19.11.1953
Sameinað þing: 18. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í D-deild Alþingistíðinda. (3100)

21. mál, uppsögn varnarsamnings

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Hv. 10. landsk. reyndi nú að verja hér gerðir sínar, og það er ekki óeðlilegt, en hann blandaði þar inn í illkvittnislegum getsökum í garð hæstv. utanrrh. Hvernig á að fara að því að byggja upp á Keflavíkurflugvelli, ef á að reka erlenda vinnuaflið í burt og ef ekki á að standa hætta af því, eins og allir segja núna, að tekið sé of mikið vinnuafl frá atvinnuvegunum? Hvernig er hægt að gera það nema með því að flytja inn gerða hluti?

Út af uppsögn héraðsráðunautsins í Eyjafirði vil ég taka það fram, að það eru algerlega vísvitandi ósannindi hjá þjóðvarnarmanninum, að forráðamenn Framsfl. hafi haft nokkur afskipti af þessari uppsögn. Það er algerlega mál bændasamtakanna, eins og allir vita, að ráða þessa menn og segja þeim upp, en ekki á nokkurn hátt á valdi forráðamanna Framsfl.

Hæstv. utanrrh. hefur gert grein fyrir útfærslu þeirra samþykkta í varnarmálunum, sem flokksþing Framsfl. gerði s. l. vetur. Nú er framkvæmdin að hefjast á þessum samþykktum flokksins. Þjóðvarnarmenn sitja hér þjóðmálastefnulausir, hvað sem þeir annars segja um það, og þeim er farið að líða eitthvað illa. Og það sýnir eymd þeirra, að þeir eru að reyna að rekja til áhrifa frá sér stefnu um framkvæmd varnarmálanna, sem mótuð var, áður en flokkur þeirra sá dagsins ljós. Þetta er heldur vesældarleg málfærsla.

Hið ævarandi hlutleysi, sem mikið hefur verið talað um í þessum umræðum og vér Íslendingar lýstum yfir 1918, var byggt á þeirri skoðun, sem var ríkjandi meðal smáþjóða, að nægilegt væri að lýsa yfir hlutleysi og halda það. Hinar stóru styrjaldarþjóðir höfðu í heimsstyrjöldinni, sem lauk 1918, virt hlutleysið a. m. k. nokkuð víða. Brot Þjóðverja á hlutleysi Belgíu var fordæmt og bannlýst og talið til einsdæma, sem ekki mætti koma fyrir aftur. Þessi forsaga skapaði þá fyrrnefndu trú meðal smáþjóðanna, að bezt væri fyrir öryggi þeirra og frelsi að vera hlutlausar, leiða hjá sér athygli stórveldanna með vanmætti sínum og umkomuleysi. Varnarsamtök máttu smáríkin ekki heyra nefnd. Þau þóttu líkleg til þess að styggja ofbeldisöflin, auka árásarhættuna eins og þjóðvarnarmenn og kommúnistar hafa talað um núna í dag, en vináttu- og ekki-árásarsamninga gerðu smáríkin hvert af öðru við hin ágengari einræðisríki. „Heiðraðu skálkinn, svo að hann skaði þig ekki,“ var reglan, sem átti að lifa eftir.

Af þessu er auðsætt, að sú stefna í utanríkismálum, er þjóðvarnarmenn og kommúnistar halda nú að þjóðinni, er hin sama og smáríkin í Norðurálfu höfðu fyrir og framan af síðustu heimsstyrjöld. Það er stefna varnarleysis, stefnan að ganga ekki í varnarbandalög og vera hlutlaus. Við skulum því gera okkur grein fyrir, hvernig þessi stefna hefur reynzt.

Í skemmstu máli reyndist hún smáríkjunum þannig, að þau voru hvert af öðru, sum varanlega, önnur um langan tíma tröðkuð undir járnhæl kommúnista eða nazista, hneppt í þrældómsfjötra og þannig meðfarin, að skáld þeirra og forustumenn töldu sig hafa lært það, að dauðinn gæti verið betri en þrældómshlekkir og frelsið meira virði en lífið. Aðeins tvö sluppu, Svíþjóð og Sviss, bæði grá fyrir járnum og höfðu auk þess það litla hernaðarlega þýðingu, að einræðisríkin töldu það ekki borga sig að ráðast á þau. Þessi tvö ríki hyggjast nú verja hlutleysi sitt með því að hafa mjög sterkar varnir, en enginn veit, hve lengi þeim tekst það. Hin ríkin öll hafa yfirgefið varnarleysis- og hlutleysisstefnuna, telja hana vanhugsuðustu ólánsstefnu, sem þau hafi nokkurn tíma fylgt í utanríkismálum, enda eru flestir þeirrar skoðunar, að hefðu ríkin staðið saman um varnir fyrir seinustu heimsstyrjöld, þá hefði aldrei til hennar komið, því að Hitler hefði ekki hætt á styrjöld við þær aðstæður. Þeir stjórnmálamenn, sem prédikuðu varnarleysi og hlutleysi áður, þakka fyrir að fá að vera gleymdir. Og núna, þegar þjóðirnar koma á félagsvörnum gegn ofbeldi, en hafna fyrri varnarleysis- og hlutleysisstefnu sem vanhugsuðum mistökum, prédika þjóðvarnarmenn og kommúnistar, að við eigum að taka upp þessa ólánsstefnu sem utanríkispólitík Íslands einir þjóða.

Við skulum einnig athuga hlutleysisstefnuna í framkvæmd á Íslandi.

Eins og kunnugt er, fóru Þjóðverjar fram á það seinni hluta vetrar 1939 að fá að byggja hér flugvelli og flughafnir til að annast póst- og farþegaflug milli Þýzkalands og Íslands, eins og þeir sögðu. Þessu var neitað. Fáum dylst, að tilgangur nazista var sá að hafa flugvellina tilbúna til þess að geta tekið Ísland í skyndi úr lofti, myndað hér vegg flugvéla og kafbáta þvert yfir hafið, lokað leiðinni fyrir Bandaríkjunum inn í Evrópu og siglingaleiðum Bretlands, er þá hlaut að svelta inni. Þeir eru ekki fáir, sem álíta, að ef þetta hefði tekizt, hefði styrjöldin farið á annan veg en hún fór.

Eftir að styrjöldin hófst, fór brezka ríkisstj. þess á leit oftar en einu sinni að mega setja hér her á land til þess að varna því, að Þjóðverjar hernæmu landið. Þessu var neitað af Íslendingum. Talið var, að Ísland væri óbeint varið af brezka flotanum. Staðhæfingar mínar og nokkurra annarra í þessa átt hafa oft verið misnotaðar og rangfærðar. Sagt hefur verið, að fyrst við höfum ekki talið þörf á her til verndar landinu í fyrri styrjöld, séum við í mótsögn við sjálfa okkur, þegar við teljum hana nauðsynlega nú.

Þessu er því að svara, að brezki flotinn er nú sá þriðji í röðinni að styrkleika, en sá rússneski nr. 2 vegna hins gífurlega kafbátaflota. Samkvæmt nýjustu útgáfu af enskri handbók um flotamál, sem talin er langáreiðanlegasta heimild um þessi mál, hafa Rússar nú 370 kafbáta og eiga 1000 í smíðum, en Englendingar hafa 53 og Bandaríkjamenn 200, en það, sem þó skiptir mestu máli, er það, að hér eru nú flugvellir, sem ekki voru til fyrir síðustu heimsstyrjöld, og ef þeir eru óvarðir, hefur árásarþjóð, sem á sterkan flugflota, þar aðstöðu til að geta tekið Ísland í byrjun styrjaldar, sem Þjóðverjar ætluðu að búa sér til, en var komið í veg fyrir. Þetta sýnir, að aðstæðurnar nú eru ósambærilegar við það, sem var fyrir seinustu heimsstyrjöld.

En ótti Breta við það, að Þjóðverjar mundu hernema Ísland, var ótvíræður, því að ella hefðu þeir ekki komið hingað 9. maí 1940, þegar þeir voru svo veikir hernaðarlega heima fyrir, að þeir gátu naumast varið England.

Rúmlega ári síðar, 24. júní 1941, kom brezki sendiherrann hér á landi á fund íslenzku ríkisstj. og skýrði henni frá því sem hernaðarleyndarmáli, sem opinberar skýrslur hafa síðan staðfest að var rétt, að Bretland væri þá aðþrengdara og nær því komið að gefast upp en nokkurn tíma áður í styrjöld. Þjóðverjar sökktu um þessar mundir brezkum skipum í sívaxandi mæli, og Bretar áttu í vök að verjast með aðflutning á vistum og vopnum til Bretlands. Það má skjóta því hér inn í, að þá höfðu nazistar tæpa 40 kafbáta í Atlantshafi af miklu ófullkomnari gerð en nú tíðkast. Eina björgunin væri sú, sagði sendiherrann, að Bandaríkin gætu tekið að sér verndun siglingaleiðarinnar austur fyrir Ísland, sem Roosevelt Bandaríkjaforseti taldi sig ekki geta, nema Íslendingar bæðu um hervernd, því að andstaðan í Bandaríkjunum væri svo sterk gegn þátttöku í styrjöld.

Hvað átti íslenzka ríkisstj. að gera? Bretar seldu okkur og fluttu til okkar kolin til þess að hita húsin á Íslandi og reka skipaflotann. Þeir leigðu okkur mikið af skipum til matvælaflutninga o. s. frv. Hvað yrði um okkur, ef nazistar sigruðu? Þeir Íslendingar hefðu orðið margir, sem ekki hefðu þurft að telja dagana, ef nazistar hefðu náð Íslandi, og þeir hefðu áreiðanlega verið hamingjusamastir. Það er óþarft að lýsa því ástandi, sem hér hefði skapazt, en hernaðarlega var auk þess aðeins um tvennt að ræða, annaðhvort að við yrðum teknir af nazistum og notaðir sem framvirki og fremsta víglína nazista að austan gegn Bandaríkjunum eða Bandaríkin yrðu fyrri til að hernema okkur og við yrðum framvígi þeirra gegn nazistískri Evrópu. Ekkert sýnir okkur betur en þessar staðreyndir, að við erum í sama bátnum og nábúar okkar í styrjöld gegn óvini mannkynsins, einræðinu og ófrelsinu.

Kommúnistar voru ekki í neinum vandræðum með svar, og þjóðvarnarmenn hefðu ekki verið það heldur. Það var á þá leið, að við værum hlutlaus þjóð, okkur skipti engu, hvor sigraði, við tækjum auðvitað enga afstöðu með Bretum frekar en nazistum og mundum bíða þess, sem verða vildi.

En íslenzka ríkisstj. tók ekki þá afstöðu að láta sig engu skipta, að nazistar sigruðu, en Bretland félli. Við tókum höndum saman við nábúa okkar vestan og austan Atlantshafsins og leyfðum hervernd og yfirgáfum hlutleysisstefnuna. Hér innanlands var haldið uppi illvígri andstöðu gegn þessari stefnu af kommúnistum og mönnum, sem nú eru áberandi í Þjóðvarnarflokknum, og meðal þeirra formanni hans. Erlendis tóku öll merkustu blöð frjálsra þjóða, þ. á m. blöð hinnar hlutlausu Svíþjóðar, í þann streng, að stefna Íslands væri mjög hyggileg. Og smátt og smátt komust flestallir að þeirri niðurstöðu hér innanlands, að við hefðum gert hárrétt. Jafnvel þeir, sem höfðu verið mest á móti, hældust um yfir því í lok styrjaldarinnar, hve vel við hefðum staðið okkur með vesturveldunum gegn nazistunum, enda var þá siglingaleiðin, vernduð um Ísland, búin að bjarga Rússum í styrjöldinni. Nú koma þessar vofur frá 1941 aftur fram á sjónarsviðið og segja við þjóðina, að stefnuna frá 1941, stefnu sameiginlegra varna og samtaka, stefnu, sem allar frjálsar þjóðir hafa nú tekið upp til að reyna að afstýra styrjöld, þá stefnu eigi íslenzka þjóðin ein að yfirgefa, en í hennar stað eigi þjóðin aftur að taka upp varnarlaust hlutleysi, sem reyndist fánýtt nema til þess eins að eiga drýgstan þátt í því að koma síðustu heimsstyrjöld af stað, því að eitt og eitt smáríki, sem var varnarlaust og taka mátti án tilkostnaðar, var ginnandi bráð fyrir árásarríki. Þannig var það, og þannig mun það verða. Þannig rís reynsla veraldarsögunnar gegn kenningunni um varnarlaust hlutleysi.

Þessi hörmulega reynsla af stefnu samtakaleysis, varnarleysis og hlutleysis í fyrri styrjöld hefði átt að kenna vesturveldunum. Þau hefðu ekki átt að afvopnast eins fljótt og þau gerðu. En hinar vestrænu þjóðir hafa þá afsökun fyrir andvaraleysinu, að þær þráðu frið og bróðurleg samskipti milli þjóða heitar en nokkru sinni fyrr eftir hörmungar síðustu heimsstyrjaldar. Vesturveldin trúðu kommúnistum. Víða um lönd voru þeir í ríkisstjórn. Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar. Trúna á friðarvilja sýndu vesturveldin í verki með því að eyðileggja vopnin í stórum stíl og senda hermennina heim. Kommúnistar fóru þveröfugt að, og áður en vesturveldin áttuðu sig, hafði stefnu einræðis og ofbeldis tekizt að vinna ný níðingsverk í skjóli andvaraleysis og varnarleysis. Í stríðinu og eftir það hafði Rússland lagt undir sig hluta af Finnlandi, allt Eistland, Lettland, Litháen, Pólland, Austur-Þýzkaland, Rúmeníu, Búlgaríu, Albaníu, Tékkóslóvakíu og Júgóslavíu um skeið.

Fyrst þegar Berlín er lokað af kommúnistum og ráðizt var á Kóreu, átta vesturveldin sig og stofna til varnarsamtaka til þess að verja friðinn. Enn er friður í Evrópu, en það er ekki alveg víst, að við nytum þess friðar í dag, ef engin varnarsamtök hefðu verið stofnuð. Hjá kommúnistum heitir þetta að vísu árásarbandalag og vesturveldin árásarþjóðir. En sá, sem í raun og veru stofnaði Atlantshafsbandalagið, var Stalín með árásarstefnu sinni. Án árásarstefnu kommúnista væri erlendur her hvorki hér á landi né annars staðar í Vestur-Evrópu. Það eru því sannarlega Rússar, en ekki Bandaríkjamenn, sem eiga sök á erlendum her á Íslandi.

En nú kynnu einhverjir tilheyrendur mínir að spyrja, hvers vegna ég og sumir aðrir lýðræðissinnaðir þm. hafi þá ekki greitt atkv. með því, að Ísland gengi í Atlantshafsbandalagið. Ég gerði ýtarlega grein fyrir því hér á Alþ., að það var vegna ákvæða 3. gr. sáttmálans, sem ég óttaðist að gæti skilizt þannig, að Ísland væri skuldbundið til að taka her inn í landið án þess að samþykkja það sjálft. En það var enginn ágreiningur um meginstefnuna frá 1941: að standa með nábúum okkar og taka her inn í landið eftir eigin ákvörðun í ófriði og vegna ófriðarhættu til sameiginlegra varna gegn fjanda mannkynsins: einræði, ófrelsi og kúgun.

Hér er rétt að geta þess, að Norðmenn og Danir, sem sjálfir leggja mikið í varnir, hafa haldið því fram með árangri, að ákvæði 3. gr. sáttmálans beri að skilja svo, að þeir ráði því sjálfir, hvenær þeir taka erlendan her inn í landið, og erlendi herinn, sem hér er nú staddur, er tekinn inn í landið með sérstökum samningi frá 1951, sem segja má upp með árs fyrirvara eftir endurskoðun í sex mánuði, og ég hygg, að það sé stytzti uppsagnarfrestur, sem er í nokkrum varnarsamningi.

Hér hefur í stuttu máli verið rakin reynsla Norðurlanda og ríkja í Vestur-Evrópu af varnarleysi og hlutleysi, er endaði í ófrelsi, ofbeldi og kúgun. Hér hefur verið rakin okkar eigin reynsla og sýnt fram á, hvernig við urðum að gera upp á milli ríkja 1939 og 1941 og hverfa frá hlutleysisstefnunni, sem reyndist okkar gæfa. Bent hefur verið á örlög hlutlausu ríkjanna í Austur-Evrópu, sem öll eru horfin úr tölu frjálsra ríkja. Er stefna í utanríkismálum okkar er mörkuð, verður ekki hjá því komizt að hafa þessar staðreyndir að leiðarvísi. Breytingin síðan 1939 og 1941 er að vísu sú, að þá voru nazistar hernaðarlega sterkastir á meginlandi Evrópu, en nú eru það kommúnistar, og það svo, að þeir geta leikið sér að Evrópu, ef hún stæði ein, eins og köttur að mús. Hvaða þjóð getur afstýrt þessu? Aðeins ein þjóð: Bandaríkjamenn. Hver mundi þá vera fyrsta hugsunin og viðbrögð Rússa, ef þeir réðust á Vestur-Evrópu? Ætli hún yrði ekki hin sama og hjá nazistum, að ná yfirráðum á Íslandi og loka þar með leiðinni að vestan? Og hinn gífurlegi kafbátafloti og óvarðir flugvellir á Íslandi mundu gera kommúnistum þetta kleift, þótt það væri síður framkvæmanlegt fyrir nazista. Ef Evrópa fellur, verður Ísland samstundis í eldlínunni milli kommúnistískrar Evrópu og Bandaríkjanna. Ef svo færi, mundi mörgum þykja dauðinn betri en líf í þessu landi. En sjúkleg ákefð kommúnista og leynikommúnista að hafa landið óvarið er auðskilin.

Íslenzk utanríkispólitík hefur verið sú og verður að vera sú að reyna af veikum mætti að forða Íslandi frá þessum örlögum. Við Íslendingar höfum þess vegna mjög mikla hagsmuni af því, að Evrópuherinn verði sem fyrst að veruleika með þátttöku lýðræðissinnaðs Þýzkalands. Það eitt getur skapað hernaðarlegt jafnvægi á meginlandi Evrópu og komið í veg fyrir styrjöld. Rússar mundu naumast voga árás á slíkt bandalag. Hernaðarlega sterk Vestur-Evrópa er auk þess varnar- og skjólgarður austan við Ísland, sem fjarlægir héðan margar hættur.

Nú sem stendur eru allir stjórnmálamenn lýðræðisríkjanna á einu máli um það, að friðarhorfur hafi enn ekki batnað svo, að draga megi úr vörnum gegn ofbeldinu. Meðan svo er ástatt, er fávíslegt að halda því fram, að Ísland, sem er einna þýðingarmest hernaðarlega í átökunum milli lýðræðis og einræðis, frelsis og kúgunar, geti eitt verið hlutlaust og varnarlaust meðal þjóðanna. Varnarlaust hlutleysi er ekki lengur raunhæft hugtak í huga þeirra manna, sem hafa dómgreind og aðstöðu til að gera sér grein fyrir köldum staðreyndum veruleikans í hörðum heimi.

Meðan horfurnar ekki breytast verulega, verða að vera hér varnir. Meðan við viljum ekki, eins og frændur okkar á Norðurlöndum, annast þær sjálfir, verða aðrir að gera það. En við verðum að halda á þeim rétti sem alveg ófrávíkjanlegu atriði, að við ráðum sjálfir, hvenær við tökum erlendan her inn í landið og hvenær hann fer. Til þess að gera þessa stefnu framkvæmanlega og til þess að við viljum fylgja henni, verða bandamenn okkar að skilja algera sérstöðu okkar vegna fólksfæðar og haga dvöl hersins hér þannig, að menningu og sæmd þjóðarinnar sé ekki misboðið og ekki valdi stórlegum truflunum í atvinnulífi þjóðarinnar. Hins vegar er okkur skylt að skilja erfiða aðstöðu bandamanna okkar, skilja það, að það erum við sjálfir, sem ekkert getum lagt fram til þess að verja fósturjörðina. Það er okkur sjálfum til mestrar minnkunar að æsa upp móðursýkilegt tal út af því, að við skulum ekki einir allra þjóða sleppa við öll óþægindi, sem allar þjóðir verða nú að taka á sitt bak. Við höfum enga möguleika til að sleppa við þessi óþægindi. Og við höfum heldur engan siðferðislegan rétt til að gera kröfu til þess, meðan frændur okkar og nábúar búa sig undir að fórna blóði sínu til þess að verja friðinn og frelsið gegn ofbeldi og kúgun, sem vofir yfir þeim og okkur sameiginlega, ef ekki er snúizt gegn því af þeim manndómi, sem hefur skilið það eftir dýrkeypta reynslu, að lífið er skuggatilvera án frelsis.

En við verðum að gá vel til veðurs. Ef Evrópuherinn verður að veruleika, jafnvægi skapast í Evrópu og friðarhorfur batna, eigum við sjálfir að taka í okkar hendur varðgæzlu Keflavíkursvæðisins og annarra svæða, er erlendur her nú gætir. Það er mín persónulega skoðun, að undirbúning að þessu eigi að hefja nú þegar og sérmennta og æfa menn til þess að takast á hendur nauðsynleg störf í þessu skyni. En sú lausn málsins, er ég nefndi, virtist í fyrstu koma mönnum á óvart og valda misskilningi, er að henni var vikið. Sumir héldu jafnvel, að með þessu væri verið að taka upp herskyldu á Íslandi, enda reynt að telja mönnum trú um, að svo væri, þótt það væri vitanlega fjarri öllu lagi. En nú virðist mönnum vera að skiljast, að þetta er leiðin til að losna við hið erlenda herlið, sem sérhver Íslendingur vill auðvitað að fari úr landinu eins fljótt og horfurnar leyfa, því að auðvitað er það almennur vilji þjóðarinnar að hafa hér ekki erlent varnarlið, nema brýn nauðsyn krefji. En hitt skulum við jafnframt muna og gera okkur fyllilega ljóst, að betra er að hafa hér varnarlið vinveittrar þjóðar með samkomulagi, með öllum þeim óþægindum, er því fylgja, en eiga yfir höfði sér innrás einræðisríkis með þeirri sáru reynslu, sem saga síðustu áratuga hefur staðfest á svo átakanlegan hátt, að enginn má gleyma. —Góða nótt.