19.11.1953
Sameinað þing: 18. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í D-deild Alþingistíðinda. (3093)

21. mál, uppsögn varnarsamnings

Utanrrh. (Kristinn Guðmundsson):

Herra forseti. Við umr. um þáltill. Alþfl. um endurskoðun varnarsamningsins frá 5. maí 1951 hef ég gert hv. Alþ. grein fyrir afstöðu minni til hans og skal nú gera það nánar hér.

Er Ísland gekk í Norður-Atlantshafsbandalagið, skuldbatt það sig til að vera þátttakandi í varnarbandalagi vestrænna lýðræðisþjóða. Ísland yfirgaf þar með hina yfirlýstu hlutleysisstefnu frá 1918, sem reynzt hafði óframkvæmanleg, því að í síðustu styrjöld gat Ísland alls ekki verið hlutlaust þrátt fyrir viðleitni íslenzkra stjórnarvalda og yfirgaf hlutleysisstefnuna með samningum við Bandaríkin 1941. Lega landsins, lífsafkoma þjóðarinnar og stjórnskipulag hefur valdið því, að vér höfum fylgt að málum þeim, er ráðið hafa yfir siglingaleiðum umhverfis Ísland. Reynsla tveggja heimsstyrjalda sýnir og sannar, að hlutleysisyfirlýsing smáþjóðar er einskis virði. Þessi reynsla hefur valdið því, að Ísland yfirgaf hlutleysisstefnuna, ekki til þess að gerast þátttakandi í bandalagi, sem hefði landvinninga á stefnuskrá sinni, heldur sem þátttakandi í varnarbandalagi. Merkustu stjórnmálamenn hins vestræna heims hafa trú á því, að árvekni, samheldni og viðbúnaður vestrænna lýðræðislanda séu líklegust til þess að varðveita friðinn. Meiri hluti íslenzku þjóðarinnar aðhyllist þessa skoðun. Það er því eingöngu af því, að vér teljum þjóðinni affarasælla að vera í varnarbandalagi heldur en að standa algerlega einangruð, að vér höfum gert varnarsamning.

Þegar hervarnarsamningurinn var gerður 1951, voru allir íslenzku alþingismennirnir, nema kommúnistar, sammála um, að ástandið væri þannig, að ekki væri fært að hafa landið varnarlaust. Allt var þá svo uggvænlegt, að engin þjóð vissi, hvar og hvenær kynni að kvikna í púðurtunnunni. Enginn þingmaður stjórnarflokkanna og enginn þingmaður Alþfl. vill heldur nú skera upp úr um það, að landið skuli vera varnarlaust, og því ekki segja upp hervarnarsamningnum. Það hafa farið fram kosningar í landinu síðan samningurinn var gerður, og þjóðarviljinn stendur á bak við þingmennina. Þjóðin hefur því samþykkt ákvörðun Alþ. í þessu máli frá 1951.

Þáltill. sú, sem flutt er hér af hv. þm. Þjóðvfl., inniheldur í raun og veru eitt atriði, sem máli skiptir, en það er, að samningurinn verði endurskoðaður í þeim tilgangi að segja honum upp. Hin atriði þáltill. eru aðeins aukaatriði, því að tillögur þær, sem þar eru gerðar, verða óþarfar, ef varnarsamningurinn félli úr gildi.

Fyrir Alþ. liggur enn fremur frv. til laga um uppsögn varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og afnám laga um lagagildi hans. Frv. þetta er lagt fram af sósíalistum.

Bæði þáltill. þjóðvarnarmanna og frv. sósíalista krefjast því hins sama, sem sé afnáms varnarsamningsins, og mundi því Ísland væntanlega eiga að hverfa aftur til hins svo kallaða hlutleysis.

Eins og áður er sagt, taldi yfirgnæfandi meiri hluti alþm. 1951 óráðlegt að hafa landið varnarlaust, sökum þess að útlitið í alþjóðamálum væri svo ótryggilegt. Andstæðingar varnarsamningsins reyna að telja sér trú um, að engin sérstök ófriðarhætta sé í heiminum, ef við teljum þörf á hervörnum nú, þá þurfi að hafa þær um aldur og ævi. Það þarf annaðhvort mikla trú eða þá að vera sérstaklega blindur á alþjóðamál til þess að sjá ekki þá staðreynd, að ekki er enn þá friður í heiminum. Verulegur hluti af meginlandi Evrópu er enn hersetið land og sigurvegararnir úr síðustu heimsstyrjöld hafa enn ekki samið frið við hinar sigruðu þjóðir. Landamæri sumra landa hafa verið dregin þannig, að ósennilegt er, að allir aðilar sætti sig við þau til frambúðar. En mannkynssagan sýnir, hversu oft landamæradeilur hafa verið orsök ófriðar. Það virðist því miður ekki hægt að tala um friðvænlegt útlit, þótt vonandi sé, að þjóðirnar beri gæfu til að semja um þau mál á friðsamlegan og sanngjarnan hátt.

Af þessum ástæðum tel ég óráðlegt, að varnarsamningnum verði sagt upp að svo stöddu, enda mun það mála sannast. að ekki er unnt að nefna nokkurn þekktan stjórnmálamann í veröldinni, hvar í lýðræðisflokki sem stendur, er telur útlitið hafa breytzt svo til batnaðar, að ráðlegt sé að slaka á vörnum. Hvers vegna skyldi þá vera ráðlegt að gera það á Íslandi? Eða halda þjóðvarnarmenn, að þeir einir séu öllum öðrum færari til að dæma um friðarhorfur í heiminum?

Þegar Ísland gerði hervarnarsamning við Bandaríkin, mun öllum Íslendingum hafa verið það ljóst, að ýmis vandkvæði mundu fylgja því. Vegna fámennis íslenzku þjóðarinnar gat íslenzku þjóðerni og menningu Íslendinga stafað hætta af dvöl erlends fjölmennis í landinu í sambandi við herverndina. Enn fremur gat hætta verið á því, að eigi héldist jafnvægi í íslenzku atvinnulífi, ef stórframkvæmdir yrðu gerðar á vegum varnarliðsins. Og enn fremur gat það komið fyrir, að ýmis öfl í þjóðfélaginu auk kommúnistanna notuðu sér þá andúð, sem með öllum þjóðum er til staðar eða auðvelt að vekja gegn þeirri illu nauðsyn, að erlendur her dvelji í landinu.

Þegar hervarnarsamningurinn var gerður, var bæði Íslendingum og Bandaríkjamönnum það ljóst, að ýmsir erfiðleikar kynnu að skapast í sambúðinni milli þjóðanna í sambandi við framkvæmd samningsins. Varnarsamningurinn sjálfur ber þess glöggan vott, að báðir aðilar hafa haft þessi sjónarmið í huga.

Hervarnarsamningurinn hefur nú verið í gildi í 2½ ár. Reynslan hefur sýnt, að framkvæmd samningsins hefur ekki verið þannig, að við Íslendingar getum unað við hana. Þrátt fyrir það er ekki hægt að efast um, að meiri hluti íslenzku þjóðarinnar vilji, að Ísland verði þátttakandi í mikilvægum öryggisráðstöfunum. Það er í raun og veru ekki óeðlilegt, að ýmsir gallar hafi komið í ljós, þar sem alla reynslu skorti um flest atriði í framkvæmd samningsins. En nú hafa báðir aðilar þegar 2½ árs reynslu, og á þeirri reynslu verðum við að byggja í framtíðinni til þess að reyna að útiloka ýmis mistök, sem orðið hafa.

Ekki alls fyrir löngu hafa verið birtar till. þær, sem miðstjórn Framsfl. hefur samþykkt um framkvæmd varnarsamningsins. Er þar mörkuð sú meginstefna, er fylgt verður af minni hendi, eftir því sem unnt er, við framkvæmd varnarsamningsins í framtíðinni. Tillögurnar eru þessar:

1) Að stjórn varnarmála verði endurskipulögð og þau falin sérstakri stjórnardeild.

2) Að framkvæmdum varnarliðsins sé þannig hagað, að ekki þurfi að flytja inn erlent verkafólk vegna þeirra, enda sé jafnframt höfð hliðsjón af vinnuaflsþörf íslenzkra atvinnuvega á hverjum tíma. Jafnframt sé lögð áherzla á að haga framkvæmdunum þannig, að þær geti komið þjóðinni að gagni til annars en landvarna. Brottflutningur erlends verkafólks, sem nú starfar að framkvæmdum fyrir varnarliðið, verði hafinn sem fyrst.

3) Að íslenzka ríkið annist gerð og viðhald mannvirkja fyrir varnarliðið, svo sem nú á sér stað um vegagerð vegna fyrirhugaðra radarstöðva.

4) Að varnarsvæðin verði skipulögð þannig. að dvalarsvæði varnarliðsins og útlendra manna í þjónustu þess verði svo glöggt aðgreind frá dvalarsvæðum íslenzkra starfsmanna, að auðveldara verði um eftirlit á mörkum þessara svæða.

5) Að settar verði reglur um leyfisferðir varnarliðsmanna utan samningssvæðanna, enda gildi þær reglur einnig um erlenda verkamenn, sem dveljast á vegum varnarliðsins. Reglur þessar miði að því að hindra óþörf samskipti landsmanna og varnarliðsins og takmarki dvöl þess við þá staði, sem það hefur til afnota.

6) Að athugaðir verði möguleikar á, að Íslendingar annist fyrir varnarliðið starfrækslu fyrirhugaðra radarstöðva — svo og önnur tiltekin störf í sambandi við varnirnar — enda verði hafinn undirbúningur að sérmenntun íslenzkra manna í því skyni, eftir því sem með þarf.

Til nánari skýringar hinna einstöku liða vil ég taka eftirfarandi fram:

Í stjórnarsamningnum var gert ráð fyrir því, að sérstök deild í utanrrn. verði stofnuð til þess að sjá um framkvæmd varnarsamningsins eingöngu. Deild þessa er nú verið að stofna, og mun hún eingöngu fást við þau mál, sem af varnarsamningnum leiðir og áður hafa verið framkvæmd í ýmsum ráðuneytum. Enn fremur hefur verið stofnað til skrifstofu á Keflavíkurflugvelli, sem raunar er aðeins vísir að fullkominni skrifstofu, sem þar á að starfa og taka að sér að greiða úr hinum ýmsu vandamálum, sem rísa kunna á flugvellinum. Erfiðleikar hafa verið miklir við að koma slíkri skrifstofu á fót vegna húsnæðisskorts.

Strax eftir stjórnarskiptin fannst fyrrverandi varnarmálanefnd það nauðsynlegt að segja af sér störfum, þrátt fyrir það að ég óskaði eindregið eftir því, að hún starfaði áfram. Þetta hefur valdið miklum erfiðleikum og seinkað til muna endurskipulagningu varnarmálanna.

Það er sjálfsagt flestum auðskilið mál, að það tekur ekki lítinn tíma fyrir nýja menn að setja sig inn í svo vandasöm og flókin mál sem varnarmálin eru orðin.

Um annan liðinn í tillögunum vil ég taka eftirfarandi fram:

Framkvæmdir á vegum varnarliðsins hafa ekki verið skipulagðar á þann hátt, sem æskilegt er frá íslenzku sjónarmiði. Er hér átt við það, hve mikið er unnið á hverjum tíma. Fyrstu 20 mánuðina, sem varnarliðið dvaldi hér, var mjög lítið um framkvæmdir af þess hálfu. En snemma á árinu 1953 færðust þessar framkvæmdir snögglega í aukana og hafa síðan verið svo miklar, að eftirspurn eftir íslenzku vinnuafli hefur orðið óeðlilega mikil og þar að auki verið flutt inn margt verkamanna frá Bandaríkjunum. Árið 1952 hefðu Íslendingar hins vegar getað lagt til muna meira vinnuafl til þessara framkvæmda en með þurfti. Ég tel því, að það hafi verið til tjóns, bæði að þessu leyti og fyrir sjálfa framkvæmd öryggismálsins, að ekki var fyrr hafizt handa en raun varð á. Það verður að vekja athygli Bandaríkjanna á því, að framkvæmdir þær, sem varnarliðið hefur með höndum, eru svo stórfelldar, miðað við atvinnulíf Íslendinga, að mikill hraði í þeim framkvæmdum hlýtur að valda skaðlegri truflun íslenzks atvinnulífs, óeðlilegum fólksflutningum og jafnvel kollvarpa viðleitni ríkisstjórnarinnar til að halda jafnvægi í efnahagsmálunum. Velferð íslenzkra atvinnuvega krefst þess, að framkvæmdum varnarliðsins sé dreift og jafnað á það langan tíma, að ekki hljótist tjón af, jafnframt því sem þess er vænzt, að framkvæmdum verði. eftir því sem við verður komið, hagað svo, að þær geti orðið að gagni, þótt þeirra þurfi ekki við landinu til varnar í framtíðinni.

Um þriðja liðinn vil ég gefa þessar skýringar: Stjórn og umsjón framkvæmdanna er nátengd því efni, sem rætt var hér á undan. Það er ekki hægt að sætta sig við það fyrirkomulag, sem verið hefur, að bandarískur verktaki annist framkvæmdirnar eða semji um þær við íslenzkan verktaka. Því er lagt til, að íslenzka ríkið taki að sér að sjá um framkvæmdirnar fyrir varnarliðið, að sjálfsögðu eftir þess fyrirsögn og samkvæmt samningum svipuðum þeim, sem gerðir voru við íslenzku vegamálastjórnina um vegalagningu til fyrirhugaðra radarstöðva á Norðaustur- og Suðausturlandi. Það færi svo eftir atvikum, hvort ríkisstj. léti ríkisstofnanir, svo sem hafnarmálastjórn, vegamálastjóra, húsameistara ríkisins, raforkumálastjóra, flugvallastjóra, o. s. frv., annast framkvæmdirnar eða byði þær út. Þetta fyrirkomulag hefur þann kost, að auðvelt er að skipuleggja vinnuaflið eftir þörfum, og auk þess væru þá þeir sambúðarerfiðleikar úr sögunni, sem skapazt hafa innanlands í sambandi við núverandi verktaka.

Til þess að sýna, að þessi tillaga sé ekki ástæðulaus, skulu nefnd nokkur dæmi. Hið erlenda byggingarfélag á samkvæmt samningi að greiða kaup í samræmi við viðurkennda íslenzka kauptaxta til þess að raska ekki fjárhagslegu jafnvægi atvinnuveganna og ríkisins. En á þessu hefur þótt verða misbrestur. Til þess að fá íslenzka sérfræðinga hefur félagið gengið á undan í því að greiða kaup, sem er meira en tvöföld þau laun, sem sams konar menn fá hjá ríkinu, enda ýmsir farnir úr nauðsynlegum störfum hjá ríkinu til Keflavíkur. Það hefur reynzt ógerningur fyrir hið erlenda félag að setja sig svo inn í íslenzka kauptaxta, þrátt fyrir ítrekaðar aðgerðir af hálfu Íslands, að ekki sé sífelldur ágreiningur og árekstrar út af of lágu eða vangoldnu kaupi, sem eitrar alla sambúð. Stundum hefur fólki í sumum starfsgreinum verið greitt um lengri tíma mun hærra kaup en gert er samkvæmt íslenzkum kauptaxta. Þetta hefur valdið miklum óþægindum og þó ekki minnst, þegar allt í einu er breytt um og greitt lægra kaupið og eftirvinna aftekin.

Það ætti ekki að þurfa að nefna fleira, til þess að augljóst verði, að hér þarf að gera alveg gagngerða breytingu, enda hef ég nú fengið þrjá menn til þess að rannsaka öll slík ágreiningsmál, leiða þau til lykta, eftir því sem hægt er, og gert ráðstafanir, að sams konar ágreiningsmál endurtaki sig ekki.

Um fjórða lið er þetta að segja:

Á Keflavíkursvæðinu skortir staðarlega aðgreiningu milli dvalar- og athafnastaða Bandaríkjamanna og Íslendinga. Þetta hefur m. a. þær afleiðingar, að tollgæzla, löggæzla og annað eftirlit af hálfu Íslendinga er ekki framkvæmanlegt á þann hátt, að við verði unað. Þess vegna þarf að skipuleggja dvalar- og athafnasvæði þessi, aðgreina þau og haga byggingum og annarri starfsemi í samræmi við þá skipulagningu.

Um fimmta lið vil ég segja eftirfarandi:

Af hálfu Íslands eru mjög mikil vandkvæði á því að leyfa Bandaríkjamönnum af Keflavíkursvæðinu dvöl utan svæðisins. Ég hef fullan skilning á aðstöðu þeirra einstaklinga, er hér gegna þjónustu í varnarliðinu eða vinna að framkvæmdum á vegum þess og líta á sig sem boðna gesti í landi vinveittrar þjóðar. En af þjóðernislegum ástæðum verður að gera hér á miklu meiri takmarkanir en verið hafa. Það er því skoðun mín, byggð á reynslu, að Ísland verði að ákveða þessar takmarkanir, þótt að sjálfsögðu mundi haft um það samráð við stjórn varnarliðsins. Mundi þá heppilegast, að leyfisferðir yrðu háðar sérstökum leyfum hverju sinni og væru fyrir fram skipulagðar. Það kann að vera erfitt fyrir svo fjölmenna þjóð eins og Bandaríkjaþjóðina að skilja það, að hið tiltölulega fámenna varnarlið, er hér dvelur, geti valdið stórfelldri röskun í lífi nokkurrar þjóðar. En ég efast ekki um, að valdamenn í Bandaríkjunum geri sér þetta ljóst, þegar leidd eru töluleg rök að því, að við höfum algera sérstöðu meðal þjóðanna vegna fólksfæðar, og ég efast ekki um, að þeir munu fallast á að taka tillit til þessa með því að haga dvöl varnarliðsins hér á landi með nokkuð öðrum hætti en almennt tíðkast annars staðar.

Reynslan sýnir, að dvöl bandarískra verkamanna hér á landi er mjög óheppileg fyrir sambúðina milli Íslendinga og varnarliðsins. Íslendingarnir og bandarísku verkamennirnir eiga erfitt með að skilja hvorir aðra vegna málsins og vegna gerólíks hugsunarháttar. Bandarísku verkamennirnir hafa miklu hærra kaup vegna þess, að þeir vinna í fjarlægu landi. Allt þetta og ýmislegt fleira veldur margs konar misskilningi og árekstrum.

Um sjötta og síðasta liðinn er þetta að segja:

Nú er fyrirhugað að byggja þrjár radarstöðvar á Norðvestur-, Norðaustur- og Suðausturlandi, og var þegar samið um byggingu þeirra, er varnarsamningurinn var gerður, enda voru þær þá taldar eitt frumskilyrði þess, að vörn landsins væri framkvæmanleg. Þessar stöðvar eru í mjög strjálbýlum og fámennum byggðarlögum. Það er því skoðun mín, að starfslið þeirra verði að vera skipað Íslendingum, a. m. k. að mestu leyti, enda takist að ráða eða þjálfa nógu marga Íslendinga til slíkra starfa. Fleiri störf gætu komið til greina, sem varnarliðið hefur nú með höndum og ekki tilheyrir þó beinni hermennsku, en ekki er þó hægt að ræða þau atriði nánar nú.

Tilheyrendur mínir kunna ef til vill að segja, að ég finni ekki litið að framkvæmdum varnarsamningsins. Ég tel enga ástæðu til annars en að vera berorður um þessi efni, enda er það, er ég hef sagt, í samræmi við ályktanir þings Framsfl. s. l. vetur og nánari skýringar á þeim. Var og ekki dregin dul á þessa afstöðu flokksins við síðustu kosningar. En þá munu einhverjir segja, og hefur komið fram hér í umr., að ekki sé nóg að telja fram ágallana, það þurfi að framkvæma breytingarnar og gera endurbæturnar. Við þessa menn vil ég segja, að ég hef nýlega tekið við þessu starfi, og að sjálfsögðu tekur það sinn tíma að setja sig inn í jafnflókið mál og þetta er. Ég ætlast til þeirrar sanngirni af mönnum, að þeir geti fallizt á það, sem fram til þessa hefur verið talinn hygginna manna háttur, að rannsaka ástæðurnar áður en ráðizt er í framkvæmdir. Athugunum er nú í höfuðatriðum að ljúka og breytingar að hefjast. Væri því ef til vill réttara að láta dómana bíða, unz það sést, hvernig til tekst. Ég vil og benda á, að það tekur að sjálfsögðu sinn tíma að breyta venjum, sem hafa skapazt um dvöl hinna erlendu manna, en ég vona, að sá gagnkvæmi skilningur skapist, að þetta megi takast.

Ég hef hér að framan tekið fram þau rök, sem valda því, að ég get ekki fallizt á, að varnarsamningnum verði sagt upp að óbreyttu ástandi í alþjóðamálum. Ég hef einnig bent á þau helztu atriði, sem ég tel að geti orðið til þess að bæta framkvæmd varnarsamningsins og þar með draga úr og jafnvel bægja frá þeirri menningarlegu og efnahagslegu hættu, sem ýmsir telja að af honum stafi.

Eins og fyrr segir, verður að líta svo á, að mikill meiri hluti þjóðarinnar hafi samþykkt samninginn í kosningunum á s. l. vori. Samt sem áður er uppi talsverð andstaða hjá ýmsum Íslendingum gegn dvöl erlends varnarliðs hér. Þannig var fyrir síðustu kosningar stofnaður sérstakur stjórnmálaflokkur, sem hefur það aðalmál á stefnuskrá sinni að vinna að uppsögn samningsins. Það, sem m. a. hefur eflt þessa andstöðu og var mjög haft á orði í síðustu kosningum, er það, að hin Norðurlöndin, sem þó eru í Atlantshafsbandalaginu, eins og Noregur og Danmörk, hafa ekki viljað fá erlent herlið í lönd sín, heldur kosið að leggja á sig þungar byrðar fjárhagslega til að halda uppi landvörnum og fórna auk þess beztu árum æskumanna sinna til herþjónustu. En hér er mjög ólíku saman að jafna. Þó að þetta séu smáþjóðir, þá eru þær þó 30–40 sinnum fjölmennari en Íslendingar, ráða yfir margföldu fjármagni, og þær geta sjálfar haldið uppi töluverðum hervörnum í löndum sínum og gera það. En flestir telja, að mannfæð Íslands og fjárhagur leyfi ekki að halda uppi vörnum af eigin rammleik. Þess vegna var sú leið valin, sem farin hefur verið. Þetta hefur verið gert af nauðsyn, enda ekki vitað, að nokkurt ríki veraldar hafi treyst sér til að vera með öllu varnarlaust.

Ég vil mega vona, að það megi takast að fá þær umbætur á varnarsamningnum, sem ég hef drepið á, og með því batni mjög sambúð Íslendinga og Bandaríkjamanna hér á landi. En einkum vil ég mega vona og óska þess af heilum hug, að þjóðum heimsins megi takast að tryggja svo frið og alþjóðlegt öryggi, að ófriður verði útilokaður og engra hervarna því þörf hér né annars staðar. En á meðan þessu langþráða takmarki er ekki náð, tel ég, að Íslendingar eigi aðeins um tvo kosti að velja, ef þeir ekki vilja svíkja sjálfa sig og bandalagsþjóðir sínar: að þiggja þá vernd, sem Bandaríkin hafa látið þeim í té með hervarnarsamningnum, eða þá að koma upp nokkrum vörnum sjálfir. Síðari kosturinn er þjóðinni e. t. v. ofviða, og a. m. k. mun hann hafa lítið fylgi í landinu. En þá er ekki um annað að ræða en að sætta sig enn um stund við hinn fyrri.