19.11.1953
Sameinað þing: 18. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í D-deild Alþingistíðinda. (3098)

21. mál, uppsögn varnarsamnings

Einar Olgeirsson:

Góðir hlustendur. Þið hafið heyrt málflutning hernámsflokkanna. Hvernig lízt ykkur nú á varnir þeirra fyrir hernáminu. Enginn þeirra þorði að verja hernámssamninginn lengur og framkvæmd hans. Mér heyrðist meira að segja á ræðum íhaldsins, að Sjálfstfl. væri orðinn hræddur við þjóðina, og þeir hafa vissulega ástæðu til þess að vera hræddir, hernámsflokkarnir, en það eftirtektarverða í ræðum þeirra er, að það skuli vera þeir, sem tala svona. Þetta eru hernámsflokkarnir, sem fyrir 500 millj. dollara ofurseldu efnahagslíf Íslands undir hið kalda hernám ameríska auðvaldsins, ofurseldu alþýðuna þar með undir gengislækkunina og alla lífskjararýrnun síðustu 6 ára. Þetta eru flokkarnir, sem ofurseldu Ísland undir hið heita hernám ameríska auðvaldsins 5. maí 1951, undir þá smán og þá kúgun, sem brennur nú í blóði hvers ærlegs Íslendings. Þessir flokkar voru þó að reyna undanbrögð í ræðum sínum hér áðan. Þeir hafa ekki manndáð í sér til þess að viðurkenna glapræðið, sem þeir gerðu, þegar þeir kölluðu ameríska herinn inn í landið, en þykjast nú engir vilja bera ábyrgð á afleiðingum verka sinna, þegar þau blasa við. Þessir hernámsflokkar þora ekki að leggja hernámssamninginn og hafa aldrei þorað að leggja hann undir þjóðaratkvæði. Þjóðin hefur aldrei samþykkt hann. Þeir þorðu það sízt í kosningunum í sumar. Þeir fóru undan í flæmingi, frambjóðendur þeirra. Þeir lögðu á flótta fyrir þeim rökum, sem við sósíalistar alltaf höfum beitt í þessu máli. Þessir flokkar gáfust upp, af því að þjóðin var búin að sjá, að Sósfl. hafði sagt henni satt um hernámið, og ef þeir áttu ekki að eiga á hættu að missa fylgi, þá dugði ekki annað en að snúast gegn hernáminu, í orði kveðnu að minnsta kosti.

Þessir hernámsflokkar hafa hér á landi verið hin íslenzka deild ameríska árásarhersins. Þeir hafa lagt landið undir ameríska herinn. Á þeirra ábyrgð eru allar afleiðingar hernámsins í friði og stríði, líka þau svik, sem ameríska auðvaldið hefur í frammi við þjóðina. Þjóðin þekkti svik og ofbeldi þess auðvalds frá árunum 1945 og 1946. Það var því engum heilvita manni ofverk að sjá, hvað verða mundi, ef ameríski herinn væri kallaður inn í landið á ný.

Við sósíalistar höfum barizt einir við þetta lið, því að Þjóðvfl. hefur aldrei barizt, aðeins reynt að slá sér pólitískan gjaldeyri úr réttlátri reiði fólksins. Sósfl. hefur barizt með vonir allra vinnandi og hugsandi Íslendinga að aflgjafa. Við munum nú reka þann flótta, sem hernámsflokkarnir eru komnir á. Það er mikill sigur fyrir þjóðina, að þessi flótti skuli vera brostinn í íslenzka hernámsliðið. Við munum auðvitað fylgja þeim undanhaldstillögum, sem hernámsliðið hér kann að bera fram af ótta við fólkið, en við skulum ekki láta þær till. blekkja okkur. Við skulum gera okkur alveg ljóst, hvað hernámsliðið nú er að reyna að gera. Þegar þjóðin er risin upp og heimtar herinn burt, þá eru hernámsflokkarnir að reyna að þvælast fyrir því, að þessi afdráttarlausa krafa nái fram að ganga. Þeir eru með undanhaldinu að reyna að bjarga aðalatriðinu, herstöðvum Ameríkana á Íslandi. Þetta er mergurinn málsins. Þeir eru jafnvel til í að fórna Hamilton. Það gæti meira að segja komið sér vel fyrir æðstu stjórnendur Framsóknar og íhaldsins að hirða sjálfir gróðann, sem Hamilton hefur af íslenzku alþýðunni. Braskarar Framsóknar og íhalds slægju með því tvær flugur í einu höggi. — Út af þessum lögbrotum Hamiltons vildi ég annars segja það við yfirvöldin á Suðurnesjum og forustumenn Alþýðusambandsins: Farið þið heim til ykkar og lesið þið Bátsendapundarann eftir Grím Thomsen. „Reizlan er bogin og lóðið er lakt“ þar á Suðurnesjum enn, og látið þið Skúla fógeta kenna ykkur, hvernig á að meðhöndla þjófa og þorpara eins og Hamilton-hörmangarana. Það er til skammar að þola yfirgang þessa auðfélags lengur. Svona yfirgangsseggi á bara að segja við: Ef þið hafið ekki skilað öllu, sem þið hafið stolið af verkamönnum og verkakonum Íslands, skilað því miðað við fyllstu íslenzka taxta, þá verður allsherjarbann á ykkur, innan viku. — Allt þref við auðfélög eins og Hamilton er til skammar. Við slíka menn er bezt að breyta eins og Skúli fógeti við einokunarkaupmenn á Bátsenda.

„Hann skrifaði lítið og skrafaði fátt,

en skörungur var hann í gerð,

og yfir rummungum reiddi hann hátt

réttar og laganna sverð.“

Ef við Íslendingar látum þessa Ameríkana á Suðurnesjum kenna á samtakamætti verkalýðsins, skörungsskap þjóðarinnar, þá skulum við sjá, hvort það fer ekki fyrr en varir eins með ameríska auðfélagið og með danska höndlarann forðum. Það þarf að greiða Hamilton höggið, eins og Skúli gerði, vel útilátið og fljótt,

„svo búðsetuliðið varð bráðlega spakt, og

búðina ruddi hann skjótt.“

Íslendingar. Til hvers höfum við sloppið úr aldaáþján danska einokunarauðvaldsins, ef við eigum að þola deginum lengur rán og réttarskerðingu, dramb og dólgshátt amerískra auðfélaga, sem vilja breyta öllu Íslandi í ein Suðurnes? Og er ekki líka skömm að því að þola lengur dólgshátt amerískra hermanna? Þeir hafa þegar drepið einn íslenzkan mann. Þeir hafa hótað að skjóta starfsmenn íslenzka ríkisins, og þeir miðuðu síðast í gær byssustingjum sínum að hafnfirzkum sjómönnum í Hvalfirði. Á að líða þeim þetta lengur? Er ekki tími til kominn að reka þennan lýð úr landi, áður en hann er búinn að myrða eins marga og hann gerði, þegar hann var hérna síðast?

Grýla gamla — Rússagrýlan — gekk hér um garð áðan með Gils og Gylfa í halanum og tók á sprett, þegar Jónas og Bjarni komust að. Það hefði nú verið undarlegt, ef sá draugur hefði ekki gengið aftur í þetta sinn. Rússagrýlan er ameríska auðvaldinu ein geysihagleg geit. Úr spenum hennar rennur lygamjöður sá, sem fyllir hernámsblöðin hvern dag. Rússagrýlan á að mjólka ameríska auðvaldinu gull og gróða, þjóðir og lönd, dýrmætustu herstöðvar heims, og þegar undirþjóðir amerísku auðkónganna gerast fulldrukknar af miði hennar, þá á að etja fíflunum á foraðið, fórna þeim, sem auðdrottnarnir hafa brjálað í árásarstríði ameríska auðvaldsins, eins og Hitler fórnaði blómanum af æsku Evrópu fyrir 10 árum.

Íslendingar. Eigum við að láta vesæla mammonsþræla Ameríku forheimska okkur svona? Þjóð okkar hefur verið og er ein gáfaðasta þjóð heims, þjóð Eddnanna og Íslendingasagnanna, þjóð Stephans G. og Halldórs Kiljans Laxness. Höfum við ekki nógu lengi verið fótaþurrka Ameríkana, þótt þeir séu nú reknir burt?

Gils Guðmundsson, hv. 8. þm. Reykv., reyndi með dæmalausri frekju og blekkingum hér áðan að afsaka þáltill. þeirra þjóðvarnarmanna. Þeirra till. hljóðar aðeins um viljayfirlýsingu Alþingis um að æskja þess, að ríkisstj. flytji frv., en hún rúmar enga lagafyrirskipun um uppsögn samningsins eins og till. okkar sósíalista.

Gylfi Þ. Gíslason, hv. 1. landsk., neitaði því áðan, að Finnbogi Rútur hefði haft rétt eftir Haraldi Guðmundssyni ummælin um stefnu Alþfl. Þetta er rangt hjá Gylfa. Ummælin voru orðrétt úr ræðu Haralds.

Gylfi Þ. Gíslason, hv. 1. landsk., og Jónas Rafnar, þm. Ak., töluðu hér um lýðræði í sambandi víð Bandaríkin. Það þarf óskammfeilni til. Hverjar eru staðreyndirnar? Í Bandaríkjunum er nýr fasismi að komast til valda. Dómsmorð og brjálæðiskenndar skoðanaofsóknir einkenna stjórnarfarið allt. Og hvernig er ástandið hér? Hér starfar útibú fyrir ameríska fasismann. Hér í ameríska sendiráðinu á Laufásvegi og á Keflavíkurflugvelli eru reknar skoðananjósnir um íslenzka menn. Hér dirfast erindrekar Ameríkana að spyrja íslenzka borgara, hvernig þeir hafi kosið í kosningum. Hér eru menn reknir úr vinnu — með tilvitnunum í amerísk lög — fyrir, að vandamenn þeirra fylgi íslenzkum málstað, en ekki amerískri yfirráðastefnu. Og hver kostar þessar amerísku njósnir og þessa nýfasistísku áróðursstarfsemi? Það gerir íslenzka ríkið. Á undanförnum árum hafa verið greiddar yfir 20 millj. kr. úr einum sjóði íslenzka ríkisins til ameríska sendiráðsins í Reykjavík. Fyrir þetta fé kaupa Ameríkanar íbúðir í Reykjavík og hrekja íslenzkar barnafjölskyldur á kaldan klakann. Fyrir þetta fé er rekin mútu- og njósnastarfsemi Ameríkana á Íslandi. Fyrir þetta fé er prentaður amerískur lygaáróður og gefinn í skóla landsins. En ef byggja þarf skólahús fyrir Íslendinga, þá eru engar 20 millj. til, eða ef bæta þarf við íbúðir handa íslenzkum fjölskyldum, þá eru engir peningar til. Ef það þarf að hækka ellilaun gamla fólksins, eins og við sósíalistar leggjum til, þá neita agentar Ameríkana um fé, en handa Ameríkönunum er nóg fé til.

Hv. 1. landsk., Gylfi Þ. Gíslason, talaði eins og glópur her áðan um afstöðu ameríska hersins á Íslandi. Hann deildi á þá einu stefnu, sem vit er í fyrir Íslendinga að hafa algert hlutleysi og vopnleysi — þá stefnu, sem á að vera stolt vor Íslendinga að berjast fyrir í heimi, gráum fyrir járnum. Gylfi virðist ekki gera sér ljóst, til hvers ameríska herveldið er hér nú. Hann heldur, að ameríska auðvaldið sé hér til að vernda okkur lýðræðisins vegna. Hvað er það, sem ameríska auðvaldið vill með Ísland? Það vill Ísland sem herstöð til árása á Evrópu. Ameríska auðvaldið er að stækka flugvöllinn í Keflavík til þess að gera hann fullkomlega hæfan fyrir árásarsprengjuflugvélar, og þetta er gert með vitund og vilja íslenzku ríkisstj., og árásirnar eru sem stendur miðaðar við loftárásir á bezta viðskiptaland Íslands, Sovétríkin, en ef ameríska hervaldið fær að festa sig hér, líka beint gegn nágrannaþjóðum okkar, Bretum og Norðurlandaþjóðunum, því að það veit enginn, hvenær Bandaríkjaauðvaldið, sem núna þróast óðfluga til fasismans, álítur nauðsynlegt að ráðast á þau ríki að hætti fyrirrennara síns, Hitlers.

Með árásarundirbúningi Ameríkana hér á Íslandi er allri hættunni boðið heim. Ameríska auðvaldið vill fá Ísland sem drápssker, því að stríð er fyrst og fremst gróðafyrirtæki í augum amerísku auðhringanna. Þeir græddu 50 milljarða dollara, 800000 millj. ísl. króna, á síðasta stríði. Þeir óttast kreppu meira en stríð. Amerísku auðhringarnir létu lepp sinn, Syngman Rhee, hefja Kóreustyrjöldina 1951, þegar kreppan var að færast yfir þá, og núna óttast þeir kreppu á ný og leita alls staðar um heim að átyllum til að hefja stríð. Múgmorðin eru blómlegasta atvinnugrein, ábatasamasti gróðavegur amerísku auðmannanna, og þess vegna vilja þeir fá Ísland til þess að geta undirbúið næsta blóðuga gróðafyrirtæki sitt. Hvað kostaði Ísland þessa kaupmenn dauðans? Ameríska auðvaldið fleygði 500 millj. kr. í ríkisstjórnir hernámsflokkanna. Það græðir þessar 500 millj. kr. á launalækkunum þeim, sem það hefur knúið fram hjá íslenzka verkalýðnum með gengislækkuninni og öðrum þeim árásum á lífskjörin, sem það hefur látið gera hér á síðustu árum.

Ameríska auðvaldið hefur fengið Ísland sem drápssker til árása á Evrópu. En hvað fær íslenzka þjóðin? New Statesman and Nation, eitt bezta og frægasta tímarit Bretlands, sagði fyrir nokkrum árum, er það ræddi hættu Breta í nýju heimsstríði:

„Við getum, ásamt Grikklandi, Tyrklandi og Íslandi, verið herstöð í fremstu víglínu fyrir Ameríku.“ Og svo vitnaði það í blað amerískra atómsérfræðinga og sagði: „Það er hægt að eyðileggja þau ríki, sem verða herstöðvar í fremstu herlínu fyrir okkur, með þeim sprengjufleygum og flugvélum, sem nú þegar eru til taks. Ameríka getur því aðeins haldið þessum herstöðvum með því að stofna þessum vinsamlegu þjóðum í þá hættu, að þeim verði gersamlega útrýmt og þá væntanlega gegn þeirra vilja.“

Svo mörg voru þau orð. Gera amerísku valdhafarnir sér nokkrar áhyggjur út af því að útrýma Íslendingum, þegar þeir þykjast vera að vernda okkur? Nei, þvert á móti. Þeir gera sér leik að því. Við höfum reynsluna af því úr síðasta stríði. Við höfðum varnarsamning við Ameríkana þá. Einn æðsti maður Bandaríkjanna, Edgar Hoover, yfirmaður amerísku öryggislögreglunnar, hefur sagt frá því í American Magazine í maí 1946, að hann hafi látið þýzka njósnara, sem hann hafði náð í, halda áfram að senda nazistahernum skeyti til þess að telja þeim trú um, að innrásin í Evrópu ætti að gerast frá Íslandi til Noregs, m. ö. o. að reyna að beina skotum Þjóðverja að Íslandi sem skotspæni, leiða tortímingu yfir land vort og þjóð. Þetta var verndin. Og þetta er tilgangur verndaranna enn. Við Íslendingar eigum að vera fórnarlömbin fyrir ameríska auðvaldið í blóðugasta gróðafyrirtæki þess, nýju heimsstríði. Svona er það hlutskipti, sem þetta mammonsríki Ameríku, svo að notuð séu orð Matthíasar Jochumssonar, ætlar íslenzku þjóðinni.

Lokaröksemd þessara hernámsflokka hér í umræðunum hefur svo verið sú, að af því að Ísland sé í Atlantshafi, þá eigum við sjálfir að biðja um að fá að vera peð fyrir ameríska auðvaldið. fá að vera drepnir, þegar það fer í nýtt stríð. Þessi rökvilla er rökþrot manna, sem standa sjálfa sig að glapræði og leita að rökum fyrir glæp sínum eftir á.

Íslendingar. Er ekki tími til kominn, að öll þjóðin rísi upp og heimti einum munni: Burt með ameríska herinn af Íslandi. — Það er það sem þjóðin vill, en hún þarf að segja það svo afdráttarlaust, að ekki verði um villzt. Til þess að knýja fram brottflutning hersins og öll þau hagsmunamál alþýðu, sem í rauninni eru órjúfanlega tengd því, að yfirdrottnun Ameríkana yfir Íslandi ljúki, þarf einingu þjóðarinnar, samstarf allra þeirra afla, sem vilja vinna að þessu marki.

Það er aðeins einn prófsteinn til á það, hvort menn og flokkar meina það í alvöru, að þeir vilji herinn burt. Það er, hvort menn vilja í reynd vinna saman að því, berjast saman, láta engar mismunandi skoðanir, engar grýlur, engar gamlar væringar skipta því liði, sem verður að standa sem heild, ef það á að bjarga Íslandi.

Sósfl. hefur boðið Alþfl. samstarf. Sá flokkur hikar og tvístígur, mænir vonaraugum til Framsóknar, sem alltaf hefur undirokað Alþfl. og leikið hann grátt, þegar hún hefur getað. Það er fólkið í Alþfl., sem þarf að rísa upp og taka af skarið, skapa einingu alþýðunnar á Íslandi og gera íslenzka alþýðu að sterkasta aflinu í íslenzkum stjórnmálum, eins og hún er, þegar hún stendur saman.

Sósfl. hefur boðið Þjóðvfl. samstarf í hernámsmálinu. Og það virðist, að það ætti þó að vera auðsótt. Þeir Þjóðvfl.-menn þykjast vilja frelsa þjóð vora frá smán og tortímingu, segjast vilja berjast fyrir því, að ameríski innrásarherinn sé tafarlaust rekinn burt. Þeir vita, að þetta verður ekki gert nema með samstarfi allra þeirra krafta. sem að þessu vilja vinna. Þeir vita, að það er einn einasti flokkur, sem allan tímann hefur barizt gegn hernáminu og allri yfirdrottnun ameríska auðvaldsins yfir Íslandi, sá flokkur, sem hindraði það 1945, að Ameríkanar fengju herstöðvar til 99 ára á Íslandi, Sósfl., og hann hefur barizt, meðan margir þeir þögðu, sem nú tala hæst. En þeir þjóðvarnarmenn segjast ekki vilja vinna með þessum flokki, ekki einu sinni kjósa með honum í nefndir á Alþ., nema Alþfl., einn hernámsflokkurinn, geri það líka. M. ö. o.: Hernámsliðið þarf að leggja blessun sína yfir það, að andstæðingar hernámsins vinni saman, þegar líf þjóðarinnar liggur við. Hvað er svona framkoma gagnvart þjóð vorri á örlagatímum? Þessi framkoma er pólitískt hugleysi. Forustumenn Þjóðvfl. vita, að Rússagrýlan er höfuðlygi ameríska auðvaldsins. En þeim flökrar samt ekki við að reyna að hagnýta sér hana til árása á Sósfl. Þeir þora ekki að segja sannleikann um þessi mál, af því að þeim finnst hægara að standa í byrnum frá Bandaríkjaauðvaldinu, haga seglum sínum eftir áróðursstormi þess, því að þeir eru ekki að hugsa um að segja sannleikann, heldur segja það, sem þeir halda að sé haganlegt til pólitísks framdráttar, þó að það sé ósatt. Hver er afleiðingin af þessu pólitíska hugleysi Þjóðvfl.? Hún er sú — nú þegar — að gefa hernámsflokkunum alla menn í öllum nefndum í deildum Alþ., þó að andstæðingar hernámsins hafi haft fullt þingfylgi til þess að eiga menn í öllum þeim nefndum. Eftir slíkum pólitískum asnaskap og siðferðislegu hugleysi mundi Þjóðvfl., ef Sósfl. og hann væru tveir saman í meiri hluta á Alþ., neita að mynda ríkisstjórn með Sósfl. um að reka ameríska herinn burt úr landinu, nema einhver hernámsflokkanna leyfði eða væri með í stjórninni. Að segjast vera með því að frelsa þjóðina úr klóm ameríska hervaldsins, en neita samstarfinu um að framkvæma það verk, það er að svíkja þjóðina með kossi.

En þjóðin mun skapa sína einingu, hvaða menn sem reyna að hindra það og hvaða ráðum sem þeir beita. Verkalýður Íslands hefur áður sýnt þjóðinni, hvernig verður að berjast gegn amerísku yfirdrottnuninni. Verkalýðssamtök Reykjavíkur gerðu fyrsta pólitíska allsherjarverkfallið á Íslandi 1946 til þess að mótmæla Keflavíkursamningnum. Verkalýður Reykjavíkur mótmælti þúsundum saman inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið 30. marz 1949. Engar kylfur né táragas, hneykslisdómar né ofsóknir megna að brjóta kjark íslenzkra verkamanna. Í verkföllunum 1951 og vetrarverkfallinu mikla 1952 sýndi verkalýðurinn, hver máttur hans er til baráttu gegn kúguninni, og hann á eftir að sýna það betur, ef ekki verður látið undan kröfum hans, faglegum og pólitískum.

Stúdentar Íslands, beztu menntamenn þjóðarinnar, hafa sýnt það, þegar mest reynir á, að þeir eru arfi Íslands trúir. Stúdentaráð háskólans skóp samfylkingu gegn nazismanum 1935, þegar Halldór Kiljan Laxness þá flutti sína sögulegu ræðu af svölum þessa húss 1. desember. Stúdentaráð háskólans fylkti sér einhuga gegn herstöðvakröfum Ameríkana 1945. ag stúdentar háskólans, sem fylgja Sósfl., Þjóðvfl., Alþfl. og Framsfl., hafa nú, 1953, samfylkt til að heimta herinn burt af Íslandi. Þessi menntaæska er þjóð vorri allri til fyrirmyndar í verki. Þökk sé henni. Sigggrónar hendur verkamanna þrýsta þessa dagana hönd hinna ungu stúdenta í anda.

Og um sveitir landsins fer uppreisnaraldan. Bændastétt Íslands, sem hafði forustu í frelsisbaráttunni gegn Dönum, rennur nú blóðið til skyldunnar. Framsóknarkempurnar skjálfa, gera ýmist að beita ofsóknum, eins og í Eyjafirði, eða brosa til vinstri, þora samt í hvoruga löppina að stíga. En bændur Íslands munu ekki bíða eftir þeim. Það sýnir fordæmi bændanna á Vatnsleysuströnd.

Eining Íslendinga gegn hernum er að skapast. Sú eining þjóðarinnar verður að skapast um eitt: afdráttarlausa kröfu um burtför hersins af Íslandi. Og sú eining verður að mótast af einu: afdráttarlausri samstöðu allra þeirra, sem vilja herinn burt, hvaða skoðanir og flokka sem þeir annars aðhyllast. Það er sæmd þjóðarinnar, menning og líf, sem er í voða. Þegar slíku á að bjarga, er aðeins spurt um eitt: Ertu með málstað Íslands eða á móti honum? — Ættjarðarljóðin eða ástarjátningarnar til fósturjarðarinnar duga ekki einar í þeirri baráttu. Hér þurfum við Íslendingar á allri þeirri hörku, öllu því hugrekki að halda, sem Ísland hefur alið upp í börnum sínum frá upphafi vega, því að nú er annaðhvort að duga sem menn eða drepast eins og amerísk þý.

Verkamenn, sjómenn, bændur, menntamenn, Íslendingar. Rísið upp, hver í sínu félagi, sínum flokki. Skapið órofa einingu þjóðarinnar í sjálfstæðisbaráttu hennar gegn amerísku yfirdrottnuninni. Knýið foringja ykkar til tafarlausrar stefnubreytingar, til brottrekstrar hersins og samstöðu um það. Og ef þeir ekki vilja láta undan kröfum ykkar, þá yfirgefið þið þá. Burt með kúgunina. Burt með smánina. Burt með Hamilton. Burt með herinn. Tafarlausa uppsögn hernámssamningsins. Það er krafa þjóðarinnar, og þá kröfu á Alþingi að framkvæma. — Góða nótt.