19.11.1953
Sameinað þing: 18. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í D-deild Alþingistíðinda. (3091)

21. mál, uppsögn varnarsamnings

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Fyrir síðasta Alþingi lágu fjórar till., er snertu hersetu Bandaríkjanna hér á landi og þann samning, sem um hana var gerður vorið 1951.

Um framkvæmd hernámsins fluttu þm. Sósfl. tvær till., aðra um lokun þeirrar útvarpsstöðvar, sem ameríski herinn rekur hér þvert ofan í skýlaus ákvæði íslenzkra laga. Hin till. var svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar, að meðan erlendur her dvelst í landinu skuli hermönnum óheimil öll ferðalög og vist í frítímum sínum utan yfirlýstra „samningssvæða“, og felur ríkisstjórninni að sjá um, að í þessari ályktun sé framfylgt.“

Í þriðja lagi fluttu þm. Sósfl. í Nd. frv. til l. um uppsögn varnarsamningsins frá 1951 og afnám laga um lagagildi hans. Hvernig snerist Alþ. í fyrra við þessum till.? Frv. um uppsögn varnarsamningsins var fellt frá nefnd við 1. umr. Þáltill. var vísað til allshn. Sþ., en fengust aldrei afgreiddar frá n.

Á sama þingi flutti þáverandi þm., Rannveig Þorsteinsdóttir, þáltill. „um takmarkanir varðandi samskipti varnarliðsmanna og Íslendinga“. Þetta var fyrirsögnin. En öll var till. orðuð af kvenlegri nærgætni. Sýnilega ríkti í huga flm. að styggja ekki með henni nokkra lifandi sál, utanlands eða innan. Þeirri till. var einnig vísað til allshn. Sþ. Þar áttu sæti þrír flokksbræður Rannveigar. Þeim var í lófa lagið að fá till. samþ. í n., og var þá varla vafi á, að hún hefði náð samþykki á Alþ. En flokksbræður Rannveigar reyndust alls engan áhuga hafa á till. hennar og voru ófáanlegir til að afgreiða hana. Slíkur var áhugi Framsfl. í fyrra á umbótum á framkvæmd varnarsamningsins. Og enginn varð var við meiri áhuga á slíku hjá þm. Alþfl. Frá þeim kom ekki einu sinni ein einasta sýndartillaga.

En í vor fóru fram kosningar, og þá gerðust eins og svo oft áður skrýtnir hlutir. Þegar þm., sem höfðu samþykkt hernámssamninginn vorið 1951, fóru að kanna hugi kjósenda, ráku þeir sig á það, að þessi samningur var alls ekki eins vinsæll hjá kjósendum og þeir höfðu haldið. Þjóðin hafði fengið tveggja ára reynslu af hernámi á friðartímum. Í hverri sveit, hverju þorpi og hverjum kaupstað ráku þm. Framsfl. og Alþfl. sig á kjósendur, sem lýstu fullri óbeit sinni á hersetunni og öllu, sem henni fylgdi. Margir menn úr fjarlægum byggðarlögum höfðu farið í atvinnuleit á Keflavíkurflugvöll og vissu meira um það, sem þar hafði verið að gerast síðustu tvö árin, en þm., sem kölluðu herinn þangað. Þeir vissu, að þar hafði risið upp um það bil 10 þúsund manna amerísk íslenzk borg, þar sem öllu ægði saman: 3–4 þúsundum íslenzkra verkamanna, mörgum þúsundum amerískra hermanna og á annað þúsund ruslaralýðs úr stórborgum Bandaríkjanna, sem veita óspart uppeldisáhrifum til íslenzkra unglinga af báðum kynjum, sem þangað sækja unnvörpum í atvinnu- og ævintýraleit.

Margur sjálfstæðis-, framsóknar- og alþýðuflokksmaður hefur komið á Keflavíkurflugvöll sanntrúaður á blekkingar flokka sinna um nauðsyn svonefndra hervarna á Íslandi, en farið þaðan fullkominn andstæðingur amerískrar hersetu, ef ekki alls, sem amerískt er. Mörgum hugsandi mönnum í þessum flokkum hefur orðið það á tvö síðustu árin að rifja upp fyrir sér yfirlýsingar forustumanna sinna um, að aldrei skyldi koma til þess, að hér yrðu amerískar herstöðvar á friðartímum, enda mundi aldrei verða farið fram á slíkt. Því hafði sjálfur utanríkisráðherra Bandaríkjanna lofað í embættisnafni.

Hernámið 1951 var varið með því, að þá væru ekki friðartímar, heldur væri heimsstyrjöld að skella á á hverri stundu. Þeir, sem höfðu fylgzt með framkvæmdum varnarliðsins, vissu hins vegar, að þær voru allar miðaðar við það, að fjölmennur amerískur her gæti látið fara vel um sig á Keflavíkurflugvelli næstu áratugi. Þar höfðu fyrst og fremst verið byggð vönduð íbúðarhús, sem ætlað er að standi áratugi eða aldir. En fyrir varnarlausu smáþjóðina, sem ægilegasta árás úr austri átti að vofa yfir vorið 1951, hefur ekki verið byggt svo mikið sem eitt einasta loftvarnabyrgi, hvorki í námunda við Keflavíkurflugvöll né í höfuðborginni.

Hins vegar hefur Keflavíkurflugvöllur sjálfur verið stækkaður gífurlega. Hann var í síðustu styrjöld meira en nógu stór til þess, að flugvélar þaðan gætu vakað yfir siglingaleiðum og loftleiðum umhverfis landið og varið það fyrir hugsanlegum flugárásum. En nú hefur hann verið gerður svo úr garði, að stærstu risaflugvirki Bandaríkjanna geta farið þaðan til — árásarflugs á meginland Evrópu með atómsprengjur. Það er hlutverkið, sem herstöð Bandaríkjanna á Íslandi er ætlað í styrjöld.

Um útlitið fyrir stríð og frið í heiminum var það að segja s. l. vor, að þá var sýnilegt, að vopnahlé var að komast á í Kóreu, og rétt fyrir kosningarnar komu fréttir um, að jafnaðarmenn á Norðurlöndum, sem líka bjuggust til kosninga, hefðu gefið Bandaríkjamönnum endanlegt afsvar um herstöðvar í Danmörku og Noregi. Friðarhorfur væru sívaxandi, sögðu þeir, ekkert útlit fyrir heimsstyrjöld, enda reynslan af amerískri hersetu á Íslandi hin óglæsilegasta. En um hættuna, sem þessi lönd, Danmörk og Noregur, ættu að vera í, ef heimsstyrjöld skylli á, er það að segja, að Noregur á landamæri að Sovétríkjunum, en danskt land er aðeins um 30 km frá rússneskum herstöðvum. Samt neita þessar þjóðir að taka við amerískum herstöðvum og telja það hvorki ábyrgðarleysi né fjandskap við lýðræðisríkin.

Hér voru sýnilega góð ráð dýr s. l. vor. Miðstjórnir Alþfl. og Framsfl. fundu þó ráð. Það voru samþykktar í skyndi ályktanir, þar sem öll framkvæmd hernámsins í höndum utanrrh., Bjarna Benediktssonar, og varnarmálanefndar, sem bæði Framsfl. og Alþfl. áttu fulltrúa í, var fordæmd hörðustu orðum, talin óviðunandi og óþolandi með öllu. Flokksþing Framsfl. samþykkti auk þess að lýsa fullkomnu vantrausti á Bjarna Benediktssyni sem ráðherra. Frambjóðendur Framsfl. og Alþfl. úti um land kepptust um að sverja af sér og sínum flokkum hlutdeild þeirra í hernáminu og ábyrgð á því.

Í ýmsum kjördæmum, þar sem sérstaklega reið á að halda fylgi, var teflt fram frambjóðendum, sem lýstu sig eindregna andstæðinga hernámssamningsins sjálfs og kröfðust þess, að herinn færi úr landinu tafarlaust, vera hans hér ætti engan rétt á sér og hefði aldrei átt. Við þurfum ekki að nefna mörg dæmi um slíka frambjóðendur Framsfl. og Alþfl., en ég veit, að þúsundir hlustenda úti um land minnast slíkra frambjóðenda þessara flokka. En eitt dæmi vil ég nú nefna.

Það er alkunnugt, að kjördæmakosnir þingmenn Alþfl., sem sæti áttu hér á síðasta þingi, féllu nema einn, hv. 4. þm. Reykv., Haraldur Guðmundsson. Einmitt þessi hv. þm. var fyrir nokkrum dögum hér á Alþingi að fordæma þá menn, sem leyfðu sér að tala um hernám Bandaríkjanna, á Íslandi, það gerðu engir nema þeir, sem vildu ala á úlfúð og hatri í garð vinaþjóðar, sem hefði af góðvild tekið að sér varnir landsins; slíkt tal um hernám væri einkenni kommúnista, sagði þessi hv. þm.

Ég hef nú hér við höndina blað, dags. 19. júní 1953, rétt fyrir kosningarnar. Það flytur feitletraða grein á áberandi stað undir stórri fyrirsögn, og fyrirsögnin er svo hljóðandi: „Eina lausnin á vanda hernámsins er, að herinn hverfi brott úr landinu.“ En upphaf greinarinnar er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Eina lausnin á vandamáli hernámsins er sú, að allur erlendur her hverfi úr landinu og hver þumlungur þess verði aftur óskorað yfirráðasvæði Íslendinga. Önnur lausn á því máli er ekki til. Ástand og horfur í heimsmálum réttlæta ekki lengur hersetu á Íslandi. Hún er nú ónauðsynleg sem ráðstöfun vestrænum þjóðum til öryggis. Íslendingum sjálfum var hernámið frá upphafi vafasöm vernd. Þetta veit þjóðin með sjálfri sér. Hún finnur til þess, að sjálfstæði hennar er skert, virðingu hennar misboðið og atvinnuvegum hennar spillt, og sú tilfinning verður skýrari því lengur sem líður. Um stundarsakir er hægt að blinda sjónir almennings í pólitísku moldviðri. Það hefur verið gert í þessu máli, en augu fólksins eru að opnast og munu gera það betur. Þjóðin sjálf hlýtur að taka þetta mál í sínar hendur, og úr því mun engum flokksleiðtogum, engri ríkisstj. tjóa að malda í móinn.“

Hvaða blað er nú þetta, og hvaða maður er það, sem sáir þannig „úlfúð og hatri“ í garð vinaþjóðar, með því að tala um hernám Íslands af hálfu Bandaríkjanna? Hver er það, sem segir, að augu almennings hafi verið blinduð í pólitísku moldviðri í þessu máli? Hvaða flokksleiðtoga er maðurinn að skensa? Orðbragðið er einkenni á kommúnistum, segir hv. 4. þm. Reykv., Haraldur Guðmundsson. Hver er kommúnistinn? Blaðið heitir Alþýðublaðið, og maðurinn heitir Alfreð Gíslason læknir. Forustumenn Alþfl. fengu þennan mann til þess að vera 3. mann á lista flokksins í Rvík við síðustu kosningar, þann mann, sem þetta skrifaði, sem ég las. Og það er á allra vitorði, að Alþýðublaðið taldi kosningabaráttu Alþfl. í Rvík háða til þess að koma þessum manni á þing. Og það bar tilætlaðan árangur, ekki þann að koma Alfreð Gíslasyni á þing. En Alfreð Gíslason og skoðanir hans á hernáminu reyndust svo vinsælar meðal kjósenda í Rvík, að þær nægðu til þess að fleyta hv. 4. þm. Reykv., Haraldi Guðmundssyni, á þing. En hefði þessum manni með kommúnistaorðbragðið og skoðanirnar á hernámi ekki verið teflt fram, þá hefði Haraldur Guðmundsson að öllum líkindum fallið eins og aðrir þm. Alþfl., og þá ætti alls enginn Alþýðuflokksmaður sæti hér á hv. Alþingi.

En hvað segja nú þeir hv. sex þm. Alþfl., sem flutu inn á þing á vinsældum skoðana Alfreðs Gíslasonar, um skoðanir þessa velgerðarmanns síns? Eru þeir honum sammála um, að eina lausnin á vanda hernámsins sé, að herinn hverfi brott úr landinu? Ég kem að því síðar.

Nú liggja fyrir Alþingi þrjár till. um hersetu Bandaríkjanna hér á landi.

Í fyrsta lagi bera þingmenn Sósfl. í Nd. fram frv. um uppsögn varnarsamningsins og afnám laga um lagagildi hans. Þingmenn Sósfl. bera fram frv. um þetta, en ekki till. til þál., í fyrsta lagi af þeirri ástæðu, að sá er munur á þingsályktun og lögum, að ríkisstj. er skylt að fara eftir lögum, en það er ekki eins víst um þingsályktun, sem er aðeins viljayfirlýsing Alþingis. Sú er önnur ástæða til þess,, að þm. Sósfl. bera fram frv. um uppsögn hernámssamningsins, að þegar hann var gerður, var sérstaklega um hnútana búið. Honum var veitt lagagildi á Íslandi. Ef hann á að falla niður, verður að afnema þau lög. Af þessum ástæðum hljóta þeir, sem ekki vilja, að endurskoðun samningsins leiði til nýrra samninga um hernám Íslands, að bera fram frv. um, að samningurinn verði felldur úr gildi með lögum.

Í öðru lagi flytja tveir hv. þm. Alþfl., þeir Gylfi Þ. Gíslason og Hannibal Valdimarsson, þáltill. um endurskoðun samningsins. Þeir vilja fela ríkisstj. að fá lagfæringu á samningnum með nýjum samningum við Bandaríkin, þar sem gert yrði ráð fyrir skaplegri framkvæmd hernámsins, svo sem að hernámssvæðin verði afgirt, Íslendingar annist byggingu húsa og annarra mannvirkja í herstöðvunum, og enn fremur leggja þeir til, að Íslendingar verði sérmenntaðir til að gæta húsa og annarra mannvirkja hersins og þegar þeir séu fullnuma í því, þá geti Alþingi ákveðið með þriggja mánaða fyrirvara, að herlið Bandaríkjanna skuli hverfa frá Íslandi.

Þegar ég nú lét í ljós ánægju mína yfir því í umr. hér á hv. Alþingi, að samkvæmt þessu virtist Alþfl. vera orðinn á móti hernámssamningnum sjálfum og vilja, að hann félli niður, þá reis upp hv. form. þingflokks Alþfl., Haraldur Guðmundsson, og lýsti yfir, að þessi till. þýddi alls ekki, að Alþfl. vildi uppsögn samningsins. Hann sagði, að flokkurinn teldi alls ekki tímabært að stefna að því, að herinn hverfi burt úr landinu eftir 1½ ár, það teldi Alþfl. alls ekki koma til mála með tilliti til núverandi ástands í heimsmálunum. Á því geta Alþýðuflokksmenn séð, að ef flokkur þeirra má ráða, verða þeir að bíða enn lengi eftir því, sem Alfreð Gíslason taldi réttilega einu lausnina á vanda hernámsins, nefnilega að herinn hverfi burt úr landinu.

Í þriðja lagi liggur hér fyrir sú till. til þál. frá hv. þingmönnum Þjóðvfl., sem hér er nú til umræðu. Hún heitir „Till. til þál. um uppsögn varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna,“ en hún er eins og till. Alþfl. um endurskoðun samningsins og lagfæringu á framkvæmd hernámsins, að hernámsliðinu verði fækkað, að ekki verði fleiri Íslendingar ráðnir til starfa hjá herliðinu en nú er, að ekki verði neinar frekari herstöðvar eða hernaðarmannvirki en nú hafa verið leyfð o. s. frv. En um uppsögn hernámssamningsins sjálfs er þar ekkert utan það, að ríkisstj. Ólafs Thors, Bjarna Benediktssonar og Eysteins Jónssonar er þar falið að leggja fyrir Alþingi frv. til laga um uppsögn samningsins eftir 6 mánuði, þegar Alþingi, verður áreiðanlega farið heim. Það er dálítið eftirtektarvert og leiðinlegt, að einmitt þessi flokkur skuli í fyrstu till. sinni á Alþingi í þessu máli ganga sýnu skemmra en Alþfl. Hv. þm. Þjóðvfl. hlýtur þó að vera kunnugt, að hernámssamningnum frá 1951 var veitt lagagildi hér á landi, og þau lög verður að afnema með nýjum lögum, eigi hann að falla úr gildi. Þeim hlýtur að vera kunnugt um muninn á ályktun Alþingis og lögum frá Alþingi. Það á hver maður að vita, áður en hann kemur inn á þing.

Þessi linka í málatilbúnaði Þjóðvfl. er því undarlegri, þar sem það er kunnugt, að fyrsta atriðið í stefnuskrá flokksins er þannig orðað: „Herverndarsamningnum við Bandaríki Norður-Ameríku frá 1951 verði þegar í stað sagt upp.“ Hvers vegna láta fyrstu þm. þessa flokks það ekki verða sitt fyrsta verk á Alþingi að flytja slíka till. um uppsögn samningsins, auðvitað í frumvarpsformi, í stað þess að leggja til í þáltill. að fela Ólafi Thors og Bjarna Benediktssyni og ráðh. Framsfl. að flytja slíkt frv. eftir sex mánuði, þ. e. a. s. ekki fyrr en í vor? Er skýringin sú, að þessum hv. þm. hafi verið svo mjög í mun að verða ekki kallaðir kommúnistar, að þeir hafi fyrir þá sök forðazt að flytja frv. um uppsögn og afnám lagagildis hernámssamningsins eins og Sósfl. gerir? Af þeirri ástæðu einni urðu þeir til þess í þingbyrjun að koma í veg fyrir, að nokkur þm. Sósfl. og þeir sjálfir fengju sæti í þingnefndum í deildum. Eru þessir hv. þm. ekki búnir að læra það enn, að allir, sem í einlægni vilja uppsögn hernámssamningsins og amerískan her burt af Íslandi, verða kallaðir kommúnistar? Mér finnst það hvorki stórmannlegt né viturlegt af Þjóðvfl. að taka þetta sljóa vopn Bjarna Benediktssonar að láni og beita því gegn samherjum sínum í þessum málum. Þessir menn og fleiri verða að muna, að það kostar oft nokkuð að standa við sannfæringu sína. Þeir, sem hvorki vilja selja hana né láta af henni fyrir hótanir og illyrði andstæðinga, mega minnast þess, að þeir eru margir, frjálslyndir menn og jafnaðarmenn í Evrópu og raunar í öllum heiminum í dag, sem verða að þola það að vera kallaðir kommúnistar eða handbendi Rússa, ef þeir hafa vit og þor til að berjast gegn stríðsbrjálæði Bandaríkjanna og kröfum þeirra til vestrænna þjóða um að beygja sig í duftið fyrir Bandaríkjunum í nafni lýðræðisins.

En auk þeirra þriggja till. þriggja flokka, sem þegar eru komnar fram og ég hef getið, hafa verið birtar í Tímanum nýlega till. Framsfl. um þessi mál. Þær eru í stuttu máli á þessa leið :

1) Ný deild verði stofnuð í stjórnarráðinu, væntanlega með mörgum góðum embættum, og heyri undir hana öll varnarmál eða hermál.

2) Íslenzka ríkið annist mannvirkjagerð í herstöðvunum.

3) Hamiltonfélagið og hinir amerísku verkamenn víki af landi burt.

4) Reglur verði settar, sem takmarki dvöl herliðsins við þá staði, sem það hefur til afnota. Þessar till. eru allar til bóta, svo langt sem þær ná, en Tíminn upplýsir, um leið og hann birti till., að „til þess að koma þeim fram þurfi samninga við Bandaríkjamenn og hafi ríkisstj. nú til athugunar uppkast að orðsendingu, sem utanrrh. hefur samið og hugsað er sem grundvöllur væntanlegra nýrra samninga.“ Það er furðulegt að lesa það í blaði utanrrh., að um þessi atriði þurfi að semja við Bandaríkin. Þarf að semja um það við Bandaríkin eða sækja um leyfi þeirra til þess að stofna nýja deild í stjórnarráðinu? Þarf að fá leyfi Bandaríkjanna til þess að láta erlent gróðafélag, einkafyrirtæki, víkja af Íslandi, félag, sem hefur brotið íslenzk lög og kaup- og kjarasamninga og hefur fengið á sig um þúsund kærur fyrir ýmis afbrot? Þarf að semja um það, að íslenzka ríkið setji reglur um ferðir hermanna utan hernámssvæðanna?

Ég vil benda hæstv. utanrrh. á, að hv. 1. landsk., Gylfi Þ. Gíslason, hefur upplýst það hér í opinberum umræðum á Alþingi, að þjóðréttarfræðingur ríkisstj. hafi skýrt svo fyrir sér 3. gr. varnarsamningsins vorið 1951, að íslenzka ríkið ætti að hafa ótvíræðan rétt samkv. þessari grein til þess að setja slíkar reglur. Og stendur ekki auk þess í 5. gr. varnarsamningsins, að ekkert ákvæði hans skuli skýra þannig, að það raski úrslitayfirráðum Íslands yfir íslenzkum málum? Eru það ekki íslenzk málefni, hvort eða hvaða erlend gróðafélög fá leyfi til atvinnurekstar hér á landi eða hvort eða hvað margir erlendir verkamenn fá landvistarleyfi hér á landi?

Nýlega benti Tíminn á, hve ofur einfalt það væri að fást við þessi mál, ef tekið væri á þeim af nokkrum manndómi, t. d. hefði utanrrh. nýlega neitað að framlengja dvalarleyfi fyrir einn háttsettan yfirmann hjá Hamilton, sem mjög hefði verið kærður og valdið stórum vandræðum. Er ekki jafneinfalt að neita að framlengja dvalarleyfi fyrir Hamiltonfélagið sjálft og allt þess lið, ef ríkisstj. álítur, að það sé eina rétta lausnin, eins og Tíminn hefur oft réttilega sagt?

En ef ákvæði eru í varnarsamningnum, sem banna íslenzka ríkinu að setja þær reglur, sem því sýnist rétt að láta gilda á Íslandi utan hernámssvæðanna, og taka ákvarðanir um, hvaða útlendingum, öðrum en hermönnum, það vilji leyfa landvist á Íslandi, við hvern þá að sakast um það, að sjálfstæði Íslands hefur verið svo mjög skert með þessum samningum? Töldu ekki 43 þm. hernámsflokkanna samninginn svo fullkominn, að ekki þyrfti að leggja hann fyrir Alþingi eða ræða hann, áður en hann var gerður?

Þegar litið er yfir þessar till. allar, er augljóst, að yfirgnæfandi meiri hluti Alþingis, fjórir flokkar með 31 þm. alls, fordæma nú alla framkvæmd hernámssamningsins í höndum fyrrv. utanrrh. og varnarmálanefndar og að Framsfl. og Alþfl. telja nú hernámssamninginn sjálfan óviðunandi í þeirri mynd, sem þeir samþykktu hann 1951, en vilja nýja samninga um hernámið við Bandaríkin.

Það er þungur áfellisdómur, sem talsmenn Framsfl. og Alþfl. kveða nú upp yfir fyrrv. utanrrh., Bjarna Benediktssyni, og „varnarmálanefnd“ hans. Í tvö ár var öll gagnrýni á framkvæmd hernámsins talin kommúnistarógburður. Það kom ekki til mála í fyrra að samþykkja einu sinni sýndartillögu Rannveigar Þorsteinsdóttur, Það hefði verið talinn fjandskapur við Bandaríkin. En hún er ljót núna lýsing Tímans á viðskilnaði ráðherrans og varnarmálanefndar: Undirlægjuháttur og manndómsleysi hafa einkennt alla frammistöðu þeirra.

Hv. 4. þm. Reykv., Haraldur Guðmundsson, segir í þingræðu, að Alþfl. harmi mjög mistök íslenzkra stjórnarvalda, þ. e. ráðherrans og varnarmálanefndar hans, þau íslenzk stjórnarvöld hefðu átt að gæta þess, að hlutur Íslendinga yrði ekki fyrir borð borinn, þau hefðu átt að gera foringjum herliðsins það ljóst, til hvers það væri komið hingað til lands. M. ö. o., jafnvel þessi hv. þm. verður að játa, að hlutur Íslendinga hafi verið fyrir borð borinn og herforingjarnir amerísku hafi ekki hugmynd um það, til hvers þeir séu hér á Íslandi. Hv. 1. landsk., Gylfi Þ. Gíslason, kemst svo að orði, að „frámunalegt aðgæzluleysi og sleifarlag“ hafi einkennt framkvæmd samningsins af hálfu ríkisstj. og þá vitanlega líka varnarmálanefndar, sem var sett til að sjá um framkvæmd hans. Hv. 4. þm. Reykv., Haraldur Guðmundsson, bætir við, að þetta hafi raunar lengi verið skoðun Alþfl. og hann hafi séð þetta allt saman fyrir. En gaman þykir mér að heyra það, að hv. 10. landsk., Guðmundur Í. Guðmundsson, skuli lengi hafa verið á þessari skoðun, að frámunalegt aðgæzluleysi og sleifarlag hafi ríkt í öllum störfum varnarmálanefndar.

Það er ekki gott að sjá, hvernig fyrrv. utanrrh., Bjarna Benediktssyni, hefði tekizt að komast hjá að verða hrakinn úr embætti utanrrh. með vantrausti mikils meiri hluta Alþingis, ef hann og varnarmálanefnd hans hefðu ekki tekið þann kost að fara frá með lítilli sæmd, áður en þing kom saman í haust.

En er það nú víst, að íslenzk stjórnarvöld, Bjarni Benediktsson og varnarmálanefnd, eigi nú ein sökina. Mér þykir eftirtektarvert, að það er aðeins einn maður úr hópi Alþýðuflokks- og framsóknarmanna, — sem keppast nú um að fordæma sína menn, sem hafa starfað með að þessum málum — sem hefur haft kjark og heiðarleik til þess að segja sannleikann um þetta. Það er ritstjóri blaðs Alþfl. á Akureyri, Bragi Sigurjónsson, Ameríkusigldur maður. Hann segir svo í blaði sínu nýlega, með leyfi hæstv. forseta:

„Oss virðist á hinn bóginn (honum og hans blaði) sem yfirstjórn varnarliðsins hafi verið ágeng við þjóðina, hafi reynt að elta fram vilja sinn og væntanlega þá ríkisstj. sinnar um síauknar hernaðarframkvæmdir hér á landi, að því er oss hefur virzt, sér til hagræðis fremur en öryggis lands vors.

Sami maður bendir á það til sönnunar staðhæfingu sinni um ágengni Bandaríkjanna, að s. l. vor, þegar friðarhorfur fóru þó batnandi í heiminum, eins og hann segir, þá — einmitt þá — hafi Bandaríkjastjórn óskað eftir aukinni hernaðaraðstöðu hér á landi. En eru nú ekki fleiri menn í Alþfl. og Framsfl. svo skarpskyggnir, að þeir séu farnir að sjá, að síauknar kröfur Bandaríkjanna um hernaðaraðstöðu og hernaðarframkvæmdir á Íslandi, allt frá 1945 til þessa dags, eru gerðar Bandaríkjunum til hagræðis, en ekki vegna öryggis Íslendinga, og að öll framkoma Bandaríkjanna við Íslendinga einkennist af sívaxandi ágengni og yfirgangi? Eða er það tilviljun, hvernig hefur farið um framkvæmd allra samninga Bandaríkjanna við Ísland um hernaðarmál? Er aðeins undirlægjuhætti íslenzkra stjórnarvalda að kenna um þá óhrekjanlegu staðreynd, að enginn þessara samninga hefur verið haldinn eins og orð og efni stóðu til?

Um hið síðasta, hernámssamninginn 1951, hafa vitni þegar verið leidd. Tveir af þeim þremur flokkum, sem gerðu hann, Framsfl. og Alþfl., eru nú sammála um, að framkvæmd hans öll hafi verið „óviðunandi og óþolandi“, svo að notuð séu þeirra eigin orð, og samningurinn sjálfur sé nú óviðunandi lengur.

Fyrsti samningurinn um hernaðarmál milli Íslands og Bandaríkjanna var herverndarsamningurinn frá 1941. Í 1. gr. hans skuldbatt Bandaríkjastjórn sig til þess að „hverfa á brott frá Íslandi með allan herafla sinn á landi, í lofti og á sjó, undireins að ófriðnum loknum.“ En á Alþingi 1946, einu og hálfu ári eftir að ófriðnum var að fullu lokið, lýsti Ólafur Thors, þá forsrh., yfir orðrétt, „að þrátt fyrir 1. gr. herverndarsamningsins frá 1941, þá telji Bandaríkjastjórn sér samt ekki skylt að hverfa að svo stöddu burt með her sinn frá Íslandi, þar eð ófriðnum sé enn eigi lokið í þeim skilningi, sem samningurinn fjalli um.“

Hér er sögulegur vitnisburður forsrh. Íslands fyrir því, að fyrsti samningur Bandaríkjanna og Íslands um hernaðaraðstöðu á Íslandi var rofinn af Bandaríkjastjórn og að hún neitaði að fara með her sinn frá Íslandi, nema hún fengi Keflavíkursamninginn. Keflavíkursamningurinn var gerður — og hvernig var hann haldinn? Um það þykir mér handhægast að leiða fimm vitni, sem öll eiga sæti hér á hv. Alþingi. Þau eru hv. þingmenn Hermann Jónasson, Gylfi Þ. Gíslason, Hannibal Valdimarsson, Skúli Guðmundsson og Páll Zóphóníasson. Þeir fluttu á Alþingi 1949 till. um, að Íslendingar losuðu sig við Keflavíkursamninginn, og sögðu í grg. fyrir henni orðrétt:

„Óhætt mun að fullyrða, að reynslan af samningnum þau tvö og hálft ár, sem hann hefur verið í gildi, hafi fyllilega staðfest þau varnaðarorð, sem mælt voru, er hann var gerður. Veldur þar og nokkru um, að ekki hefur af hálfu íslenzkra stjórnarvalda verið á málum haldið af þeirri röggsemi, sem nauðsynleg hefði verið.

Þessum fimmmenningum var það ljóst, að sökin var að hálfu eða meir hjá hinum amerísku stjórnarvöldum, að nokkru ágengni þeirra að kenna, að nokkru undirlægjuhætti íslenzkra stjórnarvalda. Þegar Ísland var flekað í Atlantshafsbandalagið, þá vildu einmitt þessir fimmmenningar og fleiri, að skýr fyrirvari yrði gerður um það, að því fylgdu engar herstöðvar á friðartímum. Utanrrh., Bjarni Benediktsson, gaf þá, áður en samningurinn var samþykktur, svo hljóðandi yfirlýsingu á Alþingi, með leyfi hæstv. forseta:

„Eftir þær ótvíræðu yfirlýsingar, sem utanrrh. Bandaríkjanna hefur gefið og hans aðstoðarmenn, allir í embættisnafni og í nafni allra bandalagsþjóðanna, þá er það svo ótvírætt sem frekast er unnt, að þess verður aldrei óskað af Íslendingum, að þeir stofni eigin her, að þeir vígbúist, að þeir hafi erlendan her hér á friðartímum eða að þeir hafi erlendar herstöðvar á friðartímum.“

Efndirnar á þessum yfirlýsingum, sem voru í sjálfu sér samningur, voru hernámið 1951, en um efndir hernámssamningsins hef ég áður rætt.

Hér á landi er nú, að því er mér virðist, meiri nauðsyn á því en nokkurn tíma áður, að allir andstæðingar hernáms standi saman í einni fylkingu án flokkságreinings um þá kröfu, að amerískur her víki burt úr landinu, og gegn öllum blekkingum, sem nú verður beitt til þess að koma í veg fyrir það.

Íslenzkir stúdentar hafa vísað stjórnmálamönnunum leiðina í þessari sjálfstæðisbaráttu. Þeir hafa gert það fyrr. Stúdentar af öllum flokkum nema þeim, sem kennir sig við sjálfstæði þjóðarinnar, standa nú saman um þá kröfu, að herinn hverfi burt úr Landinu.

Hér á Alþingi eru nú uppi till. um þessi mál frá fjórum flokkum. Mín afstaða til þeirra, að því leyti sem þær kunna að koma til mín í utanrmn. og annars staðar við afgreiðslu þeirra hér á hv. Alþingi, mun fyrst og fremst miðast við það, með hverjum hætti því marki verður fyrst náð og örugglegast, að herinn víki af Íslandi og Ísland verði aftur frjálst land.