04.11.1953
Sameinað þing: 13. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í D-deild Alþingistíðinda. (3041)

71. mál, strandferðir og flóabátar

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil nú ekki vera að karpa um þetta, en valið á núverandi forstjóra Skipaútgerðarinnar sýnir einungis það, sem ég hef alltaf haldið fram, að það þarf allt aðra hæfileika til þess að veita þeirri starfsemi forstöðu en hinni. Þetta eru gerólík mál, sem krefjast ólíkra hæfileika, eins og það krefst ólíkra hæfileika að vera hinn ágæti forustumaður í kaupfélagsmálum í Vestur-Húnavatnssýslu eða vera skurðlæknir eða biskup. Það geta allt verið ágætir menn, en þetta krefst allt ólíkra hæfileika, og skipunin, sem ég er ekki að gagnrýna út af fyrir sig, — ég læt hana alveg eiga sig, — á núverandi forstjóra Skipaútgerðarinnar, sýnir einmitt það, að veitingavaldið í þessu tilfelli hefur litið þannig á.

Varðandi það, að hægara sé að láta háa fjárveitingu standast en lága, þá vil ég spyrja minn ágæta vin, þm. N-M.: Hefur þetta farið þannig með áætlunarupphæðirnar til strandferðanna? Hefur áætlunin þar staðizt þeim mun betur sem áætlunarupphæðin hefur orðið hærri, eða hefur kannske hallinn orðið þeim mun meiri sem áætlunin var hærri í þinginu?