15.10.1953
Sameinað þing: 8. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í D-deild Alþingistíðinda. (3125)

45. mál, afturköllun málshöfðunar

Flm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Forsaga þeirrar till., sem hér liggur fyrir, er í stuttu máli á þessa leið:

Lögin um fjárhagsráð frá 1947 banna alla fjárfestingu nema að fengnu leyfi ráðsins. Bann þetta hefur bitnað harðast á húsnæðislausu fólki, því að ráðið hefur ekki hafnað jafnmörgum umsóknum um neitt eins og byggingar íbúðarhúsa. Íbúðaþörfin hefur hins vegar ekki hætt að ásækja fólk, þó að fjárhagsráð hafi neitað um leyfi til bygginganna, heldur þvert á móti knúið því fastar á, sem ráðið leyfði minna. Í stærstu kaupstöðum landsins hefur húsnæðiseklan nú náð því stigi að valda alvarlegu böli, sundra fjölskyldum, spilla stórlega heilsu fjölda fólks og færa lífsaðbúð fjölmargra fjölskyldna langt niður fyrir það mark. sem telja má að sé lágmark í menningarsamfélagi. Þetta á í ríkustum mæli við um Reykjavík, en húsnæðisskortur er einnig víðast annars staðar, þar sem fólksfjölgun er að minnsta kosti, og hefur þó verið komizt næst því að vinna bug á þessum skorti í Vestmannaeyjum. Ástæðan til þess, að betur hefur til tekizt þar í baráttunni við húsnæðisskortinn en annars staðar, er í rauninni sú, að þar hefur almennt verið lagður nokkuð annar skilningur í lögin um fjárhagsráð en hæstv. ríkisstj. og hinu virðulega fjárhagsráði þykir bezt sæma. Og þess vegna eru þær málshöfðanir, sem hér um ræðir, til komnar, en það er einmitt lagt til hér í þessari þáltill., sem nú er til umr., að þær verði afturkallaðar.

Í Eyjum hefur það orðið eitt þegjandi allsherjar samkomulag allra stétta og einstaklinga, ef til vill með örfáum undantekningum og þá helzt af vangá, að láta innflutningsskömmtun byggingarefnisins eina ráða, hve mikið væri byggt. Í þessu fara hagsmunir allra saman. Hinn húsnæðislausi þarf ekki að bíða með framkvæmd sína til þess dags í blámóðu framtíðarinnar, þegar því virðulega ráði þóknast að úthluta honum einhverju leyfi. Hann byrjar að grafa og steypa grunn, því að einhver leyfishafi hefur fengið leyfi fyrir tíu eða tuttugu sementspokum umfram það, sem hann þarf að nota, og það leyfi hefur hann lagt inn hjá kaupmanni sínum eða kaupfélagi eða afhent það beint til þess, sem ekkert leyfi hafði. Kaupfélagið eða kaupmaðurinn hefur engan áhuga á því að liggja óþarflega lengi með sínar vörubirgðir, og viðskiptin ganga greiðlega. Ef mjög lítið hefur verið um leyfi, þá kann það að hafa komið fyrir, að efnivörur hafi verið látnar af hendi út úr verzlunum án þess, að leyfi væri afhent um leið, heldur látnar upp á von um væntanlegt leyfi, og þannig mætti lengi telja. Það eru mörg ráðin, þegar almenningur leggst á eitt og allur rígur milli einstaklinga og stétta er þurrkaður út, heldur öllu einbeitt að því að leysa þau vandræði, sem fyrir liggja.

En fjárhagsráð hefur ekki verið ánægt með Vestmannaeyinga fremur en landsmenn yfirleitt með fjárhagsráð. Það skipti fljótlega um umboðsmann í Eyjum, ef vera kynni að hann væri ráðinu ótrúr, og það hefur öðru hverju að undanförnu sent sérlega sendimenn til þess að telja, hve mikið af glæpsamlegu húsnæði væri í smíðum. Menn hafa verið teknir til yfirheyrslu, og sumir hafa fengið nótu. Fyrstu dagana í júlímánuði s. l., þ. e. rétt að nýafstöðnum alþingiskosningunum, dró fógetinn í Vestmannaeyjum upp úr skrifborðsskúffunni 22 ákærur gegn mönnum í Vestmannaeyjum, sem voru að byggja hús. Kallaði hann viðkomandi menn fyrir sig, skýrði þeim frá því, að málshöfðun væri hafin gegn þeim, en bauð réttarsættir. Mennirnir brugðust misjafnlega við þessu, flestir neituðu réttarsættinni og töldu sig í engu seka, en nokkrir féllust á réttarsætt, og skyldu þeir greiða 1200 kr. Litlu síðar ræddu hinir ákærðu mál sín sameiginlega. Kom þá í ljós, að þeir, sem gert höfðu réttarsættir, litu svo á, að með henni öðluðust þeir rétt og leyfi stjórnarvaldanna til áframhaldandi byggingarframkvæmda, en það gerir slík réttarsætt auðvitað ekki Hún leyfir ekki áframhald bygginganna. Var nú ljóst, að réttarsættirnar voru yfirleitt á misskilningi byggðar. Kusu menn þessir sér nú stjórnarnefnd, og bað sú n. um frest í málinu og fékk hann. Frestur sá, sem henni var veittur, er nú liðinn fyrir nokkru, en mál þessi hafa ekki verið tekin fyrir á ný; ef til vill er valdsstjórnin búin að missa áhugann fyrir því að fá menn þessa sakfellda, og væri það vel, ef svo væri. En það er meginatriðið í þessu máli, að hinir ákærðu húsbyggjendur fái að vita það með vissu, að málið sé niður fallið.

Í grg. till. um afturköllun þessara málshöfðana er sýnt fram á það, að sá maður, sem sakfelldur kann að verða og látinn sæta viðurlögum samkvæmt fjárhagsráðslögunum, er furðu hart leikinn, svo hart, að það samrýmist ekki á neinn hátt hinni almennu réttarfarsvitund þjóðarinnar. Í grg. er þessi málatilbúnaður líka nefndur réttarofsóknir, og með því að það er stórt orð, vil ég leyfa mér að taka eitt dæmi, segja í aðaldráttum sögu eins hinna ákærðu. Og við hv. alþm. skulum minnast þess, að það eitt er réttarofsókn, þegar reynt er að fá saklausa menn dæmda seka eða láta menn sæta óhóflega þungum viðurlögum fyrir litlar sakir.

Einn af hinum ákærðu, þeim, sem hér um ræðir, er ungur maður um þrítugt í fastri atvinnu. Þessi ungi maður hugði svo til búskapar, eins og flestir mundu gert hafa í hans sporum. Heitbatzt hann stúlku fyrir nokkrum árum og dró gullhring á fingur sér því til staðfestingar, en hjónavígslan gat ekki farið fram og búskapur ekki hafizt, fyrr en íbúð væri fengin. Sótti umræddur maður nú um leyfi til fjárhagsráðs til byggingar og fékk neitun. Þá höfðu nú flestir Vestmannaeyingar aðrir en hann hafið byggingu í von um leyfi næsta ár, en þessi maður var ekki kominn inn í gang byggingarmálanna í Eyjum, enda var hann og er samherji ríkisstj. og þar með samherji fjárhagsráðs og taldi í sinni löghlýðnu einfeldni, að hag landsmanna væri bezt komið í forsjá þeirra vísu manna á hærri stöðum. Hann beið því til næsta árs og sendi þá aðra umsókn, en fékk þá aftur neitandi svar. Ef til vill hefur hann þá fengið einhvern grun um það, að sanngirnin á hærri stöðum næði ekki alveg jafnt til allra, og nú gaf honum líka að líta mörg hús, langt komin til íbúðar, í eigu þeirra manna, sem jafnt honum höfðu sent umsóknir og samtímis honum fengið synjun. En ef sá grunur hefur ásótt hann, að hér væri ekki allt með felldu, þá valdi hann þó ekki neina braut afbrota eða yfirtroðslu til þess að fá hag sinn réttan. Nú gerðist hann forvígismaður í sínum stjórnmálaflokki, Framsfl., og hefur sjálfsagt ætlað að tala þar máli byggðarinnar og gangast fyrir því, að hneykslin yrðu upprætt. Og enn sótti hann um leyfi til að fá að byggja sér hús, svo að hann gæti stofnað heimili. Þeir, sem sóttu í upphafi um leið og hann, voru nú flestir fluttir inn í sín hús og búnir að tjalda fyrir glugga sína, svo að sendimenn fjárhagsráðs þekktu ekki þeirra hús lengur frá öðrum húsum, og voru þeir, þannig sloppnir við eltingarleik ráðsins. Það er munnmælasögn í Eyjum, að sá, sem komi upp gluggatjöldum í húsi sínu, sé sloppinn úr greipum fjárhagsráðs, þótt leyfið til byggingarinnar fáist aldrei. Er hinn umræddi ungi forustumaður Framsfl. í Eyjum fékk enn sama svar og áður: Nei — og aftur nei — og enn þá nei, húsnæðislaus skyldi hann vera. Yfirvöldin á Íslandi virtust alveg ákveðin í því, að þessi ungi og löghlýðni maður skyldi alls ekki öðlast möguleika til þess að búa með konu sinni, svo sem þó löngum hefur tíðkazt í okkar landi, og situr hann enn í festum.

Öllum hlutum eru nokkur takmörk sett og einnig þolinmæði hinna löghlýðnustu, Þrátt fyrir öll bönn fór umræddur maður nú með þrjú neitandi svör við umsóknum sínum upp á vasann að byggja. Húsið sitt hafði hann um það bil 90 m2 að grunnfleti og eina hæð, en rétt um það bil, sem hann hafði lokið við að steypa grunn hússins, þá ganga í gildi lagafyrirmæli um það, að mönnum skuli leyfilegt að byggja smáíbúðir, sem í grunnflöt hafi lítið eitt lægri fermetratölu að hámarki heldur en hann var hér búinn að marka. Nú stóð þessi kunningi okkar frammi fyrir nýjum vanda. Átti hann að gefa upp þau verðmæti, sem hann hafði lagt í 90 m2 grunninn, og byggja sér annan fáum fermetrum minni til þess að fara eftir ákvæðum laganna? Við þetta vandamál hikaði hann um stund, en ákvað að lokum að láta slag standa, þótt hann væri þarna með 10–12 m2 í óleyfi. Gekk nú allt greiðlega. Hús hans varð fokhelt á s. l. vori. — En „það, sem að helzt hann varast vann, varð þó að koma yfir hann,“ sagði skáldið. — Bæjarfógetinn í Vestmannaeyjum kallaði nú mann þennan fyrir sig í júlímánuði í sumar og skýrði honum frá því, að mál væri höfðað gegn honum. Hinn löghlýðni maður gerði auðvitað undireins réttarsætt við fógetann um 1200 kr. Hélt hann nú byggingu sinni áfram í þeirri góðu trú, að réttarsættin gilti sem leyfi.

Þetta var í stuttu máli saga piltsins, sem í lengstu lög treysti ríkisstjórn sinni og ráði, en er nú af ráði sínu og ríkisstj. dreginn fyrir lög og dóm sem meintur afbrotamaður. Það liggur í augum uppi, að verði málunum haldið áfram, og mál þessa manns gangi fyrir dómstól, svo sem venja er til um mál, þá verður áframhald hans á byggingunni, eftir að hann gerði réttarsættina, skoðað sem ítrekað brot. Þess mætti þá ef til vill vænta, að viðkomandi maður fengi þyngsta dóm samkv. fjárhagsráðslögunum, 200 þús. kr. sekt og eignina upptæka, en hún mun nema öðrum 200 þús. Slíkur maður, sem fengi 400 þús. kr. dóm, á sér auðvitað engrar efnahagslegrar viðreisnar von framar í lífinu. Hv. þm. geta nú gjarnan reynt að meta það með sjálfum sér, hvort maður, sem á sér slíka forsögu, er vel að því kominn að vera þannig fyrst hindraður í því á sínum beztu árum lífsins að stofna til bús og síðan dreginn fyrir lög og dóm og ef til vill gerður fyrir lífstíð ósjálfbjarga maður efnahagslega séð. — Ja, það er ekki alveg að ófyrirsynju, að Framsfl. telur yfirstjórn dómsmálanna vafasama í höndum núverandi hæstv. dómsmrh. — Auðvitað eru ekki mál allra hinna umræddu 22 manna eins vaxin. Hér hefur aðeins verið rakið eitt dæmi, en ég ætla, að það nægi til að sýna fram á, að þessar málshöfðanir á að afturkalla, því að þær eru ofsóknir, tilraunir til að fá saklausa menn dæmda seka, ef til vill ekki saklausa, ef miðað er við bókstaf fjárhagsráðslaganna, en ábyggilega saklausa samkv. óspilltri réttarvitund þjóðarinnar. Þess vegna vænti ég þess, að Alþingi samþykki áskorunina til ríkisstj. um að afturkalla þessar málshöfðanir.