19.11.1953
Sameinað þing: 18. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í D-deild Alþingistíðinda. (3099)

21. mál, uppsögn varnarsamnings

Guðmundur Í. Guðmundsson:

Herra forseti. Fyrir Alþ. liggja nú þrjár till. um varnarmálin. Kom fyrst fram í Sþ. þáltill. flutt af tveim þm. Alþfl. Till. er flutt samkvæmt ályktun miðstjórnar flokksins og miðar að því, að varnarsamningurinn verði endurskoðaður, án þess að honum sé sagt upp og án þess að beitt sé ákvæði 7. gr. hans um endurskoðun á því, hvort varnanna sé lengur þörf. Í till. er kveðið á um, við hvað stefna ríkisstj. í sambandi við endurskoðunina skuli meðal annars miðast. En upptalningin í till. er alls ekki tæmandi, enda telur Alþfl., að reynslan hafi sýnt, að breyta þurfi fleiri ákvæðum varnarsamninganna en nefnd eru í till. sjálfri. Fyrsti flm. till., Gylfi Þ. Gíslason, hefur þegar gert grein fyrir henni og skal ég því ekki ræða hana frekar.

Þá er komið fram í hv. Nd. frv. til l. um uppsögn varnarsamningsins, flutt af þm. Sameiningarflokks alþýðu, Sósfl., og loks þáltill. þjóðvarnarmanna, sú er hér er til umræðu. Það er sameiginlegt við till. þeirra samherjanna, þjóðvarnarmanna og kommúnista, að báðir leggja á það megináherzlu, að varnarliðinu verði vísað úr landi og það skuli að fullu og öllu farið héðan eftir að 18 mánaða fresturinn samkv. 7. gr. varnarsamningsins er liðinn, hvernig sem ástandið í heiminum kann þá að reynast. Skiptir í augum þessara flokka engu máli, þó að friðurinn í heiminum sé þá í svo alvarlegri hættu, að allir viðurkenni, að búast megi við, að til ófriðar kunni að draga á hverri stundu, og að ljóst sé, að brottför varnarliðsins frá Íslandi kynni jafnvel að hafa þá þýðingu að hleypa heimsstyrjöld af stað, á svipaðan hátt og samningur Hitlers og Stalíns gerði 1939.

Þjóðvarnarmenn og kommúnistar byggja tillögur sínar og málflutning á því, að Íslendingum henti það bezt að hverfa aftur að hefðbundinni hlutleysisstefnu og að varnir hér séu til þess eins fallnar að gera Ísland að skotmarki óvinanna. Fyrr á árum átti hlutleysiskenningin rétt á sér. En ekki vegna þess, að hlutleysisstefnan veitti okkur öryggi, heldur eingöngu af þeim einfalda sannleika, að Ísland var fjarri öllum vígvöllum og lega þess hafði ekki þýðingu í átökum stórveldanna. Með aukinni tækni varð Ísland mjög þýðingarmikið í styrjöld stórveldanna vegna legu sinnar, og vígvellirnir færðust út á Atlantshafið að ströndum landsins. Og hvernig fór? Í fyrsta skipti, sem reyndi á mátt hlutleysisyfirlýsingarinnar, eftir að Ísland varð hernaðarlega þýðingarmikið, var landið hernumið af Bretum, sem flýttu sér hingað árið 1940 til þess að verða á undan Þjóðverjum. Hlutleysisyfirlýsingin reyndist nákvæmlega einskis virði, þegar hernaðarleg yfirráð yfir landinu skiptu máli fyrir stórveldin. Þessi kenning hefur því sannað Íslendingum fánýti sitt, og þurfum við ekki lengra að leita um það. Þjóðvarnarmenn eru einnig að byrja að viðurkenna fánýti þessarar kenningar. Í stefnuskrá sinni og málflutningi héldu þeir því fram í upphafi, að Ísland ætti að halda hlutleysi sínu, þó að til styrjaldar kæmi. Nú hefur Gils Guðmundsson verið spurður að því hvað eftir annað í umræðum hér á Alþ., hvað Þjóðvfl. mundi gera, ef til styrjaldar kæmi og vesturveldin óskuðu eftir aðstöðu hér eins og í fyrra stríði. Þrátt fyrir ákvæði í stefnuskrá flokksins hafa þeir þjóðvarnarmenn ekki lagt í að svara þessari fyrirspurn hér á Alþingi. Það sýnir það, að þeir eru sjálfir farnir að missa trúna á sína eigin stefnu og sinn eigin málflutning.

Í umræðunum um varnarmálin hefur framkvæmd varnarsamningsins mjög borið á góma, eins og heyrzt hefur í útvarpinu hér í kvöld og öllum er kunnugt, sem blöðin lesa. Kommúnistar og þjóðvarnarmenn hafa mjög haft sig í frammi í slíkum umræðum. Allur hefur þeirra málflutningur verið á einn veg. Allt telja þeir illa gert í sambandi við þessi mál, og málstað Íslendinga telja þeir ætíð svikinn, ef þess er kostur. Þarf engum að koma slíkur málflutningur á óvart af þeirra hálfu. Báðir einbeita þeir öllum kröftum sínum að því, að varnir landsins verði felldar niður, og að því marki vinna þeir meðal annars með því að ala á óvild í garð varnarliðsins og skapa tortryggni um framkvæmd varnanna. Hvorugan þessara flokka skortir ófyrirleitni til að grípa til þeirra vopna, sem þeir halda að bezt biti, og hirða lítt um, hve rétt sé með staðreyndir farið. Í þeirra huga helgar tilgangurinn meðalið, og það er þeim nóg. Þetta veit almenningur, og út frá því sjónarmiði er hlýtt á þeirra málfærslu.

Það hefur hins vegar valdið undrun kunnugra, hvernig Framsfl. og blað hans, Tíminn, hefur rætt um framkvæmd varnarmálanna, þ. e. a. s. fram undir stjórnarskiptin í s. l. september. Var svo að sjá á Tímanum s. l. vor og sumar sem varnarmálin væru í hinum mesta ólestri og að alla Íslendinga, sem nálægt þeim kæmu, skorti vilja, getu og tíma til að gera þar nokkuð að gagni. Frá því, hverjir það væru, sem stjórnuðu framkvæmd varnanna af Íslands hálfu, og bæru ábyrgð á ástandinu, skýrði Tíminn hins vegar aldrei, og það var heldur ekki við því að búast. Það er öllum kunnugt, sem með varnarmálunum hafa fylgzt, að yfirstjórn varnarmálanna í tíð fyrrverandi stjórnar var í höndum hæstv. ríkisstj. allrar. Öll atriði, sem verulegu máli hafa skipt um framkvæmd varnanna eða álitamál gætu talizt, hafa verið borin undir ríkisstj. alla og afgreidd á ráðherrafundum. Enginn hefur heyrt þess getið, að ágreiningur hafi nokkru sinni verið í ríkisstj. um, hvernig ráða skyldi fram úr einstökum atriðum. Við þessa sameiginlegu yfirstjórn ríkisstj. allrar yfir varnarmálunum bætist svo það, að sérhvert ráðuneyti stjórnaði daglegri framkvæmd þeirra mála, sem eðli sínu samkvæmt heyrðu undir ráðuneytið. Þannig fór dómsmrn. Bjarna Benediktssonar með stjórn dómsmálanna, fjmrn. Eysteins Jónssonar með stjórn tollmála og annaðist öll landakaup vegna varnarliðsins, félmrn. Steingríms Steinþórssonar annaðist allar mannaráðningar til varnarliðsins, úrskurðaði, hversu marga menn mætti ráða í vinnu, samdi launaskrá og sá um húsnæði fyrir Íslendinga í þjónustu varnarliðsins og annaðist innheimtu opinberra gjalda, og þannig mætti lengi telja. Allt þetta er þeim Tímamönnum vel kunnugt, þótt ekki væri nema af því, að á síðasta flokksþingi Framsóknar lýstu ráðh. flokksins yfir því, er fram var borin till. um vantraust á þáverandi hæstv. utanrrh., Bjarna Benediktsson, vegna framkvæmda varnanna, að ef vantraustið yrði samþykkt, þá tæki það einnig til ráðh. Framsfl., vegna þess að ríkisstj. hefði öll haft samráð um þessi mál og bæri á þeim sameiginlega ábyrgð. Það er því staðreynd, sem ekki verður hnekkt, að ábyrgðin á framkvæmd varnanna í tíð fyrrv. stjórnar hvílir á ríkisstj. allri.

Þegar fulltrúar á flokksþingi Framsóknar urðu að hætta við að samþykkja vantraustið á Bjarna Benediktsson vegna samábyrgðar framsóknarráðherranna í þessum málum, tók Tíminn upp á því snjallræði að „adressera“ vantraustið á utanrrh. til varnarmálanefndar í þeirri von, að það sneri ekki að ríkisstj. allri. Í sambandi við þá sendingu vil ég aðeins taka það fram. að nefndin fór í öllu eftir þeim línum. sem ríkisstj. í heild og einstakir ráðh. lögðu fyrir hana, og gerði ekkert annað en framkvæma vilja stjórnarinnar og einstakra ráðherra, sem málin heyra undir. Ég varð þess aldrei var, að neinn ráðherra hefði neitt við störf nefndarinnar að athuga.

En hvað er það svo, sem einkum er gagnrýnt í sambandi við framkvæmd varnanna? Og hvað er gagnrýni á gerðum samningum og hvað gagnrýni á framkvæmd? Vegna starfa minna í varnarmálanefnd og þeirra kynna, sem ég fékk af málunum þar, þykir mér rétt að ræða þessi atriði nokkuð.

Það, sem ég hygg, að mest hafi verið rætt um í þessu sambandi, eru ferðir varnarliðsmanna utan varnarsvæðanna. Hefur verið að því fundið, að varnarmálanefnd skyldi ekki einangra varnarliðsmenn á varnarsvæðunum. Hafa þetta verið kölluð mistök á framkvæmd. Slík ásökun er ekki rétt. Ég get upplýst, að um leið og varnarsamningurinn var gerður, löngu áður en varnarmálanefnd varð til, var jafnframt samið sérstaklega um það við stjórn Bandaríkjanna, hvaða reglur skyldu í stórum dráttum gilda um ferðir og dvöl varnarliðsmanna utan samningssvæðanna. Við framkvæmd á þessum reglum tók varnarmálanefnd, er hún var skipuð. Ein grein í þessum reglum segir, að varnarliðsmenn skuli búa á samningssvæðunum. En síðan segir orðrétt: „Ákvæði þetta skal eigi skýrt svo, að fólki þessu sé óheimilt, er það er á ferðalagi eða í leyfi, að dveljast um stuttan tíma á gistihúsum eða öðrum slíkum stofnunum á Íslandi, sem opnar eru almenningi, eftir því sem húsrými er fyrir hendi.“ Eftir þessum samningsákvæðum varð varnarmálanefnd að fara, og þau verða ekki misskilin. Samningsgreinin skyldar varnarliðsmenn að vísu til að búa á varnarsvæðunum, en heimilar þeim að fara um landið í leyfum sínum og beinlínis tryggir þeim rétt til að búa á gistihúsum, ef húsrúm leyfir.

Ég spyr nú: Hvernig átti varnarmálanefnd að fara að því að loka varnarliðsmenn inni á Keflavíkurflugvelli með slíkt samningsákvæði í höndunum? Að mínu viti var það ekki hægt. Gagnrýnin á dvöl varnarliðsins utan samningssvæðanna er því gagnrýni á gerða samninga, sem varnarmálanefnd tók við og bar að fara eftir, en ekki gagnrýni á framkvæmd nefndarinnar.

Annað atriði, sem mjög hefur verið rætt í sambandi við framkvæmd varnarmálanna, eru verkalýðsmálin og starfsemi hinna erlendu byggingarfélaga. Er hér um að ræða eitt hið erfiðasta og vandasamasta mál, sem upp hefur komið í sambúðinni við hið erlenda lið, og skal sízt úr því dregið, enda þótt frásagnir blaða um það mál hafi ekki gefið af því rétta hugmynd.

Það er upphaf þess máls, að með bréfi, dags. 11. ágúst 1952, kvartaði varnarliðið á Keflavíkurflugvelli undan því, að það vantaði allar upplýsingar um, hver launakjör starfsmanna þess og byggingarfélagsins á flugvellinum ættu að vera. Með því að verkalýðsmálin á flugvellinum heyrðu undir félmrn., tók það að sér með aðstoð framkvæmdastjóra Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendafélags Íslands að semja fullkomna launaskrá yfir kaup og kjör í öllum starfsgreinum á Keflavíkurflugvelli. Félmrn. skilaði launaskránni ekki fyrr en 10. nóv. 1952. Gekk skráin beint til varnarliðsins, en þegar fara átti að framkvæma hana, kom í ljós, að hún var hvorki fugl né fiskur og flestar upplýsingar vantaði um annað en kaupið sjálft, og voru upplýsingar um það þó í fyllsta máta ófullnægjandi og villandi. Félmrn. var þá beðið að semja skrána á ný, þannig að í henni væru fullnægjandi upplýsingar um vinnukjör, og tók rn. það að sér ásamt aðstoðarmönnum þeim, sem áður voru nefndir. Þessi launaskrá kom ekki fyrr en 14. febr. 1953, og hafði þá verið beðið eftir því að fá upplýsingar, hver launakjörin ættu að vera á flugvellinum, frá 11. ágúst 1952 til 14. febr. 1953.

Það liggur í augum uppi, að á meðan beðið var eftir launaskránni frá félmrn. fóru launamálin á flugvellinum í meiri og minni vitleysu. Og þó að varnarmálanefnd gengi í að fá leiðréttar strax allar þær misfellur, sem húm vissi um, á meðan launaskráin var í samningu, þá hlaut slíkt að verða ófullnægjandi, Þegar svo launaskráin kom um miðjan febrúar, var farið að vinna að leiðréttingu. Gekk það seint og illa, og var snemma séð, að Hamiltonfélagið svonefnda réð illa við leiðréttingarnar. Það olli og erfiðleikum, að launaskrá félmrn. var í sumum tilfellum röng og ófullnægjandi enn þá. Fékk varnarmálanefnd og dómsmrn. Hamiltonfélaginu Íslendinga til að vinna að þessum málum, og voru mörg hundruð misfellna leiðréttar. Þó skorti svo á, er komið var fram á sumar 1953, að málið væri komið í viðunandi horf, að í samráði víð þáverandi hæstv. utanrrh. tilkynnti varnarmálanefnd varnarliðinu með bréfi, dags. 2. júlí 1953, að mistökin í launagreiðslum Hamiltonfélagsins yrðu ekki þoluð lengur og að taka yrði alla starfsemi Hamiltonfélagsins hér upp til athugunar og endurskoðunar. Vegna óvissunnar um stjórnarmyndun þótti hins vegar ekki fært að taka þá þegar upp samningsviðræður um starfsemi Hamiltonfélagsins á Íslandi, og þótti rétt, að væntanleg ríkisstj. tæki ákvörðun í því máli. En tilkynning varnarmálanefndar frá 2. júlí 1953 til varnarliðsins um algera endurskoðun á veru Hamiltonfélagsins hér liggur fyrir.

Um það hefur verið rætt, og fram er komin í Sþ. till. frá Alþfl. og yfirlýsing frá Framsfl., að Íslendingar taki að sér störf þau, sem Hamiltonfélagið hefur annazt fyrir varnarliðið. Þykir mér rétt að víkja nokkuð að þessu.

Samkvæmt varnarsamningnum eins og hann upphaflega var, gat varnarliðið falið hvort heldur það óskaði innlendum eða erlendum byggingarfyrirtækjum að annast fyrir sig nauðsynlegar framkvæmdir á Íslandi. Er til framkvæmdanna kom, var ljóst, að ef íslenzkir verktakar ættu dreifðir að keppa við erlend fyrirtæki um framkvæmdirnar, þá yrði hlutur þeirra smár. Þess vegna beitti ríkisstj. sér fyrir því, að þeir íslenzkir verktakar, sem taka vildu að sér framkvæmdir fyrir varnarliðið, stofnuðu með sér samtök til að skapa sér betri aðstöðu, og því voru Sameinaðir verktakar stofnaðir. Var það gert áður en varnarmálanefnd var skipuð. Skömmu eftir að varnarmálanefnd tók til starfa í marz 1952, fékk hún nákvæmar upplýsingar um byggingarfyrirætlanir varnarliðsins. Af þessum áætlunum var ljóst, að hætta var á því, að verulegur hluti framkvæmdanna mundi falla í hendur erlendra verktaka samkvæmt varnarsamningnum, ef ekkert yrði að gert. Varnarmálanefnd taldi þá þróun málanna stórhættulega af mörgum ástæðum og tók því upp samninga við Bandaríkjastjórn um að tryggja aðstöðu Íslendinga í þessu sambandi. Leiddu þær samningaumleitanir til þess, að áður en aðalframkvæmdir hófust 1952, var undirritaður í Richmond í Bandaríkjunum samningur um, að Sameinuðum verktökum skyldi falið að annast allar framkvæmdir fyrir varnarliðið á Íslandi, sem þeir gætu tekið að sér, enda væri ekki um að ræða sérstaka fagvinnu, sem þeir gætu ekki aflað sér fagmanna til að leysa af hendi. Var hér um að ræða þýðingarmikla viðbót við varnarsamninginn og grundvöllurinn lagður að því, að Íslendingar önnuðust einir allar mannvirkjagerðir varnarliðsins.

Í framkvæmd hefur þessu verið hagað þannig, að áður en leitað var tilboða í einstakar framkvæmdir, athugaði varnarmálanefnd í samráði við Sameinaða verktaka, hvort þeir gætu unnið verkið. Öll þau verk, sem þeir hafa getað tekið að sér, hafa verið falin þeim. Hins vegar hafa verið nokkur störf, sem þeir hafa ekki ráðið við, aðallega vegna vélaskorts, og hafa þau verið falin Hamiltonfélaginu.

Ég hef í höndum yfirlit yfir allar þær framkvæmdir, sem varnarliðið á enn eftir að gera hér. Sé ég ekki betur en að Íslendingar séu senn færir um að annast allar þær framkvæmdir, sem eftir eru. Virðist mér, að sá tími nálgist nú óðum, að verkefni Hamiltonfélagsins þrjóti. Till. Alþfl. um, að Íslendingar annist fyrir varnarliðið allar framkvæmdir á Íslandi, er því beint framhald af þeirri stefnu, sem varnarmálanefnd tók upp í upphafi starfs síns og samdi um við Bandaríkjastjórn í maí 1952. Till. er tímabær nú vegna þess, að Íslendingar ráða senn við þessi störf öll til fulls, þótt þeir hafi fram að þessu ekki ráðið við vissan hluta þeirra. Till. Framsfl. um byggingarframkvæmdir vegna varnarliðsins, sem birtist í Tímanum 10. þ. m., er hins vegar nokkurs annars eðlis en till. Alþfl. Framsfl. slær því föstu, að íslenzka ríkið skuli annast framkvæmdirnar fyrir varnarliðið. Til slíkrar ráðstöfunar þarf sérstaka samninga við Bandaríkin, og er ekki hald í Richmond-samningnum til slíks á sama hátt og er um till. Alþfl. Framsfl. hefur haldið því fram, að framkvæmdir varnarliðsins megi fela vegamálastjóra, vitamálastjóra, húsameistara ríkisins eða flugvallastjóra. Slíkar fullyrðingar sýna næsta litla þekkingu á þessum málum. Framkvæmdir varnarliðsins eru slíkar að enginn þessara aðila gæti bætt þeim á sig, svo að lag yrði á. Er augljóst mál, að ríkið yrði að stofna sennilega eitt meiri háttar skrifstofubákn, ef það ætti að taka við þessum framkvæmdum til fulls og láta ekki Sameinaða verktaka halda áfram með þær.

Annars finnst mér kenna dálítils ósamræmis hjá Framsfl. í orðum og athöfnum í sambandi við framkvæmdirnar. Flokkurinn læzt vilja láta Íslendinga annast þær, en á sama tíma greiðir hann fyrir því, að hollenzku byggingarfélagi er falið að flytja inn tilbúin steinsteypuhús í radarverin og fagmenn til að reisa þau. Það er og vitað, að vissir framsóknarmenn sóttu fast á s. l. ári, að flutt yrðu inn hollenzk íbúðarhús fyrir varnarliðið, einn kílómetri á lengd eða svo og upp á þrjár hæðir auk flugskýla. Úr þessu varð þó ekki vegna Richmondsamningsins, og íslenzkir iðnaðarmenn byggðu húsin. Fyrsta verk hæstv. utanrrh. var hins vegar að leyfa, að flutt yrðu inn hollenzk steinsteypuhús vegna radarstöðvanna, enda þótt sannað væri með tilboðum, að íslenzk steinsteypuhús væru helmingi ódýrari, og varnarmálanefnd legðist gegn því, að það yrði leyft, að fengnum þeim upplýsingum, sem þá lágu fyrir. Má vera, að áhugi Framsfl. fyrir því að taka framkvæmdir varnarliðsins í sínar hendur byggist á því, að hann vilji láta Sambandið selja meira af slíku rándýru grjóti og vatni frá Hollandi. Hollendingum veitir sjálfsagt ekki af því, þar eð þessi framleiðsla hefur ekki reynzt samkeppnisfær þar í landi, enda þótt til hennar sé stofnað af Marshallfé. En heldur finnst mér þetta aum byrjun af hálfu hæstv. utanrrh. á að taka í sínar hendur byggingarframkvæmdirnar á Keflavíkurflugvelli.