04.11.1953
Sameinað þing: 13. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í D-deild Alþingistíðinda. (3040)

71. mál, strandferðir og flóabátar

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð í sambandi við þau ummæli dómsmrh., þar sem hann var að gera samanburð annars vegar á því, sem rekstur landhelgisgæzlunnar hefði farið fram úr áætlun 1951, og hvernig útkoman hefði orðið aftur 1952. Mér skildist, að með því að segja, að landhelgisgæzlan 1951 hefði farið á aðra milljón fram úr fjárlagaáætlun, en 1952 hefði fjárlagaáætlunin staðizt svo að segja, þar væri hann með sönnun þess, hve mikil nauðsyn hefði verið á að breyta um forstöðu, og af þessum tölum ætti maður að draga nægilega skýrar ályktanir í því efni. En hæstv. ráðh. virtist gleyma því, að 1951 hygg ég að fjárveitingin hafi verið 6 millj., en 1952 hafi hún verið 9.7 millj. og hafi því þá verið auðveldara en 1951 að búa búinu svo, að ekki yrði rekstrarhalli fram yfir áætlun. Ég ætla því, að þarna komi ekki eins hagstæður mannjöfnuður fram og hæstv. ráðh. virtist vilja sýna með þessum samanburði.

Hæstv. ráðh. telur, að nú hafi rekið valið tré á sínar fjörur í sambandi við þá breytingu, sem hann framkvæmdi, að taka landhelgisgæzluna undan Skipaútgerðinni því að nú væri forstjóri Skipaútgerðarinnar ólærður maður í þeim fræðum, sem þyrfti til þeirra hluta. Það má vera, að hæstv. dómsmrh. hafi verið svona framsýnn, að hann vissi það fyrir, að eftir ár eða svo væri von á því, að breyting þyrfti að verða á forstöðu Skipaútgerðarinnar og þar væri ekki von á nema svona rétt meðalleikmanni að dómi hæstv. ráðh., sem mundi þar að auki ef til vill ekki verða annað en framsóknarmaður, og væri slíkt ekki til bóta. En fyrir sjónum venjulegra manna lá þetta ekki fyrir, þegar breytingin var gerð, og þess vegna hlýtur önnur ástæða að hafa komið til greina hjá hæstv. dómsmrh.