11.11.1953
Sameinað þing: 15. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í D-deild Alþingistíðinda. (3133)

48. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Áfengismálin hafa lengi verið hörmulegt vandamál á Íslandi. Drykkjuskapur er annað tveggja, sóðaskapur eða sjúkdómur, en það þarf að taka áfengisvandamálið, sem af drykkjuskapnum leiðir, ólíkum tökum eftir því, um hvort er að ræða.

Sem sóðaskapur birtist drykkjuskapur í samkvæmum, á samkomum og á almannafæri. Sterkt almenningsálit þarf að vakna til að fordæma drykkjuskap í samkvæmum og á almannafæri. Það þarf að gera strangar kröfur til embættismanna og opinberra trúnaðarmanna um reglusemi. Það má ekki þola, að þeir, sem hafa mannaforráð, stundi þann sóðaskap, sem er flestum öðrum sóðaskap ógeðfelldari að vera drukkinn innan um annað fólk. Á almannafæri á ekki að þola drukkið fólk og ekki í neins konar samkvæmum. Slíkt fólk á að fjarlægja tafarlaust og flytja það heim til sín og sekta það fyrir að spilla friði og vera samborgurum sínum til ama og leiðinda. Hugmyndir manna um þetta efni eru þó næsta undarlegar. Stærsta veitingahús bæjarins auglýsti fyrir ekki löngu, að það óskaði ekki eftir þeldökku fólki innan veggja sinna, og kvaðst mundu fjarlægja það, ef það kæmi þangað. Þetta hótel hefur ekki verið aðgangsfrekt við að fjarlægja drukkið fólk úr salarkynnum sínum. Það hefur mátt vera innan veggja þess á nóttu og degi. Það þykir ekki hæfa, að verkamaður komi í vinnufötum sínum á svonefndan fínan veitingastað, jafnvel þótt hrein séu, en drukkinn dóni má sitja þar daginn út og daginn inn, ef hann er í réttum fötum, og er þó miklu meiri sóðaskapur að honum en fötum verkamannsins. Stundum eru samkvæmisföt gerð að skilyrði fyrir inngöngu á opinberar samkomur og í samkvæmi, en það er sjaldan gert að skilyrði, að menn séu ekki drukknir. Maður, sem sinnir ekki sjálfsögðum hreinlætisreglum, er talinn hættulegur eða hvimleiður umhverfi sínu, og það eru gerðar ráðstafanir til þess, að hann sé því ekki til ama. Eins á þjóðfélagið að líta á drukkna menn, sem drekka af sóðaskap. Þá á að fjarlægja og sekta þá þungum sektum.

Allt öðru máli gegnir með hina, sem drekka af því, að þeir eru drykkjusjúkir, og slíkir menn eru margir, því miður. Það er erfitt að greina á milli orsaka ofdrykkjunnar, en það verður að gera. Þá menn, sem drekka af drykkjusýki, þýðir ekki að sekta, og þeim á ekki og má ekki refsa. Þeim verður að hjálpa eins og öðrum sjúklingum, og sannleikurinn er sá, að við enga sjúklinga er nú eins vangert og einmitt þessa. Gagnvart þeim er þjóðfélagið í jafnmikilli skuld og hinir, sem drekka af sóðaskap, eru í gagnvart þjóðfélaginu. Þjóðfélagið drýgir þann glæp gagnvart áfengissjúklingum að fara með þá eins og sóðana, að refsa þeim. En sóðarnir sleppa hins vegar betur en þeir eiga skilið vegna samúðarinnar með sjúklingunum.

Áfengissýkin er mikið vandamál, meira en menn almennt gera sér grein fyrir. Annar af læknum áfengisvarnastöðvar Reykjavíkurbæjar, Alfreð Gíslason, hefur sagt mér, að hátt á fjórða hundrað manns hafi leitað til stöðvarinnar af sjálfsdáðum síðan í janúar 1952, þar af um 40 manns, sem skortir tilfinnanlega vist á hæli fyrir langt leidda drykkjusjúklinga og læknar vita um miklu fleiri tilfelli.

Árið 1939 voru sett hér á Alþingi lög um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra. Þar er ráð fyrir því gert, að nokkur hluti af tekjum Áfengisverzlunar ríkisins skuli árlega renna í svonefndan gæzluvistarsjóð, og skuli honum varið til þess að koma upp eða styrkja byggingu hæla fyrir drykkjusjúklinga. Er í lögunum gert ráð fyrir þrenns konar stofnunum, sem vera skuli drykkjusjúklingum til aðstoðar í baráttu þeirra við sjúkdóm sinn. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að koma upp sjúkrahúsdeild fyrir þá, sem eru til ama á almannafæri, þar sem þeir skuli fá læknismeðferð og læknisathugun, og er gert ráð fyrir því, að sveitarfélög komi slíkum stofnunum upp, en fái til þess styrk úr ríkissjóði og gæzluvistarsjóði, sams konar og sjúkrahús. Í öðru lagi var ráð fyrir því gert, að komið skyldi upp lækningahæli fyrir drykkjusjúka menn, og skyldi ríkið annast stofnun þess hælis. Í þriðja lagi var svo gert ráð fyrir því, að komið skyldi upp gæzluvistarhæli fyrir mjög langt leidda drykkjusjúklinga, og skyldu sveitarfélög annast þá framkvæmd, en fá til þess styrk úr ríkissjóði, 2/5 af stofnkostnaði, svo sem gildir um sjúkrahús. Úr framkvæmdum á grundvelli l. hefur ekki orðið annað en það, að ríkið, heilbrigðisstjórnin, hefur komið upp lækningahæli einu á Úlfarsá, svo sem heilbrigðisstjórninni var skylt lögum samkvæmt. Hins vegar hefur ekkert orðið úr þeim framkvæmdum, sem lögin gerðu ráð fyrir að hvíla ættu á herðum sveitarfélaganna, og ber sérstaklega að harma það, að Reykjavíkurbær, sem er langstærsta sveitarfélag á landinu, skuli ekki hafa treyst sér til þess að beita sér fyrir neinum framkvæmdum á þessu sviði, þótt honum væri heitið framlagi úr ríkissjóði og gæzluvistarsjóði, 2/5 af stofnkostnaði, en það var einmitt í samvinnu við Reykjavíkurbæ, sem gildandi lög frá 1949 voru sett, og hafði Reykjavíkurbær þá góð orð um, að hann mundi þegar að settum slíkum lögum og að fengnu loforði um styrk úr ríkissjóði eða úr opinberum sjóði hefjast handa um byggingu gæzluvistarhælis fyrir hina langt leiddu drykkjusjúklinga. En úr því hefur ekki orðið.

Rétt er að geta þess, að nokkrar deilur hafa orðið á milli sérfróðra manna um það, hvort skipun sú, sem gert var ráð fyrir í lögunum á gæzluvistarhælunum og sjúkrahúsdeildunum, væri æskileg eða ekki, en í l. er gert ráð fyrir því, að gæzluvistarhælið og sjúkrahúsdeildin séu í nánu sambandi við geðveikrahælið á Kleppi og undir sömu stjórn og það lýtur. Ýmsir sérfróðir menn hafa talið það mjög óheppilegt að tengja drykkjumannahæli við geðveikrahæli og hafa að því leyti gagnrýnt lögin og jafnvel, sumir hverjir, ekki óskað eftir því, að þau kæmu til framkvæmda, heldur að þeim yrði breytt, áður en efnt yrði til byggingar á drykkjumannahæli.

Sumir sérfróðir menn telja, auk þess sem þeir telja óheppilegt að tengja drykkjumannahæli geðveikrahælum, ekki ráðlegt, að drykkjusjúklingar dvelji yfirleitt langtímum saman á hælum, heldur sé hitt heppilegra, að hefta sem minnst frjálsræði þeirra og reyna að hafa áhrif á sjúkdóm þeirra undir sem eðlilegustum kringumstæðum. Ég er að sjálfsögðu ekki dómbær um sérfræðileg atriði eins og þessi og fjölyrði því ekki frekar um þau.

Varðandi þá framkvæmd, sem þegar hefur verið gerð á grundvelli laganna, byggingu hælisins á Úlfarsá, er það að segja, að mér hefur verið tjáð, að þar sé aðeins rúm fyrir 6–8 vistmenn og af einhverjum ástæðum sé það hæli ekki fullskipað, en þess er að geta, að í raun og veru var minnst þörf á byggingu þess hælis, sem þar er um að ræða, þ. e. a. s. lækningahælis, þar sem menn dvelji skamman tíma í senn, af þeim þremur ráðstöfunum, sem lögin gerðu ráð fyrir. Það er enn meiri þörf á því að koma upp sjúkrahúsdeild fyrir menn, sem teknir eru á almannafæri, og allra mest þörf þó á að koma upp drykkjumannahæli, gæzluvistarhæli fyrir langt leidda drykkjusjúklinga. Af hvorugu þessu hefur orðið, en báðar þessar framkvæmdir áttu að vera í höndum sveitarfélaganna og eiga að vera samkv. gildandi lögum.

Það viðgengst enn, að þeir drykkjusjúklingar, sem eru almenningi til ama á götum Reykjavíkur, séu fjarlægðir á þann hátt, að þeim er stungið í kjallara lögreglustöðvarinnar í Rvík. Það er svívirða, að drukknir menn skuli fangelsaðir, þótt þeir séu á almannafæri, og lokaðir inni í ógeðslegri dýflissu, en enn þá meiri svívirða er þó það, að kjallari lögreglustöðvarinnar í Reykjavík skuli í raun og veru vera eina drykkjumannahælið, sem íslenzka ríkið á og er ætlað algerum drykkjusjúklingum, en þangað sækja þessi aumustu olnbogabörn þjóðfélagsins, þegar þeim verður of kalt á Arnarhóli eða í Hafnarstræti, í bátum eða í skúrum. Það vill við bregða, að um helgar flykkist þetta fólk á lögreglustöðina og beiðist þess að fá næturgistingu í kjallaranum, þótt þar sé um að ræða ógeðslega vistarveru að öllu leyti. Þeir, sem séð hafa ofan í kjallarann á lögreglustöðinni, hljóta að skilja, hversu óendanlega sár hlýtur að vera eymd þeirra manna og kvenna, sem leita þangað til skjóls eða hvíldar.

Það er einn svartasti bletturinn á íslenzku þjóðfélagi, hvernig það hefur vanrækt að hlynna að drykkjusjúklingum. Við höfum látið þá gjalda andstyggðarinnar, sem allir sómasamlegir menn hafa á drykkjusóðunum. Þennan blett verður að þvo af þjóðfélaginu, ef það á að eiga skilið að nefnast menningarþjóðfélag. Við stærum okkur og með réttu af fullkominni tryggingarlöggjöf, af góðri heilbrigðisþjónustu, af því að vera í hópi þeirra þjóða, sem einna lægstan hafa barnadauða. Við stærum okkur með réttu af því að hafa unnið stórsigra á berklaveikinni, en vesölustu sjúklingana, áfengissjúklingana, horfum við á daglega, við höfnina hér í Rvík, á Arnarhóli og annars staðar, sárþjáða, bláfátæka og hamingjusnauða. Og hvað gerum við fyrir þá? Við handtökum þá öðru hvoru og lokum þá inni í kjallaranum í lögreglustöðinni, þegar þeir vilja ekki fara þangað, en þegar þeir vilja fá að liggja þar, þá er þeim oft og einatt, ef ekki venjulega, neitað um það. Þá er gatan, sulturinn og kuldinn hæfilegur handa þeim.

Í efnahagslegu tilliti höfum við undanfarið haft úr meiru að spila en nokkurn tíma áður. Getum við varið það lengur fyrir samvizku okkar að rétta þessu fólki ekki hjálparhönd? Hversu lengi ætlum við að veita okkur í peningum, jafnvel í alls kyns óhófi, áður en við gerum skyldu okkar við þá, sem ég held að séu nú aumastir allra í íslenzku þjóðfélagi, örsnauða og sárþjáða drykkjusjúklinga?

Ég heiti á hv. alþm. að láta þetta þing ekki liða án þess, að tryggt sé, að hafizt verði handa um ráðstafanir til hjálpar þessu fólki og til þess að koma í veg fyrir, að því fjölgi. Það verður að koma upp sjúkradeild fyrir þá, sem teknir eru drukknir á almannafæri og taldir eru þurfa læknisathugunar við, og það verður að koma upp hæli fyrir drykkjusjúklinga, þar sem þeim verði búin sú meðferð, sem þeir þarfnast, ef von á að vera til þess, að þeir læknist af sjúkdómi sínum. Þótt engin von væri til þess, að þeir læknuðust af honum, þá er það skylda þjóðfélagsins að sjá þeim fyrir góðri vist, til þess að þjáningar þeirra af sjúkdómi þeirra verði sem minnstar.

Að svo mæltu leyfi ég mér að óska þess, að till. verði að lokinni umr. vísað til hv. fjvn.