28.10.1953
Sameinað þing: 12. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í D-deild Alþingistíðinda. (3072)

20. mál, endurskoðun varnarsamnings

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði í ræðum hv. þingmanna við fyrri hl. þessarar umr., sem ég vildi gera að umtalsefni, og þá fyrst ræða hv. 2. þm. Reykv. við það tækifæri. Að ýmsu leyti eiga svör mín einnig við þá ræðu, sem hann var að ljúka við að flytja núna.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að Íslendingar ættu að reka algerlega sjálfstæða utanríkispólitík. Um þetta er ég honum sammála, en legg ef til vill ekki alveg sama skilning í það, hvað sé sjálfstæð utanríkispólitík. Ég hafði sagt í framsöguræðu minni, að allar þjóðir og þá einnig við Íslendingar yrðu í utanríkispólitík að taka tillit til ástandsins í þeim heimshluta, sem landið væri hluti af, og ég lagði áherzlu á, að það væri ekki frávík frá sjálfstæðri utanríkispólitík, þótt slíkt væri gert. Ég sagði, að möguleiki þess að framfylgja algerri hlutleysisstefnu hlyti að vera háður því, hvort um væri að ræða í nágrenni við okkur einhver hlutlaus ríki, sem til greina kæmi að gera bandalag við til þess að gæta hagsmuna Íslendinga, þeirra hagsmuna, sem á að vera höfuðhlutverk utanríkispólitíkurinnar að vernda. Skilyrði okkar til þess að framfylgja beinni hlutleysisstefnu. sem er stefna flokks hv. 2. þm. Reykv., hljóta að vera háð því, að til séu ríki eða ríkjabandalög í Evrópu, sem við gætum leitað bandalags við til stuðnings þessari stefnu, ef hún ætti að veita okkur þá vernd, sem við erum sammála um að utanríkispólitík á að veita þjóð, sem vill vera sjálfstæð.

Nú er ástandið í heimshluta okkar þannig, að engin þjóð, sem til greina kæmi fyrir okkur að gera bandalag við, er hlutlaus. Það er ekkert hlutlaust ríkjabandalag til nú á þessari stundu. Þannig var málum ekki háttað á fyrstu árunum eftir styrjöldina. Þá var einmitt um það rætt í Vestur-Evrópu og á Norðurlöndum, hvort smáríki og jafnvel ýmis stærri ríki skyldu ekki taka upp aftur þá hlutleysisstefnu, sem þau höfðu fylgt fyrir styrjöldina. Ef sú stefna hefði orðið ofan á, þá væru raunhæfir möguleikar okkar í utanríkispólitík okkar aðrir en þeir eru núna. Ef orðið hefði úr stofnun varnarbandalags Norðurlanda, sem miklu fylgi átti að fagna á Norðurlöndum, þá hefði það verið möguleiki fyrir okkur að leita eftir því að verða aðilar að því hlutleysisbandalagi. Hitt er annað mál, hvort það hefði dugað okkur að vera varnarlausir eða vopnlausir aðilar að slíku bandalagi, því að það átti sem kunnugt er ekki að vera vopnlaust, heldur vel vopnað. Ef sú stefna yrði ofan á í Vestur-Þýzkalandi, að það og einhver ríki þar í grenndinni mynduðu hlutlaust svæði í miðri Evrópu, svo sem er stefna þýzka Jafnaðarmannaflokksins, þá breytir það og þeim skilyrðum, sem fyrir hendi eru fyrir okkur Íslendinga í utanríkispólitík okkar. En meðan ekkert slíkt á sér stað, þá verðum við auðvitað að miða raunhæfar aðgerðir okkar við ástandið eins og það er, en ekki eins og það gæti verið eða við vildum að það væri.

Hv. 2. þm. Reykv. skildi auðsjáanlega kjarnann í þessari röksemdafærslu, því að hann sagði, að við ættum ekki að láta aðstæðurnar í kringum okkur á okkur fá, við ættum að taka að okkur forustuhlutverk í utanríkispólitík Vesturlanda eða Vestur-Evrópu, að því er mér skildist. Þetta minnti mig dálítið á kenningar kunns brezks spekings, að nafni Rutherford, um hið mikla hlutverk, sem Íslandi væri ætlað í framvindu heimsmálanna. Hv. þm. sagði, að Ísland ætti að gegna miklu og glæsilegu hlutverki og mundi hafa skilyrði til þess að hafa gagnger áhrif á málefni heimsins. Ég hef ekki mikla trú á því, að það sé rétt, og þykist þó vera sízt minni föðurlandsvinur en margir aðrir og hafa sízt minna álit á þýðingu Íslands fyrir umheiminn, sérstaklega fyrir heimsmenninguna. En ég hef ekki trú á, að Ísland sé í þeirri aðstöðu að geta haft gagnger áhrif á framvindu heimsmála. Ég hygg, að sú trú hv. 2. þm. Reykv. sé oftrú. Við getum ekki með stefnu okkar hér haft áhrif á það, hvaða stefnu jafnvel Norðurlöndin, hvað þá önnur stærri ríki í Vestur-Evrópu fylgja. Við hljótum þvert á móti að verða að taka tillit, að vísu meira og minna sjálfstætt og meira og minna djarfmannlegt, til þeirrar stefnu, sem þar er ofan á hverju sinni. Ég legg sérstaka áherzlu á, að þetta er ekki að afsala sér sjálfstæði utanríkispólitíkurinnar, langt frá því. Eða hvað segir hv. 2. þm. Reykv. um aðrar þjóðir, sem eru staddar á sama svæði og við, en í öðrum hluta þess? Teldi hann það koma til greina fyrir Finna t. d. að gerast aðilar að Atlantshafsbandalaginu? Hvers vegna hafa Finnar gert varnarsamning við Sovétríkin? Hvers vegna hafa Finnar gert samning við Sovétríkin, sem heimilar Sovétríkjunum herstöðvar, miklar herstöðvar í landi þeirra, sem heimilar rússneskt land innan finnsku landamæranna? Telur hann, að með því að taka það tillit til hagsmuna Sovétríkjanna, sem Finnar hafa talið sér rétt og skylt, séu Finnar búnir að afsala sér algerlega sjálfstæði utanríkispólitíkur sinnar? Veit hv. þm., hvað rússneskur her er í mörgum löndum í Mið- og Austur-Evrópu? Og hver er afstaða kommúnistaflokkanna í þessum löndum til þessa rússneska hers, sem þar dvelur? Hver er afstaða Sósfl. hér til rússneska hersins í þessum löndum? Vildi Sósfl. hér standa að fundi friðelskandi borgara hér í Reykjavík til þess að samþykkja áskorun til sovétstjórnarinnar um að draga her sinn burt úr öllum þessum löndum? Ég veit það ekki. Ég dreg það mjög í efa. Ég hygg, að sannleikurinn sé sá, að hv. þm. telji nauðsynlegt, að rússneski herinn sé kyrr í þessum löndum. En Ísland vill hann hins vegar hafa ekki aðeins hlutlaust, heldur einnig vopnlaust. Þetta er, eins og ég hef þegar getið, að vissu leyti alveg rökrétt frá hans sjónarmiði séð. Hann telur hagsmunum heimsins, þ. á m. hagsmunum Íslands, bezt borgið með því, að aðstaða Sovétríkjanna og bandamanna þeirra til þess að ráða gangi heimsmálanna sé sem allra bezt. Það er ómótmælanlegt, að ef t. d. Ísland og ýmis önnur lönd, sem svipaða aðstöðu hafa og það, eru hlutlaus og algerlega vopnlaus, þá styrkir það aðstöðu Sovétríkjanna í tafli heimsstjórnmálanna. Ég lái hv. þm. þess vegna ekkert, að hann hefur þessa skoðun. Hún er í samræmi við grundvallaratriði lífsskoðunar hans, og hví skyldi maður ekki vera sjálfum sér samkvæmur? Fyrst hv. þm. trúir á það, og ég dreg það aldrei í efa, að hann trúi á það, að heiminum sé þannig bezt borgið, að Sovétríkin séu sem voldugust og sterkust og hafi sem mest áhrif, þá er eðlilegt, að hann óski eftir þeirri íslenzkri utanríkispólitík, sem er Sovétríkjunum mest í vil og styrkir aðstöðu þeirra mest, en það er einmitt sú afstaða, að Ísland fylgi stefnu hins einangraða hlutleysis og hins algera vopnleysis.

Hv. þm. er það lífsreyndur maður, að hann skilur, — það kom fram af fyrri ræðu hans um þetta mál, — hvaða afleiðingu það hefði fyrir Íslendinga nú, ef lýst væri yfir ævarandi hlutleysi miðað við núverandi kringumstæður. Það þýddi yfirlýsingu um fjandskap við Bandaríkin og Bretland og hin önnur vestræn lýðræðisríki, sem hafa sömu hagsmuni af því, að Íslendingar lýsi yfir samstöðu með þeim, sams konar hagsmuni af því eins og það er andstætt hagsmunum Sovétríkjanna. En það er einmitt þetta, sem hv. þm. vill. Hann vill, að Íslendingar lýsi yfir fjandskap við Bandaríkin og Bretland og hin önnur vestræn lýðræðisríki, og hann dregur enga dul á það. Hann tók það skýrt fram í ræðu sinni, að hann vildi, ef styrjöld brytist út, neita Bandaríkjamönnum og Bretum um að fá hér sams konar aðstöðu og þau höfðu í síðasta stríði. Hann var alveg hreinskilinn um þetta efni. Hann sagði: Ég vil, að Íslendingar segi nei. Jafnvel þó að það sé öllum ljóst, að það þýddi beinan fjandskap af þeirra hálfu, kallaði á beinan fjandskap af þeirra hálfu, þó að það kallaði hernám yfir Íslendinga. Hann sagði, að það væri betra að vera hlutlaus og lifa við sult og seyru en að vera skotmark. En skotmark hverra? Hverjir eru það, sem hv. þm. gerir ráð fyrir að kynnu að skjóta á Ísland, ef til styrjaldar drægi? Kjarni þeirrar utanríkisstefnu, sem ég tel að Íslendingar eigi að fylgja, á auðvitað að vera sá, að í styrjöld viljum við hvorki lifa við sult né seyru né heldur vera skotmark. Það er þetta, sem íslenzk utanríkisstefna á að tryggja, og það er markmið þeirrar stefnu og þeirra ráðstafana, sem liggja til grundvallar þeirri þingsályktunartillögu, sem hér er verið að ræða.

Þá ætla ég að víkja fáeinum orðum að ræðu hv. 8. þm. Reykv., sem hann flutti hér við fyrri hluta þessarar umr. Það er fyrsta ræðan, sem hv. þm. flytur hér um utanríkismál, og það fyrsta, sem mælt er af hálfu flokks hans um þau mál hér á hinu háa Alþingi. Ég hygg, að hv. þingmenn hafi orðið dálítið undrandi yfir ýmsum grundvallaratriðum í hans ræðu. Ég hafði beint þeirri fyrirspurn til málsvara Þjóðvfl., hvaða stefnu Þjóðvfl. vildi að Íslendingar hefðu, ef styrjöld brytist út milli austurs og vesturs, þ. e. a. s., hvaða afstöðu þeir mundu taka til þeirrar spurningar, sem þá hlýtur að koma upp, hvort leyfa eigi Bandaríkjamönnum og Bretum að fá hér sams konar aðstöðu með samningum eins og þeir höfðu hér í síðustu styrjöld. Stofnfundur Þjóðvfl. samþykkti ályktun, sem birt hefur verið í blaði flokksins, þar sem það er tekið skýrt fram, að stefna flokksins sé ævarandi hlutleysi og vopnleysi. Ég bjóst því við, að hv. þm. mundi segja: Við höldum fast við yfirlýsingu okkar um ævarandi hlutleysi og vopnleysi. — Ályktun af því væri auðvitað sú sama og hv. 2. þm. Reykv. dregur, að sagt yrði nei, ef styrjöld brytist út og tilmæli kæmu um sams konar aðstöðu hér til handa Bretum og Bandaríkjamönnum og í síðasta stríði. En hvað gerðist? Hv. þm. sagði ekki þetta nei. Hann svaraði ekki í samræmi við stefnuyfirlýsingu flokksins. Hann sagði, að svar Íslendinga ætti að fara eftir aðstæðum á hverjum tíma, eftir þeim aðstæðum, sem væru í heiminum, skildist mér, þegar stríðið brytist út. Þetta er ekki að halda fast við stefnu ævarandi hlutleysis og vopnleysis. Og mér finnst satt að segja vera heldur snemmt fyrir þingmann Þjóðvfl. að hverfa frá markaðri stefnu flokksins. Það hefðu ýmsir búizt við því, að um dálítið meiri stefnufestu væri að ræða en hér virðist hafa komið fram. Og út yfir tekur þó, þegar það er athugað, að í þessari yfirlýsingu felst það, að þessi forustumaður flokksins, sem talaði, virðist alls ekki hafa gert það alveg upp við sig, hvaða afstöðu Íslendingar eigi að hafa á því andartaki, sem stríð kynni að brjótast út. Hvað þýðir það að segja, að það eigi að fara eftir aðstæðum á þeim tíma, sem stríðið brýzt út? Getur hv. þm. hugsað sér einhverjar aðstæður, þar sem hann mundi segja já, og einhverjar aðrar, þar sem hann mundi segja nei? Þegar þannig er spurt, þegar ég spyr, þá á ég auðvitað við, hvað hann mundi segja miðað við núverandi aðstæður, hvað mundi hann segja, ef stríðið brytist út nú í dag eða á morgun eða hinn daginn. Þá getur hv. þm. ekki sagt: Ég hef ekki gert það upp við mig. — Þannig er ekki hægt að tala á hinu háa Alþingi. Þeir menn, sem tekið hafa að sér það trúnaðarstarf, sem í því felst að vera alþm., og sérstaklega þeir, sem tekið hafa kosningu fyrst og fremst til þess að berjast fyrir ákveðinni stefnu í utanríkismálum, verða að hafa gert upp við sig algerlega ljóst og skýrt það, sem telja má grundvallarspurningu í íslenzkum utanríkismálum. En það er grundvallaratriði íslenskra utanríkismála, hvaða afstöðu Íslendingar eigi að hafa á því andartaki, sem stríð brýzt út. Þeir menn, sem ekki hafa gert það endanlega upp við sig, eiga enn þá mikið óhugsað um vandamál íslenzkra utanríkismála. Ég skal engar getsakir gera þeim ágæta forustumanni Þjóðvfl., sem hér talaði, um skoðanir hans í þessum efnum. Ég vek aðeins athygli á því, að það kom ekki fram, hvaða skoðanir hann hefur á málinu. Ég vildi eindregið óska þess, að skoðanir hans væru ekki þær, sem fólust í stefnuyfirlýsingu flokks hans, að flokkurinn teldi, miðað við núverandi kringumstæður, rétt að halda fast við ævarandi hlutleysi og vopnleysi og þar af leiðandi segja nei við tilmælum af hálfu Bandaríkjamanna og Breta, ef styrjöld brytist út, um sams konar aðstöðu hér og þessi ríki höfðu í síðustu styrjöld. Ég dreg þá ályktun af ræðu hans, að það sé fyllsta von til þess, að hann standi ekki við þessa ályktun. A. m. k. meðan það hefur ekki verið skýrt sagt, hvort þeir mundu segja já eða nei undir þessum kringumstæðum, þá tel ég von til þess, að skoðanir hans séu mjög svipaðar þeim skoðunum, sem liggja til grundvallar þeirri tillögu, sem hér er til umr., og teldi ég það vissulega mikið fagnaðarefni, ef svo væri. Ég mundi fagna því mjög.

Hv. þm. ræddi nokkuð um þau almennu rök, sem hann taldi mega færa fyrir því, að Íslendingar lýstu nú yfir hlutleysi, jafnvel þó að hann, eins og ég sagði áðan, virtist ekki vera reiðubúinn til þess að segja, að við ættum að halda fast við það, jafnvel ef stríð skylli á. Höfuðrök hans voru fólgin í því, að þá væru mestar líkur á, að við lentum ekki í stríði, og minnstar líkur fyrir árásum á landið. En hvað er að segja um þessar röksemdir? Við vorum hlutlausir 1939, og hvað gerðist? Við sluppum ekki við það að vera óbeinn þátttakandi í þeim mikla hildarleik, sem þar var háður. Landið var hernumið, og við hurfum þá þegar frá hlutleysisyfirlýsingunni á þann hátt að taka upp virka samvinnu við þann aðila, sem hafði hernumið landið. Við mótmæltum hernáminu í orði, en við sættum okkur við það á borði, gerðum ekkert til þess að hindra það, að þessi hernámsaðstaða yrði hagnýtt. Og þessi stefna af hálfu ríkisstj. sætti ekki verulegri gagnrýni. Síðan var herverndarsamningurinn gerður 1941, án þess að honum væri verulega andmælt á þeim grundvelli, að hann væri ósamrýmanlegur hlutleysisyfirlýsingunni frá 1918. Sannleikurinn er auðvitað sá, að hvorki hlutleysisyfirlýsing né nokkrar aðrar ráðstafanir, sem væri á valdi okkar einna að gera, geta tryggt okkur gegn því, að við lendum í stríði, geta ekki heldur veitt okkur fullt öryggi gegn því, að landið verði fyrir árásum.

Það, sem Íslendingar þurfa að kappkosta til þess að forða sér frá siðferðislegri ábyrgð í því sambandi, ef efnt yrði til árása á Ísland, er að tryggja það, að héðan verði aldrei gerðar árásir á meginland Evrópu. Það er meginatriði málsins. Við samþykktum aldrei í síðasta stríði neina þess konar aðstöðu til handa Bandaríkjamönnum og Bretum, að héðan mætti gera árásir á meginland Evrópu. Við höfum enn þá ekki stigið neitt spor, sem í gæti falizt samþykki Íslendinga við því, að héðan yrðu gerðar árásir á meginland Evrópu, og slíkt spor eigum við ekki að stíga. Afstaða Íslendinga til Keflavíkurflugvallar á að vera svipuð og afstaða brezku stjórnarinnar til flugvalla Bandaríkjamanna á Bretlandi, þar sem því er lýst yfir sem vilja brezku stjórnarinnar, að þeir flugvellir verði ekki notaðir til árásar á meginland álfunnar. Þetta er aðalatriðið, sem þýðingu hefur í því sambandi að forða okkur frá árásum og að firra okkur siðferðislegri ábyrgð á þeim ógnum, sem af slíku kynnu að hljótast. Það er auðséð, að þó að þessar þjóðir, nágrannaþjóðir okkar sitt hvorum megin við Atlantshaf, hafi hér aðstöðu til þess að verja siglingaleiðir um norðanvert Atlantshaf, þá felst í þeirri aðstöðu engin ógnun við nokkurt ríki á meginlandi álfunnar, sem veiti því siðferðislegan rétt til þess að gera árásir á slíkar stöðvar hér á Íslandi.

Þar eð fundartímanum er að ljúka, skal ég ekki ræða þetta mál frekar að sinni. Ég vil einungis geta þess að síðustu, að ég tel það mjög gleðilegt og vil leggja á það áherzlu, að við þessar umræður skuli engin rödd hafa heyrzt af hálfu þm. til þess að mæla með þeim hugmyndum eða kenningum, sem allmikið var rætt um á s. l. vori, að hér væri ástæða til aukinna hernaðarframkvæmda, t. d. byggingar nýs hernaðarflugvallar. Það hefur engin rödd heyrzt hér, sem mælir fram með slíkum skoðunum. Það er einnig gleðilegt, að því skuli ekki hafa verið andmælt sérstaklega við þessar umræður, að nauðsynlegt sé að girða hernaðarsvæðið á Keflavíkurflugvelli af og jafnframt koma í veg fyrir óþarfaferðir varnarliðsmanna út fyrir samningssvæðin, og hitt, að Íslendingar annist einir þær framkvæmdir, sem enn er ólokið, en efnt hefur verið til. Ég tel enn fremur gleðilegt, að því sjónarmiði, sem fram kemur í þessari till. og er eitt aðalatriði hennar, að þegar í stað skuli hefja að mennta Íslendinga til að taka að sér tæknistörf , og gæzlustörf í sambandi við þau mannvirki, sem hér eru, skuli ekki hafa verið andmælt í neinu grundvallaratriði. Ég lít á þessar staðreyndir sem almenna játningu þess, að núverandi ástand í þessum málum sé orðið algerlega óviðunandi, algerlega óþolandi, og að gagngerðra breytinga sé þörf. Það er enn fremur eitt kjarnaatriði þessarar till., að uppsagnarfrestur samningsins, fresturinn til þess að láta herinn hverfa burt úr landinu, sé styttur úr þeim 18 mánuðum, sem nú gilda, niður í 3 mánuði. Það er rétt, að eins og ástandið er nú, þ. e. a. s., meðan engir sérmenntaðir Íslendingar eru til að taka að sér þau tæknistörf, sem leysa þarf af hendi í sambandi við rekstur flugvallarins og nauðsynlega almenna öryggisgæzlu þar, þá er á þessu andartaki ekki kleift að taka ákvörðun um að láta herinn fara burt úr landinu, enda samkvæmt samningnum ekki hægt að gera það fyrr en eftir 18 mánuði. En ef þessi till. yrði samþykkt og þegar búið væri að mennta starfsmenn til að taka að sér þessi tæknistörf og öryggisstörf og þegar Alþ. hefur fengið heimild til þess að láta herinn fara eftir 3 mánuði, þá ætti að sjálfsögðu að taka þegar í stað upp umræðu um það, hvort ekki væri rétt að stíga það spor. Ég vil láta þess getið, að það yrði auðvitað matsatriði á þeim tíma, það yrði auðvitað háð mati manna á ástandi heimsmálanna, hvort rétt væri að stíga það spor. Um það kann mönnum auðvitað, þegar þar að kæmi, að sýnast sitt hvað, eftir því, hvaða skoðun menn hafa á ástandi heimsmálanna almennt. En það vil ég segja og láta koma skýrt fram, að ég tel rétt og mun telja rétt að sýna fulla dirfsku í mati á ástandi heimsmálanna, þegar það mál kæmi til umr., ef þessi till. næði fram að ganga. Þeir hagsmunir, sem hér er um að ræða, eru svo brýnir, sú hætta, sem því fylgir að þurfa að hafa hér erlent lið á þann hátt og með þeim afleiðingum, sem við höfum nú orðið að reyna, er svo mikil, að ég tel sjálfsagt að sýna fyllstu dirfsku í mati heimsástandsins, þegar sú ákvörðun kæmi til umræðu á hinu háa Alþ.