11.11.1953
Sameinað þing: 15. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 355 í D-deild Alþingistíðinda. (3137)

48. mál, meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil fyrst fullvissa hv. 1. landsk. um það, að þetta mál er fyrir mér ekkert pólitískt deilumál. Það er mér hins vegar áhugamál. Ég hef aldrei blandað því inn í flokkapólitík. Ég átti þess einu sinni kost að kynnast ástandinu í kjallara þeim, sem rætt er um, og það var vegna þeirra áhrifa, sem ég hafði af þeirri heimsókn, að ég hef árum saman barizt fyrir því að fá landlækni og dr. Helga á Kleppi til þess að breyta um skoðun í þessu vandamáli. Allan tímann, sem ég átti sæti í fjvn., leið aldrei svo nokkurt ár, að það væri ekki rætt um þetta mál alveg sérstaklega við landlækni, og það var aldrei að finna neinn bilbug á honum í þessu máli. Hann var aldrei á þeirri skoðun, sem nú kemur fram hjá hv. fyrri flm. till., að nauðsyn beri til að bæta hér um. Þegar vitað er, að fyrir liggur nú mjög mikil fjárfúlga, sem er ónotuð vegna þess, að deila er um þessi mál, en hefði verið notuð til að leysa málið, ef samkomulag hefði fengizt við þessa aðila, þá verður ekki um það deilt, að þetta atriði kemur mikið málinu við.

Það má lengi deila um það út af fyrir sig fyrir þá, sem vilja halda uppi deilum um það atriði, hvort bæjarfélögin eigi að taka þátt í þessum kostnaði. Það er vitað, að bæjarfélögin eiga enga sök á því, hvernig komið er fyrir þessum mönnum. Þá sök á ríkið eingöngu og enginn annar, að svo miklu leyti sem hægt er að segja, að ríkið eigi sök á því fyrir að halda þessari vöru að almenningi. Og það er alveg óskiljanlegt, að þeir menn, sem segja hér á Alþ., að þeir vilji í raun og veru bæta þetta ástand, skuli á sama tíma spyrna fótum við og vilja ekki undir neinum kringumstæðum líta á þá hlið málsins að fá samkomulag um að nota það fé, sem komið er frá áfengissölunni og bíður þess, að byggt verði, heldur standa þar á móti til þess að tefja framkvæmdir málsins. Og hv. þm. er einn af þeim, sem hafa staðið á móti þessu. Hann hefur, eins og ég tók fram áðan, verið með að drepa allar till., sem hafa komið fram hér í Alþ. til umbóta á þessari löggjöf. Hvort það hafa verið fyrirskipanir frá hans ágæta tengdaföður, það skal ég ekki segja um. Hvort það hefur verið hans lífsskoðun, skal ég ekki heldur segja um, en þá er hún allt önnur en hann vildi vera láta hér í dag.

Ég vil svo benda hv. flm. á það, að ef rakin er saga þessa máls frá fyrstu byrjun, þá eru það sannarlega ekki tillögur landlæknis né dr. Helga Tómassonar, sem hafa verið til góðs í þessum málum. Við vissum, hvernig fór um Kumbaravog, við vissum, hvernig fór um hælið í Kaldaðarnesi, við vitum, hvernig komið er með hælið á Úlfarsá, og allt hefur þetta verið fyrir það eitt, að þessir menn hafa aldrei séð, hvað var það rétta í þessum málum. Og það er af hreinni stífni frá þeirra hálfu, að þeir hafa ekki viljað fallast á till. annarra manna, sem hafa meiri áhuga fyrir þessu máli en þeir sjálfir. Allt þetta kemur sannarlega við málinu.

Ég hygg, að okkur fjvn.-mönnum, sem áttum nokkra stund í kjallaranum til athugunar á þessu ástandi, hafi verið það fyllilega ljóst, hvaða smán það var, sem hvíldi hér á bænum og landinu. En okkur var þá einnig fyllilega ljóst, hver átti að bæta úr því, og það var þess vegna, að fjvn. féllst einróma á það, að ákveðinn hluti af ágóða frá vínsölunni skyldi ganga til að bæta úr þessu, þó að það væru aðrir menn, sem réðu meira um það, á hvern hátt framkvæmdin varð, og kæmu því svo fyrir, að úrbót hefur ekki komið enn.

Það, sem er nauðsynlegt í dag að gera í þessu máli, er að samþ. þær till., sem liggja fyrir hér um breyt. á löggjöfinni frá 1949, og aðrar þær breytingar, sem kunna að koma fram og eru málinu til bóta. Það er fyrsta nauðsynlegasta sporið, og þegar það hefur verið gert, þá er engin hætta á því, að ekki verði hafizt handa um að byrja að byggja yfir þessa vesalinga, sem ég er alveg sammála hv. flm. um að er fyrsta og nauðsynlegasta sporið. Svo segir hv. þm., að það sé rangt að kenna þessum mönnum um það, að lögin hafi ekki verið framkvæmd. Ég veit ekki, hvort nokkrir aðrir menn eiga stærri þátt í því, að lögin hafa ekki verið framkvæmd, heldur en einmitt þessir menn. Ég lái ekkert fyrrverandi hæstv. heilbrmrh., þó að hann gengi þar þá götu, sem þeir sögðu að væri sú hin eina rétta. Og þá sérstaklega ef hann hefur nú sjálfur haldið, að einnig það væri það heppilegasta í málinu, þá sannarlega álasa ég honum ekki fyrir það, þó að hann færi ekki að taka á sig óþægindi af því að fara aðrar leiðir, þar sem slíkt vald stóð á bak við eins og sjálfur landlæknir, með allt aðra skoðun á málinu. En ég sannarlega lái þeim embættismanni, sem fyrst og fremst ber skylda til þess að kynna sér kjarna þessa máls, og ég veit, að hann er síður en svo illa gefinn, að hann geti ekki séð, ef hann vill, að hann er hér á rangri braut, því að öll reynslan, frá því að fyrst voru höfð afskipti af þessum málum, hefur sýnt það, að hver og ein einasta till., sem hann og dr. Helgi hafa lagt til í þessu máli, hefur farið alveg í öfuga átt, þótt þeir hafi ekki viljað viðurkenna það, og fyrir það er komið sem komið er.

Þá segir hv. flm., að forráðamenn bæjarins hafi á sínum tíma verið sammála þessari löggjöf. Ég skal nú ekkert deila um það í dag, — til þess þarf ég að fletta upp þingskjölum, — hvort hv. þm. Reykjavíkurbæjar hafi verið það á sínum tíma. Um það skal ég ekki deila. Hitt veit ég, að þingið var ekki sammála um það. Það komu fram róttækar brtt. við löggjöfina, sem voru til bóta, og þær voru felldar, eins og ég hef þegar lýst. Og þó að forráðamenn Reykjavíkurbæjar hefðu á þeim tíma verið sammála því af brýnni nauðsyn að taka á sig ákveðinn þátt, þá gerbreyttist það, þegar búið var að ákveða með löggjöf, að svo og svo stór fúlga af gróðanum skyldi fara til þess að standa undir rekstri þessara mála og til þess að koma fram endurbótum á þeim. Þá er svo sannarlega ekki að furða, þó að þeir þá beittu sér fyrir því, að það yrði einnig látinn hluti af því fé til þess að standa undir þessum umbótum, sem hv. þm. hefur viðurkennt að þyrfti fyrst og fremst að gera og ganga á undan öllu öðru. Ég hefði talið þessa menn vera að brjóta gegn skyldum sínum, ef þeir hefðu ekki einmitt krafizt þess og spyrnt við fótum, þangað til þeir menn, sem bera eiga þungann af þessum málum og eiga að bera ábyrgðina á því, hafa vitkazt svo mjög, að þeir sjái sér fært að fara inn á réttar brautir.

Svo segir hv. þm., að þessi deila megi ekki tefja fyrir málinu. Ég vil gefa honum góð ráð. Það er langbezt fyrir hann að taka upp baráttuna í heilbr.- og félmn. með þeim breyt., sem hann hefur staðið á móti öll undanfarin ár. Og ég er alveg viss um, að ef honum tekst að snúa málinu í það horf hér á þessu þingi, þá þarf hann ekki að berjast fyrir því, að l. komist til framkvæmda. En ef hann vill ekki gera það, þá er það af því, að hann metur meira einhver önnur sjónarmið en hafa komið fram hjá honum hér í þessari ræðu. Féð er til í dag, það eru til milljónir í dag til þess að byrja, og það eru engin vandræði að koma strax upp á næsta ári þessu vistheimili fyrir drykkjumennina, sem öllum er til smánar að láta ganga hér eins og þeir ganga í dag. Ef þm. vill taka upp baráttuna fyrir því í heilbr.- og félmn., þá hygg ég, að hægt sé að leysa þetta mál þegar á næsta sumri, svo að það er sannarlega ekki óviðkomandi þessu máli.

Hv. þm. sagði, að það væri ekki rétt að áfellast embættismenn, þótt þeir vildu halda sér við lög. Ég er nú ekki þeirrar skoðunar, að það megi ekki gagnrýna hér gerðir embættismanna í þinginu. Ég veit ekki, hvar ætti að gagnrýna þær, ef það er ekki einmitt hér. Þeir eru þjónar hins íslenzka ríkis. Alþingi samþykkir handa þeim lög, setur þeim jafnvel reglur, og hvers vegna má ekki gagnrýna þeirra gerðir? Það er eins og þeir séu einhverjir páfar, sem enginn maður má segja neitt um, mennirnir, sem eiga að vera starfsmenn og þjónar fyrir íslenzku þjóðina. Ég veit ekki, hvað er hægt að gera sanngjarnari kröfu til embættismanns en það, að hann athugi sína afstöðu til málanna, ekki einungis af því, að hann kunni að hafa gert rangt, heldur líka í hvert skipti, sem viðhorfið í landinu breytist. Jafnvel þótt það hefði verið rétt að setja lögin eins og þau voru 1949, þá er enginn kominn til þess að segja, að það hafi ekki verið jafnrétt að breyta þeim 1950. Hvað ætli það sé mörgum lögum breytt hér á Alþingi frá ári til árs, vegna þess að lífið krefst þess, að lögunum sé breytt, þau séu samræmd við þarfir þjóðarinnar og við hvert það verkefni, sem fyrir liggur á hverjum tíma. Þess vegna er það einstrengingsháttur, sem aðeins býr með mönnum, sem orðnir eru eins og steingervingar og geta ekki hugsað sér neitt til breytinga, hvorki til einnar né annarra hliða. Nei, ef nokkur maður á sök á því, að ekki hefur verið greitt úr þessu ástandi, þá er það fyrst og fremst sá maður, sem er yfirmaður heilbrigðismálanna hér á landi, landlæknir.

Ég skal svo ekki tefja frekar þessar umræður, en aðeins endurtaka það, að ég mundi ekki sjá mér fært að greiða atkvæði með till. óbreyttri, vegna þess að ég tel, að það væri ranglátt að leggja þessa kvöð á þá aðila, sem þessi lög ákveða í dag að skuli bera ákveðinn hluta af því.