulega stutta ræðu, ef miða skal við það, sem hann er vanur að gera um svona mál. Hann varpaði þeirri spurningu fram, hverju ætti að trúa í sambandi við frv., að einn stuðningsmaður ríkisstj., hv. þm. V-Húnv., hefði nú sagt, að þetta frv. boðaði engin þáttaskil, aftur á móti héldi ríkisstj. fram, að frv. boðaði nýja tíma.

Ég býst nú við, — og veit það, — að hv. 2. þm. Reykv. er nógu greindur til þess að gera hér mun á, og hann þarf ekki að spyrja, að þetta frv. boðar þáttaskil. Það boðar þáttaskil, þegar það afnemur alla fjárfestingu, sem snertir almenning í landinu. Það boðar þáttaskil, þegar það er flutt af ríkisstj., sem hefur frjálsa verzlun á stefnuskrá sinni og gerir frv. þannig úr garði samkvæmt 1. gr., að ríkisstj. getur gefið verzlunina frjálsa, hvenær sem ástæður eru fyrir hendi. Þetta eru þáttaskil, og þetta skilur hv. 2. þm. Reykv., þótt hann varpi svona spurningu fram.

Hv. 2. þm. Reykv. gerði útflutningsverzlunina nokkuð að umtalsefni og vill halda því fram, að hún sé einokun, eins og hún er nú, en ég minntist á það hér í dag, að útflutningsverzlunin væri í því formi, sem útflytjendurnir, framleiðendurnir óska, þ.e. Sölusamband ísl. fiskframleiðenda, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Samband ísl. samvinnufélaga. Þessir aðilar hafa allir með sér félagsskap, og það eru kosnir fulltrúar til þess að mæta á fundum þessara stofnana, og það eru þessir fundir, sem ákveða það og ráða því algerlega sjálfir, hvaða fyrirkomulag þeir vilja hafa. Er nokkur ástæða til þess, að hv. Alþ. fari að grípa hér inn í og hafa vit fyrir þessum aðilum? Er nokkur ástæða til þess að ætla, að þeir velji sér ekki það form, sem þeir eftir reynslu og sérstakri þekkingu telja heppilegast og bezt? Ég er alveg sannfærður um það, að þessir aðilar hafa það form á þessu, sem reynslan hefur sýnt þeim að væri bezt og heppilegast, og þess vegna er ekki ástæða til, að Alþ. fari að grípa þarna inn í.

Hv. 2. þm. Reykv. varpaði einnig fram þeirri spurningu, hvort innflutningur á byggingarefni ætti að einokast, eins og hann orðaði það, og innflutningur á byggingarefni væri það raunverulega samkvæmt þessu frv. Ef hv. 2. þm. Reykv. hefur ekki lesið frv. nógu vel, þá vil ég taka það fram, að frv. segir ekkert um það. Það segir ekkert um það, að innflutningur á byggingarefni skuli ekki vera frjáls, heldur það, að innflutningur á byggingarefni, eins og á öðrum vörum, er háður reglugerð, sem ríkisstj. gefur út. Frv. gefur þess vegna fulla heimild til þess að gefa innflutning á byggingarefni algerlega frjálsan.

Hv. 2. þm. Reykv. var hér að tala um lánaspursmálið og lánsfjárbann, sem ráðherra eða ráðherrar Sjálfstfl. hefðu komið á, og það var ekki annað að heyra á þessum hv. þm. heldur en að ráðherrar Sjálfstfl. hefðu fyrirskipað bönkunum að lána ekki til íbúða. Hv. 3. þm. Reykv., sem hlustaði á þetta hér áðan, kallaði fram í og neitaði því, að á meðan hann var ráðherra hefði nokkuð slíkt átt sér stað. Ég get upplýst hv. 2. þm. Reykv. um það, að síðan ég tók þetta sæti, hef ég ekki skrifað neitt slíkt bréf, og ég get líka upplýst hv. 2. þm. Reykv. um, að sjálfstæðismenn og ráðherrar Sjálfstfl. hafa fullan hug á því að leysa lánsfjárþörfina til íbúða ekki síður en til annarra framfara og framkvæmda í þessu landi. Og ráðherrar Sjálfstfl. í ríkisstj. undanfarið og nú hafa sýnt fulla viðleitni til þess, eftir því sem unnt hefur verið, og munu gera það áfram. Hv. 2. þm. Reykv. ætti þess vegna að hætta því að kasta fram bombum eins og þessum, því að þær eru orðnar svo máttlausar, að þær springa ekki lengur, og tekur enginn mark á því, því að reynslan hefur sýnt, að sjálfstæðismenn hafa, eftir því sem unnt hefur verið, beitt sér fyrir því að greiða fyrir lánsfjárútvegun og munu gera það.

Hv. 2. þm. Reykv. spyr, hvar Framkvæmdabankinn sé til húsa og um starfsfólk hans. Framkvæmdabankinn er til húsa í útvegsbankahúsinu, og starfsfólk hans er enn sem komið er mjög fátt, að ég ætla. Þótt talað hafi verið um það, þegar verið var að lögfesta lögin um Framkvæmdabankann, að ef til vill mundi hann hafa aðsetur í landsbankahúsinu, þá má áreiðanlega hugga hv. 2. þm. Reykv. með því, að þótt bankinn hafi nú aðsetur í útvegsbankahúsinu, þá hefur það ekki í för með sér neina aukningu á starfsliði fyrir bankann. Ef Landsbankinn hefði tekið að sér að vinna þau störf, sem Framkvæmdabankinn gerir nú í húsnæði Útvegsbankans, þá hefði Landsbankinn vitanlega þurft að bæta við sig starfsliði á sama hátt eða ekki minna en núna er ráðið til Framkvæmdabankans, þótt hann sé í húsnæði Útvegsbankans. Þetta veit ég að hv. 2. þm. Reykv. skilur og veit, þótt hann sé nú með svona fyrirspurnir aðeins að gamni sínu og til þess að spauga svolítið um þessa hluti og Framkvæmdabankann, sem hann kallar ameríska stofnun.

Ég held, að ég þurfi svo ekki meira um þetta að segja. Skoðanamunurinn er nú ekki eins mikill og margir gætu haldið. Hv. 2. þm. Reykv. er í hjarta sínu glaður yfir því, að rýmkað hefur verið á höftunum, vegna þess að hann vill, að fólk fáí möguleika til þess að byggja yfir sig, og hann vill frjálsa verzlun, og hann sér, að það er stefnt í þá átt. Og það er svipað ástatt með hv. 1. landsk. þm. Þótt hann, sem er í stjórnarandstöðu, vilji koma hér upp og andmæla þessu frv. og gera lítið úr því, þá viðurkennir hann eigi að síður, að þetta er stórt spor í rétta átt og getur orðið til þess að bæta fyrir á margan hátt.