19.10.1953
Sameinað þing: 9. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í D-deild Alþingistíðinda. (3064)

20. mál, endurskoðun varnarsamnings

Utanrrh. (Kristinn Guðmundsson):

Herra forseti. Með inngöngu vorri í Norður-Atlantshafsbandalagið höfum vér Íslendingar skuldbundið oss til þess að vera hollir þátttakendur í varnarbandalagi vestrænna lýðræðisþjóða. Fyrir allra hluta sakir mundi það eigi vera skynsamlegt, að vér brygðumst þessum skuldbindingum. Það er margyfirlýst og skal undirstrikað hér, að um er að ræða varnarbandalag, en ekki árásarsamtök. Íslenzkir hagsmunir eru, að öldur ófriðar brjóti ekki yfir íslenzkar strendur. Ég trúi því, að samtök eins og Norður-Atlantshafsbandalagið séu líkleg til þess að varðveita friðinn í Evrópu.

Vér trúðum lengi á hið algera hlutleysi. Hlutleysið átti að vera vörn hinna vopnlausu smáþjóða í trausti þess, að vopnaðar stórþjóðir virtu yfirlýst hlutleysi smáþjóðanna. Reynsla tveggja heimsstyrjalda hefur sýnt og sannað mjög áþreifanlega og átakanlega, að hlutleysinu hefur ekki verið treystandi. Hin hlutlausu ríki hafa orðið árásarríkjunum að bráð í tveimur heimsstyrjöldum. Það er því einungis vegna þess, að vér trúum því, að hlutdeild vor í varnarbandalagi sé landi voru og þjóð affarasælli en algert hlutleysi, að vér höfum gengið í varnarbandalag og gert varnarsamning. Og trú vor á lýðræði hefur skipað oss í samstöðu með vestrænum lýðræðisþjóðum, enda ræður hnattstaða landsins og ekki litlu þar um.

Þegar Norður-Atlantshafssamningurinn var gerður, horfði ófriðvænlega í Evrópu og Asíu, og þegar herverndarsamningurinn var gerður, var ástandið þannig, að allir íslenzkir alþm., nema þingmenn Sósfl., voru sammála um, að ekki væri fært að hafa landið varnarlaust. Nú er þannig ástatt, að enginn virðist vita í dag, ekki einu sinni þeir, sem bezta aðstöðu ættu að hafa til þess að fylgjast með, hvort gera megi ráð fyrir friðvænlegri horfum í framtíðinni eða ekki. Menn virðast nú leggja höfuðáherzluna á að þreifa hver á öðrum og kanna, eftir því sem það er hægt, hvort betri sambúðarhættir þjóðanna séu í vændum. Hervæðingin heldur áfram þrátt fyrir allt. Það er vopnahlé í Kóreu, en ekki friður, og það er næsta táknrænt fyrir ástandið í veröldinni í dag. Það er því ekki hægt að fullyrða, hvort ástæður hafi raunverulega breytzt frá því, sem verið hefur nú undanfarið, því að það er einmitt það atriði, sem stjórnmálamenn víða um heim eru að reyna að kanna.

Meðan svona er ástatt, tel ég ekki eðlilegt, að Ísland verði varnarlaust með því að breyta þeirri ákvörðun, sem allir þm. gerðu árið 1951 nema sósíalistar, og láta nú þann her fara, sem þá kom hingað. Ég segi ekki þetta nú af því, að ég líti svo á, að fyrir flutningsmönnum þessarar þáltill. vaki það, að varnir landsins séu nú niður felldar, heldur vegna þess, að mér þykir rétt, að skoðun mín á þessu komi fram við þetta tækifæri, þótt raunar væri vitað, hver hún er. Vér verðum auðvitað að fylgjast sem bezt með í þessum málum og mynda oss skoðun um ástandið og sérstaklega um vora eigin aðstöðu. Það verður að vera á voru valdi að ákveða, hvort her er nauðsynlegur í landinu til varnar eða ekki, enda er það svo eftir þeim samningi, sem vér höfum gert um varnarmálin. En ég vil nú vona, að ástandið breytist þannig í heiminum og verði svo friðvænlegt, að vér séum fullvissir um, að ekki þurfi að hafa her til varnar á Íslandi.

Eins og ég sagði áðan, tel ég þannig ástatt, að vér verðum að hafa her til varnar landinu. Það hefur alltaf verið augljóst, að ýmis vandkvæði fylgdu því að þurfa að hafa her í landi. Reynslan, sem vér höfum nú þegar, sýnir oss þetta glögglega. Ýmsir agnúar hafa komið í ljós í sambúðinni. Verður þar ýmsu að breyta, ef vel á að fara. Taka verður upp samninga við þá, sem varnirnar hafa að sér tekið, til þess að koma endurbótum á í því efni, því að vitanlega er eðlilegt, að samningaleið sé reynd til þrautar í þessum málum. Getur á miklu oltið um framtíð þessara mála, hvernig tekst að ráða bót á ýmsu því, er til bóta stendur í þessu sambandi. Vona ég, að það takist með góðu samkomulagi að finna ráð til fullnægjandi úrbóta.

Ég hef haft þessi mál með höndum rúmlega mánaðartíma. Hef ég notað mér þann tíma til þess að kynna mér þau, og er það mjög mikið verk, því að hér er um afar fjölþætt mál að ræða. Það hefur aukið mér erfiðleika, að varnarmálanefnd, sem fór með flest eða öll mál, sem snertu samskipti við varnarliðið, sagði af sér. Hefur það aukið störfin, að ágreiningsmálin hafa síðan komið beint til ráðuneytisins. Hef ég jafnhliða því að kynna mér málin orðið að ráða fram úr þessum daglegu vandamálum og hefur þeim yfirleitt verið ráðið til lykta.

Á því tímabili, sem varnarsamningurinn hefur staðið, hefur skapazt ýmiss konar reynsla, sem sjálfsagt er að færa sér í nyt, enda ljóst, að á framkvæmd samningsins verður að gera breytingar. En meðan fyrirhugaðar breytingar hafa ekki verið lagðar fyrir ríkisstjórnina í heild og meðan málin eru að fá samningsfylgi get ég af eðlilegum ástæðum ekki rætt þessa þætti málsins frekar, en hv. þm. mega vera þess fullvissir, að mér er að sjálfsögðu ánægja að því að ræða þessi mál hér á Alþ. og gefa hv. Alþ. allar upplýsingar, jafnótt og málin komast á það stig, að það sé eðlilegt.