14.10.1953
Sameinað þing: 7. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í D-deild Alþingistíðinda. (3112)

31. mál, dráttarbraut á Ísafirði

Jónas Rafnar:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að koma með þá brtt. við þessa till. til þál., að aftan við tillgr. bætist: „og allt að 5 millj. kr. lán til stækkunar dráttarbrautar Akureyrarkaupstaðar.“

Það hefur lengi verið ráði hjá bæjarstjórn Akureyrar að stækka dráttarbraut bæjarins. Eins og nú er háttað, þá hefur dráttarbrautin yfir tveimur sleðum að ráða, og getur stærri sleðinn tekið upp allt að 500 tonna skip, en hefur þó ekki hliðarfærslur. Minni sleðinn er með hliðarfærslum og getur því tekið upp fleiri skip í einu. Bæjarstjórnin hefur viljað stefna að því, að stækkun brautarinnar yrði við það miðuð, að tekin yrðu upp allt að 200 tonna skip, þ. e. á. s. skip af sömu stærð og nýsköpunartogararnir eru.

Bæjarstjórninni hefur þegar borizt bráðabirgðakostnaðaráætlun frá vitamálaskrifstofunni, þar sem gert mun vera ráð fyrir því, að stofnkostnaðurinn verði allt að 6 millj. kr., miðað við þá stærð á dráttarbrautinni, sem ég hef þegar getið um. Þessi áætlun mun styðjast við tilboð, sem borizt hefur frá Skotlandi, en það er núna unnið að því áfram að afla fleiri tilboða sem víðast að, svo að ég held, að á þessu stigi sé ekki hægt að segja neitt ákveðið um það, hver kostnaðurinn endanlega yrði, ef ráðizt yrði í að stækka brautina.

Það getur ekki orkað tvímælis, að það er mjög mikið hagsmunamál fyrir útgerðina á Akureyri, að í bænum komi sem fullkomnust dráttarbraut, og þetta er að sjálfsögðu líka mikið hagsmunamál fyrir allt Norðurlandið. Eins og stendur, þá eru núna á Akureyri 5 stórir togarar, og það er ákaflega kostnaðarsamt fyrir útgerðina að þurfa að senda öll þessi góðu skip til viðgerðar alla leið hingað suður til Reykjavíkur. Einnig er þannig háttað í bænum, að þar eru mörg og góð járnsmíðaverkstæði, einnig góðar trésmiðjur, og við höfum mörgum ágætum faglærðum mönnum á að skipa, svo að ljóst er, að skilyrðin fyrir þetta fyrirtæki munu í alla staði vera hin ákjósanlegustu.

Ríkið hefur nokkrum sinnum ábyrgzt eða gengið í ábyrgð fyrir dráttarbrautir, og er þess skemmst að minnast, að á síðasta ári var samþykkt ábyrgð, allt að 6 millj. kr., fyrir Skipanaust h/f hér í Reykjavík. Það er því mjög eðlilegt, að orðið verði við óskum Ísfirðinga og Akureyringa um, að þeir fái sams konar aðstoð, og að það verði reynt að greiða fyrir því með stuðningi ríkisins, að þessi miklu nytjafyrirtæki komist sem fyrst upp í bæjarfélögunum báðum. Ég held einnig, að það sé alls kostar ljóst, að ekki sé nein hætta fyrir ríkissjóð að ganga í ábyrgð fyrir Akureyrarbæ, jafnvel þó að upphæðin sé allt að 5 millj. kr. Ég er sannfærður um, að dráttarbraut á Akureyri mundi reynast ágætt fyrirtæki, sem komi fullkomlega til með að standa undir eigin rekstri. Og einnig tel ég það sjálfsagt, að Akureyrarbær setji allar þær tryggingar, sem fullnægjandi geta talizt.

Ég vil svo eindregið mælast til þess, að þessi till. verði samþ., þó með þeirri breyt., að ríkisstj. sé heimilt einnig að ábyrgjast allt að 5 millj. kr. til stækkunar dráttarbrautarinnar á Akureyri.