07.12.1953
Neðri deild: 35. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í B-deild Alþingistíðinda. (314)

103. mál, innflutningsmál- gjaldeyrismál, fjárfestingamál o. fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Mér sýnist nú, að það hafi við 2. umr., sem fram fór um þetta mál, og atkvgr. fengizt nokkur sönnun fyrir því, hvernig hæstv. ríkisstjórn hugsar sér að framkvæma þetta mál, sem hér liggur fyrir. Frv. var upphaflega lýst svo, að það mundi hafa í för með sér aukningu á frjálsri verzlun hér á landinu og að það miðaði í þá átt að auka frelsi manna til innflutnings á vörum og verzlunar með þær. Og það er vitanlegt, að þegar talað er um frelsi manna til þess að flytja inn vörur, þá þýðir það, að menn hafi jafnan rétt til þess að flytja vörurnar inn, og það þýðir enn fremur, að menn hafi rétt til þess að keppa hver við annan um söluna á þessum vörum, þannig að menn reyni að ná sem heppilegustum innkaupum og geti selt sem ódýrast, þannig að það komi neytendum að gagni.

Ég vildi við 2. umr. þessa máls reyna nokkuð, hvort hæstv. ríkisstj. væri alvara um að reyna að koma þannig á frjálsari verzlun í landinu, og bar þess vegna fram þær till., sem áttu að koma í veg fyrir, að ríkisstj. gæti hagnýtt sér þau reglugerðarákvæði, sem hún í 1. gr. frv. sérstaklega áskildi sér rétt til þess að gefa út, til þess að gefa einstökum mönnum einokunaraðstöðu um innflutning vara til landsins og til þess að hækka verðið á þeim vörum, sem inn væru fluttar, meira en eðlilegt væri. Það fékkst alveg prófað við atkvgr., sem fram fór við 2. umr. þessa máls, hvernig stjórnarliðið hugsar sér að framkvæma þessi lög. Ég flutti þar till. um, að það skyldi ekki vera löglegt með útgáfu reglugerða að hækka verð á innfluttri vöru eða gera aðrar ráðstafanir, sem jafngilda breyttri gengisskráningu. Stjórnarliðið fylkti sér allt saman um að fella þessa till. Í lögunum um fjárhagsráð, sem nú er verið að afnema, eru sérstök lagaákvæði, sem banna, að það sé lagt sérstaklega mikið á vöruna, og fyrirskipa, að úthlutun leyfa skuli vera framkvæmd með það fyrir augum og leyfum skuli sérstaklega úthlutað til þeirra, sem selja sína vöru ódýrast í landinu. M.ö.o.: Hæstv. ríkisstj. leggur til með þessu frv., sem hér liggur fyrir, að afnema öll lagaákvæði, sem fyrirskipa, að þeir aðilar skuli sérstaklega fá vöruna til sölu í landinu, sem selja ódýrt, og hæstv. ríkisstj. leggur til að afnema öll þau lagaákvæði, sem fyrirskipa, að neytendur skuli hafa rétt til þess að kaupa vöruna sem ódýrasta inn. M.ö.o.: Öll ákvæði, sem snerta verzlunarfrelsi almennings í gömlu lögunum, skulu afnumin. Að vísu hafa hv. stjórnarflokkar þverbrotið þessi ákvæði í praksís, en það, sem nú bætist ofan á, er, að þeir leggja þar að auki til, eftir að vera búnir að traðka á þessum lagaákvæðum í 5 ár, að útrýma þeim úr lögunum.

Ég hef áður hvað eftir annað vakið athygli á því, að lögin um bátagjaldeyrinn og öll lög, sem eitthvað væru svipuð, væru brot á lögunum um fjárhagsráð, og það hefur enginn hæstv. ráðh. treyst sér til að mótmæla þessu. Einungis vegna þess, að alþýða manna í landinu hefur enga trú á dómstólum landsins, þegar ríkisstj. á í hlut, hefur enginn maður farið í mál út af bátagjaldeyrinum. En hann er sjálfur og hans álagning algert brot á grundvallarákvæðum alls þingræðis og stjórnarskrárinnar, öllum þeim ákvæðum, að enginn aðili nema Alþ. hafi rétt til þess að leggja álögur á menn og það sé ekki hægt að leggja álögur á borgarana nema með lögum. Með bátagjaldeyrinum er það gert með reglugerð. Og nú hefur komið í ljós, að hæstv. ríkisstj. ætlar sér að feta áfram á þeirri braut. Með því að fella mína till. um að bæta því við, að það mætti ekki með útgáfu reglugerðanna hækka verð á innfluttum vörum, er ríkisstj. bókstaflega að heimila sér, eins og ég vakti athygli á að hún gerði yfirleitt með þessu lagafrv., réttinn til þess að geta með reglugerðum raunverulega breytt genginu, hækkað verð á innfluttum afurðum og annað slíkt, og ég efast ekki heldur um, að þar sem ríkisstj. hefur verið feimin fram að þessu við allar umr. um reglugerðina og bátagjaldeyrinn, þá mun hún vera ófeimin, eftir að þetta frv. er samþ., og segist standa á grundvelli laga. En þá þýðir það bara um leið, að raunverulega hefur hæstv. ríkisstj. ekkert að tala við Alþ. um nein lög, sem snerta það að afla sér tekna. Þá getur hún bara gefið út reglugerðir um að hækka verð á þeim afurðum, sem inn eru fluttar, og láta það renna m.a. í ríkissjóðinn.

Hví í ósköpunum er ekki hægt með reglugerð að ákveða t.d., að á allan þann gjaldeyri, sem notaður er til innkaupa á tóbaki og áfengi, skuli mega leggja alveg sérstaklega mikið? Eins og það þurfi þá nokkur sérstök lög viðvíkjandi álagningunni á tóbakið eða gjaldeyrinum. Ef hægt er með reglugerðum ríkisstj. að taka 100 millj. kr. og úthluta þeim t.d. til útgerðarmanna, þá er náttúrlega alveg eins hægt að taka aðrar 100 millj. kr. og úthluta þeim til ríkissjóðsins, enda veit ég ósköp vel, að það er þegar farið að misnota þessi ákvæði þannig. Ég vildi leyfa mér að koma fram með þá fyrirspurn hér við þessar umr., hvort það sé rétt, að það hafi verið notað nú þegar fyrir kosningar í sumar, að ákveðnum, tilgreindum togurum hafi verið veittur bátagjaldeyrir, þeim togurum, sem gerðir eru út í Vestur-Ísafjarðarsýslu. Og ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh. sérstaklega að því, af því að það er Framsókn, sem komst þar að, hvort það sé með vilja og vitund Framsfl., að það hafi verið liðkað þannig til bátareglugerðinni, að reglugerð, sem átti að vera handa smáútvegsmönnum viðvíkjandi bátunum, gildi nú líka fyrir togara, hina gömlu togara, svo framarlega sem þeir eru gerðir út í ákveðinni sýslu á landinn. Ég vil leyfa mér að spyrja að þessu, og ég vona, að Framsfl. upplýsi það. Ég vil þá leyfa mér að spyrja um það næst, hvort það sé meiningin hjá hæstv. ríkisstj., að hún með þessu fái t.d. heimild til þess að ákveða, að — við skulum segja ákveðnir togarar, t.d. togarar, sem eru gerðir út í bæjum, þar sem íhaldið hefur meiri hluta, — þeir togarar skuli fá sérstakan gjaldeyri, þeir skuli mega leggja 60% á sinn gjaldeyri. Við skulum svo segja t.d., að það væri einhver bær á landinu, þar sem Framsókn væri í meiri hluta, og gerði út togara, þá mætti leggja á 25%. Mér dettur bara svona í hug, hvernig þeir mundu skipta á milli sín, af því að það þykir nú dálítið líklegt, að Framsókn yrði sparsamari. Mig langar yfirleitt til þess að fá dálitla hugmynd um, hvernig hæstv. ríkisstj. hugsar sér að misnota þessi ákvæði.

Þá hef ég enn fremur orðið var við, að það hafa komið nokkrar kröfur fram um það frá hálfu bænda í landinn, að farið sé að flytja út kjöt í mun stærri stíl en nú er gert, og mun vafalaust verða þörf á því. Og ég vil leyfa mér að spyrja sérstaklega hæstv. fjmrh., hvort hann álíti, að ríkisstj. hafi með þessum reglugerðarheimildum hér leyfi til þess að leggja á sérstakan kjötgjaldeyri, þannig að þegar kjöt sé flutt út, þá megi á þann gjaldeyri, sem inn kemur fyrir kjötið, leggja t.d. 200% og láta þá, sem flytja kjötið út — við skulum segja, að það sé S.Í.S. — fá leyfi til þess að selja gjaldeyrisleyfi fyrir ákveðnum vörutegundum, sem flytja skal inn, hvort sem það yrði nú olía eða annað, og leggja á það t.d. 200%, sem er náttúrlega alveg jafnleyfilegt. Ef menn hafa rétt til þess að taka gjaldeyrinn, sem inn kemur fyrir bátafiskinn, og leggja á hann 60%, þá er náttúrlega jafnleyfilegt að taka gjaldeyri, sem inn kemur fyrir kjötútflutning, og leggja á hann 200% og gefa kjötútflytjendum einkaréttindi á innflutningi ákveðinna afurða, eins og nú eru gefin þeim, sem flytja út fyrir bátagjaldeyri. M.ö.o.: Ég sé ekki betur en með þessum reglugerðarheimildum, sem ríkisstj. þarna er að taka sér, fái hún vald til þess að brjála algerlega alla verzlunarálagningu, alla gengisskráningu og allt verzlunarfrelsi í landinu.

Þá bar ég fram aðra till. við 2. umr., og það var um, að ekki væri hægt að veita einstökum aðilum einkarétt innflutnings ákveðinna vörutegunda. Ég hef margspurt að því í sambandi við þann innflutning, sem nú fer fram, — við skulum segja t.d. á byggingarefni, — hvort ríkisstj. úthluti honum til einstakra aðila, hvort aðalfésýslufyrirtæki Sjálfstfl. og Framsfl. skipti þessum innflutningi á milli sín. Og ég hef spurt að því, hvort það væri meira að segja í einhverju beinu hlutfalli í sambandi við framlög í kosningasjóði viðkomandi flokka. Ég hef vakið eftirtekt á því, hvers konar spilling sé verið að skapa, hvort sé raunverulega verið að selja verzlunina í landinu á leigu með þeim möguleika, sem getinn er til þess að veita einstökum aðilum í landinu þannig einkaréttindi til innflutnings. Ég vildi fá úr þessu skorið með því að taka það fram, að menn ættu að hafa jafnan rétt til innflutningsins, að það væri ekki hægt að veita neinum einkarétt. Þessar till. voru felldar. Stjórnarliðið fylkti sér allt saman gegn þessum tillögum.

Ég verð að segja það, eftir að þessar till. eru felldar og ríkisstj. hefur þannig alveg skorið úr því, hvernig hún hugsar sér, þegar hliðsjón er höfð af hennar praksís til þessa, að misnota það vald, sem henni hér er getið, til að skapa einstökum aðilum einkaréttindi og til þess að okra á almenningi, — þá vil ég segja það, að þetta frv. er að verða harðvítugasta einokunarfrumvarpið, sem lagt hefur verið fram á Alþingi, — með hliðsjón af þessum praksís og með hliðsjón af þeim till. sem felldar hafa verið. Og þetta litla, sem horfir til bóta í því, ljósi bletturinn í frv., þ.e. fyrri parturinn af 8. gr., fer, svo framarlega sem höfð verður einokun á byggingarefni og skipulagning á svörtum markaði hvað snertir peningalán til íbúðarhúsabygginga, að verða harla lítils virði í því einokunarmyrkri, sem auðsjáanlega á að innleiða með þessu.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram við þessa 3. umr. málsins. Mér þykir leitt, að hæstv. ríkisstj. og hennar stjórnarlið skuli ekki hafa séð sér fært að samþ. þessar litlu brtt., sem fluttar voru. Ég tel hins vegar nokkurn veginn úr því skorið, að eins og vant er hér, þá er stjórnarliðið það handjárnað í þessum efnum, að það muni litlu verða um þokað og sé þess vegna til lítils að bera fram frekari brtt. þarna við. En með hliðsjón af þessari meðferð málsins vil ég lýsa mig andvígan þessu frv., eins og það nú er orðið, með hliðsjón af þeirri afstöðu, sem ríkisstj. hefur sýnt gagnvart þeim brtt., sem fram hafa verið bornar við það.