11.11.1953
Sameinað þing: 15. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í D-deild Alþingistíðinda. (3135)

48. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég gleðst yfir því, að þessu máli hefur verið hreyft hér á Alþ., en ég get ekki látið hjá líða að minna nokkuð á sögu þess, eins og hún hefur verið undanfarin ár hér á hv. Alþ.

Ég minnist þess, að ég bar hér fram breyt. á frv. því, sem endanlega var samþ. sem l. nr. 55 1949. Breytingar mínar voru allvíðtækar, og var þar í fyrsta skipti mörkuð sú stefna í löggjöfinni að greina í sundur drykkjumannahæli og geðveikrahæli. Var það meginkjarninn í till. Var ætlazt til þess í till., að meðferð drykkjumanna skyldi vera eins og annarra sjúklinga í landinu, þ. e., að einmitt verði farið inn á þá braut, sem hv. flm. þessarar till. lagði áherzlu á að gert yrði nú, að meðhöndla þessa menn eins og sjúklinga og taka þá af almannafæri, hvar sem þeir gerðu óskunda, flytja þá á sérstakt sjúkrahús, halda þeim þar a. m. k. í 24 klukkutíma, láta þá fá þar aðhlynningu, böð og rannsókn, áður en þeim væri sleppt út. Ef það kæmi í ljós, að hér væri ekki um sjúkdóm að ræða, heldur aðeins um gáleysi hjá viðkomandi manni fyrir að hafa ekki gætt hins venjulega siðferðis í landinu og valdið þar með óreglu eða truflun, þá átti slíkur maður að greiða ekki einungis fyrir vistina á hælinu þann tíma, sem rannsóknin stóð, heldur og fyrir alla fyrirhöfn, og síðan átti honum að vera sleppt sem frjálsum borgara. Þetta var í höfuðatriðum mín till. þá. En hver setti sig á móti þessari till. og það með svo miklum þunga, að hún náði ekki fram að ganga? Það var hinn ágæti landlæknir þjóðarinnar. Hann setti sig algerlega upp á móti þessari aðgerð og taldi það vera fjarri öllum sanni, að þannig ætti að fara með þessa menn, og ég hygg, að enginn einn maður eigi jafnmikla sök á því, að ekki var farið inn á þá braut, sem hv. flm. till. vill nú fara inn á, eins og hann. Ég benti einmitt á það, bæði landlækni og einnig yfirlækninum á Kleppi, dr. Helga Tómassyni, hversu það væri ómannúðlegt og ósamboðið hinni íslenzku þjóð og menningu hennar að fara þannig með þessa sjúklinga, því að hér væri ekki um annað en sjúklinga að ræða. Báðir þessir ágætu vísindamenn töldu sig vita meira um þessi mál og hafa meiri rétt til þess að úrskurða í þessu máli en almennur leikmaður, og því varð árangurinn sá, sem ég þegar hef lýst.

Í mínum till. var þá einnig það atriði, að komið skyldi upp hæli því, sem hv. flm. þessarar till. lagði mesta áherzluna á að þyrfti að koma upp, en landlæknir setti sig einnig á móti, að slíku hæli yrði komið upp fyrir fé ríkissjóðs. Ég vildi, að því yrði komið upp fyrir það fé, sem fæst fyrir ágóðann af vínsölunni. Hann taldi sjálfsagt, — ég veit ekki, hvort sú skoðun hans er óbreytt enn, — að héruðin ættu að taka ákveðinn þátt í byggingu þessara hæla. Og það er m. a. fyrir það, að ekkert af þessum hælum er komið upp, að hann hefur ávallt ráðlagt hæstv. ríkisstj. og heilbrigðisstjórninni í landinu að falla ekki frá þeirri kröfu, að héruðin skyldu greiða jafnstóran hluta til þessa hælis og venjulegra sjúkrahúsa.

Ég vil leyfa mér að benda einnig á, að árið 1951 ber heilbr.- og félmn. Ed. fram frv. á þskj. 352, sem er mjög stutt. Vildi ég, með leyfi hæstv. forseta, mega lesa hér tvær greinar þess. Annars er frv. aðeins í 3 greinum. Þar stendur í 1. gr.:

„Ráðherra skal skipa sérstakan lækni, sem hefur sérþekkingu á drykkjusýki og meðferð drykkjusjúkra manna, til þess að hafa með höndum yfirumsjón með gæzlu drykkjusjúkra manna, þeim til umönnunar og lækningar. Hann skal rækja starf sitt sem aðalstarf og tekur laun samkv. 3. flokki launalaganna. Hann skal einnig vera áfengisráðunautur ríkisstj. án sérstakra launa.“

Og í 2. gr. segir:

Ríkisstj. lætur setja á stofn nú þegar vistheimili fyrir drykkjusjúka menn. Staður fyrir vistheimilið skal valinn með sérstöku tilliti til þess, að hann sé vel til þess fallinn, að þar sé rekin fjölbreytt framleiðsla, svo að hverjum vistmanni gefist kostur á að starfa þar, eftir því sem heilsa hans og hæfileikar leyfa. Kostnaður við stofnunina greiðist af því fé, sem fyrir hendi er eða síðar verður greitt samkv. 15. gr. l. nr. 55/1949, um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra.“ Þ. e. af ágóðanum frá áfengissölunni.

Þetta frv. var samþ. í Ed. gersamlega mótatkvæðalaust á mjög skömmum tíma og sent til hv. Nd. og til hv. heilbr.- og félmn. þeirrar d., hvar ég hygg að þá hafi átt sæti hv. fyrri flm., og alveg örugglega átti þar sæti hv. 2. flm. þessarar till. Og báðir þessir menn, eftir því sem ég veit bezt, spilltu þessu máli þá, stóðu á móti því, að þessi ákvæði, sem hér er rætt um í frv., næðu fram að ganga. Það er þá fyrst og fremst þeirra sök, að málið er ekki komið lengra í dag en það er komið og að allur sá ömurleiki, sem hv. flm. lýsti hér að ætti sér stað í kjallaranum, heldur þar enn áfram. Nokkuð af þessum ömurleik er þá sök þeirra manna, sem þá settu fótinn fyrir þetta mál.

Nú hefur hv. þm. óskað eftir því, að l. kæmu til framkvæmda samkv. þessari till., sem hér er til umræðu. En hann hefur alveg gleymt því, að ástæðan fyrir því, að þessi l. hafa ekki komið til framkvæmda, er sá ágreiningur, sem er um lögin, eins og þau eru nú, því að ef lögin hefðu fengið þá umbót, sem nauðsynleg var og er nauðsynleg, þá væri þetta mál löngu komið til framkvæmda Það er þess vegna einnig, að borið hefur verið fram á Alþ. bæði nú og á s. l. ári frv., sem fór í nákvæmlega sömu átt og frv. hér á þskj. 133. Það var einnig fellt af þessum sömu ágætu hv. þm., sem nú hafa fengið brennandi áhuga fyrir að koma málinu í framkvæmd.

Ég gleðst yfir þeirri breytingu, sem hefur orðið á hugarfari hv. flm., ef hann meinar nokkuð með þessari till., en þá vil ég einnig vænta þess, að hann hefði slík áhrif á landlækni, að hann gæti fengið hann, þegar málið er sent honum til umsagnar, til þess að fallast á að leggja með þeirri breytingu, sem ein getur komið því til leiðar, að þessi mál komist inn á þá braut, sem menningu Íslands er samboðin, en á móti henni hefur hann staðið hingað til.

Við í heilbr.- og félmn. Ed. áttum mjög langt samtal við báða þessa ágætu menn, dr. Helga og landlækni, sumpart um drykkjumannahælið og sumpart um stækkun á sjúkrahúsinu á Kleppi. Við gátum ekki skilið annað, eftir þær löngu og ýtarlegu umræður, en að annar áliti, að nokkur hluti hinna geðveiku manna í landinu væri bezt kominn með því að geyma hann í torfkofum, og m. a. þess vegna buðumst við til þess að standa fyrir því, að nægilegt fé fengist til þess að byggja slíka torfkofa í kringum Klepp, ef yfirlæknirinn vildi taka ábyrgð á slíkri lausn málsins, þar sem við gátum ekki skilið hann öðruvísi en að sumir af þeim sjúklingum, sem hann hefði sent frá Kleppi, væru bezt geymdir í slíkum húsakynnum, en þegar til kom, vildi hann þó ekki taka á sig ábyrgðina, — og hinn, þ. e. landlæknir, væri þeirrar skoðunar, að þessir vesalingar, sem orðið hafa svo hart úti í lífsbaráttunni að lenda í kjallaranum, væru í raun og veru hvergi betur geymdir á næturna en í kjallaranum og á Arnarhóli á sumrin. Við gátum ekki skilið ummæli þeirra öðruvísi og hafi þeir hugsað annað, þá hafa þeir látið svo óljóst hugsanir sínar í ljós við okkur, að við höfum ekki getað fundið neitt annað út úr þeim.

Ég hef mjög harmað það, að þessum málum hefur ekki verið komið í það horf, sem heilbr.- og félmn. vildi árið 1951, eins og ég hef getið hér um, og ef ég ætti að greiða atkvæði um það, hvort lögin eigi að koma til framkvæmda óbreytt, eins og gert er ráð fyrir í till., þá mundi ég greiða atkvæði á móti því, sumpart vegna þess, að þá er málið ekki leyst á þann hátt, sem þarf að leysa það, og ef það væri farið að framkvæma það á þeim grundvelli, sem núverandi lög ætlast til, þá mundi það tefja fyrir hinni réttu lausn.

Ég get ekki viðurkennt, að sveitarfélag eigi að bera nokkurn kostnað af drykkjumannahæli í landinu; það er ríki, sem hefur allan ágóðann af áfengissölunni. Því ber skylda til þess að sjá að fullu fyrir hinni hliðinni. Það er engan veginn vammlaust, að ríkissjóður eða ríkisvaldið hefur ekki gert það, en það er þá ekki heldur til sóma, að æðsti postuli heilbrigðismálanna á Íslandi skuli hafa skipað sér í þann bás að vera á móti réttlátri og nauðsynlegri lausn þessara mála. — Þetta vildi ég láta koma fram hér við þessa umræðu um tillöguna.