04.12.1953
Neðri deild: 33. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. talaði hér áðan, en hann kom ekkert inn á bréfið til Landsbankans og las ekki bréfið upp, sem mér þótti mjög leitt, og hæstv. viðskmrh. kom nú hérna áðan, og ég held nú bara, að hæstv. viðskmrh. hafi alls ekki kannazt við bréfið. Nú skal ég lofa hæstv. viðskmrh. að heyra, hvað fyrirrennari hans í embættinu, hv. 3. þm. Reykv., sagði. Í umræðum, sem urðu um till., sem ég flutti 1951 til rannsóknar á afskiptum ráðunautar ríkisstj. í efnahagsmálunum af lánveitingamálum bankanna, svaraði þáverandi viðskmrh., Björn Ólafsson — það er prentað hér í D-deild þingtíðindanna — orðrétt svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Hins vegar er það ekkert launungarmál, að um það leyti sem frílistinn kom fram sendi viðskmrn. þau tilmæli til bankanna að auka lánveitingar ekki um of.“

Þetta er orðalagið í þessu: „að auka lánveitingar ekki um of“. Það voru tilmælin frá ráðherra Sjálfstfl. til bankanna, og þá vafalaust fyrst og fremst til Landsbankans, að auka nú lánveitingar ekki um of. Þó var þetta ekki alveg orðalagið úr bréfinu, sem hæstv. viðskmrh. þáverandi viðhafði. Nokkru seinna sagði hann í annarri ræðu, sem hann hélt aðspurður, með leyfi hæstv. forseta:

„Sannleikurinn er sá, eins og ég hef sagt hér áður, að ég sendi þeim (þ.e. bönkunum) tilmæli um að hafa hemil á útlánastarfseminni.“

Þá hét það nú „að hafa hemil á útlánastarfseminni“. Eftir að hann var nú búinn að verða tvísaga um, hvernig bréfið hljóðaði, þá bað ég bann þess vegna um að birta bréfið og hef nú gert það síðan í 2 ár að minna hann á þetta, svo að það ekki sofnaði hjá honum, en hann hefur ekki fengizt til að birta bréfið. En svo mikið er þó víst, að annaðhvort hefur hann sagt, að það mætti ekki auka lánveitingar um of, eða þá að hann hefur sagt, að það yrði að hafa hömlur á útlánastarfseminni. Ég hef nú frekar tilhneigingu til að halda, að það hafi verið kveðið þó nokkuð skarpt að orði með hömlurnar. En hvernig var lánveitingastarfsemin til húsbygginga hjá Landsbankanum á þessum tíma, þegar viðskmrh. Sjálfstfl. skrifar Landsbankanum til þess að segja Landsbankanum, að hann verði að hafa hömlur á lánveitingum til húsbygginga? Hæstv. fyrrv. viðskmrh., 3. þm. Reykv. nú, segir í þessari sömu ræðu um lánin:

„Hins vegar er vitað, að bankarnir hafa ekki lánað neitt út á húsbyggingar í mörg ár, að öðru leyti en því, að veðdeild Landsbankans hefur lánað út á hús gegn veðdeildarbréfum.“

M.ö.o.: Viðskmrh. Sjálfstfl. skrifar Landsbankanum og segir, að Landsbankinn og aðrir bankar verði nú að gera svo vel að hafa hömlur á lánveitingum til húsbygginga. Um leið segir hæstv. þáverandi viðskmrh., að bankarnir hafi nú ekki lánað neitt út á húsbyggingar í mörg ár.

Það væri nú dálítið gaman að fá bréfið. Er nú ekki von, að mann langi til þess að sjá bréfið, hvað viðskmrh. Sjálfstfl. hefur sagt við banka, sem hafa ekki lánað út á húsbyggingar í mörg ár, þegar hann leggur fyrir þá, að þeir verði nú að hafa hömlur á lánveitingunum? Skyldi ekki felast í þessu, að Sjálfstfl. gegnum sinn viðskmrh. og bankamálaráðherra þáverandi fyrirskipar bönkunum, að þeir verði að halda stranglega áfram þeirri pólitík að vera ekki að lána út á húsbyggingar? Ég held, að það sé bezt fyrir hæstv. núverandi viðskmrh. að láta þann gamla um þetta, láta hann bera sínar syndir og vera ekkert að fara að reyna að verja hann. Framkoma hans í þessu er gersamlega óverjandi. Hann er tvísaga hérna, og hann gefur sjálfur yfirlýsingar um leið, að það sé ekkert lánað út á hús, og segist fyrirskipa, að það séu nú settar hömlur á þessar lánveitingar. Það er svo auðséð sem verið getur, hvað verið er að fyrirskipa með þessu. Sjálfstfl. fyrirskipar svartan markað á lánveitingum í Rvík. Ég hef orð hæstv. fyrrv. viðskmrh. fyrir því. Það er bara eitt, sem núverandi hæstv. viðskmrh. gæti gert, og það er að grafa bréfið upp og láta okkur fá það hérna, til þess að við höfum það alveg svart á hvítu, hvað Sjálfstfl. og hans ráðherra lagði fyrir viðvíkjandi húsbyggingunum, að viðhafa hömlur á lánveitingunum, þegar engar lánveitingar voru.

Þetta er nú viðvíkjandi lánapólitíkinni. Er ekki von, að mig hafi langað til að vita eitthvað um lánapólitík Sjálfstæðisflokksins? Nú gefur hæstv. viðskmrh. þá yfirlýsingu, að Sjálfsfl. hafi fullan hug á að leysa lánsfjármálið, og ég sá það, að fyrir kosningar höfðu þm. Sjálfsfl. hér í þessari hv. d. líka fullan hug á að leysa lánsfjármálið, báru fram ágæt frv. hér. Ég lýsti yfir stuðningi við þau, og ég lýsti sérstökum stuðningi við þau í fjhn., en það lengsta, sem hægt var að komast, þó að fjórir menn úr fjhn. væru með þessum málum, var, að flm. sjálfur, núv. 5. þm. Reykv., lagði til, að málinu væri vísað frá, sínu eigin frv., þó að hann hefði yfirlýst fylgi sjálfstæðismanna auðvitað, því að þeir fluttu það, Alþfl. og Sósfl. til að koma málinu í gegn. Svona verður nú stundum að fara að, þegar verið er að koma með kosningafrv., sem menn eiga á hættu að verði samþ. Þá verða menn að leggja til sjálfir að vísa sínum málum frá, af því að þau hafa þingfylgi.

Nú vil ég segja hæstv. viðskmrh., að hafi hæstv. ríkisstj. fullan hug á að koma í gegn því að laga til í lánveitingamálunum, eitthvað svipað t.d. eins og Sjálfstfl. lagði til á síðasta þingi, þá hefur Sósfl. fullan hug á því að styðja hana í því. Ég býst við, að Alþfl. mundi hafa það líka. Og þá þarf ég nú ekki lengi að leita til þess að vita, hvaðan mótstaðan muni koma. Ég þykist sem sé vita, að það sé Framsfl. og kannske einhverjir, sem eru interesseraðir í svarta markaðinum á peningum í Reykjavík. Þeir vilja ógjarnan fá þetta í gegn. En þú vil ég bara segja Sjálfstfl. það, að jafnvel þótt hann stæði einn með Alþfl. og Sósfl., þá hafa nú þessir þrír flokkar meiri hluta í þinginu til þess að setja þetta í gegn, þannig að hafi ríkisstj. fullan hug, þó að hennar stuðningslið úr Framsfl., sem við höfum nú rekið okkur á í umr. um þetta mál, sé ekki allt of tryggt stjórninni, þá er sem sé nægilegt þingfylgi til þess að framkvæma allan hug Sjálfstfl. viðvíkjandi lánveitingamálunum. Ég vona nú, að hæstv. viðskmrh. noti sér þennan meiri hluta, sem hann á hér í þinginu, til að framkvæma hug sinn í þessu máli.

Svo spurði hæstv. viðskmrh., hvort ég sæi nú virkilega ekki frelsið í þessu, — ég hafði verið að tala um byggingarefni, — ég hlyti að sjá, að það stæði hvergi nokkurs staðar í þessum lögum, að byggingarefni skyldi ekki vera frjálst. Alveg rétt. Ég sé, að það stendur hvergi í þessum lögum, að byggingarefni skuli ekki vera frjálst, en það, sem ég sé líka, er, að það stendur ekki heldur í þessum lögum, að byggingarefni skuli vera frjálst. Og það er það, sem ég sakna, af því að frv. kvað vera um frelsi. Það stendur hvergi í lögum, að byggingarefni skuli vera frjálst. ríkisstj. hefur vissulega eftir þessum lögum heimild til þess að gefa byggingarefni frjálst. Það hafði hún líka seinast. Og þegar þáltill. um að skora á hana að nota þá heimild var langt komin á leið hér í þinginu, þá var hún stoppuð af fjárhagsráði, sem talaði fyrir munn Ameríkananna, forráðamanna mótvirðissjóðs, eins og það var orðað þá í Washington. Þess vegna er það, að mig langaði einmitt til þess að fá að vita, hverjir mundu nú gefa út leyfin á byggingarefnin, sem kæmu til landsins, þegar það væri afnumið, að fjárhagsráð gæfi út leyfi, og menn þyrftu ekki lengur að fara til þess, og ég fékk ekki svar frá hæstv. viðskmrh. Ég spurði: Á sá almenni maður að þurfa að sækja um leyfi — við skulum segja til H. Ben. og Völundar til að fá sement eða timbur, eða á hann að hafa jafnan rétt eins og allir aðrir til að kaupa það inn á þann hátt, sem honum þóknast, eða þannig, sem honum finnst praktískast? Ég veit, að hæstv. viðskmrh. veit, að t.d. þessir aðilar, sem hafa núna einkaréttindi ríkisstj. viðvíkjandi stórum hluta af sementinu til landsins, H. Ben. & Co., eru aðaleigendur Morgunblaðsins. Ég veit, að hæstv. viðskmrh. veit, að Völundur er líka annar eigandi Morgunblaðsins. Þannig eiga nú Reykvíkingar og aðrir, sérstaklega þó Reykvíkingar, að þurfa að sækja til eigenda Morgunblaðsins um leyfi til þess að fá að kaupa sement eða timbur. Það, sem ég lagði til, var, að þetta væri frjálst, að menn hefðu jafnan rétt til þess að kaupa inn það sement, sem ríkisstj. gat með sínum reglugerðum leyft mönnum að flytja til landsins. M.ö.o.: Það stendur ekki í frv., svo að ég noti orð hæstv. viðskmrh., að Völundur og H. Ben. & Co. eigi svo að segja einir að hafa innflutning á sementi og timbri til Reykjavíkur, en það stendur ekki heldur í frv., að Íslendingar almennt skuli hafa rétt til þess að kaupa sement og timbur. Þess vegna var ég að spyrja að þessu. Ég var að spyrja, hvernig þetta væri núna með sementið, og ég hef ekki fengið svör enn þá, en ég hef haldið því fram, að það væru þrír, fjórir aðilar, S.Í.S., H. Ben. & Co. og nokkrir fleiri, sem fengju þetta allt saman núna. Á þetta einokunarkerfi að haldast? Eiga menn að sækja um leyfi til eigenda Morgunblaðsins, til Árvaks og til þeirra, sem eru aðaleigendurnir þar, í stað fjárhagsráðs? Þetta finnst mér nefnilega ekki frelsi. Það er svo misjafnt, hvað við skiljum með frelsi. Ég skil það við verzlunarfrelsi, að fólk hafi rétt til þess að reyna að kaupa sínar nauðsynjar sem allra ódýrast. En hæstv. ríkisstj. virðist skilja það við verzlunarfrelsi, að ríkisstj. hafi frelsi til þess að úthluta sínum gæðingum nægilegu frelsi, til þess að þeir geti arðrænt almenning með því, sem þeir flytja inn. Og það er anzi mikill munur á því, hvernig við skiljum frelsi.

Svo kom hæstv. viðskmrh. að því, að það væri undarlegt, að við sæjum ekki, hvaða þáttaskil þetta væru. Það er náttúrlega, ef menn fara að athuga þetta mjög vel, afar erfitt að neita því t.d., að þetta séu þáttaskil í lífi fjárhagsráðs. Þetta eru mjög mikil þáttaskil í lífi fjárhagsráðs. Það eru til alls konar þáttaskil. Ef menn hafa t.d. fataskipti, — við skulum segja, að einokunin á Íslandi vilji önnur föt, — þá eru það alltaf a.m.k. fataskipti, og fyrir gömlu fötin eru það þó nokkuð stór þáttaskil. En gagnvart almenningi er viðbúið, að þar við verði látið sitja.

Svo sagði hæstv. viðskmrh. viðvíkjandi útflutningseinokuninni, að þeir menn, sem hefðu saltfisksútflutninginn, kæmu saman og kysu sína stjórn á ákaflega lýðræðislegan hátt, — það eru saltfiskstonnin, sem hafa atkvæðisréttinn. Látum það nú vera. Það er svo margs konar lýðræði. Svo vildi hann segja, að ríkisstj. ætti ekkert að vera að skipta sér af þessu. En hæstv. viðskmrh. veit, að það er einmitt ríkisstj. og Alþ., sem eiga að skipta sér af þessu. Alþ. hefur sett lög, sem gefa saltfisksútflytjendum alveg sérstaka einokun. Ef nokkrir þeirra vilja hafa einokun, þá skulu hinir beygðir undir hana. Og ríkisstj. hefur sett önnur lög, sem eru enn þá rammari einokun á þetta, og það er, að ríkisstj. skuli ein ráða því, hverjir eiga að flytja út saltfisk, og ekki skuli aðrir fá að gera það en þeir, sem hún úthlutar leyfi til slíks, og sama skuli gilda um, að ekki skuli aðrir hafa leyfi til að flytja út freðfisk, skreið eða annað slíkt en þeir, sem hún leyfir. M.ö.o.: Það er núna Alþ. og ríkisstj., sem með lögum og reglugerðum úthluta einokun, sem bannar Íslendingum almennt og þeim, sem vilja selja þessar vörur út úr landinu, að gera það, en leyfir vissum einokunaraðilum einkarétt til þess. Þetta hefur m.a. sýnt það, að í mörg ár hefur Íslendingum verið bannað að selja út úr landinu á betra verði en aðrir hafa getað selt, bannað að selja til landa, sem hinir hafa ekki getað selt til, bannað að útvega markaði, sem síðar meir hefur sýnt sig að voru með beztu mörkuðum, sem hægt var að fá fyrir Ísland, svo að það er búið að valda stórkostlegu tjóni með því að viðhalda þessari einokun einstakra manna. Það er hæstv. viðskmrh. ósköp vel kunnugt.

Ég ætla hins vegar ekki að fara að orðlengja neitt sérstaklega viðvíkjandi þessum málum um útflutninginn. Ég hef svo oft tekið það mál, og ég veit ósköp vel, að því verður ekki mótmælt. Það er engin vörn til fyrir þeirri einokun, sem núna á sér stað hér á Íslandi í þessum efnum, enda veit ég alveg, að það eina, sem hæstv. ríkisstj. er að hugsa um í þessu, er, að ef þetta frv. í einhverju formi slampast í gegnum þingið, þá hefur hæstv. ríkisstj. og þær auðmannaklíkur, sem á bak við hana standa, allt valdið í þessum efnum. Það er þess vegna, sem það hefur gengið ákaflega erfiðlega að fá nokkrar upplýsingar um það, hvernig hæstv. ríkisstj. ætlar að beita þessu valdi. Henni er ekki vel við að láta það koma í ljós.

Viðvíkjandi því, sem sagt var um Framkvæmdabankann, þá var því lýst yfir, þegar frv. um Framkvæmdabankann var lagt hér fyrir, að það væri meiningin, að Landsbankinn annaðist alla afgreiðsluna, þannig að þetta yrði þess vegna mjög ódýrt og þyrfti enga breytingu þannig. Það var meiningin. Það var ekkert „ef til vill“ í sambandi við það þá. Hins vegar segir nú hæstv. viðskmrh., að það muni verða mjög fátt starfsfólk. Þá var það ekkert nema bankastjórinn. Svo segir hæstv. viðskmrh.: Hefði þetta verið í Landsbankanum, hefði Landsbankinn vitanlega þurft að bæta við sig starfsfólki. — Því var þvert á móti haldið fram, að Landsbankinn þyrfti engu starfsfólki að bæta við sig, vegna þess að þetta félli alveg inn í venjulega afgreiðslu Landsbankans, og það er líka vafalaust rétt. Fyrir stofnanir, sem hafa annan eins fjölda af starfsfólki og Landsbankinn, er enginn vandi að bæta á sig eins litlum afgreiðslum og eru í Framkvæmdabankanum, en ef Framkvæmdabankinn á að hafa þetta sjálfur, þá er náttúrlega alveg gefið, að hann þarf að hafa eitthvert starfsfólk, þó að það starfsfólk hafi kannske hverfandi lítið að gera, t.d. að skrifa þessi fáu rukkunarbréf, sem Framkvæmdabankinn nú er farinn að láta rigna yfir Sogsvirkjunina og aðrar opinberar stofnanir. Það virtist ekki, að það hefði þurft að koma upp sérstakri stofnun til þess að fara að rukka þannig aðrar opinberar stofnanir.

Ég sé nú ekki eftir þau svör, sem hér hafa komið fram, að við þm. séum miklu nær um stefnu ríkisstj. í þessum málum. Ég virði það hins vegar mjög við hæstv. viðskmrh., að hann hefur sýnt þá kurteisi að mæta og tala út af þessu máli, reynt á sem beztan hátt að verja vondan málstað, þegar allir hinir hafa flúið af hólmi, meira að segja 3. þm. Reykv. flúið út án þess að þora að tala um bréfið. Og það væri eiginlega mjög gaman að því, fyrst það kom þó ein rödd að lokum frá einum þm. Framsfl., að einhverjir af ráðh. Framsfl. sæjust í málinu og töluðu, áður en því lyki nú alveg. (Gripið fram í.) Ja, við erum búnir að toga orð upp úr einum þm. Framsfl., svo að það er nú bara eftir að reyna að toga dálítið upp úr ráðherrunum til þess að reyna að fá einhverja ofur litla hugmynd um, hvernig ráðherrar Framsfl. í ríkisstj. mundu hugsa sér að framkvæma það vald, sem ríkisstj. er þarna getið. Hæstv. viðskmrh. er búinn að segja okkur, að hann og Sjálfstfl. hafi fullan hug í t.d. lánsfjármálunum. En ætli Framsfl. hafi þá engan hug í lánveitingamálunum? Væri ekki hægt að gefa okkur neina upplýsingu um það, hvernig togstreita væri innan ríkisstj. í þessu efni, þannig að áður en frv. færi alveg út úr d. væri ef til vill hægt að skakka leikinn, ef togstreitan stæði á milli ráðherranna.