28.10.1953
Sameinað þing: 12. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í D-deild Alþingistíðinda. (3070)

20. mál, endurskoðun varnarsamnings

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Áður en þessari umræðu var frestað, þá spurðist hv. 6. landsk. (FRV) fyrir um það, hvort Alþfl. væri samþykkur till. á þskj. 20, sem er flutt af hv. 1. og hv. 3. landsk. Enn fremur fullyrti þessi sami hv. þingmaður, að ef svo væri, þá væri um alger skoðanaskipti og stefnubreytingu að ræða hjá Alþfl. í þessum málum. Þessi ummæli hv. 6. landsk. gefa mér tilefni til þess að segja hér nokkur orð til viðbótar því, sem framsögumaður lét fylgja till.

Þingflokkur Alþfl. er efni till. samþykkur, enda er hún í fullu samræmi við fyrri afstöðu flokksins til varnarmálanna og í beinu framhaldi af aðgerðum hans í sambandi við varnarsamninginn og framkvæmd hans allt frá 1951. Alþfl. hefur frá upphafi verið það ljóst, að margháttuð vandkvæði hlutu að fylgja setu varnarliðsins í landinu og þau vandkvæði mundu aukast enn, ef við bættist fjölmennur hópur erlendra verkamanna. Hann hefur þrásinnis bent á nauðsyn þess, að komið yrði í veg fyrir ónauðsynleg samskipti íslenzkra manna og kvenna við hermennina og hið erlenda starfslið. Hann hefur sýnt fram á það, hver óhæfa það væri, að hermenn eða erlendir starfsmenn vallarins gætu leigt húsnæði hér í bænum eins og húsnæðisástandíð er nú, þegar vitað er, að fjöldi Reykvíkinga er húsnæðislaus. Hann hefur haldið því fram, að íslenzkt verkafólk og íslenzkir verktakar ættu að geta annazt þær framkvæmdir, sem nauðsynlegar væru samkvæmt samningnum. Og hann hefur krafizt þess, að ríkisstj. hlutaðist til um, að Íslendingar ættu kost á því að fá sérmenntun og æfingu, sem til þess er nauðsynleg að taka að sér umsjón, viðhald og gæzlu mannvirkjanna og rekstur flugvallarins í heild sinni. Hér er því ekki um neina stefnubreytingu hjá Alþfl. að ræða, þvert á móti, till. er í beinu áframhaldi af stefnu Alþfl. í þessum málum. Alþfl. er þeirrar skoðunar og hefur jafnan verið, að seta erlends herliðs í landinu eigi ekki og megi ekki vera frambúðar ráðstöfun.

Varnarsamningurinn við Bandaríkin fyrir hönd Atlantshafsbandalagsins var nauðsynleg, óhjákvæmileg varúðarráðstöfun vopnlausrar og varnarlausrar smáþjóðar, — óhjákvæmileg vegna ástandsins í alþjóðamálum, vegna yfirvofandi ófriðarhættu og til öryggis Íslendingum sjálfum. Hann var sprottinn af sömu rót og varnarsáttmáli Norður-Atlantshafsríkjanna og beint framhald af honum. Þetta var viðurkennt af öllum flokkum og öllum þingmönnum árið 1951, að kommúnistum einum undanteknum, sem höfðu fullkomna sérstöðu um þessi mál.

Nú eru liðin rúm tvö ár síðan varnarsamningurinn var gerður, og ýmsar misfellur hafa komið fram, eins og Alþfl. sagði fyrir. Þessar misfellur hafa komið fram í sambandi við einstök atriði samningsins og framkvæmd hans. Alþfl. lítur svo á, að hér í landi hafi af einum stjórnmálaflokki, kommúnistaflokknum, verið rekin skaðsamleg starfsemi í sambandi við afstöðuna til varnarliðsins hér í landinu. Að halda því fram, eins og þar er gert, að Ísland hafi verið hernumið af Bandaríkjunum, að hér sé um hernámslið að ræða, er fjarri öllum sanni. Tilefnislaus brigzl og illyrði og viðleitni til að ófrægja varnarliðið í augum landsmanna eru sprottin af hinu illa, hættuleg fyrir okkur sjálfa og móðgun við vinsamlega þjóð. Alþfl. hlýtur því að harma það, að slík illmæli hafa verið fram borin. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd, og það er ekki til neins að leyna henni, að varnarliðið er hingað komið samkvæmt beinum samningum, sem Íslendingar hafa gert við Bandaríkin fyrir hönd Atlantshafsbandalagsins um þetta efni, til þess að draga úr öryggisleysi okkar eigin lands og jafnframt til þess að styrkja aðstöðu Atlantshafsríkjanna sameiginlega til verndar friði og öryggi. Þessa staðreynd er okkur skylt að hafa í huga, hitt er ósæmilegt, að brigzla Bandaríkjamönnum um kúgun og ofbeldi í þessu sambandi. Þennan samning gerðu Íslendingar, eins og allir vita, af fúsum og frjálsum vilja með samþykki yfirgnæfandi meiri hluta Alþ.

En Alþfl. hlýtur einnig að harma þau mistök, sem orðið hafa af hálfu íslenzkra stjórnarvalda í sambandi við framkvæmd samningsins. Það var og er skylda ríkisstj. að gæta þess til hins ýtrasta, að hlutur Íslendinga verði aldrei fyrir borð borinn í samskiptunum við varnarliðið og að sem allra minnst röskun stafaði íslenzku þjóðlífi eða hætta íslenzku þjóðerni af dvöl og veru setuliðsins hér í landinu. Ríkisstj. átti að gera foringjum hins erlenda liðs og bandarískum stjórnarvöldum það ljóst þegar í upphafi, að liðið er hingað komið til þess að gerast samstarfsmenn okkar Íslendinga til gagnkvæmra öryggisráðstafana fyrir báðar þjóðirnar. Ég efa það ekki, að varnarliðinu og foringjum þess yfirleitt og stjórn Bandaríkjanna sé það jafnmikið áhugamál og okkur Íslendingum, að dvöl varnarliðsins hér á landi, meðan hún er talin nauðsynleg, verði með þeim hætti, að sem fæstir og minnstir árekstrar verði milli Íslendinga og varnarliðsins og sem minnst vandræði stafi af dvölinni hér. Ég er fullviss um það, að þau óska þess, að vinskapur og traust aukist með Íslendingum og Bandaríkjamönnum, en ekki óvild og tortryggni. Þess vegna tel ég fyllstu ástæðu til að vænta þess, að þeim efnisatriðum, sem borin eru fram í þáltill. í þskj. 20, verði vel tekið af hálfu Bandaríkjamanna og mæti þar fullum skilningi.

Till. sú, sem hér er til umr., er um endurskoðun á varnarsamningnum frá 1951 og framkvæmd hans. Hún er ekki um uppsögn á samningnum. Alþfl. telur ekki tímabært, eins og nú er ástatt í alþjóðamálum, að segja upp varnarsáttmálanum frá 1951 á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í 7. gr. samningsins, þannig að skylt sé og að því stefnt, að varnarliðið sé horfið brott af landinu í seinasta lagi eftir 18 mánuði, hvernig sem ástandið þá kynni að vera í alþjóðamálum. Slík er ekki afstaða Alþfl., hann telur slíka uppsögn ekki tímabæra. Veldur því, eins og ég sagði áðan, sú mikla óvissa, sem enn ríkir í alþjóðamálum. Við Íslendingar eigum að sjálfsögðu að vænta hins bezta og — hvar sem við fáum því við komið í alþjóðasamtökum eða á hvaða vettvangi sem er — að gera það, sem við getum, til þess að saman dragi, en ekki sundur með þjóðunum. En um leið og við væntum þess bezta, þá eigum við einnig, eins og hyggnir menn, að vera viðbúnir því versta, og einmitt þess vegna teljum við ekki tímabært að segja sáttmálanum upp eins og nú er ástatt. Þetta kom glögglega fram í ræðu hv. frsm., enda ber og till. og grg. hennar það ótvírætt með sér. Efni till. er í sem stytztu máli það, að íslenzkir aðilar skuli annast þær framkvæmdir, sem gerðar verða samkvæmt samningnum frá 1951, og afgirtur sé sá hluti vallarins, sem notaður er í sambandi við starfsemi varnarliðsins, og umferð um hann bönnuð, að nú þegar skuli hafinn undirbúningur undir það, að Íslendingar sjálfir taki í sínar hendur gæzlu og umsjón mannvirkja og rekstur vallarins og að Íslendingum sé séð fyrir nauðsynlegri sérmenntun og æfingu, til þess að við getum tekið þessi störf að okkur, og síðan, þegar þessum undirbúningi er lokið, þá skuli sá frestur, sem Alþ. hafi til þess að ákveða brottflutning herliðsins úr landinu, styttur úr þeim 18 mánuðum, sem núgildandi samningur gerir ráð fyrir, niður í 3 mánuði, þannig að það sé á valdi Íslendinga, valdi Alþ. sjálfs, eftir að þessum undirbúningi er lokið, að ákveða hvenær sem er með þriggja mánaða fyrirvara brottför liðsins úr landinu. Það á að vera mat Alþ., mat íslenzku þjóðarinnar á því, hvort nauðsynlegt sé að hafa þetta lið lengur, sem úr því verður að gilda, og fresturinn sá, sem til er greindur í till. sjálfrl. Þetta er meginefni till. Ætla ég nú, að hv. fyrirspyrjandi hafi fengið svar við fyrirspurn sinni um afstöðu Alþfl. til hennar, og getur hann þá gert sér ljóst, hvort hans afstaða er eitthvað svipuð.

Hv. 6. landsk. og ég ætla hv. 8. þm. Reykv. létu einnig í ljós mikinn fögnuð yfir þessari till., sem hér hefur fram komið, og mér skildist helzt, að þeir mundu veita henni eindreginn stuðning hér á Alþ. Þetta er gott, ef satt er. En það er engu að síður ákaflega furðulegt, og mér liggur við að halda, að það sé of gott, til þess að það geti verið satt, að þessir hv. þm. hafi þegar tekið þeim sinnaskiptum, sem væru nauðsynlegur undanfari slíkrar afstöðu þeirra til málsins. Það er vitað og viðurkennt, að í utanríkismálum á kommúnistaflokkurinn aðeins eitt áhugamál, og það er það, að Íslendingar slíti öll tengsl við vestrænu lýðræðisþjóðirnar, lýsi landið hlutlaust, hvernig sem á stendur, þannig að það sé jafnan vopnlaust, óvarið, bíði þess, að sá fyrsti og frekasti geti tekið það án nokkurrar fyrirhafnar eða mótspyrnu. Þetta er stefna kommúnista í þessum málum, og þessari stefnu hafa þeir verið trúir, fastir á línunni í þessu efni, ef svo mætti segja, öll hin síðari ár. Í þeirra augum er það bezta vörn landsins, að flugveilir og hafnir bíði hér opin og gæzlulaus, þannig að hver sem vill geti komið og án fyrirhafnar eða mótstöðu lagt þessi svæði undir sig og notað þau eins og honum þykir bezt henta. Þetta er sannleikurinn um stefnu kommúnista í þessu máli, og ekki verður annað séð en að þjóðvarnarmennirnir telji, að vörnum landsins og öryggi sé bezt borgið með því, að þeir fylgi nú svo þétt á eftir kommúnistum í þessu efni, að ekki geti hnífurinn þeirra á milli komizt.

Vegna þess, að öllum er kunnugt um stefnu þessara tveggja flokka í varnarmálunum, þá verð ég að segja, að mig furðaði á fögnuði þeirra yfir þessari till., sem er nú fram komin. Og enn meira furðar mig á honum, þegar ég lít á þær till., sem þessir hv. flokkar báðir hafa borið fram hér á Alþ. nú að þessu sinni um hið sama mál. Tillögur þessar er að finna á þskj. 23, sem er frv. frá Einari Olgeirssyni og flokksmönnum hans í Nd. um uppsögn varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna. Frv. þetta tekur af öll tvímæli. Þar er alveg skýrt fram tekið það, sem ég áður sagði, að samningnum á að segja upp nú þegar, ekki leita eftir endurskoðun, eins og till. Alþfl. fer fram á, heldur segja honum upp, og það er beinlínis tekið fram, að strax og liðnir eru þeir 6 mánuðir, sem endurskoðun á að standa eftir samningsákvæðunum, skuli formleg uppsögn fara fram. Hvað sem gerast kann og hvert sem ástandið verður, þá skal samningnum sagt upp og allt herlið brott farið innan þess tíma í síðasta lagi, sem samningurinn ákveður. Í 1. gr. frv. segir, að það skuli segja samningnum upp með tilskildum fyrirvara og að „endurskoðunin sé aðeins formsatriði“.

Á þskj. 21 flytja svo Gils Guðmundsson og Bergur Sigurbjörnsson, þm. Þjóðvfl., till. til þál. um uppsögn varnarsamningsins milli Íslands og Bandaríkjanna. Þar segir svo í 1. lið till., að æskja skuli nú þegar endurskoðunar á samningnum samkv. heimild í 7. gr. hans svo og leggja fyrir Alþ. frv. til uppsagnar samningsins, þegar er endurskoðunarfresturinn er úti. Það er alveg sama og hjá kommúnistunum, það er hreint formsatriði þetta með endurskoðunina, það er uppsögn, fullákveðin nú þegar, gersamlega án tillits til þess, hvernig ástandið er í dag, og án tillits til þess, hvernig ástandið kann að verða að þeim 18 mánuðum liðnum, sem til eru greindir í samningnum.

Ég hygg því, að það sé ljóst, að í þessum málum er fullkomin samstaða með þjóðvarnarmönnum og kommúnistum, afstaðan er ein og hin sama. Get ég óskað þjóðvarnarmönnum til hamingju með þá samstarfsmenn, sem þeir hafa valið sér í þjóðvörnunum. — Að því er aðra hv. þm. snertir, vil ég að sjálfsögðu ekki spá neinu um þeirra afstöðu til málsins. En ég á bágt með að trúa því að óreyndu, að nokkur sé sá á Alþ., utan þeirra tveggja flokka, sem ég nú hef nefnt, sem ekki viðurkennir fulla nauðsyn á því að endurskoða samninginn og framkvæmd hans eftir þá reynslu, sem fengin er af honum nú um tveggja ára bil.

Sé það svo, að einhver atriði í samningnum séu þess eðlis, að ekki sé hægt samkvæmt þeim að breyta framkvæmdinni að því er varðar t. d. dvöl setuliðsmanna hér í bænum og utan varnarliðssvæðanna eða að þeir geti leigt sér húsnæði hér í Reykjavík, þá eru það atriði, sem tvímælalaust ber að breyta í samningnum og leggja á þau hina mestu áherzlu. Sé hér aftur á móti um hreint framkvæmdaratriði að ræða, ætti að vera auðvelt fyrir ríkisstj. að hafa það í hendi sinni að breyta þeirri framkvæmd.

Ég skal geta þess, að þó að vikið sé að einstökum atriðum í tillögunni, sem sérstaklega þurfi að endurskoða, þá eru ýmis atriði önnur en þau, sem upp eru talin, sem einnig ber að taka til athugunar í þessu sambandi, og má því ekki líta á þá upptalningu, sem í till. er, sem tæmandi.

Mér skildist á hæstv. utanrrh., að hann viðurkenndi það, að fyllsta þörf væri á endurskoðun og ýmsum breytingum á framkvæmd samningsins eftir þá reynslu, sem fengin er af honum nú um tveggja ára skeið. Ég leyfi mér því, þangað til annað kynni að koma í ljós, að vænta þess, að hæstv. ráðh. geti fallizt á það, að þessi till. verði samþ., og snúi sér síðan að því að koma fram þeim breytingum, sem nauðsynlegar eru og aðkallandi til þess að bæta aðstöðu okkar Íslendinga í sambandi víð samninginn og framkvæmd hans, meðan ekki er talið fært að segja honum upp.