05.02.1954
Sameinað þing: 31. fundur, 73. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í D-deild Alþingistíðinda. (3157)

96. mál, ríkisútgáfa námsbóka

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ríkisútgáfa námsbóka hefur nú starfað liðlega hálfan annan áratug. Þegar lögin um hana voru sett, voru þau við það miðuð, að ríkisútgáfan sæi öllum nemendum á skólaskyldualdri fyrir námsbókum. Hefur starfsemi ríkisútgáfunnar gefið hina beztu raun að því leyti, að kostnaður heimila við kaup á skólabókum hefur verið furðulega lítill, auk þess sem bækurnar hafa reynzt mun hentugri en áður var. Kostnaðurinn nam á næstsíðasta ári um 200 þús. kr., og má það teljast furðulega lítill kostnaður, þegar þess er gætt, að öllum börnum fram til 13 ára aldurs er með því móti séð fyrir skólabókum, en námsbókagjaldið aðeins 15 kr. á heimili.

Nú hefur skólaskyldan, svo sem kunnugt er, fyrir nokkrum árum verið lengd um eitt ár, en í gildandi lögum er heimild fyrir því, að ríkisútgáfan annist útgáfu skólabóka fyrir gagnfræðastigið allt. Svo var beinlínis til ætlazt við setningu l. um ríkisútgáfu námsbóka, að öllum skólaskyldum börnum væri séð fyrir skólabókum, og virðist því hafa verið sjálfsagt, um leið og skólaskyldan var lengd, að ríkisútgáfan færði út starfsemi sína sem því svaraði, en það hefur ekki verið gert. Má með engu móti dragast lengur, að sú sjálfsagða ráðstöfun verði gerð, en ég tel það þó ekki vera nægilegt, heldur jafnframt æskilegt að nota heimild gildandi laga og láta fela ríkisútgáfu námsbóka útgáfu allra kennslubóka fyrir gagnfræðastigið allt. Mundi það að sjálfsögðu vera nokkur kostnaðarauki, en miðað við þá reynslu, sem hefur fengizt af ríkisútgáfunni, ætti að mega fullyrða, að öllum þeim, sem eiga börn og unglinga í þessum skólum, mundi af því verða mikill sparnaður og mikið hagræði.

Ég hef tekið saman, hversu mikið þær bækur kosta, sem börn í 1. bekk gagnfræðastigs nú þurfa að afla sér, og mér telst svo til, að þegar unglingarnir ganga inn í 1. bekk gagnfræðastigs, þá þurfi þeir að kaupa bækur fyrir 268.50 kr., og er þetta allmikið fé. En þegar höfð er í huga reynsla ríkisútgáfunnar af útgáfustarfsemi sinni og hversu henni hefur tekizt að sjá þeim börnum, sem hún lætur bækur í té, fyrir þeim fyrir lítið fé, þá ætti að mega teljast augljóst, að þennan kostnað væri hægt að lækka mjög verulega, ef skynsamleg heildarskipulagning væri tekin upp á þessu sviði og ríkisútgáfunni falin forsjá málanna.

Ég tel þó rétt að geta þess, að þeirrar skoðunar hefur allmikið orðið vart meðal kennara og foreldra, að helzt til mikið sé sparað við frágang og útbúnað bóka ríkisútgáfunnar, að t. d. sé hefting bókanna léleg, svo léleg, að vafasamt sé að borgi sig, þar sem um vírheftingu er að ræða, stundum sé ekki lögð nóg áherzla á tilbreytni í gerð bókanna og enn fremur, að fullmikið sé um endurprentanir á gömlum bókum, en ekki kostað fé til þess að endurskoða eldri útgáfur og jafnvel láta semja nýjar, þar sem þörf væri á. Ég segi þetta ekki í ádeiluskyni á þá, sem fyrir ríkisútgáfunni hafa ráðið, heldur til þess að vekja athygli á því, að ekki er allt fengið með því að spara, heldur getur einnig verið að því hagræði að hafa bækurnar betri og vandaðri, jafnvel þó að nokkru meiru væri til kostað, en sparnaðurinn, sem hefur orðið á heildarkostnaði við þessar bækur, miðað við það, sem var, meðan fyrra skipulag var á, er svo mikill, að vel mætti eyða nokkru meiru til, en láta samt hlutaðeigendur njóta mikils hagræðis.

Ef horfið yrði að því ráði að auka starfssvið ríkisútgáfunnar og láta það ná til alls skólaskyldualdursins, þyrfti að sjálfsögðu að hækka námsbókagjaldið eitthvað, og svo auðvitað enn meir, ef sá kostur yrði tekinn að láta starfssviðið ná til gagnfræðastígsins alls. En ég endurtek það og undirstrika, að ég tel sjálfsagt og óhjákvæmilegt að bæta einum bekk við starfssvið ríkisútgáfunnar, þ. e. a. s. láta hana ná til alls skólaskyldualdursins, eins og til var ætlazt. Um hitt mætti e. t. v. deila. Einhverjir kynnu að halda því fram, að rétt væri að stíga þessi spor í tvennu lagi, þ. e. a. s. að auka starfssviðið fyrst um einn bekk og síðan, eftir nokkur ár, meir. Ég vona, að sú hv. n., sem fær þetta til athugunar, athugi málið einnig frá þessu sjónarmiði, en ég vil undirstrika sérstaklega, að ég tel, að þessu Alþingi megi ekki ljúka án þess, að það láti í ljós þá viljayfirlýsingu við hæstv. ríkisstj., að staðið verði við þá sjálfsögðu skyldu að láta ríkisútgáfu námsbókanna sjá öllum börnum á skólaskyldualdri fyrir nauðsynlegum skólabókum.

Að svo mæltu leyfi ég mér að óska þess, að málinu verði vísað til hv. allshn.